Fréttir

Viðurkenning til Hótel Búða

Breska blaðið "The Independent" útnefndi á dögunum Hótel Búðir á Snæfellsnesi sem eitt af fimm bestu sjávarsíðuhótelum í heimi. Er þetta önnur viðurkenningin af þessu tagi sem Hótel Búðum áskotnast á skömmum tíma en eins og greint var frá hér á vefnum komst hótelinð einnig á svonefndan "Hotlist" hins virta ferðatímarits "Condé Nast Traveler" yfir 100 bestu nýju hótel í heimi. The Independent segir í rökstuðningi sínum að á Hótel Búðum sé raunar meiri jöklasýn en útsýni til sjávar en hótelið sé á staðnum þar sem Jules Verne lét söguna Leyndardóma Snæfellsjökuls gerast. Greint er frá því að hótelið hafi áður verið lítill sjávarréttastaður og gistiheimili en hafi orðið eldi að bráð fyrir nokkrum árum. Er þess getið að þar hafi nóbelskáldið Halldór Kiljan Laxnes stundum dvalið við skriftir. Hið nýja hótel sé endurbætt útgáfa hins eldra og skarti m.a. ljósmyndum frá síðustu öld og glerlömpum sem eldurinn hafi ekki náð að granda. Hin hótelin fjögur sem blaðið velur eru J Sweden í sænska skerjagarðinum, The Caves á Jamaíka, Portixol í Palma á Mallorca og Deseo í Mexíkó. Grein The Independent Mynd af vef Hótel Búða  
Lesa meira

"Our future is now" Evrópusamstarf og EUTO ráðstefna á Íslandi

Dagana 1.- 4. september 2004 verður haldinn á Íslandi aðalfundur og árleg ráðstefna EUTO, European Union of Tourist Officers sem eru Evrópusamtök forsvarsmanna í ferðaþjónustu í Evrópulöndum. Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi FFÍ er aðili að EUTO og annast umsjón ráðstefnunnar hérlendis í samvinnu við stjórn EUTO og Hólaskóla sem er faglegur samstarfsaðili. Í tengslum við ráðstefnuna hefur verið skipulögð námsferð fyrir erlendu gestina, þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér íslenska ferðaþjónustu með megin áherslu á umhverfi og menningu. Gestirnir munu m.a. ferðast um Norðurland, Vesturland og Suðurland þar sem ýmis verkefni verða kynnt. EUTO ráðstefnan, sjálf fer fram á Hótel Loftleiðum í Reykjavík 2. og 3. september og hafa rúmlega 60 erlendir gestir frá ýmsum Evrópulöndum skráð sig auk Íslendinga. Fundirnir í Reykjavik eru opnir öllum, en nauðsynlegt er að skrá sig fyrirfram og greiða þátttökugjald. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna á heimasíðum FFÍ og EUTO. Meginmarkmið FFÍ er að efla fagmennsku á fjölbreyttan máta og taka þátt í þróunarstarfi í ferðaþjónustu innanlands og á alþjóðlegum vettvangi og nýtur FFÍ stuðnings Byggðastofnunar við þau verkefni. FFÍ er fagfélag starfandi upplýsinga-, markaðs-, ferðamálafulltrúa, og forstöðumanna upplýsingamiðstöðva stofnað árið 2000. Stjórn félagsins skipa nú; Haukur-Suska Garðarsson, Húnavatnssýslu, ritari, Auróra Friðriksdóttir, Vestmannaeyjum, gjaldkeri og Ásborg Arnþórsdóttir Uppsveitum Árnessýslu formaður. Dagskrá ráðstefnunnar (pdf-41KB).Skráningareyðublað (pdf-15KB).  
Lesa meira

Flokkun gististaða víða um heim.

Nýlega var unnin samantekt á heimsvísu yfir flokkun gististaða. Þessi samantekt var unnin að frumkvæði Alþjóða Ferðamálaráðsins (WTO) og Alþjóða Hótel- og Veitingasambandsins (IH&RA). Í þessari samantekt kemur fram að í dag er ekkert til sem heitir samræmt flokkunarkerfi, en frá árinu 1952 hafa ýmsir aðilar verið að kalla eftir slíku viðmiði.  Könnun þessi var gerð í tæplega 200 löndum og er margt áhugavert sem kemur fram í svörum þeirra sem tóku þátt. M.a. kemur fram að í 83 löndum er til opinbert flokkunarkerfi fyrir hótel á meðan einungis í 23 löndum er til kerfi sem tekur á annarri tegund gistingar en hótelum. Í flestum löndum eru það opinberir aðilar í samvinnu við greinina (samtök hótela og gistihúsa) sem standa að flokkuninni. Í 46 löndum er flokkunin lögboðin. Í 55 löndum fá gististaðir ekki rekstrarleyfi nema að vera flokkaðir og í 32 löndum er flokkunin valkvæð eins og hér á landi þ.e. ekki skylda. Einnig eru víða mörg kerfi í gangi eins og t.d. á Bretlandseyjum en þar eru 4 mismunandi kerfi notuð (England, Skotland, Wales og Norður Írland).  Það sem menn telja að standi helst í vegi fyrir einu alþjóðlegu flokkunarviðmiði eru mismunandi og flóknir menningarheimar. Þannig að lausnin gæti verið að hver álfa væri með sitt kerfi, eins og er að skapast hér á norðurlöndunum en í dag eru gististaðir í Danmörku, Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og í Svíþjóð flokkaðir með samskonar kerfi. Samantektin í heild sinni er áhugaverð lesning sem hægt er að nálgast hana á heimasíðu Alþjóða Ferðamálaráðsins (PDF-Skjal).  
Lesa meira

Kynnisferðir og Austurleið SBS sameinast

Kynnisferðir hafa keypt bróðurpart hlutafjár í Austurleið SBS. Nafn nýja félagsins verður Kynnisferðir en reknar verða þrjár deildir innan fyrirtækisins: Flugrútan, Austurleið og Reykjavik Excursions. Framkvæmdastjóri félagsins er Stefán Eyjólfsson og staðgengill hans verður Þráinn Vigfússon sem einnig er fjármála og upplýsingastjóri félagsins. Kynnisferðir og Austurleið SBS hafa um árabil átt nána samvinnu og var eignarhlutur Kynnisferða í Austurleið SBS rúmlega 30% fyrir kaupin. Aðaleigandi Kynnisferða er Icelandair.  
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2004

Líkt og undanfarin ár munu yfirvöld ferðamála veita umhverfisverðlaun á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður á Kirkjubæjarklaustri í okóber næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem þykja hafa skarað framúr í umhverfismálum. Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 15. september n.k. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Við tilnefningu til umhverfisverðlauna er vert að hafa í huga að viðkomandi hafi skýr markmið í umhverfismálum. Markmið með umhverfisvænni ferðamennsku eru:Að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi. Umhverfisvæn ferðamennska er samspil þriggja þátta; ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með tölvupósti valur@icetourist.is Nánar um Umhverfisverðlun Ferðamálaráðs  
Lesa meira

Mikill árangur markaðsstarfs Ferðamálaráðs í samvinnu við atvinnugreinina.

-Á þriðja hundrað þúsund ferðamenn frá áramótum. Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs á erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að mikill vöxtur er í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Frá áramótum til júlíloka komu á þriðja hundrað þúsund erlendir ferðamenn til landsins, ríflega 17% fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukning er frá öllum aðal markaðssvæðum Íslands. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs er hér um að ræða afrakstur mikillar markaðsherferðar síðustu misserin í samvinnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á öllum markaðssvæðum sem áhersla hefur verið lögð á. Norðurlandabúum fjölgar mestErlendir ferðamenn voru 201.871 fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs á móti 172.140 á sama tíma í fyrra. Aukningin nam tæpum 30 þúsund ferðamönnum eða 17,3%. Mest var fjölgunin meðal Norðurlandabúa. Þannig fjölgaði Dönum um 5.365 (37,5%), Norðmönnum um 2.668 (19,3%), Svíum um 2.485 (18,2%) og Finnum um 643 (16,3%). Sömuleiðis er góð aukning frá öðrum lykil markaðssvæðum. Frá Norður-Ameríku var rúm 11% fjölgun, 10,6% frá Bretlandi og tæp 10% frá Þýskalandi. Þá má einnig nefna að umferð Japana hefur aukist verulega. Ekkert land undir 10% fjölgun í júlíÍ júlí fjölgaði erlendum ferðamönnum um samtals 11.668 manns á milli ára, eða um 22,2%. Þannig komu 64.275 manns í júlí nú á móti 52.607 í fyrra. Má fullyrða að aldrei hafi fleiri ferðamenn komið til landsins í einum mánuði. Sem fyrr eru Þjóðverjar fjölmennastir ferðamanna í júlí og fjölgar um 11,6% á milli ára. Ánægjulegt er að sjá verulega aukningu í komum ferðamanna frá Norður-Ameríku, þ.e. 17,5% frá Bandaríkjunum og 175,4% frá Kanada. Svipaða sögu er að segja af öðrum markaðssvæðum og nægir að benda á að ekkert þeirra landa sem mæld eru sérstaklega í talningunni sýnir undir 10% fjölgun ferðamanna. Það hljóta að teljast góð tíðindi fyrir þennan mánuð sem árlega er sá stærsti hjá íslenskri ferðaþjónustu og að þessu sinni sá stærsti frá upphafi vega. Maí og júní með góða aukninguSé litið til maímánaðar þá fjölgaði erlendum ferðamönnum um 26,4% miðað við sama tíma í fyrra, eða um 5.373 manns. Flestir ferðamenn í maí komu frá Bandaríkjunum en Norðurlandabúum fjölgaði mest. Stærstan hluta þeirrar fjölgunar eiga Danir en þeim fjölgaði um 1.444 manns, sem er 92% hækkun. Í júní fjölgaði erlendum ferðamönnum um 10% á milli ára eða um 3.651. Þar má t.d. benda á góða fjölgun Breta (23%) og Japana (62%), sem og áframhaldandi góða aukningu frá Norðurlöndunum. Hins vegar var nokkur samdráttur í komum Frakka og Spánverja og einnig Þjóðverja. Í júlí var vöxtur frá öllum löndum. Öll markaðssvæðin í sóknAð sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs sækja öll markaðssvæðin í sig veðrið. "Við höldum úti markaðsskrifstofum í Frankfurt fyrir meginland Evrópu, New York fyrir Bandaríkin og í Kaupmannahöfn fyrir Norðurlöndin auk Bretlands sem er þjónað frá Íslandi. Í öllum tilvikum vinnum við með atvinnugreininni að fjölbreyttum markaðsverkefnum sem að stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé. Stjórnvöld hafa staðið vel við bakið á þessari ungu atvinnugrein með miklu fjárframlagi í markaðssetningu, og er það lykilatriði til að halda áframhaldandi vexti í greininni" segir Ársæll. Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda ferðamanna frá áramótum. Þá eru niðurstöður talninganna í heild sinni aðgengilegar hér á vefum undir liðnum Tölfræði. Tölurnar eru í Excel-skjali og má nálgast það með því að smella hér.   Janúar - júlí   2003 2004 Aukning % Bandaríkin 26.046 28.490 2.444 9,4% Bretland 31.704 35.054 3.350 10,6% Danmörk 14.298 19.663 5.365 37,5% Finnland 3.956 4.599 643 16,3% Frakkland 11.635 11.900 265 2,3% Holland 6.355 6.606 251 3,9% Ítalía 3.594 4.340 746 20,8% Japan 2.006 3.731 1.725 86,0% Kanada 1.313 1.919 606 46,2% Noregur 13.842 16.510 2.668 19,3% Spánn 2.339 2.419 80 3,4% Sviss 3.279 4.470 1.191 36,3% Svíþjóð 13.672 16.157 2.485 18,2% Þýskaland 19.766 21.716 1.950 9,9% Önnur þjóðerni 18.335 24.297 5.962 32,5% Samtals 172.140 201.871 29.731 17,3%           Ísland 168.464 203.871 34.606 20,5%  
Lesa meira

Gistinóttum fjölgaði um 7% á fyrri helmingi ársins

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í júní síðastliðnum. Þar með liggja jafnframt fyrir tölur um gistináttafjölda á fyrri helmingi ársins. Gistinóttum á hótelum í júní fjölgaði um 11% milli áraGistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 111.656 en voru 100.570 árið 2003. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Aukningin var mest á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 12.511 í 14.816 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%. Á Norðurlandi eystra og vestra nam aukningin tæpum 14% þegar gistinæturnar fóru úr 10.633 í 12.108. Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum 70.375 en voru 63.521 árið 2003, sem er aukning um tæp 11%. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um tæp 8%, en gistináttafjöldinn fór úr 8.948 í 9.643 milli ára. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum um tæp 5%, fóru úr 4.957 í 4.714. Gistináttafjöldi á hótelum janúar-júní jókst um rúm 7% milli áraEf skoðaðir eru fyrstu sex mánuðir ársins miðað við árið í fyrra má sjá að gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Heildargistináttafjöldinn fyrir allt landið var 415.060 miðað við 386.441 árið 2003. Aukningin var þó hlutfallslega mest á Austurlandi, eða rúm 26%. Á öðrum landsvæðum nam aukningin 5-8% fyrir tímabilið janúar-júní. Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega. Hlutfallsleg meiri fjölgun í gistinóttum ÍslendingaGistinóttum Íslendinga fjölgaði hlutfallslega meira en gistinóttum erlendra hótelgesta. Í júní fjölgaði gistinóttum Íslendinga á hótelum um 18% á milli ára en erlendum hótelgestum fjölgaði um 10%. Sé litið til fyrstu 6 mánaða ársins fjölgaði gistinóttum Íslendinga um tæp 11% og gistinóttum útlendinga um rúm 6%.  
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2004 verður á Kirkjubæjarklaustri

Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands. Hún verður að þessu sinni haldin á Kirkjubæjarklaustri dagana 14.-15. október næstkomandi. Leitast við að ræða það sem efst er á baugiÁ ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Dagskráin verður nánar auglýst síðar en þess má þó geta undanfarin ár hafa umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs verið afhent í tengslum við ráðstefnuna. Opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustuRáðstefnan á Klaustri verður sú 34. í röðinni en síðasta ferðamálaráðstefnan var haldin í Mývatnssveit. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Ráðstefnan er jafnan haldin utan suðvesturhornsins og hafa heimamenn í hvert sinn jafnframt getað notað tækifærið til að kynna svæði sitt. Ýmis mál verið ræddÁ undangengnum ferðamálaráðstefnum hafa fjölmörg mál verið tekin til umræðu. Meginefnið síðast voru markaðsmálin en af öðrum umræðuefnum á síðustu árum má nefna skýrsluna "Auðlindin Ísland", menningartengda ferðaþjónustu, tækifæri landsbyggðar í ferðaþjónustu, rannsóknir, vöruþróun og arðsemi í ferðaþjónustu, gæðamál, ferðaþjónustu utan háannar, fjárfestingar í ferðaþjónustu og umhverfismál. Hvert umræðuefnið verður á Kirkjubæjarklaustri skýrist seinna í sumar. Mynd fengin af vef Kirkjubæjarklausturs  
Lesa meira