Fréttir

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins

Við Skarfabakka í Reykjavík liggur nú síðasta skemmtiferðaskip sumarsins. Skipið, sem ber nafnið Emerald Princess, hefur viðkomu hér á landi á leið sinni frá Belfast á Norður Írlandi til Bandaríkjanna. Um borð eru 3.016 farþegar og um það bil 1.500 manns eru í áhöfn. Emerald Princess er  113.000 brúttótonn og er með allra stærstu skipum sem komið hafa til hafnar í Reykjavík. Samkvæmt uppsláttarbókinni Cruising and Cruise Ships, útgefin af Berlitz, fær skipið 4 stjörnur af 5 mögulegum. Með komu Emerald Princess hafa alls 67.680 farþegar  komið með skemmtiferðaskipum  til  Íslands í sumar og er það aukning frá því árið 2008 en þá komu alls 59.308 farþegar. Þess má geta að skipin eru færri í ár eða 80 talsins samanborið við 83 í fyrra en þó koma fleiri farþegar sem skýrist af því að skipin eru stærri. Meðfylgjandi mynd var tekin af Emerald Princess við Skarfabakka í morgun.  
Lesa meira

Ferðakynning Antor í Sviþjóð

Antor, alþjóðleg samtök ferðamálaráða, starfa í mörgum löndum og er Ferðamálastofa aðila fyrir Íslands hönd. Árleg ferðakynning Antor í Svíþjóð var haldin á dögunum og sá sendiráð Íslands í Stokkhólmi um framkvæmdina. Kynningin í ár var haldin í húskynnum skemmtistaðarins Nalen í Stokkhólmi. Alls tóku fulltrúar 37 landa þátt í kynningunni sem ætluð er blaðamönnum, ferðaskrifstofum og ráðstefnufyrirtækjum í Svíþjóð. Fulltrúar sendiráðs Íslands í Stokkhólmi, Elín Óskarsdóttir og Rakel Mánadóttir, sáu um kynninguna og eru þær á meðfylgjandi mynd.
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna 2009

Ferðamálastofa hefur auglýst eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna fyrir árið 2009. Verðlaunin hefur stofnunin veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálastofu að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra að huga betur að umhverfi og náttúru og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hverjir koma til greina sem verðlaunahafar:Allir þeir sem tengjast ferðamálum og láta sig umhverfismál varða og vinna markvisst að því að viðhalda jafnvægi milli efnahagslegra, náttúrlegra og félagslegra þátta. Það geta verið einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök eða sveitafélög. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálastofu 2009. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi stofnunarinnar, Sveinn Rúnar Traustason, í síma 535 5510. Tilnefningar sendist til skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri eða með tölvupósti á netfangið sveinn@icetourist.is fyrir 30. október næstkomandi. Nánari upplýsingar og listi yfir fyrri verðlaunahafa Auglýsing sem PDF til útprentunar
Lesa meira

Ákveðið að taka þátt í ferðasýningu á Indlandi

Á fundi utanríkisráðuneytisins, Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og hagsmunaaðila úr ferðaþjónustunni í morgun var ákveðið að taka þátt í ferðasýningunni SATTE sem haldin verður á Indlandi 28.-30. janúar 2010. Sýningin er talin sú stærsta sem haldin er á Indlandi fyrir fagaðila. Síðast, þ.e. á þessu ári, tóku 85 sýnendur frá 16 löndum þátt á sýningunni og skráðir indverskir kaupendur sem sóttu hana voru um 300, en að auki komu 2.000 indverskir kaupendur "inn af götunni". Lögð hafa verið drög að pöntun á sýningarbás til að kynna ferðamöguleika á Íslandi og líklegt er talið að íslenskir þátttakendur verði að þessu sinni 4-5 talsins. Verkefnið verður unnið í samstarfi Ferðamálastofu og áðurgreindra aðila. Utanríkisráðuneytið með íslenska sendiráðið á Indlandi í farabroddi mun annast tengslin en fagleg framkvæmd mun verða í höndum Útflutningsráðs Íslands. Nánari fréttir verða sendar út síðar vegna þessa. Vefsíða; www.satte.org
Lesa meira

Framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu

Síðastliðinn fimmtudag var haldið málþing á Hótel Ísafirði undir yfirskriftinni "Hvers virði er ferðaþjónustan?". Meðal frummælenda var Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri sem fjallaði um framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu. Starfsgreinasamband Íslands og Matvís, Matvæla og veitingafélag Íslands héldu málþingið í samvinnu við Ferðamálsamtök Vestfjarða og Markaðsstofu Vestfjarða og var þar leitast við að svara spurningum um virði ferðaþjónustunnar í atvinnusköpun á Íslandi og hvað þurfi til að fjölga störfum í greininni og gera þau verðmeiri. Ólöf Ýrr fór í erindi sínu yfir hlutverk og starf Ferðamálastofu og framtíðarsýn, bæði gagnvart neytendum og atvinnugreininni. Kom hún þar inn á þætti eins og upplifun ferðamannsins, gæða- og umhverfismál, menntun og fagmennsku, neytendavernd, leyfismál og vottunarferla, uppbyggingu og þróun, markaðsmál og fleira. Erindi Ólafar má nálagst hér að neðan. Framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu (PDF)
Lesa meira

Aukið flugframboð og fleiri áfangastaðir

Enn berast fréttir af auknu flugframboði til og frá landinu næsta sumar. Í gær tilkynntu bæði Icelandair og Iceland Express um nýja áfangastaði og aukningu á áætlun sinni. Iceland Express, sem til þessa hefur einbeitt sér að Evrópuflugi, hefur ákveðið að hefja á næsta ári áætlunarflug til New York í Bandaríkjunum. Áætlunin tekur gildi 1. júní næstkomandi og verður flogið fjórum sinnum í viku. Í liðinni viku tilkynnti félagið um tvo nýja áfangastaði í Evrópu, Lúxemborg og Mílanó. Þetta hefur að sjálfsögðu í för með sér aukin umsvif og fram hefur komið að félagið þurfi að bæta við sig 40 til 50 flugliðum frá og með næsta vori. Iceland Express hefur tryggt sér leigu á fimm Boeing-vélumfyrir verkefni sín. Allt að 10% aukning hjá IcelandairIcelandair hefur ákveðið að auka áætlunarflug sitt á næsta ári um allt að 10% og gera átak í því að fjölga ferðamönnum til landsins. Icelandair flýgur til Íslands frá 26 borgum í Evrópu og Norður-Ameríku og mun á næsta sumri fjölga vikulegum ferðum úr 140 í alls 155 á viku eða 23 ferðir daglega á háannatímanum. Þetta kemur fram í frétt frá félaginu. Icelandair bætir einni Boeing 757-farþegaþotu í áætlunarflugflotann og verður með 12 þotur í rekstri næsta sumar. Með þessari aukningu mun félagið þétta áætlun sína til margra staða og bæta við tveimur áfangastöðum, Brussel í Belgíu og Þrándheimi í Noregi.
Lesa meira

Ísland á JATA 2009

Ísland naut verulegrar athygli á JATA-ferðakaupstefnunni í Japan. Sex íslenskir aðilar tóku þátt á sameiginlegum Íslandsbás en Ferðamálastofa og Útflutningsráð styrktu þátttökuna fjárhagslega og Ferðamálastofa ásamt sendiráði Íslands í Japan undirbjó og sá um framkvæmdina. Þema íslenska sýningarbássins var norðurljósin og heilsulindir. Sett var upp eftirlíking af heitri laug við Mývatn og vakti laugin mikla athygli sýningargesta. Daginn áður en sýningin hófst þann 18. september hélt Íslenska verslunarráðið í Tókýó kynningu á íslenskri ferðaþjónustu, þróun hennar og nýsköpun. Hún var haldin í íslenska sendiráðinu í Tókýó. Þangað komu um 45 gestir úr japönsku atvinnulífi og voru flestir frá japönskum ferðaskrifstofum. Íslensku aðilarnir voru Icelandair, Iceland Travel, Iceland Excursions, Viking K.K., Discovery Tours og Norðausturland. Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, sagði ánægjulegt hversu vel tókst til. Sagist hann vilja koma á framfæri þakklæti til allra samstarfsaðila vegna þessa verkefnis, sem lofaði góðu um áframhaldandi samvinnu við að fjölga ferðamönnum frá Japan. Meðfylgjandi myndir tók Akiko Hasegawa sem starfar í sendiráði Íslands í Tókíó.
Lesa meira

Vestnorden haldin í 24. sinn

Um 120 íslensk fyrirtæki tóku þátt í 24. Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin var í Kaupmannahöfn  fyrr í mánuðinum í umsjón Grænlendinga. Nýtt fyrirkomulag var nú reynt varðandi uppsetningu en í stað bása voru eingöngu borð. Virtist nýtt fyrirkomulag mælast vel fyrir þótt plássið að hefði þurft að vera betra. Að sögn Jóns Gunnars Borgþórssonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu, átti starfsfólk Ferðamálastofu fundi með um 40 aðilum á meðan að á kaupstefnunni stóð. „Auk þess ræddum við að sjálfsögðu við fjölda fólks á óformlegum fundum þess utan, sem einnig er hluti af þessu öllu. Þátttakendur virtust ánægðir með sinn hlut þegar upp var staðið, bæði kaupendur og seljendur, en auðvitað ræðst síðan framhaldið af því hversu vel þessum aðilum gengur að vinna úr fundum sínum. Það er ástæða til að hvetja bæði kaupendur og seljendur að vinna úr afrakstrinum eins fljótt og auðið er,“ segir Jón Gunnar. Vestnorden á ÍslandiFerðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að Vestnorden. Er kaupstefnan haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Næst er því komið að Íslendingum en endanleg dagsetning og staðsetning liggur ekki fyrir. Myndina hér fyrir ofan tók Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður hjá Útflutningsráði, af starfsfólki Ferðamálastofu. Frá vinstri: Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Davíð Jóhansson og Jón Gunnar Borgþórsson. Fleiri myndir Þorleifs eru hér  fyrir neðan.
Lesa meira

Ísland einn af topp 10 áfangastöðum haustsins samkvæmt Boston Globe

Dagblaðið Boston Globe birti á dögunum lista yfir topp 10 áfangastaði haustins og setur meðal annars Ísland á þann lista. Þetta er ekki síst ánægjulegt í ljósi þess að Boston er einn af lykilstöðum í flugi til og frá Íslandi og nýverið flutti Icelandair höfuðstöðvar sínar í Bandaríkjunum þangað. Í grein Boston Globe er m.a. komið inn á trú Íslendinga á álfa og huldufólk. Slíkt sé e.t.v. sé ekki skrítið í ljósi þess að náttúra landsins sé bókstaflega lifandi, með goshveri, eldfjöll og fossa hvert sem litið er. Þá er umfjöllun um norðurljósin og tekið fram að óvíða séu betri aðstæður en á Íslandi til að skoða þau. Grein Boston Globe  
Lesa meira

Blaðamenn gerðu góðan róm að söguslóðum

Samtök um sögutengda ferðaþjónustu gengust í haust fyrir þremur ferðum fyrir erlenda blaðamenn þar sem farin var ferð um landið með áherslu á söguna. Ferðamálastofa styrkti verkefnið sem nefndist Sögueyjan Ísland. Samtök um sögutengda ferðaþjónustu voru stofnuð fyrir þremur árum. Aðilar er um 30 talsins, allt í kringum landið, og vinna þeir með söguna frá landnámi til siðaskipta, með áherslu á Íslendingasögurnar og arfleifð þeirra. Rögnvaldur Guðmundsson er formaður samtakanna og í úttekt á ferðavef mbl.is segir hann að nú sé komið að því að markaðssetja þetta starf í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, svo sem ferðaskrifstofur, þ.e. söguferðir um landið. ?Við fengum nýverið styrk frá Ferðamálastofu til að skipuleggja blaðamannaferðir til Íslands undir heitinu Sögueyjan Ísland. Voru farnar þrjár ferðir með alls 20 blaðamenn á tímabilinu 26. ágúst til 13. september;  fyrst með Breta, síðan hóp frá Norðurlöndunum og loks Þjóðverja og Austurríkismenn,? segir Rögnvaldur. ?Við notuðum þetta tækifæri til að prufukeyra ferðir, og nú eru ferðaskrifstofur að byrja að selja svona ferðir, t.d. Terra Nova og Ferðaskrifstofan Ísafold, bæði fyrir hópa og fólk á eigin vegum og verður boðið upp á pakka af þessu tagi í vetur og næsta sumar. Nánar má lesa um þetta áhugaverða verkefni á ferðavef mbl.is og þaðan er myndin að ofan einnig fengin.
Lesa meira