Fara í efni

Nauðsynlegt að vita hverjir sækja þig heim

Uppvakningur
Uppvakningur

„Ég vil endilega hvetja ferðaþjónustuaðila almennt til að vera duglegri að halda saman upplýsingum um samsetningu gestahópsins því slíkt getur verið afar gagnlegt og er í raun nauðsynlegt að mínu mati,“ segir Sigurður Atlason, forstöðumaður Galdrasafnsins á Hólmavík. Sigurður hefur í mörg ár skráð niður þjóðerni þeirra sem koma á safnið og getur þannig fylgst með þróuninni.

Frakkar að taka toppsætið?
Svo dæmi sé tekið af ágúst þá voru gestir hátt í 5 þúsund og þar af voru Frakkar fjölmennastir af erlendum gestum eða 21,2%, Þjóðverjar 18,8% og Ítalir 11,4%. „Þjóðverjar hafa verið stærsti hópurinn undanfarin sumur en mér sýnist jafnvel stefna í að Frakkar gætu velt þeim úr efsta sætinu, sem væru þá nokkrar fréttir. En það kemur betur í ljós þegar ég tek saman tölur fyrir sumarið í heild. Þá hefur verið áhugavert að sjá nýjar þjóðir koma inn í verulegu mæli, t.d. Tékka og Ísraelsmenn,“ segir Sigurður. Að hans sögn eru Íslendingar sem fyrr fjölmennastir eða um fjórðungur þeirra sem koma í safnið.

En hvað hag telur Sigurður sig hafa af því að halda utan um þessar upplýsingar. „Það skiptir þig auðvitað öllu máli að vita hverjir eru að heimsækja þig, bæði upp á markaðsstarf, hvaða tungumál er best að leggja áherslu á og fleira.“

Rangri ímynd viðhaldið af stöðunni á landsbyggðinni
Góð umferð hefur verið í Galdrasafnið í sumar en það verður opið í allan vetur, líkt og verið hefur undanfarin sjö ár. „Það kom mér satt best að segja á óvart fyrsta veturinn hvað umferðin var mikil og hún hefur síðan aukist jafnt og þétt. Akkilesarhællinn er sú ímynd sem ég vil meina að ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu viðhaldi af landsbyggðinni, að þar sé allt lokað á veturna. Það gengur afar illa að koma því inn hjá fólki að þannig er það ekki í dag. Það er mjög víða opið og fjölmargt hægt að gera. Þessu verður að fara að linna og ég skil satt best að segja ekki hvaða hag menn telja sig hafa af því að viðhalda þessari ímynd,“ segir Sigurður.

Mynd: Uppvakningurinn á Galdrasafninu vekur jafnan óskipta athygli.