Hvað á landið að heita?

Hvað á landið að heita?
innanlandskönnun5

Tekið verður við hugmyndum að öðru nafni fyrir Ísland sem lið í markaðsherferðinni Ísland – allt árið, eftir að umræður spunnust um það á samfélagsmiðlum verkefnisins hvort nafnið „Ísland“ væri nægilega lýsandi nafn á eyjunni. Besta uppástungan verður verðlaunuð í lok vetrar.

Í ágúst spunnust miklar umræður um það á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland hvort nafnið Ísland væri réttnefni, miðað við íslenska náttúru og veðurfar. Um 10.000 manns tóku þátt í þessum umræðum með einu eða öðru móti, og nokkur hundruð uppástungur bárust að meira lýsandi nafni fyrir landið. Í ljósi þess mikla áhuga sem þetta vakti var ákveðið að bregða á leik með ferðamönnum og efna til samkeppni um besta valkostinn fyrir meira lýsandi nafn á eyjunni.

„Fólk sem kemur hingað er iðulega tilbúið að segja frá landinu og deila reynslu sinni. Þegar umræður spunnust um nafnið var augljóst að fólk hafði óþrjótandi hugmyndir að nöfnum sem lýstu ekki bara landinu, heldur líka tilfinningum fólks til landsins. Í stað þess að reyna að útskýra hvernig nafnið væri tilkomið, ákváðum við að hafa gaman af þessu og fagna þessum mikla áhuga á landinu og efna til samkeppni um hugmynd að nafni sem væri lýsandi fyrir land og þjóð. Við munum svo nota bestu hugmyndirnar í kynningarstarfi í markaðsátakinu Ísland – allt árið í vetur,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar Íslandsstofu.

Hægt verður að setja fram tillögur og skoða þær á vef Inspired by Iceland. Þá verður komið upp bás í Leifsstöð þar sem fólk getur skilað inn hugmyndum. Við lok samkeppninnar verður blásið til hátíðarhalda þar sem vinningstillagan verður kynnt og vinningshafinn mun hljóta veglegan sess í tengslum við hið nýja nafn.

Nánar er hægt að kynna sér þennan skemmtilega leik á vef Inspired by Iceland


Athugasemdir