Fara í efni

Gengið frá fyrstu lokagreiðslu frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Skriðuklaustur
Skriðuklaustur

Fyrir helgi gekk Framkvæmdasjóður ferðamannastaða frá fyrstu lokagreiðslu til styrkþega. Um var að ræða styrk til Gunnarsstofnunar vegna skipulagsvinnu og hönnunar á útsýnispalli og minjasvæði að Skriðuklaustri.

Einhver umfangsmesta fornleifarannsókn síðari ára
Uppgreftri Ágústínusarklausturs á Skriðuklaustri í Fljótsdal sem starfrækt var 1493-1554 lauk síðasta sumar. Að sögn Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns Gunnarsstofnunar, er um að ræða einhverja umfangsmestu fornleifarannsókn síðari ára en hún hófst árið 2002 með framlögum Kristnihátíðarsjóðs. Í ár hefur verið unnið að frágangi minjasvæðisins og þann 19. ágúst síðastliðinn var það opnað formlega af mennta- og menningarmálaráðherra. Í samráði við Fornleifavernd ríkisins hafa grunnform klausturbygginga og kirkju verið hlaðin upp og búið er að tyrfa veggi og umhverfi þannig að hægt er að feta í fótspor þeirra sem dvöldu í klaustrinu á 16. öld. “Tímamótin nú markast einnig af þeim 500 árum sem liðin eru frá því Stefán Jónsson Skálholtsbiskup vígði klausturkirkjuna,” segir Skúli Björn og því má bæta við að samtímis kom einnig út bók um rannsóknina á klaustrinu að Skriðu eftir dr. Steinunni Kristjánsdóttur.

Hönnun á útsýnispalli og skipulagning á minjasvæðinu
Sem fyrr segir var styrkur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, sem var að upphæð 500 þúsund krónur,  nýttur í hönnun á útsýnispalli og skipulagningu á minjasvæðinu í tengslum við gerð verndaráætlunar fyrir klausturminjarnar. Gott útsýni er yfir minjasvæðið og geta gestir fræðst um staðinn á upplýsingaskiltum sem eru á pallinum og af skiltum sem komið hefur verið fyrir í rústunum sjálfum. Landmótun ehf. og Verkfræðistofa Austurlands unnu hönnunarvinnu vegna útsýnispallsins en Tréiðjan Einir sá um byggingu hans.  Sjá nánar á www.skriduklaustur.is

Næsti umsóknarfrestur til 10. september
Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða tók til starfa í byrjun þessa árs og er vistaður hjá Ferðamálastofu. Markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram í febrúar síðastliðnum og nú er einmitt verið að auglýsa eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2013. Umsóknarfrestur vegna þeirra er til 10. september næstkomandi. Nánar um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða