Fara í efni

VAKINN á Vestnorden ? afsláttur framlengdur

Vakinn lógó
Vakinn lógó

VAKINN verður kynntur á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Hörpu  2. og 3. október næstkomandi. Af því tilefni hefur verið ákveðið að framlengja afsláttinn á umsóknargjaldinu til 1 nóvember næstkomandi. Sem sagt 40% afsláttur, það munar um það.

Gæða- og umhverfisverkefnið VAKINN er sem kunnugt er unnið í náinni samvinnu Ferðamálastofu, Nýsköpunarmiðstöðvar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtaka Íslands, enda mikilvægt að breið samstaða skapist um þennan málaflokk. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Sjá nánar á www.vakinn.is

Um Vestnorden
Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin árlega af Ferðamálasamtökum Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Vestnorden haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Á Vestnorden koma saman ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og kaupendur ferðaþjónustu, eða ferðaheildsalar, víðs vegar að úr heiminum. Þá koma einnig til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir. Í tengslum við Vestnorden gefst ferðaheildsölunum einnig kostur á að fara í  kynnisferðir til landanna þriggja.