Fréttir

Tveir af hverjum þremur miðum Flugfélags Íslands seldir á Netinu

Salan á Netinu hjá Flugfélagi Íslands vex enn jafnt og þétt og eru nú um 67% af farmiðum félagsins keyptir beint þar. Þetta kemur fram í frétt af vef félagsins. Í fréttinni kemur fram að nú stefnir í að heildarsala á Netinu verði ekki undir 1,3 milljörðum króna á þessu ári og hefur vaxið um rúmlega 30% frá fyrra ári. "Við stefnum enn að aukinni sölu á Netinu, þar sem þessi sala er til mikils hægðarauka, bæði fyrir viðskiptavini og félagið. Nú á næstu vikum mun Flugfélagið taka í notkun nýja uppfærslu á bókunarkerfi sínu og mun það væntanlega auka enn möguleika á sölu á Netinu," segir á vef Flugfélags Íslands.  
Lesa meira

Mývatn ehf. fékk nýsköpunarverðlaun SAF

Samtök ferðaþjónustunnar afhentu í dag í fyrsta skipti nýsköpunarverðlaun samtakanna. Verðlaunin, 250 þúsund krónur og verðlaunaskjöld, fékk fyrirtækið Mývatn ehf. sem m.a. rekur Sel-Hótel Mývatn og Sel-Hótel Varmahlíð, ásamt því að standa fyrir hinum ýmsu viðburðum. Undanfarin ár hafa Yngvi Ragnar Kristjánsson og fjölskylda hans, sem eiga og reka Mývatn ehf., beitt sér fyrir margvíslegum nýjungum á sviði ferðaþjónustu, einkum utan háannar og er í forsendum dómnefndar sérstaklega vísað til kúluskítshátíðar, snjóhúss, jólasveinsins í Dimmuborgum og íshestakeppni. Kúluskítur er hringlaga þörungur sem vex eingöngu í tveimur vötnum í heiminum. Það eru Mývatn og Akanvatn í Japan. Við Akan hefur verið haldin kúluskítshátíð frá 1950 og er ein þekktasta hátíð Japana í dag. Á Mývatni var fyrsta kúluskítshátíðin haldin árið 2003 og tókst vel. Þá fékk Hótel Aldan á Seyðisfirði sérstaka viðurkenningu fyrir að gefa gömlum húsum nýtt líf en þar hafa gömul hús, sem reist voru um aldamótin 1900, fengið nýtt líf sem hótel. Um er að ræða nýjung í menningartengdri ferðaþjónustu. Þegar hafa tvö hús verið tekin í notkun og áætlað er að taka fleiri hús í framtíðinni. Formaður dómnefndar nýsköpunarsjóðs SAF er Jón Karl Ólafsson, formaður samtakanna.     Yngvi Ragnar Kristjánsson hefur ásamt fjölskyldu sinni staðið fyrir ýmsum nýjungum.  
Lesa meira

Ómetanleg Íslandkynning í "The Amazing Race"

Milljónir sjónvarpsáhorfenda í Bandaríkjunum fengu Ísland inn á stofugólf hjá sér í gærkvöld þegar sjötti hluti "The Amazing Race" þáttaraðarinnar hófst á CBS sjónvarpsstöðinni. Þættirnir eru Íslendingum einnig að góðu kunnir en þeir eru sýndir á Stöð 2. "The Amazing Race" hefst sem sagt á Íslandi að þessu sinni en um er að ræða sérstakan tveggja klukkustunda "upphitunarþátt" áður en sjálf keppnin hefst. Seinna í þáttaröðinni verður síðan aftur sýnt frá Íslandi. Þættirnir voru teknir upp hérlendis síðastliðið sumar, bæði í Reykjavík og víðar um land. Ljóst er að hér er um gríðarlega öfluga landkynningu að ræða enda þættirnir eitt vinsælasta sjónvarpsefni veraldar í dag og unnu m.a. til Emmy verðlaunanna. Mikill sigur að Ísland skyldi verða fyrir valinuSkrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York, Iceland Naturally, Icelandair og fleiri aðilar áttu stærstan þátt í því að gera Íslandsferð "The Amazing Race" að veruleika og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs, segir menn hreinlega í skýjunum með árangurinn. "Staðreyndin er sú að CBS var búin að taka upp 4 eða 5 þætti en valdi þáttinn um Ísland til að byrja þáttaröðina. Markmið þeirra er að ná sem mestu áhorfi og mestri athygli strax í byrjun og að Ísland skuli verða fyrir valinu segir meira en mörg orð um það álit sem menn hafa á landinu. Það er mikill sigur fyrir okkur að verða fyrir valinu sem fyrsti þáttur. Í þáttunum er dregin upp mjög jákvæð mynd af landi og þjóð og þetta hefur hreint út sagt ómetanlegt auglýsingagildi," segir Einar. Stöðugt vaxandi fjölmiðlaumfjöllunTalað er að um 15 milljónir Bandaríkjamanna hafi séð þennan fyrsta þátt og hann verður síðan sýndur í um 30 öðrum löndum á næstu vikum og mánuðum. "Staðreyndin er sú að fjölmiðaumfjöllun um Íslend hér í Bandaríkjunum hefur að undanförnu verið meiri en ég hef áður séð. Fyrir svona einu og hálfu ári hélt ég að toppnum hlyti að vera náð en síðan hefur þetta stöðugt haldið áfram að vaxa. Vonandi leiðir þetta til þess að fleiri heimsækja landið og það er alveg á hreinu að bara þáttur eins og "The Amazing Race" verður þess valdandi að Ísland kemst á lista hjá þúsundum fólks sem óskalandið til að heimsækja," segir Einar. Hann bætir því við að það sé fyrirtaks jólagjöf fyrir íslenska ferðaþjónustu að fá kynningu á borð við þá sem Ísland fékk í gærkvöld. "Það er sannarlega gaman að vera til þegar svona vel gengur og þetta minnir mann bara á aflahroturnar á Sigló í gamla daga," segir Einar og hlær. Nánar um The Amazing Race á Íslandi  
Lesa meira

Áframhald fjölgunar ferðamanna í október

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um 12,45% í október síðastliðnum miðað við sama tímabil í fyrra. Þá voru þeir 22.532 en fjölgaði um 2.806 í ár og voru 25.388. Frá áramótum hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um ríflega 40 þúsund á milli ára eða um 14,2%. Bretar voru sem fyrr fjölmennastir þeirra gesta sem sóttu landið heim í október og í þeirra hópi var einnig mesta fjölgunin. Þeim fjölgaði um ríflega 2.200 mans eða 53,4% á milli ára. Sömu leiðis er góð fjölgun frá Norðurlöndunum. Sé litið á þróunina frá áramótum kemur í ljós að ágæt fjölgun er frá öllum megin markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu sem bendir klárlega í þá átt að öflugt markaðsstarf síðustu missera sé að skila tilætluðum árangri. Talningar Ferðamálaráðs hafa nú staðið yfir frá því í febrúar 2002 og frá þeim tíma hafa allir mánuðir sýnt aukningu á milli ára, eða í 21 mánuð samfleytt. Nánari samanburð á milli mánaða má sjá í töflunum hér að neðan. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs eru aðgengilegar hér inn á vefnum undir liðnum "Tölfræði". Fjöldi ferðamanna í október* Þjóðerni 2002 2003 2004 Mism. 03-04 % Bandaríkin 3.089 3.528 3.605 77 2,18% Bretland 5.086 4.143 6.356 2.213 53,42% Danmörk 1.475 2.031 2.799 768 37,81% Finnland 465 951 550 -401 -42,17% Frakkland 408 532 749 217 40,79% Holland 563 640 530 -110 -17,19% Ítalía 109 166 209 43 25,90% Japan 162 875 237 -638 -72,91% Kanada 157 221 183 -38 -17,19% Noregur 1.624 2.631 2.981 350 13,30% Spánn 69 134 141 7 5,22% Sviss 89 125 148 23 18,40% Svíþjóð 1.820 2.602 2.636 34 1,31% Þýskaland 811 1.251 1.132 -119 -9,51% Önnur þjóðerni 1.844 2.702 3.082 380 14,06% Samtals: 17.771 22.532 25.338 2.806 12,45%             Ísland 22.771 29.532 21.206 -7.919 -27,19%             Heimild:  Ferðamálaráð Íslands, brottfariar erlendra farþega í Leifsstöð. *Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.  
Lesa meira

Fundur ferðamálastjóra Norðurlanda

Í liðinni viku var haldinn haustfundur ferðamálastjóra Norðurlanda. Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir fundinn hafa verið gagnlegan og uppúr standi að góður árangur Íslands síðustu misserin sé farin að vekja verulega athygli erlendis. Samstarf á ýmsum sviðumDagskrá fundarins var hefðbundinn að sögn Magnúsar. Farið var yfir tölfræði fyrstu 9 mánaða ársins og borinn saman árangur á markaðssvæðunum. Rædd var staðan á sameiginlegum verkefnum ferðamálaráða Norðurlanda en þau eru fyrst og fremst rekstur fyrirtækisins Scandinavian Tourism Incoperation (STI) í Bandaríkjunum og Scandinavinan Tourism Board í Asíu. Þá var farið yfir verkefni á sviði Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) og afstöðu Norðurlandanna til þeirra en löndin standa yfirleitt sameiginlega að ákvörðunum innan ETC. "Að þessu sinni var mikið rætt um afstöðu okkar til vinnu innan ETC við sameiginlegt vefsvæði ferðamálaráða Evrópu. Vefsvæðið er hugsað á fjarmörkuðum, bæði til upplýsinga og bókunar. Fjármögnun verkefnisins er frá Evrópusambandinu en það er unnið að tillögum um rekstur," segir Magnús. Sameiginleg markaðskönnun í KínaFerðamálaráð Norðurlanda hefur undanfarin ár staðið að framkvæmd ferðakaupstefnunnar Nordic Overseas Workshop (NOW) en síðasta kaupstefnan var á Íslandi í maí sl. Ákveðið var að standa ekki að fleiri NOW í bili en nýta þá fármuni sem til þess hefðu annars farið til að gera sameiginlega markaðskönnun í Kína á næsta ári. Árangur og aðferðafærði okkar vekja athygliMagnús segir að á undanförnum fundum hafi hlutfalslegur árangur Íslands í að auka umfangið á öllum mörkuðum vakið verulega athygli hinna ferðamálaráðanna. "Það er enn samdráttur á hinum Norðurlöndunum á meðan við kynnum um 25% aukningu í umfangi á sl. 2 árum. Starfsfólk ferðamálaráða hinna landanna hefur orðið vart við aukna markaðsvinnu Íslands og telur ótvírætt að þeir auknu fjármunir,sem hafa verið til ráðstöfunar sl. 3 ár hafi gefið okkur þetta ákveðna forskot. Þá hefur aðferðarfræðin sem við nefnum "krónu á móti krónu" vakið mikla athygli. Ekki einungis á þessum fundum heldur einnig á fundum ferðamálastjóra Evrópu," sagði Magnús.  
Lesa meira

Nýr vefur farfugla

Bandalag íslenskra farfugla hefur opnað nýjan vef og leysir hann af hólmi eldri vef samtakanna sem settur var í loftið árið 1999. Í frétt á vefnum segir m.a. að ekki þurfi að fara mörgum orðum um gildi vefsins fyrir starfsemi farfugla, því á undanförnum árum hafi vefurinn verið langþýðingarmesta upplýsingarveitan fyrir þá sem eru að leita sér upplýsinga um starfsemi farfugla og farfuglaheimilanna. Á vefnum er m.a. hægt að fræðast um starfsemi Bandalags farfugla, þar eru ýtarlegar upplýsingar um öll farfuglaheimili innan samtakanna hérlendis, tengingar við farfuglaheimili erlendis og fleira. Hönnun, tæknileg útfærsla og uppsetning var unnin í samvinnu við Hugvit. Sjá vef farfugla.  
Lesa meira

Opnunarhátíð Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð

Laugardaginn 13. nóvember næstkomandi verður opnunarhátíð Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð í tilefni þess að upplýsingamiðstöðin er nú opin allt árið. Dagskráin hefst kl. 14 með málþingi í Hótel Varmahlíð og kl. 17.00 opnar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra upplýsingamiðstöðina formlega. Markmið málþingsins er öðru fremur að skapa umræðu um hlutverk og stefnu Upplýsingarmiðstöðvarinnar þannig að hún megi sem best þjóna ferðaþjónustu og íbúum á Norðurlandi vestra. Það verður Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem setur málþingið. Erindi flytja Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs Íslands; Jakob Frímann Þorsteinsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvarinnar í Varmahlíð; Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar; Guðlaugur Bergmann, ráðgjafarþjónustunni Leiðarljósi og Davíð Samúelsson, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar Suðurlands. Í lokin verða pallborðsumræður og síðan opnar samgönguráðherra Sturla Böðvarsson upplýsingamiðstöðina með formlegum hætti. Málþingið og opnunarhátíðin eru öllum opin og er vonast til að sem flestir ferðaþjónustuaðilar og annað áhugafólk um ferðaþjónustu mæti. Í tengslum við opnunarhátíðina er Hótel Varmahlíð með sértilboð á kvöldverði. Skráning á opnunarhátíðina og í kvöldverðinn er í Upplýsingamiðstöðinni s. 455 6161 eða með tölvupósti í netfangið upplysingar@skagafjordur.is Loks má geta þess að upplýsingamiðstöðin er opin virka daga kl. 9-16 og um helgar kl. 13-18. Dagskrá opnunarhátíðar  
Lesa meira

Ný flokkunarviðmið þýdd á ensku

Eins og fram hefur komið var nýtt flokkunarviðmið fyrir flokkun gististaða samþykkt fyrr á þessu ári og verða gististaðir flokkaðir samkvæmt því frá og með 1. janúar 2005. Nýja flokkunarviðmiðið hefur nú verið þýtt á ensku og er aðgengilegt á landkynningarvef Ferðamálaráðs. Breytingar með nýju flokkunarviðmiðiAf þeim 128 atriðum sem er að finna í þessu nýja viðmiði eru 30 ný eða breytt frá fyrri útgáfu. Af þessum 30 breytingum eru 18 sem eingöngu eiga við 4 og 5 stjörnu gististaði, þannig að með þessu nýja viðmiði eru kröfurnar að aukast og þá sérstaklega á hærra flokkaða gististaði. Meðal helstu breytinga sem verða er að nú verður farið að vega og meta gæði húsgagna og búnaðar en ekki eingöngu gerð krafa um að viðkomandi húsgögn eða búnaður séu til staðar. Breytingar þær sem nú hafa verið samþykktar eru hliðstæðar nýjum viðmiðum er tóku gildi í Danmörku um s.l. áramót og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru flokkaðir eftir. Framkvæmdin færist til FerðamálaráðsSú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að gististöðum sem taka þátt í flokkuninni hefur verið að fjölga á síðustu mánuðum. Með skipulagsbreytingum fyrr á árinu tókst að lækka kostnað um 20% sem fallið hefur í góðan jarðveg. Flokkunarviðmið á íslensku (PDF-skjal)Flokkunarviðmið á ensku (PDF-skjal)  
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum í september fjölgaði um tæp 5% milli ára

Gistinætur á hótelum í september síðastliðnum voru 81.800 en voru 77.900 árið 2003. Þeim fjölgaði því um 5% á milli ára. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem fækkunin nam rúmum 15%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum milli ára um rúm 3.000 úr 50.100 í 53.300 og fjölgaði þar með um 6,3%. Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 11,4% þegar þær fóru úr 3.400 í 3.800. Á Suðurlandi voru gistinæturnar í september s.l. 10.600 og fjölgaði þar með um 10,8%, en árið 2003 voru þær 9.500. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fór gistináttafjöldinn úr 6.500 í 7.100 milli ára og fjölgaði þar með um 8,8%. Aðallega vegna ÍslendingaFjölgun gistinátta er aðallega vegna Íslendinga og fjölgar íslenskum hótelgestum í öllum landshlutum nema á Norðurlandi. Aukning þeirra er þó einna mest á Austurlandi, Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.  
Lesa meira

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

Dagana 26. og 27. nóvember 2004 næstkomandi halda Ferðamálasamtök Íslands aðalfund sinn fyrir árið 2004. Er hann að þessu sinni haldinn á Hótel Stykkishólmi. Dagskráin hefst kl. 13 föstudaginn 26. nóvember með ávarpi Péturs Rafnssonar, formanns samtakanna. Þá fjallar Kjartan Lárusson, framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands, um samstarfið í ferðaþjónustu á Norðurlandi og Jón Gunnar Borgþórsson, rekstrarhagfræðingur hjá JGB ráðgjöf, fjallar um Ferðatorg 2005. Að loknu kaffihléi halda aðalfundarstörf áfram samkvæmt lögum félagsins. Dagurinn endar síðan með kvöldverði og kvöldvöku. Seinni fundardagur hefst kl. 9:30 með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Þá fjallar Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, um ferðaþjónustu í dreifbýli og Magnús Oddsson ferðamálastjóri fer síðan yfir ástand og horfur í lok árs. Loks fjallar Sigríður Finsen, hagfræðingur í Grundarfirði, um ferðaþjónustu og umhverfismál á Snæfellsnesi. Á eftir verða pallborðsumræður og fyrirspurnir. Skráning á fundinn er í síma 898-6635 eða petur@icetourist.is og bókun herbergja er á Hótel Stykkishólmi í síma 430-2100. Dagskrá fundarins fylgir hér að neðan. Dagskrá fundarins. Föstudagur 26. nóvember. Kl.: 11:30 Hótel Stykkishólmur - Afhending fundargagnaKl.: 13:00 Aðalfundur FSÍ haldinn á Hótel StykkishólmiKl.: 13:05 Setning - Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka ÍslandsKl.: 13:20 Skipað í fastanefndir aðalfundarKl.: 13:30 Samstarfið í ferðaþjónustu á Norðurlandi -                Kjartan Lárusson, framkv.stj. Markaðsskrifstofu ferðamála Kl.: 13:50 Sýningar - Ferðatorg 2005               Jón Gunnar Borgþórsson, rekstrarhagfr.hjá JGB ráðgjöfKl.: 14:10 FyrirspurnirKl.: 14:30 KaffihléKl.: 15:00 Framhald aðalfundarstarfa skv. lögum FSÍ Kl.: 18:00 Skoðunarferð í StykkishólmiKl.: 19:00 Léttar veitingar Kl.: 20:00 Kvöldverður og kvöldvaka Laugardagur 27. nóvember. Kl.: 09:30 Ávarp samgönguráðherra Sturlu BöðvarssonarKl.: 09:45 Ferðaþjónusta í dreifbýli - Einar K. Guðfinnsson,                form. Ferðamálaráðs ÍslandsKl.: 10:05 Ástand og horfur í lok árs - Magnús Oddsson,               ferðamálastjóri.Kl.: 10:25 Ferðaþjónusta og umhverfismál á Snæfellsnesi               Sigríður Finsen, hagfr. GrundarfirðiKl.: 10:45 Pallborð - FyrirspurnirKl.: 11:15 Fundarslit. Fundarstjóri: Óli Jón Gunnarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar Skráning á fundinn er í síma 898-6635 eða petur@icetourist.is og bókun herbergja er á Hótel Stykkishólmi í síma 430-2100  
Lesa meira