Fara í efni

Ferðamálaráðstefnan 2004 nálgast

Ferðamálaráðstefnan 2004 nálgast óðum en nú er rétt vika í að hún hefjist. Ráðstefnan verður haldin í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri dagana 14. og 15. október.

Inngangserindi ráðstefnunnar flytur Ásgeir Jónsson, hagfræðingur KB Banka og lektor við HÍ, með yfirskriftinni "Efnahagslegt gildi ferðaþjónustu". Ásgeir er annar meginhöfundur skýrslunnar "Flug- og ferðaþjónusta á Íslandi" sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið og kynnt fyrr á þessu ári. Auk innlendra fyrirlesara flytur Olivier Jacquin erindi og nefnist það "2004-2005 Hotel Industry Trend and Presentation of Rezidor SAS Hospitality". Olivier Jacquin er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS, sem m.a. er með Radison SAS hótelin innan sinna vébanda.

Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs
Um kvöldið er móttaka í boði samgönguráðherra og í kjölfarið hefst kvöldverður og skemmtun. Þar fer samkvæmt venju fram afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2004. Daginn eftir, föstudaginn 15. október, verður kynning á ferðaþjónustu svæðisins.

Skráningar komnar vel af stað
Útlit er fyrir ágæta þátttöku í ráðstefnunni og eru skráningar komnar vel af stað. Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Ráðstefnan á Kirkjubæjarklaustri verður sú 34. í röðinni. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða.

Boðið upp á rútuferðir
Boðið er upp á rútuferð frá BSÍ í Reykjavík kl. 7:30 fimmtudaginn 14. október og til baka frá Kirkjubæjarklaustri kl. 13:00 föstudaginn 15. október. Verð pr. mann er 3.500 kr. sem greiðist á staðnum. Vinsamlega takið fram við skráningu á ráðstefnuna hvort ætlunin er að nota rútuferðina.