Fréttir

Nýtt kort um gönguleiðir á Akureyri

Út er komið kort sem sýnir nokkrar sérvaldar gönguleiðir á Akureyri. Á kortinu eru sýndar sex fallegar og fjölbreytilegar leiðir um bæinn. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar. Gönguleiðakortið mun liggja frammi í bæjarskrifstofunum á Akureyri, í upplýsingamiðstöð ferðamanna, í íþróttamannvirkjum, skólum og víðar. Það er ókeypis. Lengd gönguleiðanna er mjög mismunandi, allt frá 15,8 km leið sem nær frá Kjarnaskógi í suðri og norður að Hengingarklauf við Sandgerðisbót og niður í 1,4 km um syðsta hluta Oddeyrar. Á kortinu kemur fram hvar upplýsingaskilti eru á þessum leiðum, svo og áningarstaðir, bekkir (á sumrin), bílastæði og góðir útsýnisstaðir. Stutt lýsing á hverri leið fylgir. Gönguleiðirnar eru: Ein með öllu, 15,8 km Skundið, 8,0 km Söguleiðir, 6,0 km Hringsólið, 2,9 km Nonnaslóð, 1,5 km Eyrin, 1,4 km Markmiðið með útgáfu kortsins er að hvetja bæjarbúa og ferðamenn til útivistar og til að njóta um leið fjölbreytileikans í umhverfi bæjarins, innan og utan byggðar. Starfshópur um útivist vonar að framhald geti orðið á útgáfu gönguleiðakorta fyrir bæinn og að þannig sé stuðlað að meiri útivist, hreyfingu og heilbrigði hjá bæjarbúum og gestum þeirra. Hópurinn hefur starfað á Akureyri síðan í ársbyrjun 2003. Hlutverk hans er að vera Akureyrarbæ og öðrum aðilum til ráðgjafar um allt sem lítur að útivist í bæjarlandinu og setja fram ábendingar um aðstöðu, viðburði o.fl. sem varða útivist í bænum.    
Lesa meira

Nýsköpunarverðlaun SAF afhent á félagsfundi

Föstudaginn 19. nóvember næstkomandi verða nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar veitt. Athöfnin fer fram á félagsfundi SAF sem haldinn veður á Hótel Sögu og hefst kl. 15. Dagskrá fundarins er þannig að Örn D. Jónsson, prófessor í nýsköpunarfræðum heldur erindi. Í kjölfarið fylgir verðlaunaafhending síðan léttar veitingar. Í stjórn úthlutunarnefndar verðlaunanna eru Jón Karl Ólafsson, formaður SAF Guðrún Gunnarsdóttir frá Hólaskóla og Clive Stacy frá Arctic Experience. Þátttöku á fundinum er hægt að skrá á skrifstofu SAF, info@saf.is Þessa og fleiri fréttir er hægt að nálgast í nýju fréttabréfi SAF.  
Lesa meira

Íslandskynning í Skotlandi annað árið í röð

Nýlokið er Íslandsviku í Glasgow með þátttöku Ferðamálaráðs Íslands og er þetta annað árið sem slíkur viðburður er haldinn. Kynningin var einstaklega vel heppnuð í fyrra og því þótti ástæða til að endurtaka leikinn nú í ár. Icelandair UK bar hitann og þungann af skipulagningunni, enda hugmyndin þeirra í upphafi. Eflir og styrkir tengslSigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands á Bretlandsmarkaði, segir dagskrána hafa mælst vel fyrir. "Af sérstökum viðburðum má nefna að 25. október var morgunverður með pressunni. Mætingin var nokkuð góð og skilaði sér ágætlega í blöðunum daginn eftir. Vél sem framleiddi gerfisnjó var í gangi fyrir framan veitingastaðinn og skapaði sérstaka stemmningu. Daginn eftir var haldið "gala kvöld" fyrir þátttakendur Íslansdsvikunnar og starfsfólk ferðaskrifstofa í Skotlandi, þar sem um það bil 280 manns mættu. Kynningin var í formi sjónvapsspjallþáttar þar sem sölustjóri Icelandair í Glasgow, David Sanderson, var þáttastjórnandinn og íslensku þátttakendurnir voru teknir "í sófann". Inná milli voru auglýsingahlé þar sem fyrirtæki kynntu sína vöru. Uppátækið vakti mikla kátínu og gekk vel í alla staði. Þann 27. október lauk okkar hluta með hádegisverði ásamt lykilfólki og stjórnendum 28 ferðaskrifstofa. Þessi uppákoma var haldin í Mar Hall fallegum herragarði u.þ.b. 20 mínútna akstur frá Glasgow. Allt gekk þetta mjög vel en viðburðir sem þessir þjóna því mikilvæga hlutverki að mynda og styrkja tengsl á milli aðila," segir Sigrún. Íslensk menning og maturHin opinbera kynning fyrir skoskan almenning var einnig sérlega fjölbreytt. Í kynningu sem send var út í Bretlandi fyrir nokkru má m.a. lesa: "Dálítið af Íslandi, "heitasta" (coolest place) landi í Evrópu, mun verða í sviðsljósinu í Skotlandi í næstu viku. Gagnkvæmar mætur þjóðanna hvor á annarri gera heimsóknir Skota til Íslands "eins og þeir séu heima hjá sér og öfugt". Íslenskt tónlistarlíf, menning og hinn frábæri íslenski matur vekur hvarvetna mikila athygli og eiga Skotar eftir að heyra og sjá mikið meira um það efni í vikunni." Áhersla var lögð á íslenska menningu og m.a. sýndu fjórir íslenskir listamenn list sína í Centre for Contemporary arts. Sýningin hófst 8. október og stendur í sex vikur. Þá var hljómsveitin SKE með tónleika. Siggi Hall eldaði úr íslensku hráefni á La Bonne Auberge veitingastaðnum ásamt yfirkokki staðarins og vakti verðskuldaða athygli. Dagana 15.-21. október gafst þeim sem voru að versla í Buchanan Galleries kostur á að vinna lúxusferð til Íslands fyrir tvo og er þá bara fátt eitt nefnt. Sem fyrr segir voru það Icelandair UK sem sáu um allt skipulag en aðrir sem tóku þátt voru Höfuðborgarstofa, Bláa Lónið, Icelandair hotels, Radisson SAS Saga og Island, Reykjavik Excursions, Hertz UK og nokkur fyrirtæki frá áfangastöðum þeirra vestanhafs, auk Ferðamálaráðs Íslands. Íslensku þátttakendurnir fyrir utan Mar Hall. Morgunverður með fjölmiðlum var haldinn á La Bonne Auberge og snjóvél jók enn á stemmninguna.  
Lesa meira

Áframhald kynningarstarfs í Kína

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir kínverska ferðamenn. Verkefnið er unnið í samstarfi Ferðamálaráðs, sendiráðs Íslands í Kína, Icelandair, Útflutningsráðs, Scandinavian Airline Systems og fleiri aðila. Markmiðið er að fá Kínverskar ferðaskrifstofur til þess að bæta Íslandi við sem áfangastað í skipulögðum hópferðum þeirra til Norður-Evrópu. Sem kunnugt hefur mikill uppgangur verið í efnahagslífi í Kína og talið að utanlandsferðir Kínverja muni vaxa hröðum skrefum. Þannig séu mikil sóknarfæri fyrir hendi á sviði ferðamála og því mikilvægt fyrir Ísland að komast sem fyrst "á kortið" sem áfangastaður fyrir Kínverja. Í apríl sl. undirrituðu Kína og Ísland svonefnt ADS-samkomulag (Approved Destination Status) og í kjölfarið fengu ríflega 500 ferðaskrifstofur leyfi til þess að skipuleggja ferðir frá Kína til Íslands. Síðan hefur verið unnið áfram að málinu og m.a. kom Kínverski ferðamálastjórinn í heimsókn hingað til lands og átti fundi með Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra.  
Lesa meira

Samstarf hins opinbera og einkageirans um sjálfbærnivottun í ferðaþjónustu

-Samantekt eftir WTO ráðstefnu í Tékklandi 18. og 19. október 2004. Ráðstefnu Alþjóðaferðamálaráðsins (WTO) sóttu rúmlega hundrað aðilar frá tæplega þrjátíu löndum. Var hún haldin í Maríánské Lázné, sem er rómaður gamall baðstaður í Tékklandi, einnig þekktur sem Marienbad. Ráðstefnan var margþætt, enda verið að vinna að nokkurs konar samantekt á vottunarkerfum ferðaþjónustunnar í Evrópu. Sjálfbær þróun - ábyrgð okkar allra Á fyrri degi ráðstefnunnar voru haldin framsöguerindi en á þeim síðari störfuðu vinnuhópar. Upphafserindið flutti Eugenio Yunis, yfirmaður sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu innan WTO. Hann sagði það siðferðilega skyldu þjóða Evrópu, bæði ríkisstjórna og sveitarstjórna, að vinna að sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu, enda væri það í anda þeirrar yfirlýsingar sem þjóðirnar undirrituðu eftir Ríó ráðstefnuna 1992. Hvatti hann jafnframt til þess að sjálfbær þróun ferðaþjónustu yrði vottuð svo hægt væri að treysta á áreiðanleika hennar. Taldi hann fyrirtækin verða að stefna að sjálfbærri þróun í rekstri, því án markvissra aðgerða myndi sú vara sem verið er að selja fljótt spillast og ferðamönnum fækka. Hann taldi það ekki vera fyrirtækjanna að bíða eftir því að ferðamaðurinn kallaði eftir vottun, heldur ættu þau að taka frumkvæðið og bjóða hana. Ísland í fremstu röðÁ ráðstefnunni var Snæfellsnesverkefnið kynnt í samstarfi við Green Globe 21. Greinilegt er að Ísland er komið vel áleiðis miðað við flestar aðrar þjóðir Evrópu hvað varðar stefnumótun í anda sjálfbærrar þróunar og vottun svæða og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Höfðu ýmsir ráðstefnugestir það á orði að Íslendingar hefðu náð langt í þessum málum. Ísland á greinilega möguleika á að verða leiðandi afl í þessum málum innan álfunnar, einkum og sér í lagi ef stjórnvöld (ríkisstjórn og sveitarstjórnir) fylgja málum fast eftir með skýrt afmarkaðri stefnu. Green Globe víðtækasta vottunarkerfið Í kynningu fyrri daginn og í vinnuhópum síðari daginn kom greinilega í ljós að Green Globe 21 er eitt víðtækasta vottunarkerfið sem ferðaþjónustan í heiminum hefur aðgang að. Green Globe 21 hefur útbúið viðmiðunarreglur fyrir 26 greinar ferðaþjónustu, auk þess sem það vottar samfélög (communities) og einstaka áfangastaði ferðamanna (attractions). Því er ljóst að hluti fyrirtækja í íslenskri ferðaþjónustu, svo og Snæfellsnes, hefur fylkt sér um öflugt vottunarkerfi. Green Globe 21 er einnig sérstakt að því leyti að það sameinar áherslu á umhverfisstjórnunarkerfi og frammistöðumarkmið sem stuðla að stöðugum úrbótum í átt að sjálfbærri þróun. Þó má áætla að ávallt verði til einhver staðbundin vottunarkerfi þar sem aðstæður geta verið mismunandi. Mikilvægustu niðurstöður vinnuhópaVinnuhópar ráðstefnunnar voru þrír og skiluðu þeir allir niðurstöðum sem verða samræmdar. Eitt atriði var sérlega áberandi í niðurstöðum hópanna. Allir töldu þeir mikilvægast að ríkisstjórnir og sveitarstjórnir gæfu tóninn með skýrt markaðri stefnu í anda sjálfbærrar þróunar líkt og gert hefur verið á Snæfellsnesi í samstarfi við Samgönguráðuneytið/Ferðamálaráð (sveitarstjórnir-ríkisstjórn). Þessi niðurstaða undirstrikar þá miklu framsýni og ábyrgð sem íslensk stjórnvöld hafa sýnt. Niðurstöður vinnuhópanna bentu jafnframt til þess að einstaklingar gætu hafið vinnu að vottun, en nauðsynlegt væri að stefna og stuðningur við sjálfbæra þróun kæmi að ofan frá stjórnvöldum, því að eftir höfðinu dansa limirnir. Einn vinnuhópur ráðstefnunnar komst einnig að þeirri meginniðurstöðu að í framtíðinni skyldu öll vottunarkerfi í Evrópu leggja áherslu á sjálfbæra þróun, þ.e.a.s. vistfræðilega, efnahagslega og félagslega þætti - ekki aðeins þann vistfræðilega. Töldu þátttakendur að innan fárra ára yrði umhverfisvottun talin jafnsjálfsögð staðfesting á samfélagslegri ábyrgð og stjörnuflokkun er talin varðandi gæðamál í dag. Grænþvottur Grænþvottur, er hugtak yfir blekkingu sem viðhöfð er þegar fyrirtæki eru með sýndarmennsku í umhverfismálum. Ferðafólk verður sífellt meðvitaðra um umhverfismál. Þar af leiðandi er það mikilvægt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu að hafa sýnilega og sannfærandi stefnu um sjálfbæra þróun. Í nánustu framtíð má telja líklegt að ferðafólk snúi sér í síauknum mæli til fyrirtækja og svæða sem mótað hafa trúverðuga stefnu og fengið starf sitt að sjálfbærri þróun vottað af óháðum aðila. Framangreind samantekt er sameiginleg niðurstaða íslensku þátttakendanna á WTO ráðstefnunni en þeir voru:Arnheiður Hjörleifsdóttir, stjórnarmaður í Félagi ferðaþjónustubændaElías Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs ÍslandsGuðrún og Guðlaugur Bergmann, Leiðarljósi ehf. ráðgjafaþjónustu í umhverfismálumKjartan Bollason, verkefnisstjóri Green Globe 21 við Háskólann á HólumValur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs ÍslandsÞorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar Helstu þættir: Við berum öll ábyrgð á sjálfbærri þróun, einkum og sér í lagi við sem búum í Evrópu en helmingur ferðalaga heims á sér stað í þeirri heimsálfu. Kynningin á Snæfellsnesi og áfanga þess í Green Globe 21 vottunarkerfinu vakti verðskuldaða athygli. Íslendingar þóttu vera framarlega í stefnumótun að sjálfbærri þróun Green Globe 21 er víðtækasta vottunarkerfið fyrir ferðaþjónustuna og jafnframt hið eina sem er alþjóðlegt, ef frá er talinn umhverfisstjórnunarstaðallinn ISO 14001 og Bláfáninn sem einnig er alþjóðlegur en tekur eingöngu til baðstranda og smáhafna. Leiðandi afl ríkisstjórna og sveitarstjórna er mikilvægt til að hægt sé að vinna að sjálfbærri þróun. Ísland er komið vel á veg og því mikilvægt að fylgja málinu fast eftir til að halda forskotinu  
Lesa meira

Símenntunarverkefni til eflingar ferðaþjónustu á Norðurlandi

Farskóli Norðurlands vestra, Ferðamálasetur Íslands, Fræþing, Hólaskóli, Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi og SÍMEY hafa sameinast í verkefni sem hlotið hefur nafnið: "Samkennd - samvinna - samkeppni" og verður unnið til eflingar ferðaþjónustu á Norðurlandi. Verkefnið byggir á því að með öflugu fræðslustarfi megi skapa þá menningu að ferðaþjónustuaðilar á svæðinu upplifi sig sem nána samstarfsaðila sem hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta og myndi eina heild í tengslum við markaðssetningu, móttöku á ferðamönnum og þróun ferðaþjónustu á öllu svæðinu. Hönnuð verður námskrá með greinargóðum markmiðslýsingum fyrir hvern námsþátt, sem fylgt verður eftir með um 40 klukkustunda löngu námskeiði í febrúar og mars 2005.Vonast er til að 20-30 þátttakendur úr hópi stjórnenda þeirra u.þ.b. 300 fyrirtækja sem starfa að ferðaþjónustu á umræddu svæði og sveitarstjórnarmenn eða starfsmenn sveitarfélaga, sem hafa með ferðamál að gera, muni sitja námskeiðið og líta á það sem fyrsta skref í markvissu framtíðarstarfi allra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi. Námskeiðið byggir á fjórum eftirfarandi námsþáttum: Hugmyndafræðin: "Ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi sem ein heild" Samvinna og samskipti Gæða- og öryggismál Fagmennska Áhersla verður lögð á fjölbreyttar kennsluaðferðir og að tengja svæðin saman með því að staðsetja námskeiðin víða auk þess sem fjarfundabúnaður verður notaður. Verkefnið hefur hlotið styrk frá Starfsmenntaráði en vonir standa til að nákvæm námskrá og markmiðslýsingar geri mögulegt að koma innihaldi námskeiðsins á framfæri við þátttakendur og tryggja góða heildarmynd þrátt fyrir að fjölmargir aðilar komi að verkefninu. Hugmyndin að verkefninu byggir auk þess á að hægt verði að nota módelið á hvaða landsvæði sem er til að samræma vinnu ferðaþjónustuaðila og auka markvisst samstarf. Nánari upplýsingar gefur Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar - SÍMEY, Þórsstíg 4, 600 Akureyri.Sími: 460-5720 simey@simey.is Sjá einnig heimasíðu Símey.  
Lesa meira

1000 erlendir gestir á dag

ú þegar liggja fyrir tölur um komu erlendra ferðamanna fyrstu níu mánuði ársins eru þeir orðnir um 37.000 fleiri en á sama tíma í fyrra. Miðað við þær upplýsingar sem eru fyrirliggjandi um bókanir síðustu mánuði ársins segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri því mega gera ráð fyrir að erlendir gestir til Íslands á þessu ári verði nálægt 365.000 eða um 45.000 fleiri en í fyrra. "Þessir 365.000 erlendir gestir samsvara því að hingað til lands komi að meðaltali hvern einasta dag ársins 1000 gestir, sem dvelja í landinu. Þessu til viðbótar koma gestir með skemmtiferðarskipum og svo þeir gestir sem hafa stutta viðdvöl í Leifsstöð. Ég veit ekki hvort fólk hefur almennt gert sér ljóst hve umsvifin í ferðaþjónustu hafa aukist hratt og að nú stefni í að þessu meðaltasmarkmiði um 1000 erlenda gesti á dag verði náð þegar á þessu ári," segir Magnús Oddsson, ferðamálastjóri. Höfum náð betri árangri en aðrir í jöfnun árstíðasveiflunnarDreifing gesta er að sjálfsögðu ekki jöfn alla daga ársins en í þeim efnum hefur samt orðið mikil breyting. Að sögn Magnúsar komu í ár um 1.800 erlendir gestir að meðaltali hvern dag sumarsins og gera má ráð fyrir um 730 að meðaltali utan sumars. Fyrir 10 árum, eða árið 1994, komu að meðaltali 1000 gestir daglega yfir sumarið en um 230 að meðaltali utan sumarsins. Þannig nú koma nú rúmlega þrefalt fleiri utan háannar en fyrir 10 árum en aukning í komu gesta að sumri er "aðeins" 80% á þessu 10 ára tímabili. "Þessar tölur staðfesta að sú áhersla sem hefur verið lögð á markaðssetningu og vöruþróun utan háannar hefur skilað verulegum árangri þegar litið er til komutíma gestanna. Við lauslega skoðun á tölfræði er ekki að sjá að nokkur önnur þjóð hafi náð viðlíka árangri í jöfnun árstíðarsveiflunnar á þessum 10 árum," segir Magnús. Skapað enn frekari forsendur til arðsemi og atvinnusköpunarAukningin utan háannar hefur að sjálfsögðu í för með sér verulega aukningu í tekjum af ferðamönnum. "Nú í vetur má gera ráð fyrir að hér verði um 200.000 erlendir ferðamenn, sem skili um 15 milljörðum króna í þjóðarbúið vegna kaupa á vörum og þjónustu Fyrir 10 árum voru hér um 60.000 erlendir gestir utan háannar sem skildu eftir um 4 milljarða vegna neyslu í landinu. Þessi árangur hlýtur að hafa gjörbreytt forsendum til heilsársreksturs fjölda fyrirtækja í greininni og þannig skapað enn frekari forsendur til arðsemi og atvinnusköpunar" segir Magnús. Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.  
Lesa meira

Mikil aukning ferðamanna fyrstu níu mánuði ársins

Í septembermánuði síðastliðnum fóru 30.900 erlendir ferðamenn um Leifsstöð, samkvæmt talningum Ferðamálaráðs. Þetta er aukning um ríflega 1.840 gesti sé miðað við sama mánuð í fyrra, eða 6,3%. Með tölum fyrir september liggur jafnframt fyrir fjöldi ferðamanna fyrstu þrjá fjórðunga ársins. Séu tölur bornar saman á milli ára kemur í ljós að fjölgun ferðamanna frá áramótum nemur 14,4% eða 37.344 manns. Í lok september í ár höfðu þannig um 297.300 erlendir gestir farið um Leifsstöð m.v. 259.961 á sama tímabili í fyrra. Um helming aukningarinnar fyrstu 9 mánuði ársins, má rekja til aukningu ferðamanna frá Danmörku, Bretlandi, Bandaríkjunum og Japan. Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs er þessi vöxtur í samræmi við væntingar og í takt við stóraukna markaðssókn fyrirtækja og stjórnvalda undangengin misseri. Nánari samanburð á milli mánaða má sjá í töflunum hér að neðan. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs eru aðgengilegar hér inn á vefnum undir liðnum "Tölfræði".   Fjöldi ferðamanna í september* Þjóðerni 2002 2003 2004 Mism. 03-04 % Bandaríkin 4.172 4.554 4.530 -24 -0,5% Bretland 3.271 4.179 4.469 290 6,9% Danmörk 2.143 2.561 3.612 1.051 41,0% Finnland 676 715 813 98 13,7% Frakkland 1.653 1.487 1.403 -84 -5,6% Holland 940 844 1.085 241 28,6% Ítalía 393 546 525 -21 -3,8% Japan 337 388 665 277 71,4% Kanada 271 310 341 31 10,0% Noregur 2.711 2.331 2.549 218 9,4% Spánn 341 481 537 56 11,6% Sviss 322 324 298 -26 -8,0% Svíþjóð 2.190 2.665 2.693 28 1,1% Þýskaland 2.547 4.544 3.420 -1.124 -24,7% Önnur þjóðerni 2.586 3.129 3.960 831 26,6% Samtals 24.553 29.058 30.900 1.842 6,3%             Ísland 20.201 25.170 30.055 4.885 19,4%             Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra farþega í Leifsstöð. *Hér eru ekki taldir með farþegar Norrænu eða farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.             Frá áramótum   2003 2004 Aukn. % Bandaríkin 37.054 40.742 3.688 10,0% Bretland 43.153 48.327 5.174 12,0% Danmörk 20.015 27.343 7.328 36,6% Finnland 5.596 6.330 734 13,1% Frakkland 19.030 19.732 702 3,7% Holland 9.360 9.926 566 6,0% Ítalía 8.395 8.866 471 5,6% Japan 3.117 5.801 2.684 86,1% Kanada 2.119 2.775 656 31,0% Noregur 19.188 21.717 2.529 13,2% Spánn 4.808 5.351 543 11,3% Sviss 5.878 6.733 855 14,5% Svíþjóð 19.897 21.941 2.044 10,3% Þýskaland 34.269 35.997 1.728 5,0% Önnur þjóðerni 28.082 35.724 7.642 27,2% Samtals 259.961 297.305 37.344 14,4%           Ísland 223.021 266.400 43.379 19,5%  
Lesa meira

Íslendingar hljóta gull- og silfurverðlaun í nemakeppni AEHT

Nemendur af ferðamálabraut og úr Hótel- og veitingaskóla Menntaskólans í Kópavogi komu sáu og sigruðu í nemakeppni í eftirréttagerð og í ferðakynningum í Bled í Slóveníu fyrr í mánuðinum. Keppnin var haldin í tengslum við aðalfund Evrópusamtaka hótel- og ferðamálaskóla, AEHT, sem stóð yfir í Bled dagana 12. - 17. október s.l. Keppnin í ár var liðakeppni og lið íslenska nemandans í ferðakynningum hlaut gullverðlaun og lið íslenska nemandans í eftirréttagerð, silfurverðlaun. Fulltrúar skólans sem fóru á aðalfundinn voru Sigríður Þrúður Stefánsdóttir, fagstjóri ferðagreina sem er fulltrúi Íslands í framkvæmdarstjórn AEHT, Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri bakaranáms sem hefur séð um þjálfun bakaranemans og Ásdís Vatnsdal, kennari og verkefnastjóri erlendra samskipta sem fylgdi ferðamálanemanum. Nemendurnir eru Guðrún Birna Brynjarsdóttir, nemi á ferðamálabraut MK og Svanur Már Scheving, bakaranemi í Hótel- og matvælaskóla MK. Góður árangur Íslands vekur athygliÍ frétt frá Menntaskólanum í Kópavogi kemur fram að AEHT eru stærstu samtök hótel- og ferðamálasamtaka í Evrópu með yfir 300 skólum frá um 35 löndum. Það er því hörð samkeppni í nemakeppnunum. Þetta er sjöunda árið sem íslenskir nemendur frá MK sækja keppni AEHT og sjötta árið sem Íslendingar verma verðlaunasæti. Nemar í bakstri hafa þrisvar áður hneppt 1. verðlaun fyrir eftirrétt, árið 1998, 2001, 2003 og nú 2004. Nemar í ferðafræðum hlutu silfurverðlaun í ferðamálakeppni, árið 1999 og gullverðlaun nú, árið 2004. Árangur Íslendinga vekur umtalsverða athygli á Evrópuvettvangi AEHT. Auk þess að ná svo góðum árangri í nemakeppnunum hafa fulltrúa skólans verið eftirsóttir til starfa á vettvangi framkvæmdarstjórnar samtakanna og sem dómarar í keppnum. Íslendingar eru því svo sannarlega farnir að setja mark sitt á starfsemi AEHT.  
Lesa meira

Ferðamálasamtök Íslands skora á stjórnvöld að endurskoða fjárlagafrumvarpið

Á stjórnarfundi Ferðamálasamtaka Íslands, sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri 14. október síðastliðinn, var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að endurskoða tillögur sínar í fjárlögum fyrir árið 2005 er snýr að framlögum til ferðamála. Orðrétt segir í ályktuninni: "Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands skorar á fjármálaráðherra, fjárlaganefnd og aðra þingmenn að endurskoða tillögur sínar í fjárlögum fyrir árið 2005, þar sem lagt er til að lækka til muna framlög til ferðamála. Það getur ekki verið rökrétt að draga úr slagkrafti þeirrar atvinnugreinar sem hefur undanfarin ár verið helsti vaxtarsproti í íslensku atvinnulífi og átt stóran þátt í miklum hagvexti þjóðarinnar. Það væri mikill skaði ef skera á niður framlög sem stjórnvöld hafa veitt til grunnþátta ferðaþjónustunnar eins og framlög til upplýsingamiðlunar, upplýsingamiðstöðva og markaðssetningar innanlands, ekki síst með skýrskotun til þess að ferðamenn á eigin vegum eru nú mun fleiri en þeir sem koma í hópum. Einnig væri það mikill skaði ef minnka á framlög til faglegrar kynningar og markaðssetningar landsins erlendis í samvinnu við atvinnugreinina."  
Lesa meira