Ferðamönnum fjölgar um 15% fyrstu 8 mánuði ársins

Ágústmánuður síðastliðinn sló öll fyrri met hvað varðar fjölda erlendra ferðamanna hingað til lands. Samkvæmt talningum Ferðamálaráðs fóru 64.534 erlendir gestir um Leifsstöð í mánuðinum, nokkru fleiri en í júlí síðastliðnum og nærri 6.000 fleiri en í ágúst í fyrra. Frá áramótum hefur ferðamönnum fjölgað um 15.4% og nemur fjölgunin um 35.000 manns.

Ánægjulegt er að sjá þann kraft sem ríkir á helstu markaðssvæðum Íslands. Þannig eru Bretland og Bandaríkin með um 20% aukningu á milli ára og Þýskaland og önnur ríki Mið-Evrópu um 10%. Dönum fjölgaði um nærri 30% en fækkun var frá hinum Norðurlöndunum. Þjóðverjar voru sem fyrr fjölmennastir í hópi þeirra erlendu gesta sem hingað komu í ágúst, eða tæplega 11 þúsund.

"Þessar tölur eru áframhald þeirrar ánægjulegu þróunar sem verið hefur og enn frekari staðfesting á því að markaðsaðgerðir undanfarinna missera eru að skila okkur tilætluðum árangri. Þær sýna að við erum að uppskera ríkulega af samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar og vonandi að framhald verði á þessari ánægjulegu þróun," segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands.

Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda ferðamanna á ágúst síðastliðnum og samanburð við fyrri ár.

 

Fjöldi ferðamanna í ágúst*
Þjóðerni 2002 2003 2004 Mism.
03-04
%
Bandaríkin 5.848 6.454 7.722 1.268 19,6%
Bretland 5.573 7.270 8.804 1.534 21,1%
Danmörk 2.765 3.156 4.068 912 28,9%
Finnland 882 925 918 -7 -0,8%
Frakkland 5.197 5.908 6.429 521 8,8%
Holland 1.871 2.161 2.235 74 3,4%
Ítalía 3.674 4.255 4.001 -254 -6,0%
Japan 698 723 1.405 682 94,3%
Kanada 227 496 515 19 3,8%
Noregur 2.528 3.015 2.658 -357 -11,8%
Spánn 1.524 1.988 2.395 407 20,5%
Sviss 1.965 2.275 1.965 -310 -13,6%
Svíþjóð 3.206 3.560 3.091 -469 -13,2%
Þýskaland 9.060 9.959 10.861 902 9,1%
Önnur þjóðerni 5.519 6.618 7.467 849 12,8%
Samtals 50.537 58.763 64.534 5.771 9,8%
           
Ísland 50.537 58.763 33.275 -25.488 -43,4%
           
Heimild: Ferðamálaráð Íslands, brottfarir erlendra farþega í Leifsstöð.
*Hér eru ekki taldir með farþegar Norrænu eða farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.

 


Athugasemdir