Fréttir

Fjárhagsáætlun Ferðamálaráðs 2004

Á fundi Ferðamálaráðs í gær var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2004. Fjárveiting Alþingis til reksturs og verkefna stofnunarinnar er um 250 milljónir króna. Til erlendrar starfsemi er varið um 105 milljónum króna, 50 milljónum til umhverfisverkefna og um 30 milljónum til upplýsingaverkefna, svo nokkrir liðir séu nefndir. Þá er 300 milljón króna fjárveiting til samgönguráðuneytis vegna markaðsverkefna í ferðaþjónustu notuð á vegum skrifstofa ráðsins þannig að velta stofnunarinnar á árinu er áætluð um 550 milljónir króna.  
Lesa meira

Ferðamálaráð, UMFÍ og Landmælingar sameinast um smíði gagnagrunns og heimasíðu um gönguleiðir

Ferðamálaráð Íslands, Ungmennafélag Íslands og Landmælingar Íslands undirrituðu í dag samstarfssamning um gerð og rekstur gagnagrunns um gönguleiðir á Íslandi. Grunnurinn verður aðgengilegur almenningi á sérstakri heimasíðu. Stefnt er að því að opna heimasíðuna 1. maí næstkomandi og þá verði þar að finna upplýsingar um a.m.k. 500 gönguleiðir, ásamt upplýsingum er tengjast slíkum ferðalögum hér á landi. Fleiri leiðir munu svo bætast við í framtíðinni. Merktar leiðir sem ómerktarGönguleiðir eru skilgreindar í þessu verkefni sem leiðir er tekur a.m.k. tvær klukkustundir að ganga. Þessar leiðir geta verið merktar sem ómerktar en markmið verkefnisins er að stuðla enn frekar að uppbyggingu gönguleiða á Íslandi og aðgengi að þeim, sem og hvetja fólk til að ganga um landið og kynnast því á þennan heilsusamlega hátt. Upplýsingar aðgengilegar almenningi á einum staðMikil vakning hefur átt sér stað hér á landi undanfarin ár gagnvart útivist af þessu tagi, bæði stuttum heilsubótargönguferðum og skipulögðum nokkurra daga ferðum. Hafa ferðafélög og áhugahópar um gönguleiðir víðs vegar um landið unnið mjög gott starf, t.d. við gerð göngukorta, vefsíðna og merkingu gönguleiða. Ætlunin með þessu verkefni er að þær upplýsingar sem nú þegar eru til verði aðgengilegar almenningi á einum stað.  Er það von aðstandenda verkefnisins að upplýsingarnar muni nýtast sem flestum er hyggja á ferðalög og útivist og efli um leið enn frekar þessa tegund afþreyingar í íslenskri ferðaþjónustu. Göngum um Ísland Verkefni þetta er framhald af verkefni sem Ungmennafélag Íslands fór af stað með árið 2002, með styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu, þess efnis að fá fólk til að ganga reglulega sér til heilsubótar sem og til að fá ferðafólk til að staldra við á ferðum sínum um landið og fara í stuttar gönguferðir. Afrakstur þess átaks er handbókin Göngum um Ísland sem verður endurútgefin á sumri komanda og mun þá hafa að geyma lýsingar á yfir 300 merktum gönguleiðum víðsvegar um landið, sem eru að jafnaði hálftíma til tveggja tíma ganga og því tilvaldar fjölskylduleiðir. Upplýsingar úr bókinni eru aðgengilegar á áðurnefndri vefslóð. Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins í dag: Talið frá vinstri: Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ; Björn Jónsson, formaður UMFÍ; Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands; Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs og Magnús Oddsson ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Síldarminjasafnið valið í úrval evrópskra safna

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur verið valið í úrval evrópskra safna sem keppa til Evrópsku safnverðlaunanna í ár. Mun Safnaráð Evrópu veita verðlaunin á úrslitakvöldi í Aþenu í byrjun maí nk. Í frétt á mbl.is segir Örlygur Kristfinnsson safnstjóri að þetta sé í fyrsta skipti sem íslenskt safn sé tilnefnt til þessara verðlauna og gleðilegt að Síldarminjasafnið hafi komist áfram í lokaáfangann. Það verður fulltrúi íslenskra safna í hópi um 40 safna sem komust áfram í keppninni. Ekki er enn búið að gefa upp hvaða söfn það eru. "Með því að ná þessu marki kemst Síldarminjasafnið í sérstaka kynningarbók sem European Museum Forum gefur út á hverju ári um þessi söfn sem komast í þessi úrslit. Það þýðir allgóða kynningu fyrir safnið," segir Örlygur í viðtali við mbl.is. Þar kemur jafnframt fram að síðasta sumar kom formaður dómnefndar, sem sker úr um hvaða söfn eru valin í þessa úrslitakeppni, hingað til lands og skoðaði safnið á Siglufirði.  
Lesa meira

Metfjöldi ferðamanna á liðnu ári

Metfjöldi erlendra ferðamanna sótti landið heim á liðnu ári. Alls komu 320 þúsund ferðamenn hingað til lands á árinu 2003, um 17 þúsund fleiri en árið 2000, sem á þeim tíma var metfjöldi. Talningar í Leifsstöð ná til 96% ferðamannaFrá árinu 1949 annaðist Útlendingaeftirlitið talningar á ferðamönnum sem komu erlendis frá en í árslok 2000 var þeim hætt vegna Schengen samkomulagsins. Engar talningar voru í gangi árið 2001 en áætlað er að um 295 þúsund gestir hafi komið það ár. Ferðamálaráð hóf brottfarartalningar í Leifsstöð í febrúar 2002 og hafa þær staðið yfir óslitið síðan. Samkvæmt þeim fóru 308.000 erlendir ferðamenn um völlinn á nýliðnu ári. Talið er að þessar talningar nái yfir 96% gesta sem koma til landsins og þegar bætt er við þeim gestum sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík og farþegum Norrænu er heildartalan 320.000 sem fyrr segir. Athyglisverð samantektFram til ársins 2000 fjölgaði ferðamönnum hingað til lands jafnt og þétt og það ár komu 302.900 erlendir gestir. Niðursveifla kom í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum í september 2001 en á liðnu ári breyttust hlutir mjög til betri vegar. Oddný Þ. Óladóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálaráði hefur unnið samantekt um fjölda ferðamanna byggða á talningum Útlendingaeftirlitsins og Ferðamálaráðs í Leifsstöð á tímabilinu 1997-2004. Skoða má hver þróunin hefur verið í komum ferðamanna til landsins á tímabilinu, hlutfallslega samsetningu eftir löndum, auk þess sem greina má fjölda einstakra þjóðerna eftir mánuðum og árstíðum. Þessi samantekt er athyglisverð og gefur ágætis mynd af samsetningu ferðamanna síðustu ár. Til gamans er látin fylgja með framreikningur á fjölda ferðamanna til ársins 2015, miðað við þrjú, sex og níu prósent árlega aukningu að jafnaði. Samantektin er sett fram í Excel-skjali. Opna Excel-skjal
Lesa meira

Tekjukönnun SAF - desember 2003 og ársþriðjungsuppgjör

Samtök ferðaþjónustunnar hafa birti niðurstöður úr tekjukönnun hjá gististöðum fyrir desembermánuð síðastliðinn. Þá eru birtar niðurstöður fyrir síðasta ársþriðjung 2003 og nokkrar myndir um verðþróun. Einnig fylgir samanburður á árunum 2002 og 2003. Opna PDF-skjal
Lesa meira

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn opnuð

Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn var opnuð formlega í liðinni viku. Skrifstofan er þriðja markaðsskrifstofa Ferðamálaráðs á erlendri grund og mun hún þjóna Norðurlandamarkaði, þ.e. Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku Eigum mikið inni á markaðinumÁrsæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, segir opnun markaðsskrifstofu fyrir Norðurlöndin vera tímabært skef. ?Norðurlöndin eru eitt stærsta og mikilvægasta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu og þaðan komu yfir 80.000 gestir á síðasta ári. Þá eykur það á mikilvægi þessa markaðar hversu stór hluti gesta þaðan kemur utan háannatíma, auk þess sem talsverður hluti kemur í viðskiptaerindum,? segir Ársæll. Hann bætir við að flestir Norðurlandabúar eigi þá ósk að koma til Íslands einhverntímann á ævinni. ?Við þurfum að gefa þeim ástæðu til að láta óskina rætast og þá mun þessi markaður vaxa svo um munar,? segir Ársæll. Ein milljón gesta frá NorðurlöndumMargir góðir gestir voru viðstaddir opnunina, m.a. samgönguráðherra og fulltrúar í Ferðamálaráði Íslands. Fulltrúar ferðaskrifstofa og flugfélaga á Norðurlandamarkaði fjölmenntu í opnunina, þeirra á meðal Icelandair og Iceland Express. Magnús Oddsson ferðamálastjóri bauð gesti velkomna og lýsti mikilvægi hinnar nýju skrifstofu og markaðsstarfinu á Norðurlöndum. ?Frá stofnun Ferðamálaráðs, sem á 40 ára afmæli í ár, höfum við tekið á móti yfir einni milljón gesta frá Norðurlöndum og við viljum og ætlum okkur meira,? sagði Magnús meðal annars.  Þriðja markaðsskrifstofanÁrsæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs gerði stuttlega grein fyrir hlutverki og vinnutilhögun skrifstofunnar. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti nýjum forstöðumanni skrifstofunnar; Lisbeth Jensen, lyklana að skrifstofunni og sagði m.a. að mikilvægt væri að halda áfram öflugu markaðsstarfi á erlendum mörkuðum á vegum Ferðamálaráðs. Með opnun skrifstofunnar í Kaupmannahöfn eru markaðsskrifstofur Ferðamálaráðs Íslands á erlendri grundu orðnar þrjár. Fyrir voru skrifstofur í Frankfurt í Þýskalandi, sem sinnir Mið-Evrópu, og í New York, sem sinnir Norður-Ameríkumarkaði. Auk þeirra er fjórða markaðssvæðinu, Bretlandi, sinnt frá Íslandi.  Samstarf við Grænland og FæreyjarEins og áður hefur komið fram er skrifstofa Ferðamálaráðs til húsa í Norðurbryggju, sameiginlegu menningarsetri Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga. Ferðamálaráð Færeyja og Grænlands eru einnig með skrifstofur í húsinu. Þá hafa löndin þrjú stofnað sameiginlegt fyrirtæki til að sinna upplýsingagjöf, dreifingu á bæklingum og fleiru sem hagkvæmt er talið. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn hefur þegar flutt í Norðurbryggju, ásamt sendiskrifstofum Færeyinga og Grænlendinga. Þar verða einnig með aðstöðu ýmsar stofnanir, fyrirtæki og menningarstarfsemi sem tengist löndunum þremur. Skoða myndir frá opnuninni  
Lesa meira

Áframhaldandi aukning í desember

Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs desembermánuður sl. skilaði, líkt og aðrir mánuðir ársins, fleiri erlendum ferðamönnum en árið á undan. Í desember nú fóru 11.139 erlendir ferðamenn um Leifsstöð, samanborið við 10.592 árið 2002. Fjölgunin á milli ára nemur rúmum 5%. Sé litið til stærstu markaða okkar þá er fjölgun frá Bretlandi, N.-Ameríku og meginlandi Evrópu. Einnig fjölgar ferðamönnum frá Danmörku en fækkun er frá hinum Norðurlöndunum. Rúmlega 13% fjölgun á samanburðartímabilinuTalningar Ferðamálaráðs hafa staðið yfir frá því í febrúar 2002 og því liggja nú fyrir samanburðarhæfar niðurstöður fyrir tímabilið mars til desember fyrir árin 2002 og 2003. Sé þetta tímabil borið saman á milli ára kemur í ljós að erlendir ferðamenn á nýliðnu ári eru 13,4% fleiri en í fyrra. Er aukning frá öllum löndum sem mæld eru sérstaklega og nemur samtals rúmlega 33 þúsund gestum. Af einstökum löndum komu flestir ferðamenn frá Bretlandi á nýliðnu ári, 52.800 talsins, frá Bandaríkjunum komu 45.000 og frá Þýskalandi komu 36.700. Norðurlöndin eru hins vegar stærsta markaðssvæðið en þaðan komu samanlagt um 80.500 gestir á nýliðnu ári. Við þessar tölur á eftir að bæta farþegum Norrænu og þeim sem fóru um aðra millilandaflugvelli en Keflavík. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs má nálgast með því að opna meðfylgjandi Excel-skjal.  
Lesa meira

Handbók Ferðamálaráðs 2004 komin út

Handbók Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2004 er komin út. Þetta er viðamikið rit en bókin byggir á gagnagrunni Ferðamálaráðs sem geymir upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Einnig er að finna í bókinni ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir ferðafólk. Skiptist í 6 kaflaHandbókin skiptist í 6 kafla. Undir kaflanum Almennar upplýsingar má m.a. finna lista yfir upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, ræðismenn, sendiráð, náttúruverndarsvæði o.fl. Annar kafli nefnist Á döfinni en eins og nafnið ber með sér er þar að finna lista yfir viðburði af ýmsu tagi um allt land. Í þriðja kaflanum, Samgöngur, eru upplýsingar um áætlunarferðir á láði, lofti og legi, leigubíla og strætisvagna. Ýtarlegar upplýsingar um Gistingu um allt land er að finna í 4. kafla og er honum skipt niður eftir tegund gistingar, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagisting, farfuglaheimili, sumarhús, skálar og tjaldsvæði. Afþreying er í 5. kafla og skiptist í alls 23 undirflokka. Þar má nefna flúðasiglingar, hvalaskoðun, hestaferðir, jeppa- og jöklaferðir, skíðasvæði, golfvelli, sundlaugar, veiði og söfn. Leigur af ýmsu tagi eru síðan teknar fyrir í síðasta kaflanum.Sem fyrr er gagnagrunnurinn öllum opinn á heimasíðu Ferðamálaráðs. Mikilvægt uppflettiritHandbókin er gefin út á íslensku og ensku og er mikilvægt uppflettirit fyrir alla þá sem starfa að skipulagningu og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu. Bókin er seld í áskrift og kostar 6.000 kr. Afsláttur er veittur ef fleiri en eitt eintak er keypt. Hægt er að panta bókina hér á vefnum með því að smella hér. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri í síma 464-9990eða í gegnum netfangið upplysingar@icetourist.is  
Lesa meira

Auglýst eftir umsóknum um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum um allt land

Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands veitt styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum. Svo verður einnig í ár og hefur nú verið auglýst eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2003. Á síðustu árum hafa ákveðnir landshlutar komið til úthlutunar á hverju ári en að þessu sinni er ekki um slíka skiptingu að ræða heldur er hægt að sækja um styrki til úrbóta á ferðamönnastöðum um allt land. Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þess að til stendur að hækka verulega þá heildarupphæð sem kemur til úthlutunar en hún var 6 milljónir króna á síðasta ári. Umsóknarfrestur er til og með 14. febrúar nk. Sem dæmi um verkefni sem hlotið hafa styrki á síðustu árum má nefna gönguleiðamerkingar, stígagerð, skiltagerð og styrki til að koma upp salernisaðstöðu. Styrkirnir eru veittir til framkvæmda á vegum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga. Skilyrði er að framkvæmdirnar stuðli að verndun náttúrunnar, samhliða bættum aðbúnaði ferðamanna. Nauðsynlegt er að framkvæmdir stangist ekki á við gildandi skipulag og séu unnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, landeigendur, náttúruverndarnefndir og aðra aðila sem með málið hafa að gera s.s. Umhverfisstofnun. Nánari upplýsingar um styrki 2003  
Lesa meira

Handbók Ferðamálaráðs 2003 komin út

Handbók Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2003 er komin út. Þetta er viðamikið rit en bókin byggir m.a. á gagnagrunni Ferðamálaráðs sem geymir upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land. Má fullyrða að um er að ræða heildstæðasta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Einnig er að finna í bókinni ýmsar hagnýtar upplýsingar fyrir ferðafólk. Skiptist í 6 kaflaHandbókin skiptist í 6 kafla. Undir kaflanum Almennar upplýsingar má m.a. finna lista yfir upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, ræðismenn, sendiráð, náttúruverndarsvæði o.fl. Annar kafli nefnist Á döfinni en eins og nafnið ber með sér er þar að finna lista yfir viðburði af ýmsu tagi um allt land. Í þriðja kaflanum, Samgöngur, eru upplýsingar um áætlunarferðir á láði, lofti og legi, leigubíla og strætisvagna. Ýtarlegar upplýsingar um Gistingu um allt land er að finna í 4. kafla og er honum skipt niður eftir tegund gistingar, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagisting, farfuglaheimili, sumarhús, skálar og tjaldsvæði. Afþreying er í 5. kafla og skiptist í alls 23 undirflokka. Þar má nefna flúðasiglingar, hvalaskoðun, hestaferðir, jeppa- og jöklaferðir, skíðasvæði, golfvelli, sundlaugar, veiði og söfn. Leigur af ýmsu tagi eru síðan teknar fyrir í síðasta kaflanum.Sem fyrr er gagnagrunnurinn öllum opinn á heimasíðu Ferðamálaráðs. Mikilvægt uppflettiritHandbókin er gefin út á íslensku og ensku og er mikilvægt uppflettirit fyrir alla þá sem starfa að skipulagningu og upplýsingagjöf í ferðaþjónustu. Bókin er seld í áskrift og kostar 6.000 kr. Afsláttur er veittur ef fleiri en eitt eintak er keypt. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri í síma 461 2915 eða netfangið upplysingar@icetourist.is  
Lesa meira