Fréttir

Fleira menntað fólk til liðs við ferðaþjónustuna

Nýlega var útskrifaður hópur ferðamálafræðinga við Háskólann á Hólum. Fimm útskrifuðust með BA gráðu í ferðamálafræði, ein með diplómagráðu í ferðamálafræði og ein með diplómagráðu í viðburðastjórnun. BA-nemendurnir völdu sér áhugaverð viðfangsefni í lokverkefnum sínum: Claudia Lobindzus skrifaði ritgerð um Hóla sem áfangastað ferðamanna. Hún lagði könnun fyrir ferðafólk á Hólum sumarið 2008 til að kanna hvert væri helsta aðdráttarafl staðarins, hvernig fólki líkaði heimsóknin og fá nánari upplýsingar um bakgrunn gestanna. Guðmundur Ögmundsson skrifaði um ímynd Vesturlands. Markaðssetning og ímynd áfangastaða, sem heimamenn eru sáttir við er mikilvægur liður í uppbyggingu ferðaþjónustu. Guðmundur beitti rýnihópavinnu til að draga fram hugmyndir heimamanna um ímynd Vesturlands og bar niðurstöðurnar saman við greiningu á kynningarefni um svæðið. Hulda Hildibrandsdóttir frá Bjarnarhöfn skrifaði um aukið aðgengi ferðamanna að staðbundnum landbúnaðarafurðum á Snæfellsnesi. Hulda tók viðtöl við fólk sem tengist landbúnaði og ferðaþjónustu á Snæfellsnesi um hvort ferðafólk er fýsilegur markhópur fyrir afurðir landbúnaðar á svæðinu og þá hvernig mætti auka aðgengi þess að staðbundnum landbúnaðarvörum. Kristján Benediktsson skrifaði um silungsveiði í Skagafirði og byggði ann á viðtölum við veiðirétthafa í Firðinum. Í kjölfar umræðu um aukna áherslu á markaðssetningu silungsveiði í veiðiferðaþjónustu valdi Kristján að kanna nánar hug veiðiréttarhafa til þeirrar uppbyggingar sem hún kallar á. Rósa María Vésteinsdóttir kannaði hug hagsmunaaðila til landbúnaðarsýninga með viðtölum. Landbúnaðarsýningin Sveitasæla var tekin til sérstakrar athugunar. Í verkefninu var fjallað um tilgang sýninganna og mögulegt mikilvægi þeirra í mótun ímyndar nútíma landbúnaðar. Ritgerðirnar eru varðveittar á háskólabókasafninu á Hólum og er öllum velkomið að skoða þær og lesa. Elín Kristbjörg Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu Ferðamálastofu fyrir góðan námsárangur í diplómanámi í ferðamálafræði. Marta Eiríksdóttir fékk viðurkenningu iðnaðarráðuneytisins fyrir góðan námsárangur í viðburðastjórnun og Claudia Lobindzus fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í BA námi í ferðamálafræði sömuleiðis frá iðnaðarráðuneytinu.Nýútskrifaðir ferðamálafræðingar frá Háskólanum á Hólum.
Lesa meira

Auglýsingar í Íslandsbækling 2010

Nú er vinnsla hafin á Íslandsbæklingi Ferðamálastofu 2010.  Sem fyrr gefst ferðaþjónustuaðilum kostur á að auglýsa í bæklingnum sem gefinn er út í um 350 þúsund eintökum á 10 tungumálum og dreift víðsvegar um heim. Bæklingurinn er myndskreyttur landkynningarbæklingur með auglýsingum og upplýsingasíðum, "gulum síðum". Hann er gefinn út í um 350.000 eintökum á 10 tungumálum; ensku, þýsku, dönsku, sænsku, norsku, finnsku, frönsku, ítölsku, spænsku og hollensku. Auk þess er gefinn út sérsniðinn bæklingur fyrir Bandaríkjamarkað í brotinu 11 x 8,5 tommur. Bæklingurinn kemur út í október 2009 og verður stærð hans u.þ.b. 44 bls. í brotinu A4. Bæklingnum er dreift á viðkomandi markaðssvæðum, á ferðasýningum erlendis en auk þess verður hann aðgengilegur sem pdf skjal á vefnum www.visiticeland.com, á DVD og mögulega á minnislyklum. Auglýsing og skráningEins og undanfarin ár verður leitað eftir þátttöku aðila í ferðaþjónustu í kostnaði við gerð bæklingsins, með auglýsingum og nafnskráningu á "gulum síðum". Þessar síður skiptast í 4 aðalflokka: Transportation Tours Activities Accommodation Undir hverjum aðalflokki eru síðan undirflokkar.  Þar gefst kostur á að fá birt nafn fyrirtækisins, síma- og faxnúmer auk netfangs/heimasíðu, alls 4 línur.  Skráningargjald grunnskráningar er 74.500.- Hver viðbótarskráning kostar 37.259.-.  Pöntun á auglýsinguHér að neðan er pöntunarblað fyrir auglýsingar og skráningu á "gular síður". Upplýsingarnar skulu sendar með faxi á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29 Akureyri, fax-númer: 464-9991 fyrir 15. júní næstkomandi. Nánari upplýsingar fást í síma 464-9990 eða upplysingar@icetourist.is Skráningareyðublað fyrir auglýsingar í Íslandsbækling 2010 (Pdf) Skoða Íslandsbæklinginn 2009 (á visiticeland.com)
Lesa meira

Hótel Borg á topplista Sunday Times Travel

Hótel Borg er eitt þriggja hótela á Norðurlöndunum sem náði inn á lista ferðablaðs Sunday Times Travel yfir heimsins bestu hótel árið 2008. Þetta er verulegur heiður enda blaðið bæði útbreitt og nýtur virðingar. Það er bæði byggingarstíll hótelsins og búnaður sem Sunday Times Travel telur fyrsta flokks en ekki síður hin einstaka staðsetning í miðborginni. Nefnt er að hótelið standi rétt við Alþingishúsið, steinsnar frá iðandi mannlífi miðborgarinnar en þó nógu langt í burtu til þess að gestir njóti næturkyrrðar.
Lesa meira

Verðmerking og greiðslur í öðrum gjaldmiðlum

Eftir ábendingu frá Neytendasamtökunum er vert að árrétta þær reglur sem gilda um verðmerkingu vöru og þjónustu og greiðslur í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum. Fyrirtæki geta vissulega boðið viðskiptavinum upp á að greiða með öðrum gjaldmiðli en krónum en það er að sjálfsögðu ólöglegt að neita að taka við krónum á Íslandi. Eins er bannað að verðmerkja í öðrum gjaldmiðlum nema að verð sé einnig gefið upp í íslenskum krónum.
Lesa meira

Námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Ferðamálastofa og upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík gangast fyrir námskeiði fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva miðvikudaginn 3. júní næstkomandi. Allt frá 1993 hefur Ferðamálastofa haldið námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva. Námskeiðið hefur verið haldið með mismundi sniði og staðsetningar hafa verið ýmist í Reykjavík, Akureyri, Egilsstöðum eða í gegnum fjarfundarbúnað sem sent hefur verið til allra landshluta. Að þessu sinni verður námskeiðið í Listasafni Reykjavíkur, Hanfarhúsinu og hefst kl. 10. Ferðakostnaður greiddurTil að jafna kostnað á milli upplýsingamiðstöðva mun Ferðamálstofa greiða fyrir ferðakostnað þátttakanda sem koma lengra að, annar kostnaður verður greiddur af viðkomandi upplýsingamiðstöð. Gert er ráð fyrir að dagskrá hefjist kl.10:15 og ljúki kl. 16:20 þannig að flestir sem myndu koma og fara með flugi gætu farið fram og til baka samdægurs. Kynningar frá landshlutumEin af nýjungunum þetta árið er að fulltrúar frá hverjum landshluta verða með stutta kynningu á sínu svæði í máli og myndum. Í lok námskeiðsins býðst þeim sem það kjósa að fara í skoðunarferð um höfuðborgarsvæðið og myndi sú ferða standa frá um kl. 16:40 ? 18:45 og svo sameiginlegur kvöldverður. SkráningEndilega tilkynnið þátttöku sem fyrst og í síðasta lagi á hádegi 2. júní. Skráning fer fram hér á vefnum. Skráning á námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva DAGSKRÁ:  10:00-10:15 Skráning og afhending gagna. 10:15-10:30 Fyrir hverja eru upplýsingamiðstöðvar?Elías Bj Gíslason, forstöðumaður Ferðamálastofu 10:30-11:15 Daglegt starf á upplýsingamiðstöðDrífa Magnúsdóttir, upplýsingamiðstöð Reykjavíkur 11:15-11:35 Handbók og gagnagrunnur FerðamálastofuHalldór Arinbjarnarson, vefstjóri Ferðamálastofu 11:35-11:50 ?Have a safe jorney? kynning á bæklingi og myndbandi frá Umferðarstofu Sigurður Helgason, verkefnastjóri Umferðarstofu 11:50-12:45  - Hádegisverðarhlé - 12:45-13:05 Má tjalda hvar sem er? Náttúruvermd og þjóðgarðar á ÍslandiUmhverfisstofnun 13:05-13:25 Öryggi ferðamanna á Íslandi. Jónas Guðmundsson, Markaðsstofu Vesturlands 13:25-14:15 Sölutækni og góð þjónusta, er hægt að sameina þetta tvennt?Hansína B. Einarsdóttir, hótelstjóri Hótel Glym 14:15-14:35  - Kaffi / te - Kynningar frá landshlutum 14:35-14:50  Kynning frá Reykjanesi 14:50-15:05 Kynning frá Vesturlandi 15:05-15:20 Kynning frá Vestfjörðum 15:20-15:35  Kynning frá Norðurlandi 15:35-15:50  Kynning frá Austurlandi 15:50-16:05 Kynning frá Suðurlandi 16:05-16:20 Kynning frá Höfuðborgarstofu  16:20 Samantekt og námskeiðslok Ef næg þátttaka fæst: (lágmark er 10 manns) 16:40-18:45 Kynnisferð um höfuðborgarsvæðið 19:00 Kvöldverður
Lesa meira

Aðkoma að gamla Garðskagavitanum vígð

Á dögunum var vígð aðstaða við gamla vitann á Garðskaga en unnið hefur verið að því að gera aðkomuna aðgengilega fyrir alla. Framkvæmdirnar voru styrktar af Ferðamálastofu. Gamli Garðskagavitinn er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Ferðamálasamtök Suðurnesja létu vinna verkið og að sögn Kristjáns Pálssonar, formanns Ferðamálasamtaka Suðurnesja, er það opinber stefna að sem flestir áfangastaðir ferðamanna verði aðgengilegir fyrir alla og er þetta verkefni unnið samkvæmt þeirri áætlun. Suðurnesin taka þátt í þessu verkefni og hafa gert áætlun um að lagfæra aðgengið að 20 ferðamannastöðum á Reykjanesi. Næsta verkefni er í undirbúningi sem er aðgengi að Gunnuhver á Reykjanesi og að Valahnjúk. Það var Róbert Aron sem klippti á borðann með aðstoð Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra og Oddnýjar Harðardóttur bæjarstjóra og opnuðu þau þannig aðgengið út að Garðskagavita formlega. 
Lesa meira

Viðhorfsrannsókn um Ísland í Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi

Viðhorf til Íslendinga er jákvætt á megin markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu og viðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er óbreytt frá því 2007 í Bretlandi og Þýskalandi. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar þar sem Ferðamálastofa og Útflutningsráð Íslands fengu ParX Viðskiptaráðgjöf IBM til að rannsaka viðhorf almennings til Íslands í þremur löndum; Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku. MeginniðurstöðurÍsland er sem fyrr helst tengt við náttúru, þó staða þjóðarbúsins sé einnig ofarlega í huga almennings í Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Flestir telja að viðhorf sitt til Íslands sé óbreytt frá því fyrir 12 mánuðum eða 66-84% en þó nefna 7-21% að viðhorf þeirra hafi versnað, hlutfallslega flestir í Bretlandi, en fæstir í Þýskalandi. Helsta ástæða þess að viðhorf hefur breyst er efnahagsástandið. Helstu ástæður þess að heimsækja Ísland eru náttúra og menning. Þeir sem sótt hafa landið heim og hafa hug á því eru jákvæðari til landsins en aðrir. Tilgangur rannsóknarinnar er að byggja upp hagnýt viðmið sem nýtast við mat og uppbyggingu á ímynd landsins. Í því samhengi var kannað viðhorf almennings til lands og þjóðar sem og viðhorf til íslenskrar vöru, þjónustu og landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru bornar saman við niðurstöður sem fengust úr rannsókn sem gerð var árið 2007 um ímynd Íslands og áhrif hvalveiða. Vitund og áhugi Dana, Breta og Þjóðverja á ÍslandiÞrátt fyrir að viðhorf til Íslands á heildina litið hafi versnað segja flestir að viðhorfið sé óbreytt. Fáir eru neikvæðir gagnvart Íslandi, flestir jákvæðir eða hlutlausir. Fram kemur að 26-59% séu jákvæð gagnvart Íslandi, en 1-15% neikvæð. Danir eru jákvæðastir en Bretar neikvæðastir. Viðhorfið mælist verra í Bretlandi og Þýskalandi en það var árið 2007. Ísland ? hvað kemur upp í hugann?Flestir tengja Ísland við náttúru (t.d. ís, hveri, jökla, eldfjöll, vatn, snjó, kulda, hesta, fisk og náttúrufegurð). Mörg ummæli eru einnig um íslenskt hagkerfi (t.d. fjármálakreppu, fiskveiðar og banka) þegar spurt er hvað komi fyrst upp í hugann þegar hugsað er um Ísland. Viðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamennViðhorf til Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn er gott og hefur ekki breyst í Bretlandi og Þýskalandi frá árinu 2007. Milli 38-70% eru jákvæð en 9-27% eru neikvæð. Danir eru jákvæðastir, en Bretar neikvæðastir. Náttúra og menning eru þeir þættir sem eru líklegastir til að laða ferðamenn til Íslands.Alls hafa 5-14% ferðast til Íslands, hlutfallslega flestir Danir. Þá segja 17-43% líklegt að þeir ferðist til Íslands, hlutfallslega flestir Danir en fæstir Bretar. Þeir sem hafa ferðast til Íslands eru jákvæðari gagnvart Íslandi og líklegri til að ferðast þangað aftur.Umfjöllun um ÍslandHvað varðar umfjöllun um Ísland í fjölmiðlum, virðast efnahagsmál hafa verið áberandi þar sem flestir hafa tekið eftir þeim, eða 38-71%. Náttúru- og umhverfismál voru einnig áberandi í Þýskalandi, en ekki nærri jafn áberandi og efnahagsmálin. Umfjöllunin hafði neikvæð áhrif á 12-35%, en jákvæð áhrif á      11-28%. Jákvæðust voru áhrifin í Þýskalandi, en neikvæðust í Bretlandi. Viðhorf til Íslendinga og búsetu, starfa og námsFlestir eru jákvæðir gagnvart Íslendingum, eða 41-66%. Aðeins 1-4% eru neikvæðir. Danir eru jákvæðastir, en Þjóðverjar eru neikvæðastir.Viðhorf til þess að búa, starfa eða stunda nám á Íslandi er síður gott, en 15-51% eru neikvæðir á meðan 13-20% eru jákvæðir. Þjóðverjar eru jákvæðastir en Danir neikvæðastir. Viðhorf til íslenskra vara, þjónustu og vörumerkjaFleiri eru jákvæðir en neikvæðir gagnvart íslenskum vörum, þjónustu og vörumerkjum; 16-29% eru jákvæðir, en 3-12% neikvæðir. Allnokkrir (12-25%) taka ekki afstöðu til málsins.Danir eru jákvæðastir og meta jafnframt gæði varanna mest. Bretar eru neikvæðastir gagnvart íslenskum vörum, þjónustu og vörumerkjum, en Þjóðverjar telja gæði varanna lökust. Staða íslensks þjóðarbús Staða íslensks þjóðarbús er veik að mati þátttakenda í þessari könnun. Danir telja hana veikasta. Um rannsókninaGagna var aflað símleiðis í spurningavögnum í gegnum lagskipt slembiúrtak í Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Spurt var í febrúar 2009 og voru þátttakendur 1000 á hverjum markaði. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum ParX viðskiptaráðgjafar IBM í samstarfi við Útflutningsráð og Ferðamálastofu. Ferðamálastofa lét gera viðhorfsrannsókn um Ísland og hvalveiðar í fimm löndum árið 2007. Hægt var að nýta niðurstöður þeirrar könnunar til viðmiðunar og samanburðar við svör Breta og Þjóðverja nú. Um var að ræða spurningar um hvað kemur upp í hugann þegar hugsað er um Ísland, heildarviðhorf til Íslands, viðhorf til Íslands sem áfangastaðar og hvort viðkomandi hafi ferðast til Íslands. Skýrslan er aðgengileg hér á vefnum í gangabanka um útgefið efni. Viðhorfsrannsókn um Ísland Nánari upplýsingar veita:Inga Hlín Pálsdóttir hjá Útflutningsráði Íslands, inga@utflutningsrad.is, sími 511 4000/824 4375 og Oddný Þóra Óladóttir hjá Ferðamálastofu oddny@icetourist.is, sími 535 5500/893 6602.
Lesa meira

JATA ferðasýningin í Japan - skráningarfrestur að renna út

Í apríl sendi Ferðamálastofa út boð um þátttöku á JATA ferðasýningunni í Japan sem haldin verður 18.-20. september næstkomandi. Skráningarfrestur á sýninguna rennur út nú í vikulokin. Ferðamálastofa hefur á undanförnum árum hafið markaðsstarf á fjærmörkuðum, m.a. í Asíu. Í þessu augnamiði var á síðasta ári tekið þátt í JATA sýningunni í Japan sem tilraunaverkefni í samstarfi við utanríkisráðuneytið. Nú hefur verið ákveðið að styðja við ferðaþjónustuaðila sem vilja taka þátt í henni á þessu ári í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Útflutningsráð, enda ljóst að allnokkur áhugi er fyrir hendi bæði hér heima og í Japan. Sýningarsvæðið hefur verið aukið umtalsvert, en básinn sem er í boði er engu að síður lítill og því gæti þurft að takmarka fjölda þátttakenda vegna þess og/eða velja úr hópi sýnenda. Ferðamálastofa og samstarfsaðilar munu sjá að mestu um kostnað við gólfsvæðið og uppbyggingu á básnum en sýnendur sjá um annan kostnað þar á meðal ferðir og uppihald. Boðið er upp á tvenns konar þátttöku: Þátttöku í sýningunni sjálfri ? fulltrúi fyrirtækisins verði til staðar í básnum og kynni fyrirtæki sitt og þjónustu þess ? þátttökugjald kr. 100.000,-(Þar sem um talsverðan kostnað verður að ræða af hálfu sýnenda er mikilvægt að þeir séu í stakk búnir til að þjónusta aðila frá þessu svæði, bæði varðandi upplýsingar og sölutilboð.) ? Athugið að fjöldi er takmarkaður. Dreifing kynningarefnis fyrir fyrirtæki ? skilað verði PDF skjölum sem prentuð verða á sýningarstað og dreift í básnum ? þátttökugjald kr. 50.000,- Vegna skipulags sýnenda erlendis þarf að senda upplýsingar um þátttakendur fyrir næstu helgi (23. maí) og því þurfum við að fá staðfestingu á vilja til þátttöku fyrir þann tíma eða í síðasta lagi föstudaginn 22. maí. Umsóknareyðublað um þátttöku í JATA 2009  PDF-skjal Nánari upplýsingar um sýninguna er að finna á vefsíðunni: www.jata-wtf.com Umsóknum ber að skila til:Ferðamálastofa, Skráning á JATA 2009Lækjargötu 3101 ReykjavíkFax: 535-5501 (Sími: 535-5500) Skráningu lýkur 22. maí 2009
Lesa meira

Samstarf Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og sendiráða kynnt í Kaupmannahöfn

Eins og fram hefur komið var í vetur skrifað undir samning um aukið samstarf Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og utanríkisþjónustunnar með það fyrir augum að samhæfa og efla kynningu á Íslandi. Í liðinni viku var kynning og vinnufundur í Kaupmannahöfn af þessu tilefni. Í ávarpi sínu sagði Ólöf Ýrr Atladóttir meðal annars að Norðurlöndin væri fyrsti markaðurinn þar sem nýtt skipulag landkynningar- og markaðsmála er innleitt.  Stefnt er að því að sendiráð Íslands  styðji við og sinni markaðsstarfi á helstu mörkuðum ferðaþjónustunnar í náinni samvinnu við Ferðamálastofu og Útflutningsráð.  Á fundinum var nánar farið yfir skipulag og verkaskiptingu í þessum efnum. Á höndum sendiráðanna verður m.a. upplýsingagjöf, skipulagning sýninga og annarra viðburða, samskipti við fjölmiðla erlendis og ferðaþjónustuaðila í viðkomandi löndum. Ferðamálastofa skipuleggur starfið í heild, sér m.a. annars um heimsóknir fjölmiðla og sölufólks, útgáfu og dreifingu kynningarefnis o.fl. Einnig var haldinn vinnufundur í sendiráðinu í Kaupmannahöfn þar sem Sigrún Hlín Sigurðardóttir, forstöðumaður sérverkefna á markaðssviði Ferðamálastofu, kynnti starfsemi hennar og vinnutilhögun við ferðamálakynningar fyrir Íslands hönd á erlendri grundu.  Fundinn sátu starfsmenn sendiráðanna Norðurlöndum og í Berlín sem sérstaklega hafa verið tilnefndir sem umsjónarmenn ferðamála í viðkomandi ríkjum. Þessir starfsmenn eru: Rósa Viðarsdóttir, Kaupmannahöfn; Elín Óskarsdóttir, Stokkhólmi; Arna Lísbet Þorgeirsdóttir, Helsinki; Lára Jónsdóttir, Osló (tímabundið); og Ruth Bobrich, Berlín en hún verður  Davíð Jóhannssyni, hjá Ferðamálastofu í Frankfurt innan handar er hann flyst til Berlínar og heldur starfinu úti úr sendiráðinu. 
Lesa meira

90% Íslendinga ætla að ferðast innanlands í sumar

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga innanlands má búast við líflegu ferðasumri í ár. Í könnuninni, sem framkvæmd var í apríl síðastliðnum af MMR, kemur fram að níu Íslendingar af hverjum tíu ætla að ferðast innanlands í sumar sem er nokkuð hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt.
Lesa meira