Fréttir

Vefur um reiðleiðir

 Á dögunum var opnuð kynningarútgáfa af vefsíðu um reiðleiðir á Íslandi. Um er að ræða samvinnuverkefni Landssambands hestamannafélaga, Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands sem hafa komið sér saman um að hefja söfnun hnitsettra upplýsinga um reiðleiðir á öllu landinu og gera þau gögn aðgengileg fyrir almenning. Landssamband hestamannafélaga sér um söfnun gagna um allt land í samvinnu við hestamenn og hestamannafélögin í landinu. Landmælingar Íslands vinna úr og koma gögnum í landfræðilegt upplýsingakerfi auk þess að setja gögnin á vefinn. Vegagerðin vinnur að stöðlun skráningaratriða og sér um að veita upplýsingar um viðurkenndar reiðleiðir. Ætlunin er að byggja upp reiðleiðagagnasafn af öllu landinu sem birt verður á kortaskjá og að gagnasafnið innihaldi m.a. upplýsingar um vöð, brýr, reiðgöng, áningarstaði, beitarhólf, staði þar sem hægt er að fá hey á, skeiðvelli, réttir, hindranir á leið, hesthúsahverfi og vörður á reiðleiðum. Með samstarfi þessara aðila er ætlunin að tryggja samræmd vinnubrögð, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja aðgang samfélagsins að því hvar á landinu er að finna reiðleiðir og í hvaða ástandi þær eru. Útgáfan sem birtist á kortaskjá Landmælinga Íslands er kynningarútgáfa á því sem koma skal. Nánari upplýsingar má sjá hér.  
Lesa meira

Endurbættur bæklingur um öryggi á ferðalögum

Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Vegagerðina, Umhverfisstofnun og Umhverfisstofu gáfu í vor út endurbætta útgáfu af bæklingi um akstur og fleira er lýtur að öryggi á ferðalögum á Íslandi. Bæklingurinn, sem á ensku nefnist "Have a safe journey", er prentaður á þremur tungumálum og er hann hugsaður fyrir ferðamenn sem hingað koma erlendis frá. Honum er m.a. dreift hjá bílaleigum sem koma honum áfram til ferðamanna sem taka bíl á leigu. Bæklingurinn er jafnframt aðgengilegur á Netinu og þar er hann á sex tungumálum, þ.e. ensku, þýsku, norsku, frönsku, ítölsku og spænsku. Meðal þess sem farið er yfir í bæklingnum er mikilvægi þess að vanda undirbúning fyrir ferðalög um landið, bennt er á síbreytileika íslensks veðurfars og farið er yfir ýmsar einfaldar öryggisreglur sem þó getur skipt sköpum að sé fylgt. Akstur og öryggisreglur sem honum tengjast fá góða umfjöllun og sérstaklega er farið yfir akstur á hálendinu. Einnig er komið inn á öryggisatriði í sambandi við gönguferðir, jöklaferðir og þegar fólk ferðast á reiðhjóli eða hestbaki. Þá er farið yfir helstu umferðarmerki og birtur listi yfir þjónustuskilti, svo nokkuð sé nefnt. Bæklingurinn er sem fyrr segir aðgengilegur á Netinu á sex tungumálum, m.a. á vef Landsbjargar.  
Lesa meira

Kínverskar ferðaskrifstofur með leyfi

Eins og fram hefur komið skrifuðu Ísland og Kína fyrr á árinu undir samkomulag um ferðamál (svonefndan ADS-samning "Approved Destination Status") sem m.a. gerir Kínverjum kleift að ferðast til Íslands í skipulögðum hópum. Utanlandserðir Kínverja hafa aukist hröðum skrefum að undanförnu og búist er við áframhaldi þar á. Nú er kominn hér inn á vefinn listi yfir kínverskar ferðaskrifstofur sem hafa leyfi til að skipuleggja ferðir til annarra landa, þar með talið Íslands. Listinn er á PDF-formi og til að opna hann þarf forritið Acrobat Reader að vera uppsett á viðkomandi tölvu. Kínverskar ferðaskrifstofur með leyfi (PDF-skrá, 2 MB)  
Lesa meira

Tekjukönnun SAF fyrir júní

Samtök ferðaþjónustunnar hafa birt niðurstöður úr tekjukönnun meðal gististða í júní. Sú breyting hefur orðið að samið hefur verið við Deloitte endurskoðendur um gagnaöflun og vinnslu á könnuninni Niðurstöður tekjukönnunar í júní 2004 eru eftirfarandi: Reykjavík:Meðalnýting 83,51% / Meðalverð kr. 11.221 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 281.132Skipt eftir stjörnugjöf:*** Meðalnýting 81,55% / Meðalverð kr. 9.429 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 230.666**** Meðalnýting 85,41% / Meðalverð kr. 12.871 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 329.779 LandsbyggðinMeðalnýting 61,07% / Meðalverð kr. 8.642 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 158.343 Landsbyggðin án Keflavíkur og Akureyrar:Meðalnýting 54,96% / Meðalverð kr. 8.455 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 139.412 Varðandi eldri tölur er vísað á heimasíðu SAF.  
Lesa meira

Tilkynning frá SAF vegna frétta um ástand brunavarna á gististöðum

Samtök Ferðaþjónustunnar sendu í dag frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar í fjölmiðlum á dögunum um ástand brunavarna á gististöðum. Þar er m.a. ákveðnum spurningum beint til brunayfirvalda í landinu. Gististaðir með óviðunandi brunavarnir eiga ekki að hafa starfsleyfi Vegna umfjöllunar um ástand brunavarna á gististöðum og viðtals við brunamálastjóra í fjölmiðlum um helgina vilja Samtök ferðaþjónustunnar taka fram eftirfarandi: Það er óþolandi fyrir ferðaþjónustuna í landinu að Brunamálastofnun skuli ítrekað birta skýrslur um að tiltekinn hluti gististaða í landinu, hvort sem það eru veiðihús, heimavistaskólar eða aðrir gististaðir, séu með slæmt eða óviðunandi ástand á brunavörnum sínum. Allir þessir gististaðir þurfa starfsleyfi skv. lögum um veitinga- og gististaði og eru þau ekki veitt nema viðkomandi eldvarnareftirlit gefi jákvæða umsögn til sýslumanns. Skýring á þessu ástandi getur því aðeins verið sú að brunamálayfirvöld eða sýslumenn á viðkomandi svæðum veiti leyfi án þess að uppfylla ákvæði laga og reglugerða. Spurning samtakanna til brunamálayfirvalda hlýtur að vera sú: Hvers vegna hafa gististaðir sem fá einkunnina "óviðunandi" eða "slæmt" fengið starfsleyfi? Öryggismál eru mikilvægt viðfangsefni Samtaka ferðaþjónustunnar sem hafa oft gengið á fund brunamálastjóra í gegnum tíðina og óskað eftir samstarfi og gerðu m.a. sömu athugasemdir við skýrslu sem kom út árið 2000 og nú eru gerðar. Nánari upplýsingar gefurErna Hauksdóttir, framkvæmdastjóriSamtök ferðaþjónustunnarGsm: 822-0057  
Lesa meira

Myndir úr 40 ára afmælishófi Ferðamálaráðs Íslands

Þann  7. júlí síðastliðinn var þess minnst að  40 ár voru liðin frá fyrsta fundi Ferðamálaráðs Íslands en hann var haldinn 7. júlí 1964. Af þessu tilefni var efnt til móttöku og þangað boðið m.a. öllum sem setið hafa í ráðinu á þessum tíma, sem og öllum samgönguráðherrum á þessu tímabili. Var því margt um manninn og glatt á hjalla, enda mörg skemmtileg atvik frá liðnum árum rifjuð upp. Skoða myndir voru teknar í afmælishófinu. 
Lesa meira

Flokkuðum gististöðum fjölgar

Að undanförnu hefur fjölgað þeim gististöðum sem taka þátt í flokkun gististaða með stjörnugjöf. M.a. hafa nú öll KEA hótelin verið flokkuð, einnig Hótel Þórshamar í Vestmannaeyjum og fleiri bíða eftir úttekt. Eins og greint var frá fyrr á árinu hefur sú breyting orðið á framkvæmd flokkunarinnar að gististaðir eru heimsóttir og skoðaðir af starfsmanni Ferðamálaráðs en ekki utanaðkomandi verktaka eins og verið hefur. Öldu Þrastardóttur verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði var falið verkefnið og hefur hún farið vítt og breitt um landið síðustu vikur til að taka út gististaði. Með þessari breytingu, ásamt öðrum skipulagsbreytingum, var hægt að lækka kostnað við flokkunina um 20% og tók ný gjaldskrá gildi fyrr á árinu. M.a. er nú ódýrara fyrir minni gististaði að taka þátt. Nýtt flokkunarviðmiðÞá má geta þess að nýtt flokkunarviðmið hefur verið samþykkt og verða gististaðir flokkaðir eftir þessu nýja viðmiði frá og með 1. janúar 2005. Breytingar þær sem nú hafa verið samþykktar eru hliðstæðar nýjum viðmiðum er tóku gildi í Danmörku um sl. áramót og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru flokkaðir eftir. Nánar um flokkun gististaða  
Lesa meira

Nýr ferðavefur fyrir Íslendinga ? www.ferdalag.is

Ferðamálaráð Íslands hefur opnað nýjan ferðavef fyrir Íslendinga - www.ferdalag.is  Samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, opnaði vefinn í 40 ára afmælishófi Ferðamálaráðs á dögunum en við það tækifæri var endurnýjuðum landkynningarvef Ferðamálaráðs, www.visiticeland.com  hleypt af stokkunum. Við hönnun og smíði vefsins var haft að markmiði að safna saman á einn stað sem mestu af þeim upplýsingum sem nýst gætu Íslendingum við skipulagningu ferðalaga um eigið land. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um staðhætti og náttúrufar, skipt eftir landssvæðum og þar er komið inn á marga af áhugaverðustu staði landsins. Einnig er fjallað um akstur og umferð, útivist, göngugerðir, náttúruverndarsvæði o.fl. Upplýsingabrunnur um ferðalögStærsti hluti vefsins er síðan viðamikill gagnagrunnur sem byggður hefur verið upp á vegum Ferðamálaráðs Íslands á undanförnum árum. Í honum eru nú upplýsingar um vel á annað þúsund ferðaþjónustuaðila um allt land, ásamt ýmsum hagnýtum upplýsingum fyrir ferðafólk, bæði á ensku og íslensku. Má fullyrða að um er að ræða stærsta gagnagrunninn um íslenska ferðaþjónustu sem til er í dag og er hann alltaf að stækka. Í grunninum er m.a. að finna ítarlegar upplýsingar um gistingu, þ.e. hótel, gistiheimili, bændagistingu, farfuglaheimili, sumarhús, skála og tjaldsvæði. Einnig skipulagðar ferðir af öllu tagi og samgöngur, s.s. rútur, báta, flug, bílaleigur, strætisvagna og leigubíla. Þá er þar að finna upplýsingar um opnunartíma safna um allt land, lista yfir það sem er á döfinni, golfvelli, veiði, sundlaugar, reiðhjólaleigur og hestaleigur, svo nokkuð sé nefnt. Loks má nefna ýmsar fleiri hagnýtar upplýsingar, svo sem um upplýsingamiðstöðvar, ferðaskrifstofur, vegalengdir á milli staða og ýmislegt fleira.  Við gagnagrunnin hefur síðan verið tengd öflug leitarvél sem ætti að gagnast fólki vel við að skipuleggja ferð  sína um landið. Með því að nota hana getur fólk fundið upplýsingar um þá tegund þjónustustu sem það sækist eftir, í þeim landshluta þangað sem ferðinni er heitið. Tenging við aðra vefiLjóst er að einn vefur, þótt yfirgripsmikill sé, getur aldrei miðlað öllum þeim upplýsingum sem fólk sækist eftir. Því er einnig markmiðið með þessum nýja vef að hafa á einum stað tengingar við landshlutavefi með ferðaupplýsingum og aðra vefi sem gott er að hafa tiltæka þegar ferðalög um Ísland eru annars vegar.  
Lesa meira

Ferðamálaráð Íslands 40 ára

Miðvikudaginn 7. júlí 2004 eru liðin 40 ár frá því Ferðamálaráð Íslands tók til starfa, en fyrsti fundur ráðsins var haldinn 7. júlí 1964. Í móttöku sem efnt var til í dag vegna þessara tímamóta opnaði samgönguráðherra Sturla Böðvarsson nýjan og gjörbreyttan upplýsingavef Ferðamálaráðs www.icetourist.is . Nýji vefurinn er á 6 tungumálum en undanfarin misseri hefur vefurinn verið langmest sótti upplýsingavefur um ferðamál í landinu. Á vefnum er að finna heilsteyptan gagnagrunn um flest sem viðkemur ferðaþjónustu hér á landi þar á meðal er skrá yfir alla leyfisskylda aðila í íslenskri ferðaþjónustu. Á þeim 40 árum sem Ferðamálaráð hefur starfað hefur ferðamönnum sem leggja leið sína til Íslands fjölgað mikið. Fyrstu tíu árin (1965 til 1974) lögðu 510 þúsund erlendir ferðamenn leið sína til landsins, en síðustu 10 ár (1995-2004)var fjöldi erlendra ferðamanna sem komu til Íslands kominn í 2,6 milljónir. Því er spáð að næstu 10 ár muni rúmar 4 milljónir erlendra ferðamanna heimsækja Ísland. Til marks um aukið mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúskapinn má nefna að árið 1963 námu tekjur af ferðaþjónustu 0,8% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar en árið 2003 komu 13 % af gjaldeyristekjunum frá ferðaþjónustunni. Jón Karl Ólafsson formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að síðustu áratugi hafi íslensk ferðaþjónusta breyst úr því að vera nánast tómstundaiðja eða aukabúgrein í einn aðal atvinnuveg þjóðarinnar. "Það er ljóst að Ferðamálaráð hefur með samstarfi sínu við aðila innan ferðaþjónustunnar gengt lykilhlutverki í þeirri þróun sem orðið hefur" segur Jón Karl Ólafsson. Áhersla á umhverfismálFerðamaálaráð Íslands fer með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgönguráðuneytisins og er eina stjórnsýslustofnun ferðaþjónustunnar í landinu. Meðal verkefna sem ráðinu eru falin eru landkynning og markaðsmál, skipulagning og áætlunargerð um íslensk ferðamál og rannsóknir og kannanir í ferðamálum. Umhverfismál eru einnig vaxandi þáttur í starfsemi ráðsins en Ferðamálaráði ber að sjá til þess að helstu áfangastaðir ferðamanna séu undir það búnir að taka við þeim straumi fólks sem að þeim beinist á hverjum tíma. Þessi þáttur í starfsemi Ferðamálaráðs hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis því þannig er reynt að tryggja að ágangur verði ekki of mikill á einstaka ferðamannastaði. Síðustu þrjú ár hefur verið ráðstafað árlega um 50 milljónum króna til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn víða um land. Segja má að viss "einkavæðing" sé nú hafin í þessum efnum því á liðnu ári var ákveðið að úthluta 15 af þessum 50 milljónum til einkaaðila til uppbyggingar á stöðum sem ráðið samþykkir. Aukin umsvif - meira fjármagnFrá upphafi hefur verið unnið út frá því meginmarkmiði að dreifa heimsóknum ferðamanna sem mest um landið og á árstíðir. Umsvif Ferðamálaráðs Íslands hafa farið vaxandi á liðnum árum en auk skrifstofa í Reykjavík og á Akureyri og upplýsinga-miðstöðva í öllum landshlutum, rekur Ferðamálaráð í dag skrifstofur í New York í Bandaríkjunum og í Frankfurt í Þýskalandi. Fyrr á þessu ári opnaði ráðið síðan skrifstofu í Kaupmannahöfn. Þá hefur Ferðamálaráð yfirumsjón með rekstri Ráðstefnumiðstöðvar Íslands en hún var stofnuð árið 1992 af Ferðamálaráði, Flugleiðum og Reykjavíkurborg og leiðandi aðilum á sviði funda og ráðstefnuhalds. Árlega tekur Ferðamálaráð þátt í um 40 ferðamálasýningum og um 40 þúsund fyrirspurnum frá erlendum einstaklingum er svarað auk þess sem dreift er um hálfri milljón bæklinga fyrir ýmsa aðila í ferðaþjónustu. Starfsmenn Ferðamálaráðs Íslands eru í dag 22 en velta ráðsins á síðasta ári var um 400 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum hafa fjárveitingar til ferðamála liðlega þrefaldast á síðustu fjórum árum. Árið 1999 var 189,9 milljónum króna varið til ferðamála en árið 2003 var heildarupphæð fjárveitinga til ferðamála komin í 617 milljónir króna. Sígild viðfangsefniÞótt starfsemi Ferðamálaráðs hafi breyst mikið á undanförnum 40 árum þá eru viðfangsefnin sígild. Þannig gæti fyrsta erindið sem tekið var fyrir á fyrsta fundi ráðsins þann 7. júlí 1964 eins hafa verið til umræðu í dag en það erindi var frá stjórnvöldum sem leituðu álits Ferðamálaráðs á þeirri hugmynd að selja aðgang að Þórsmörk. Þá sem nú lagðist ráðið gegn hugmyndum um slíka gjaldtöku. Á fyrstu árum Ferðamálaráðs fór mikil vinna í svara beint erindum sem bárust, en í dag fer meiri tími í uppbyggingu rafrænna gagnagrunna þar sem hægt er að leita upplýsinga milliðliðlaust á vefnum. Til að gera þetta kleift hefur verið lögð aukin áhersla á ýmiskonar rannsóknir og kannanir á vegum ráðsins. Ferðamálastjóri var fyrst skipaður árið 1978 og hafa þrír menn gengt því starfi; Lúðvík Hjálmtýsson, Birgir Þorgilsson og núverandi ferðamálastjóri Magnús Oddsson. Alls hafa um 100 einstaklingar verið skipaðir í Ferðamálaráð þau 40 ár sem það hefur starfað en á afmælisdaginn var haldinn 658. fundur ráðsins frá upphaf. Það er samgönguráðherra sem skipar 7 fulltrúa í Ferðamálaráð í dag, en þegar flest var á árum áður sátu 23 fulltrúar í ráðinu. Núverandi formaður Ferðamálaráðs Íslands er Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.  
Lesa meira

Ferðaleikurinn "Á puttanum"

Um helgina hefst ferðaleikur Ferðamálaráðs, Shellstöðvanna og Símans sem kallast "Á puttanum". Leikurinn er liður í kynningarátaki Ferðamálaráðs "Ísland sækjum það heim". Íslendingar hvattir til að heimsækja upplýsingamiðstöðvarnarHugmyndin er að hvetja Íslendinga sem eru á ferðalagi til að heimsækja Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna, þjónustumiðstöðvar Símans og Shellstöðvar um land allt og afla sér upplýsinga um landið. Leikurinn gengur þannig fyrir sig að hver upplýsingamiðstöð hefur sitt ferðanúmer og þetta númer geta gestir sent með SMS í símanúmerið 1900. Þar með fara þeir í verðlaunapott með glæsilegum vinningum. Eftir því sem fleiri miðstöðvar eru heimsóttar og fleiri ferðanúmer send inn aukast líkur á vinningi en hvert SMS-skeiti kostar 29,90 krónur. Veglegir vinningarÍ hverri viku til 30. ágúst verða dregnir út eigulegir vinningar og verða vinningshöfum send SMS-skilaboð. Vinningar sem dregnir eru út vikulega eru 2 Sony Ericsson myndavélasímar, 5 Sony Ericsson GSM-símar, 20 GSM-sumarkort, 100 frelsisinneignir, 8 eldsneytisávísanir að upphæð 5.000 krónur hver og 4 gasgrill. Dregið verður úr sérstökum lokapotti þann 5. september um ævintýralega jeppa-hálendisferð með Hálendingum, hvalaskoðunarferð með Sæferðum, GSM-síma og gasgrill.  
Lesa meira