Fréttir

Fjörugar umræður á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands

Á dögunum héldu Ferðamálasamtök Íslands aðalfund sinn fyrir árið 2004. Var hann að þessu sinni haldinn á Hótel Stykkishólmi. Fundurinn var vel sóttur og að venju voru ýmis mál til umfjöllunar. Dagskráin hófst með setningu Péturs Rafnssonar, formanns samtakanna. Þar minntist hann m.a. á mikilvægi þess að halda fundi og ráðstefnur sem þessa á landsbyggðinni. Það gæfi víðari sýn og skilaði tekjum inn á svæðin. Hann fjallaði einnig um mikilvægi og forystuhlutverk samtakanna í allri samvinnu aðila í ferðaþjónustu í hverjum landshluta. Pétur lagði auk þess áherslu á allan stuðning við ferðaþjóna hvað varðar aukin gæði, öryggi og faglega vinnubrögð. Þar gætu samtökin komið að málum eins og gert hafi verið með námskeiðahaldi á starfsárinu 2003-2004. Samstarfið á NorðurlandiÁ eftir setningarræðu Péturs var komið að erindi Kjartans Lárussonar, framkvæmdastjóra Markaðsskrifstofu Norðurlands. Þar fjallaði hann um samstarfið í ferðaþjónustu á Norðurlandi, m.a. um forsögu þess að byggja upp samstarf í kynningar- og markaðsmálum á svæðinu og reynsluna til þessa. Sagði hann verkefni sem þetta krefjast mikillar þolinmæði, vinnu og bjartsýni. SýningarhaldAð loknum fyrirspurnum fjallaði Jón Gunnar Borgþórsson, rekstrarhagfræðingur hjá JGB ráðgjöf, um sýningar sem markaðstæki og fjallaði um Ferðatorgið sérstaklega. Kom margt áhugavert fram í erindi Jóns Gunnars. Sem kost við Ferðatorgið nefndi hann m.a. að fólk sér hvað aðrir eru að gera og myndar tengsl fyrir samstarf. Taldi hann sýningarhald almennt eiga framtíð fyrir sér þótt heldur hafi dregið úr þeim á síðustu misserum. Sýningar séu nú orðnar sérhæfðari og markvissari og fólk mætir betur undirbúið til leiks. Glærur frá erindi Jóns Gunnars (pdf-0,3 MB) Kosið í stjórnAð loknu kaffihléi fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf samkvæmt lögum samtakanna. M.a. var kosið í stjórn og var Pétur Rafnsson endurkjörinn formaður.Frá landshlutasamtökunum voru tilnefndir í stjórn: Kristján Pálsson Ferðamálasamtökum Suðurnesja, Hildur Jónsdóttir Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisins, Hjörtur Árnason Ferðamálasamtökum Vesturlands, Arnar Jónsson Ferðamálasamtökum Vestfjarða, Jóhanna Jónasdóttir Ferðamálasamtökum Norðurlands vestra, Ásbjörn Björgvinsson Ferðamálasamtökum Norðurlands eystra, Ásmundur Gíslason Ferðamálasamtökum Austurlands og Eyja Þóra Einarsdóttir Ferðamálasamtökum Suðurlands. Ályktunum vísað til stjórnarUndir liðnum önnur mál spunnust fjörugar umræður. Tvær ályktanir voru lagðar fram og var báðum vísað til stjórnar. Sú fyrri hljóðaði uppá að stjórnin kanni núverandi starfssvæði landshlutasamtakanna og sú síðari að FSÍ vinni að því að landshlutaupplýsingamiðstöðvar setji sér umhverfisstefnu og leiti mögulega eftir vottun frá Green Globe 21. Dagurinn endaði síðan með skoðunarferð um Stykkishólm, móttöku hjá bæjarstjórn, þar sem bæjarstjóri Stykkishólms Óli Jón Gunnarsson tók á móti gestunum. Að lokum var kvöldverður og kvöldvaka í Hótelinu með skemmtiatriðum listamanna úr Stykkishólmi. Ávarp samgönguráðherraSeinni fundardagur hófst með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Sturla hvatti fólk til dáða og minntist sérstaklega á umhverfisverkefnið Green Globe 21 á Snæfellsnesi og mikilvægi þess fyrir ferðaþjónustuna. Hann talaði einnig um fjárframlög til greinarinnar. Almennt verður stuðningurinn sá sami en dregið verður úr fjárframlögum til kynningar- og markaðsmála erlendis á þessu ári. Fór Sturla yfir þann góða árangur sem náðst hefur í kynningarmálum undanfarin ár. Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, flutti erindi um tengsl ferðamála og landsbyggðarinnar. Kjarni málsins í erindi Einars var að ferðaþjónustan er að vaxa og að breytast og að við eigum að veðja á ferðaþjónustuna sem krefst aukins mannafla og fjárfestingar. Glærur frá erindi Einars (pdf-0,9 MB) Magnús Oddsson, ferðamálastjóri fór yfir ýmislegt talnaefni um fjölda, fjármagn og árangur. Hann hvatti fundarmenn að til að skoða tölurnar vel og spyrja sig gagnrýnna spurninga t.d. af hverju við náum árangri gagnvart ákveðnum hópum en ekki öðrum. Hvernig þróum við vörur og hvernig mætum við væntingum ferðamanna. Glærur frá erindi Magnúsar (pdf-0,2 MB) Síðasta erindið kom síðan frá Sigríði Finsen, hagfræðingi sem fjallaði um ferðaþjónustu og umhverfismál á Snæfellsnesi. Í lokin voru síðan pallborðsumræður og fyrirspurnir þar sem ýmis mál voru til umræðu. Glærur frá erindi Sigríðar (pdf-0,2 MB) Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands sleit síðan aðalfundi samtakanna með smantekt um fundinn í heild sinni og óskaði fundarmönnum góðrar heimferðar. Myndir frá fundinum má m.a. sjá á vef Eymundar Gunnarssonar, atvinnu og ferðamálafulltrúa í Rangárþingi og Mýrdal.  
Lesa meira

Jólakveðja til 170 þúsund aðila

Netið er öflugur miðill til kynningar og í vikunni sendi skrifstofa Ferðamálaráðs í New York rafræna jólakveðju til um 100.000 aðila í ferða- og fjölmiðlaþjónustu í Bandaríkjunum og Kanada. Jafnframt var hún send til 70.000 aðila sem hafa skráð sig á netfangalista á vef skrifstofunnar í þeim tilgangi að fá sendar reglulega upplýsingar um Ísland. Kveðjunni fylgdi mynd þessi skemmtilega mynd Ragnars Axelssonar (RAX) af rauða húsinu á Eyrarbakka í miklu fannfergi. Fyrirsögnin er sem sjá má "May All Your Christmases be White" þar sem vísað er í eitt vinsælasta jólalag Bandaríkjanna fyrr og síðar. Kveðjunni fylgdi einnig tilvitnanir í nýlegar greinar bandarískra fjölmiðla um Ísland en eins og fram hefur komið hefur Ísland notið mikillar athygli í fjölmiðlum vestan hafs upp á síðkastið. Þá má einni geta þess að líkt og undanfarin ár hefur skrifstofan látið gera rafræna útgáfu af Íslandsbæklingi Ferðamálaráðs fyrir Bandaríkjamarkað. Bæklingurinn er öllum aðgengilegur á vef skrifstofunnar og slóðin er http://www.icelandtouristboard.com/brochure_2005/index.html  
Lesa meira

Sumarkönnun Ferðamálaráðs meðal erlendra gesta - Náttúra Íslands er aðdráttaraflið

"Meginniðurstaða þessarar könnunar og samanburðar við fyrri kannanir er einfaldlega að hinn dæmigerði erlendi sumarferðamaður hefur lítið verið að breytast á þessum átta árum sem liðin eru frá því við hófum þessar kannanir. Hann er vel menntaður, vel stæður og hefur fyrst og fremst áhuga á náttúru landsins," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri um niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálaráðs á ferðavenjum erlendra gesta sem sóttu Ísland heim í sumar. Sumarkönnun Ferðamálaráðs 2004 fór fram í Leifsstöð og á Seyðisfirði frá júníbyrjun til ágústloka. Á þessu tímabili fóru um 175 þúsund erlendir gestir úr landi og var spurningalistum dreift af handahófi til 3.139 gesta og bárust 2.507 nothæfir svarlistar til baka. Meðalaldur svarenda var um 44 ár, sem er tæplega þremur árum hærri meðalaldur en í könnuninni 2002. Jafnræði var milli kynja og ríflega helmingur svarenda sagðist vera með tekjur yfir meðallagi eða háar tekjur, miðað við meðaltekjur í heimalandi. 80% vilja koma afturEins og í fyrri könnunum nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. Næstflestir nefna vini/ættingja og síðan þætti eins og ferðabæklinga, blaðagreinar og fyrri heimsóknir en 20% gestanna höfðu komið áður og 80% vilja koma aftur. Langflestir svarenda, eða um 60 af hundraði, höfðu ekki séð neina umfjöllun um Ísland áður en haldið var í ferðina en um fjórðungur hafði séð jákvæða umfjöllun. Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda sagist nota það en í fyrstu könnuninni árið 1997 var þetta hlutfall innan við 20 af hundraði. Bæklingar eða handbækur eru nú næstmest notaði upplýsingamiðillinn en álíka margir nefndu einnig ferðaskrifstofur í eigin landi. Af þeim erlendu gestum sem sóttu upplýsingar á Netið voru Bandaríkjamenn og Bretar duglegastir að nýta þennan nýja upplýsingabrunn. Nýta afþreyingu í auknum mæliSem fyrr eru flestir erlendu gestanna að koma í frí og var meðaldvalarlengd hér á landi um 10 og ½ dagur. Almenn aukning er í nýtingu afþreyingar af ýmsu tagi en sem fyrr njóta náttúruskoðun og sund mestra vinsælda. "Það er mjög ánægjulegt að sjá að erlendu ferðamennirnir eru að nýta sér í auknum mæli þá afþreyingu sem boðið er upp á um allt land. Það sýnir að sú stefna sem við mörkuðum í þessum efnum var rétt. Þá er einnig fagnaðarefni að sjá að gistingum er að fjölga víðast hvar úti á landsbyggðinni milli kannana, ekki síst á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum," segir Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands. Eins og fyrr gista flestir í Reykjavík en þar fækkar gistingum frá fyrri könnun en þeim fjölgar í öllum öðrum landshlutum, nema á Norðurlandi þar sem fjöldi gistinátta stendur nokkurn veginn í stað milli kannana. Flestir gista á hótelum og þar er smáaukning merkjanleg frá síðustu könnun sem og í bændagistingu. Geysir og Þingvellir eru eins og áður þau svæði eða staðir sem flestir heimsóttu enda landið og náttúran þeir þættir sem erlendir ferðamenn meta jákvæðasta við Ísland. Þar á eftir kemur fólkið og síðan þjónustan en neikvæðustu þættirnir eru sem fyrr verðlagið og svo veðrið. Skilgreiningar eins og "hrein og ómenguð náttúra" og "einstakt náttúruævintýri" lýsa Íslandi best að mati erlendu sumargestanna. Margir nefndu einnig afslappað andrúmsloft. Þá vekur athygli að vægi rútuferða, bæði skipulagðra ferða og sérleyfisferða, hefur minnkað frá síðustu könnun en notkun einkabíla hefur vaxið töluvert á meðan notkun bílaleigubíla er svipuð. Aldurs- og tekjumunur á farþegum flugfélagannaKönnunin í sumar er sú fyrsta sem gerð er eftir að Iceland Express hóf reglulegt áætlunarflug milli Íslands og tveggja Evrópulanda og því þótti forvitnilegt að greina svör erlendu gestanna eftir flugfélögum. Í ljós kom að 72% svarenda ferðuðust með Flugleiðum, 12% flugu með Iceland Express, 8% ferðuðust með öðrum flugfélögum og jafnmargir notuðu annan ferðamáta en flug. Greinilegur aldurs- og tekjumunur kom fram hjá erlendu gestunum eftir því með hvaða flugfélagi þeir ferðuðust. Þannig var meðalaldur svarenda sem nýttu sér þjónustu Iceland Express tæplega 36 ár en í kringum 43 ár hjá farþegum með Flugleiðum og öðrum flugfélögum. Þá eru tekjur þeirra sem fljúga með Flugleiðum heldur hærri en farþega sem fljúga með Iceland Express eða öðrum félögum. Langflestir þeirra sem flugu með Iceland Express voru hér á eigin vegum en liðlega helmingur farþega með Flugleiðum og öðrum flugfélögum var hér á eigin vegum og 30-40% í skipulögðum pakkaferðum. Í heildina eru niðurstöður sumarkönnunarinnar almennt í takt við fyrri kannanir Ferðamálaráðs að mati ferðamálastjóra. "Það er alveg ljóst að þó við höfum verið að ná um 80 % fjölgun erlendra gesta á þessum átta árum þá hefur samsetning hópsins breyst sáralítið heldur höfum við einfaldlega verið að ná fleirum úr þessum áhugaverða markhópi til okkar, væntanlega vegna þess að við höfðum vel til þeirra," segir Magnús Oddsson að lokum. Niðurstöður könnunarinnar (PowerPoint-2 MB) Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.  
Lesa meira

Breytingar um áramót á framkvæmd verktakasamnings

Frá og með áramótum verður sú breyting gerð að framkvæmd samnings Ráðstefnuskrifstofu Íslands (RSÍ) og Ferðamálaráðs verður á markaðssviði Ferðamálaráðs en ekki á stjórnsýslusviði. Aukið færi á að vinna með sérfræðingum Ferðamálaráðs erlendisMeð þeir breytingu sem nú verður gerð gefst aukið færi á að vinna að málefnum RSÍ með sérfræðingum Ferðamálaráðs á skrifstofum ráðsins erlendis. Þetta mun einnig geta orðið til þess að Ferðamálaráð tekur aukinn beinan þátt í kostnaðarsömum verkefnum. Dæmi um þetta er framkvæmd á sýningu í Chicago á vegum RSÍ í september sl., framkvæmd verkefnisins Jahrmarkt Road Show til 3ja borga í Þýskalandi nú í nóvember sl. og framkvæmd verkefnis í Danmörku í nóvember sl. Öll þrjú verkefnin voru unnin af starfsmönnum Ferðamálaráðs á mörkuðunum erlendis og spöruðu RSÍ að senda starfsmann á staðinn. Verkefnin framundanNýlega samþykkti RSÍ nýja verkefnaáætlun fyrir árið 2005. Sú verkefnaáætlun sem samþykkt var á Haustfundi hefur tekið nokkrum breytingum frá fyrri árum. Einkum er um að ræða að skerpa áherslur á meginmarkaði, þ.e heimamarkað (gestgjafar) og erlenda markaði. Er þar þegar gert ráð fyrir nánari samvinnu við skrifstofur Ferðamálaráðs, Icelandair, Höfuðborgarstofu og sendiráð Íslands. Nýr verkefnastjóriStjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands fundaði í gær, 14. desember, og á dagskrá var greinargerð um áframhaldandi þjónustu Ferðamálaráðs samkvæmt verktakasamningi. Magnús Oddsson, ferðamálastjóri gerði grein fyrir nýjum starfsmanni sem var samþykktur einróma af stjórn. Frá 1. janúar 2005 tekur nýr verkefnastjóri við störfum á RSÍ. Hinn nýi starfsmaður heitir Anna Róslaug Valdimarsdóttir. Anna er 31 árs, stúdent frá Verslunarskóla Íslands. B.A í sagnfræði frá HÍ. og M.Sc. í ferðamálafræði frá University of Strathclyde, Glasgow frá 2001. Lokaritgerð: Images in the Promotion of Iceland: A case study of Iceland promotion for the UK market." Anna hefur starfað hjá Ferðamálaráði síðan í september sl. og hefur sýnt bæði frumkvæði og dugnað í starfi. Anna mun strax hafa í nógu að snúast og hefur hún m.a lýst því yfir við stjórn RSÍ að hún muni heimsækja aðildarfélaga sem fyrst í því skyni að afla sér þekkingar á starfsemi aðildarfélaga. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, sinnir verkefnum Ráðstefnuskrifstofunnar fram til 1. janúar og mun jafnframt setja nýjan starfsmann inn í helstu þætti verkefnanna framundan. Að baki Ráðstefnuskrifstofu Íslands standa Ferðamálaráð Íslands, Reykjavíkurborg, Flugleiðir og flest leiðandi hótel á sviði ráðstefnuhalds og hvataferða auk annarra fyrirtækja, s.s. afþreyingarfyrirtækja, veitingahúsa og fleiri sem eiga hagsmuna að gæta af ráðstefnuhaldi og móttöku hvataferða. Frá því haustið 1997 hefur starfsemi RSÍ verið hýst hjá Ferðamálaráði sem jafnframt hefur séð um rekstur hennar samkvæmt samkomulagi við stjórn skrifstofunnar.  
Lesa meira

Styrkir til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2005

Ferðamálaráð Íslands hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2005. Úthlutað verður um 40 milljónum króna og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka. Eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna, innlendra sem erlendra, er íslensk náttúra. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest eftir hugmyndafræði um sjálfbæra ferðaþjónustu. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru. Á umliðnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands lagt um 350 milljónir króna til uppbyggingar á ferðamannastöðum víðsvegar um land. Þrír meginflokkarSem fyrr segir verður um 40 milljónum króna úthlutað að þessu sinni og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka: 1. Til minni verkefna: Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum þar sem áhersla verður lögð á uppbyggingu gönguleiða. Eingöngu verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur. 2. Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum: Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur: Um verði að ræða svæði eða staði sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim. Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði. Einungis verða styrkt svæði þar sem fullnaðarhönnun liggur fyrir. Ferðamálaráð áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum. Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu. Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálaráðs og styrkþega. 3. Til uppbyggingar á nýjum svæðum: Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur: Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði. Einungis verða styrkt svæði þar sem samþykkt deiliskipulag liggur fyrir. Hluti af styrkupphæð Ferðamálaráðs getur farið til verkhönnunar á viðkomandi svæði, þó aldrei meira en sem nemur 25% af styrkupphæð. Ferðamálaráð áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum. Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu. Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálaráðs og styrkþega. Hverjir geta sótt um: Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna með tilliti til náttúruverndar. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Umsóknarfrestur er til 17. janúar 2005 Hvar ber að sækja um: Umsóknir berist með vefpósti á umsóknareyðublaði sem er að finna hér á vefnum. - Sækja um styrk til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2005 Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri, sími: 464-9990. Upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða í gegnum vefpóst: valur@icetourist.is  
Lesa meira

Þrír stórir bandarískir fjölmiðlar beina kastljósinu að Íslandi

Ísland hefur sannarlega verið áberandi í bandarískum fjölmiðlum upp á síðkastið og er skemmst að minnast "The Amazing Race" þáttaraðarinnar. Mörg fleiri dæmi mætti nefna og á næstu dögum munu þrír af stóru bandarísku fjölmiðlunum beina kastljósinu að Íslandi í þáttum og greinum. Fyrst má nefna að laugardaginn 18. desember verður hinn geysivinsæli þáttur ABC News, "Good Morning America", helgaður jólum um víða veröld og þar fá hinir 13 íslensku jólasveinar sitt pláss. Daginn eftir verður löng grein í ferðablaði "The New York Times" um Reykjavík og ferðalög til Íslands. Þar er Ísland lýst sem ákjósanlegum áfangastað fyrir helgarferðir og lögð áhersla á möguleika á fjölbreyttum ævintýraferðum, úrvali veitingastaða og fjörugu næturlífi. Loks má geta að 20. desember fær Ísland athygli í geysivinsælum þætti Fox sjónvarpsstöðvarinnar, "The Swan" , sem sendur er út um öll Bandaríkin. Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York hefur komið að öllum þessum málum og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofunnar, segir ekki hægt annað en að vera himinlifandi með hversu vel hefur tekist til. Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson  
Lesa meira

Ekki auglýst eftir samstarfsaðilum vegna kynningar erlendis 2005

Eins og áður hefur komið fram var við afgreiðslu fjárlaga nú í desember samþykkt 150 milljón króna fjárveiting til markaðsverkefna í ferðaþjónustu. Þetta er 170 milljónum lægra en á yfirstandandi ári. Lækkunin er hliðstæð upphæð og var nýtt til samstarfsverkefna erlendis á þessu ári. "Þetta eru auðvitað vonbrigði að fjárveitingin er lækkuð sem raun ber vitni, en hinu er ekki hægt að neita að þrátt fyrir að unnið hafi verið að þessu af okkar hálfu af fagmennsku þá hafa fáar en háværar raddir verið í greininni um að aðferðin væri jafnvel ólögleg. Þessar háværu raddir hafa eðlilega náð eyrum ráðamanna eins og annarra. Málið er til meðferðar hjá ESA í framhaldi af því að eitt fyrirtæki kærði aðferðarfræðina," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Hann segir ennfremur að því hafi það í reynd næstum verið sjálfgefið þegar fjárveitingin var lækkuð um hliðstæða upphæð sem fór til umræddra verkefna og enn sé óvissa um niðurstöðu málaferla að hvíla þessa aðferðarfræði árið 2005. "Auðvitað hefðu allir kosið að fjárveitingin yrði a.m.k. sú sama og í ár og að sátt væri um aðferðarfræðina. Þessi aðferðarfræði hefur vakið athygli víða og að mati margra er þetta ein af ástæðunum fyrir að árangur okkar er hlutfallslega meiri en flestra annarra á þessum árum. En við eigum auðvitað ekki annan kost en að taka mið af þessum aðstæðum, annars vegar að það fjármagn sem var til samstarfsverkefna í ár er ekki til og óvissunnar um niðurstöðu kæru á hendur okkur," segir Magnús. Skipting fjármunaNú hefur verið ákveðið hvernig þær 150 milljónir, sem eru til ráðstöfunar verði nýttar og er það í aðalatriðum á sama hátt og á þessu ári að frádregnum áðurnefndum samstarfsverkefnum erlendis. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar fara 20 milljónir í byggðatengd verkefni í ferðaþjónustu. Þær 130 milljónir sem eftir eru skiptast í aðalatriðum þannig að 46 milljónir fara til innlendra kynningarverkefna, 20 milljónir eru áætlaðar til verkefnisins Iceland Naturally í Evrópu, 45 milljónir fara til hefðbundinna verkefna á fimm markaðssvæðum. Þar er um að ræða almenn kynningarverkefni, staðbundnar sýningar, fjölmiðlaheimsóknir, auglýsingar o.fl. Loks eru 14 milljónir áætlaðar vegna almennrar sýningarþátttöku, gerðar alls sameiginlegs kynningarefnis til notkunar á öllum mörkuðum; vefir, ljósmyndir, bæklingar, DVD-diskar o.fl. Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson  
Lesa meira

Iceland Express áformar að fjölga áfangastöðum

Í bígerð er hjá Iceland Express að færa út kvíarnar og fjölga áfangastöðum í Evrópu frá næsta vori. Í frétt í Morgunblaðinu í dag kemur fram að valið standi á milli Hahnflugvallar í Þýskalandi og Lúxemborgar. Í Morgunblaðinu er haft eftir Almari Erni Hilmarssyni, framkvæmdastjóra Iceland Express, að ýmsir kostir varðandi fjölgun áfangastaða til meginlands Evrópu séu til skoðunar hjá félaginu en endanleg ákvörðun verði ekki tekin fyrr en eftir áramót. Margir kannast við flugvöllinn í Luxemborg en Hahnfluvöllur er minna þekktur. Hann er við Hamborg, var áður herflugvöllur en hefur verið alþjóðaflugvöllur fyrir almenna umferð frá 1993 og er vinsæll áfangastaður svonefndra lággjaldaflugfélaga.  
Lesa meira

Áhugaverður sérkortadiskur fyrir ferðafólk

Landmælingar Íslands hafa sent frá sér kortadisk sem er einkar áhugaverður fyrir ferðafólk. Á honum eru m.a. sérkort af vinsælum ferðamannastöðum, friðlöndum og þjóðgörðum. Þetta er þriðji kortadiskurinn sem Landmælingar gefa út. Með útgáfu diskanna er komið fjölbreytt og aðgengilegt safn stafrænna gagna sem henta ferðamönnum og öðru áhugafólki. Einnig henta diskarnir vel við kennslu og eru góð heimild um örnefni og staðhætti. Meðal vinsælla ferðamannastaða sem skoða má á nýja disknum eru Þórsmörk, Landmannalaugar, Skaftafell, Mývatn og Hornstrandir. Einnig eru á disknum staðfræðikort af Suðvesturlandi og Fljótsdalshéraði í mælikvarðanum 1:25.000, ferðakort í mælikvarðanum 1:750.000 og kort sem sýna nýja kjördæmaskiptingu og sveitarfélögin á landinu. Fjölbreyttir notkunarmöguleikarÍ frétt frá Landmælingum kemur fram að skipulega er unnið að útgáfu kortadiska hjá stofnuninni en með þeim er auðvelt að nýta sér stafræn gögn á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Með stafrænu kortunum má mæla fjarlægðir og flatarmál, leita að örnefnum og skoða mismunandi kort samtímis. Á ferðalögum má tengja GPS tæki við kortin í tölvunni og sjá nákvæma staðsetningu. Auðveldlega má bæta inn á kortin eigin texta og táknum og því getur hver og einn útbúið og prentað út kort eftir sinum eigin þörfum. Þá er hægt að afrita og skeyta kortum inn í önnur forrit. Einfalt er að leita eftir hnitum og örnefnum, en yfir 3000 örnefni eru í nafnaskrá. Leiðbeiningar á íslensku fylgja í handbók. Veita upplýsingar um þjóðgarða, friðlönd og aðrar náttúruperlur Útgáfu sérkorta má rekja til nokkurra korta sem gefin voru út af Geodætisk Institut í mælikvarða 1:50.000 á fyrri hluta síðustu aldar. Tvö þeirra, Mývatn og Hekla 1:50 000 þróuðust með tímanum. Síðar bættust önnur við; Þingvellir 1:25 000 og Skaftafell einnig í mælikvarða 1:25 000, sem prentað var á sömu örk og samsett atlasblöð nr. 87 og 88, nefnt Öræfajökull. Þá komu út nokkur sérkort í mælikvarða 1:100 000, Suðvesturland, Húsavík-Mývatn, Þórsmörk-Landmannalaugar og Hornstrandir. Loks komu svo út í þessum flokki kort af Vestmannaeyjum og Surtsey. Kortin eru ólík að eðli og gerð fyrir utan það að vera gefin út í mismunandi mælikvörðum, en þau eiga það sammerkt að vera ætluð ferðafólki til að veita upplýsingar um þjóðgarða, friðlönd og aðrar náttúruperlur landsins. Nokkur kortanna eru ekki lengur uppfærð og gefin út á pappír og verða þau því hér eftir einungis fáanleg á þessum diski.  
Lesa meira

Ný stjórn hjá Félagi ferðamálafulltrúa

Aðalfundur Félags ferðamálafulltrúa á Íslandi (FFÍ) var haldinn í Stykkishólmi á dögunum. Þar var meðal annars farið yfir það sem hæst bar á liðnu starfsári og kosin ný stjórn. Í nýrri stjórn FFÍ sitja sem aðalmenn Haukur Suska Garðarsson, atvinnuráðgjafi í Austur-Húnavatnssýslu; Hrafnhildur Tryggvadóttir, forstöðumaður, Upplýsinga- og kynningamiðstöðvar Vesturlands og Knútur Karlsson, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. Varamenn eru Drífa Magnúsdóttir, verkefnisstjóri á Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík og Hildigunnur Jörundsdóttir, forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar Austurlands. Ráðstefnu EUTO ber hæstFFÍ var formlega stofnað fyrir fjórum árum og að sögn Ásborgar Arnþórsdóttur, fráfarandi formanns var liðið starfsár það annasamasta hingað til enda var ráðist í metnaðarfull verkefni. Hæst ber árlega ráðstefna Evrópusambands ferðamálafulltrúa, EUTO, sem haldin var á Íslandi og námsferð í tengslum við hana alls heil vika 29. ágúst - 5. september 2004. En vinnan bar árangur og uppskeran var ríkuleg. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum yfir 60 "Tourist officers " frá ýmsum Evrópulöndum tóku þátt og almenn ánægja var með Íslandsferðina. "Ljóst er að auk þess að vera fræðilega nærandi fyrir FFÍ félaga er þetta Evrópusamstarf gífurleg landkynning," segir Ásborg. Mikilvægt að félagsmenn séu virkirÁsborg segir miklu máli skipta í félagi sem FFÍ að félagsmenn séu virkir. "Stjórnin hefur litið á það sem hlutverk sitt sem fyrr að halda utan um tiltekna grunnþætti s.s. félagaskrá, boðun funda og samskipti út á við. Að öðru leyti hefur verið leitað til félaga varðandi áhersluatriði og viðfangsefni. FFÍ er mikilvægur samnefnari fyrir okkur sem vinnum í nánum tengslum við grasrótina og erum oft eins konar millistykki milli ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga og ráðamanna í ferðaþjónustu. Það hefur færst í vöxt að óskað sé eftir samstarfi við FFÍ frá ýmsum aðilum og einnig er gjarnan leitað álits varðandi ýmis málefni sem varða ferðaþjónustu. Meginmarkmið félagsins var og er að styðja og styrkja okkur sjálf og hvert annað í stafi, stuðla að aukinni fagmennsku í okkar röðum og síðast en ekki síst að eiga skemmtilegar stundir saman. Ég vil óska nýrri stjórn velfarnaðar, mér líst mjög vel á þau og veit að framundan eru góðir tímar," segir Ásborg. Ársskýrsla FFÍ starfsárið 2003-2004 (pdf-0,4 MB)  
Lesa meira