Fréttir

Blaðamenn gerðu góðan róm að söguslóðum

Samtök um sögutengda ferðaþjónustu gengust í haust fyrir þremur ferðum fyrir erlenda blaðamenn þar sem farin var ferð um landið með áherslu á söguna. Ferðamálastofa styrkti verkefnið sem nefndist Sögueyjan Ísland. Samtök um sögutengda ferðaþjónustu voru stofnuð fyrir þremur árum. Aðilar er um 30 talsins, allt í kringum landið, og vinna þeir með söguna frá landnámi til siðaskipta, með áherslu á Íslendingasögurnar og arfleifð þeirra. Rögnvaldur Guðmundsson er formaður samtakanna og í úttekt á ferðavef mbl.is segir hann að nú sé komið að því að markaðssetja þetta starf í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, svo sem ferðaskrifstofur, þ.e. söguferðir um landið. ?Við fengum nýverið styrk frá Ferðamálastofu til að skipuleggja blaðamannaferðir til Íslands undir heitinu Sögueyjan Ísland. Voru farnar þrjár ferðir með alls 20 blaðamenn á tímabilinu 26. ágúst til 13. september;  fyrst með Breta, síðan hóp frá Norðurlöndunum og loks Þjóðverja og Austurríkismenn,? segir Rögnvaldur. ?Við notuðum þetta tækifæri til að prufukeyra ferðir, og nú eru ferðaskrifstofur að byrja að selja svona ferðir, t.d. Terra Nova og Ferðaskrifstofan Ísafold, bæði fyrir hópa og fólk á eigin vegum og verður boðið upp á pakka af þessu tagi í vetur og næsta sumar. Nánar má lesa um þetta áhugaverða verkefni á ferðavef mbl.is og þaðan er myndin að ofan einnig fengin.
Lesa meira

Ræðismannaráðstefna og Íslandskynning

Í liðinni viku fór fram ræðismannaráðstefna í Washington sem skipulögð var af sendiráði Íslands í Bandaríkjunum. Var megintilgangur að veita ræðismönnum Íslands í umdæmi sendiráðsins ítarlegar upplýsingar um stöðu efnahags-, utanríkis- og annarra mála á Íslandi, kynna viðskiptatækifæri í Bandaríkjunum og efla tengsl Íslands og Bandaríkjanna á sem flestum sviðum, þar á meðal innan ferðaþjónustunnar og menningar,- orku- og viðskiptageiranna. Haustfundur Íslensk - ameríska viðskiptaráðsins Fundinn sóttu á þriðja tug ræðismanna, auk fulltrúa verkefnisins Iceland Naturally, Ferðamálastofu og fulltrúa IMF, Mark Flanagan, sem hélt ítarlegt erindi fyrri daginn. Iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, tók þátt í ráðstefnunni, en hún var aðalræðumaður á haustfundi Íslensk - ameríska viðskiptaráðsins (IACC) sem að þessu sinni var haldinn í Washington, en var að vanda skipulagður af aðalræðisskrifstofu Íslands í New York. Fundur IACC var haldinn í beinu framhaldi af ræðismannaráðstefnunni og tóku margir ræðismenn einnig þátt í honum. Kynning á íslenskum vörumSama dag og ræðismannaráðstefnan hófst byrjaði fimm daga kynning í verslunum Whole Foods Markets í Washington á lambakjöti, ostum, smjöri, súkkulaði og skyri frá Íslandi sem markaðsverkefnið Áform stóð að á vegum Bændasamtaka Íslands. Matreiðslumeistarinn Siggi Hall kitlaði bragðlauka viðskiptvina verslananna. Whole Foods Markets er meðal þekktustu og bestu matvöruverslanakeðja Bandaríkjanna og selur, auk ofangreindra íslenskra afurða, íslenskt vatn, bleikju og ferskan fisk. Á myndinni má sjá hluta þátttakenda í hádegisverðarfundi IACC að honum loknum. Fremst á myndinni má sjá Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðar-, orku- og ferðamálaráðherra, á milli sendiherrahjónanna Hjálmars W. Hannessonar og Önnu Birgis og Hlyn Guðjónsson, ræðismann í New York og framkvæmdastjóra Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins.
Lesa meira

Þrándheimur, Lúxemborg og Mílanó bætast við

Þrándheimur í Noregi, Lúxemborg og Mílanó á Ítalínu bætast við á næsta sumri sem áfangastaðir í flugi til og frá Íslandi. Icelandair verður með flug til Þrándheims en Iceland Exoress til Mílanó og Lúxemborgar. Áætlunarflug Iceland Express til Mílanó og Lúxemborgar hefst í byrjun júní. Flogið verður til Mílanó einu sinni í viku, á laugardögum. Til Lúxemborgar verður flogið tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Þar með fjölgar áfangastöðum félagsins í 22 og hafa aldrei verið fleiri Icelandair mun hefja áætlunarflug til Þrándheims í Noregi í júníbyrjun.  Flogið verður til og frá borginni tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, með viðkomu í Bergen á leiðinni frá Íslandi. Þannig verður Þrándheimur fjórða borgin í Noregi sem Icelandair flýgur til næsta sumar en hinar eru Ósló, Bergen á vesturströnd landsins, alls 17 ferðir á viku.
Lesa meira

Spáð vexti hjá skemmtiferðaskipum

Í liðinni viku var sýningin Seatrade Europe haldin í Hamborg en þar hittast fagaðilar sem starfa  innan skemmtiferðaskipageirans. Alls voru 15 fyrirtæki þátttakendur á íslenska básnum, þar af 10 hafnir,  og hafa þau aldrei verið fleiri. Alda Þrastardóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu, er starfsmaður  Cruise Iceland samtakanna. Að hennar sögn tókst sýningin vel og fólk almennt ánægt með árangurinn. ?Það er hugur í fólki innan greinarinnar og allt bendir til þess að þessi  iðnaður muni vaxi næstu árin þrátt fyrir efnahagslega lægð.  Í þessu eins og öðru þurfa menn alltaf að vera á tánum. Markaðssetning þarf að vera áberandi og öflug og menn þurfa sífellt  að leita nýrra og áhugaverðra leiða. Stuðningur ráðamanna og heimafólks á hverju svæði fyrir sig skiptir miklu máli í þessu sambandi. Innviðir verða að vera traustir og fagmennskan þarf að skína í gegn til þess að hver áfangastaður fyrir sig nái að uppfylla þær væntingar sem til hans eru gerðar,? segir Alda. Myndin er tekin í íslenska sýningarbásnum á Seatrade Europe.
Lesa meira

Hvers virði er ferðaþjónustan? Málþing SGS og Matvís

Starfsgreinasamband Íslands og Matvís, Matvæla og veitingafélag Íslands halda opið málþing á Hótel Ísafirði 24. september 2009 um framtíðarsýn í ferðaþjónustu. Málþingið, sem er haldið í samvinnu við Ferðamálsamtök Vestfjarða og Markaðsstofu Vestfjarða mun leitast við að svara spurningum um það hvers virði ferðaþjónustan er í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri. Frummælendur koma úr röðum atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, launþegahreyfingarinnar og stjórnsýslunnar auk þess sem iðnaðarráðherra mun fytja ávarp. Eftir hverja framsögu ! verða fyrirspurnir og stuttar umræður. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður VerkVest stjórnar málþinginu. Málþingið gæti orðið mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur orðið um stöðu ferðaþjónustunnar í þeim efnahagsþrengingum sem herja á landann. Þá ætti einnig að vera lag hjá vestfirskum ferðaþjónum að taka virkan þátt í umræðum á málþinginu með það að leiðarljósi að efla uppbyggingu ferðaþjónustunnar í heimsbyggð, segir í tilkynningu. Skráning á málþingið fer fram á skrifstofu VerkVest í síma 4565190 eða finnbogi@verkvest.is. Dagskrá málþingsins verður þannig: Staður: Hótel Ísafjörður, fimmtudaginn 24.09.09 Dagskrá: Kl. 9:30 Málþingið sett, Niels Sigurður Olgeirsson formaður MatvísKl. 9:40 Hvers virði er ferðaþjónustan? Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri SAF Kl. 10:30 Ferðaþjónustan á Vestfjörðum, tækifæri og hindranir. Áslaug Alfreðsdóttir, hótelstjóri og stjórnarmaður í Ferðamálsamtökum Vestfjarða fjallar um reynslu Vestfirðinga. Staðreyndir og staða mála ásamt stefnumótunarferli Atvest, MV og FMSV. Jón Páll Hreinsson forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða.Kl. 11:45 Ferðaþjónustan og störfin. Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri SGS mun fjalla um fjölbreytni starfa og ný tækifæri í félagslegri ferðaþjónustu.Kl. 12:30 Léttur hádegisverðurKl. 13:30 Menntun í ferðaþjónustu frá sjónarmiði aðila vinnumarkaðarins. Guðmunda Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fjallar um menntun í ferðaþjónustu og tengsl óformlega skólakerfisins við hið formlega. Kl. 14:00 Arðsemi, úthald, afköst. Guðrún Helgadóttir, prófessor og deildarstjóri ferðamáladeildar við Háskólann á Hólum, talar um mikilvægi þess að styrkja grunngerð og innviði ferðaþjónustunnar. Kl. 14:40 Hver er framtíðarsýnin og hvernig náum við henni? Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri fjallar um spurninguna. Kl. 15:30 Umræður Kl. 16.00 Ávarp iðnaðaráðherra og ráðherra ferðamála, Katrín Júlíusdóttir.Málþingsslit, Kristjáni Gunnarsson formaður SGSKaffi. Kl. 16.30 Óvissuferð með kvöldverði.Ekkert þátttökugjald er á málþinginu, en málþingsgestir sem taka þátt í óvissuferð með kvöldverði og gista á Hótel Ísafirði greiða kr. 15.000. Þá er hádeigisverður og gisting einnig innifalinn. Sjá einnig vef SGS ? www.sgs.is
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna SAF

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda á ári hverju nýsköpunarverðlaun samtakanna fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar.  Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir hvert verkefni og að veita viðurkenningar fyrir vöruþróun sem stjórn sjóðsins telur að muni styrkja ferðaþjónustuna. Nýverið var öllum félagsmönnum SAF sent meðfylgjandi tölvubréf þessa efnis sjá nánar hér. Félagsmenn eru hvattir til að taka virkan þátt í leit að verðugum verkefnum og senda skrifstofu SAF, Borgartúni 35, 105 Reykjavík fyrir 15. október nk. Sjá heimasíðu SAF - www.saf.is    
Lesa meira

Nefnd skoðar umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu

Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur skipað í nefnd um umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu. Nefndinni er ætlað að kanna grundvöll þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu. Nefndina skipa: Ólafur Örn Haraldsson, formaður, Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri, skipuð samkvæmt tilnefningu iðnaðarráðherra, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, skrifstofustjóri, samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra, Ingibjörg G. Guðjónsdóttur, samkvæmt tilnefningu Samtaka ferðaþjónustunnar.  Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir, líffræðingur, samkvæmt tilnefningu samtaka á sviði náttúruverndar, segir í tilkynningu. Fjármálaráðherra mælist til þess að nefndin hraði störfum sínum eftir föngum og að fyrir liggi tillögur eða bráðabirgðaskýrsla eigi síðar en í lok nóvembermánaðar næstkomandi þannig að hugmyndir og tillögur nefndarinnar megi eftir atvikum hafa til hliðsjónar við afgreiðslu fjárlaga og tengdar lagabreytingar.
Lesa meira

Norðurljósin kynnt í London

Ferðamálastofa og Icelandair stóðu í vikunni fyrir móttöku í London til kynningar á sérstöðu Íslands þegar kemur að Norðurljósunum.  Viðburðurinn heppnaðist með miklum ágætum. Móttakan var haldin í Texture, íslenskum veitingastað í miðborg London og þangað mættu um 70 söluaðilar á Íslandsferðum og blaðamenn. Nutu þeir íslenskra veitinga og hlustuðu á íslenska tónlist flutta af Lay Low. Þá fræddust þeir um leyndardóma norðurljósanna á Íslandi en Ari Trausti Guðmundsson flutti erindi skreytt norðurljósamyndum Ragnars Th. Sigurðssonar. Vakti það verðskuldaða athygli, að sögn Sigríðar Gróu Þórarinsdóttur, markaðsfulltrúa Ferðamálastofu á Bretlandsmarkaði. Myndirnar hér að neðan voru teknar við þetta tækifæri. Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúa Ferðamálastofu á Bretlandsmarkaði, býður gesti velkomna og ræðir íslenska ferðaþjónustu. Clair Horwood hjá Saltmarshpr, almannatengslafyrirtæki Ferðamálastofu í Bretlandi, Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Hjörvar Sæberg Högnason frá Icelandair. Um 70 70 söluaðilar á Íslandsferðum og blaðamenn mættu á viðburðinn. Lay Low leikur fyrir gesti. Ari Trausti Guðmundsson fræðir viðstadda um norðurljósin. Sigríður Gróa og Hjörvar ásamt Ian Woolgar hjá Scantours. Sigríður Gróa og Ash van Wensveen hjá Activities Abroad.
Lesa meira

Nýjar höfuðstöðvar Icelandair í N.-Ameríku

Icelandair hefur formlega tekið notkun nýjar höfuðstöðvar vestan hafs og eru þær í Boston. Hlutverk skrifstofunnar í Boston er að stýra markaðs- og sölustarfi Icelandair í Bandaríkjunum og Kanada. Þar starfa um 25 manns. ?Opnun þessarar nýju skrifstofu á þessum stað eru stór tímamót hjá Icelandair og hjá íslenskri ferðaþjónustu. Hún þjónar stærsta einstaka markaðssvæðinu okkar erlendis, um 300 milljón manna markaði, og velgengni hennar skiptir félagið og íslenskt samfélag mjög miklu. Ferðamenn sem skrifstofan nær til koma með milljarðaviðskipti inn í íslenskt efnahagslíf?, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningu félagsins. Hluti starfseminnar færist heimAðalskrifstofa Icelandair vestra var um árabil í Columbia í Marylandfylki. Með flutningnum þaðan nú voru gerðar breytingar á starfseminni. Hluti hennar, svo sem símsvörun, farseðlaútgáfa og bókhald var færð heim til Íslands. Aukið er við sérfræðiþekkingu á bandaríska og kanadíska ferðamarkaðinum og aukin áhersla lögð á almenn markaðs- og sölumál og viðtæka dreifingu til neytenda. ?Við flutninginn nú hafa fylgt okkur frábærir starfsmenn frá Maryland og einnig verið ráðið til starfa nýtt fólk sem við væntum mikils af. Markmiðið með starfseminni í Boston er að vekja athygli á Íslandi, fjölga farþegum okkar og ferðamönnum til landsins og til Evrópuborga jafnt og þétt. Við erum að ná góðum árangri um þessar mundir og ætlum okkur að gera enn betur?, segir Birkir Hólm einnig. Flogið frá fimm borgum í BandaríkjunumIcelandair flýgur um þessar mundir til Íslands frá fimm borgum í Bandaríkjunum, þ.e. Boston, New York, Seattle, Minneapolis og Orlando, og tveimur kanadískum borgum, þ.e. Halifax og Toronto. Boston er stærsti áfangastaður Icelandair vestra með yfir 400 flug á ári. Alls koma um 60 þúsund ferðamenn með Icelandair til Íslands frá umsjónarsvæði skrifstofunnar árlega. Þessir ferðamenn skapa um 10 milljarða króna á ári í gjaldeyristekjur vegna kaupa á farmiðum og vöru og þjónustu á Íslandi.
Lesa meira

Starfshópur skoðar fyrirkomulag upplýsingamiðstöðva

Starfshópur skipaður fulltrúum markaðsstofa landshlutanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ferðamálastofu er nú að skoða framtíðarskipan við rekstur upplýsingamiðstöðva. Rekstur upplýsingamiðstöðva er í dag með ýmsu móti. Sumar eru alfarið á  vegum einkaaðila eða sveitarfélaga en Ferðamálastofa hefur í gegnum ríkissjóð varið fé til rekstrar  níu svonefndra landshlutamiðstöðva. Ein er í hverju gömlu kjördæmanna, og tvær landamærastöðvar, í Keflavík og á Seyðisfirði. Þessum samningum hefur verið sagt upp og eru þannig lausir um áramót en fyrir þann tíma verður fengin niðurstaða um framtíðarfyrirkomulag. Það er einlægur vilji Ferðamálastofu að áfram haldist gott samstarf við upplýsingarmiðstöðvar og að sú vinna sem framundan er leiði af sér jákvæða niðurstöðu fyrir rekstur upplýsingamiðstöðva, enda er mikilvægi upplýsingamiðstöðva sífellt að aukast með vaxandi ferðamannastraumi um land allt. Í áðurnefndum starfshóp eiga sæti Elías Bj. Gíslason og Ólafur Aðalgeirsson frá Ferðamálastofu, Drífa Magnúsdóttir (Höfuðborgarstofu) og Áskell Heiðar Ásgeirsson (Sveitarfélaginu Skagafirði) eru fulltrúar markaðsstofanna og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og Margrét Hallgrímsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri.
Lesa meira