Fréttir

Könnun meðal brottfararfarþega frá Akureyri

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur sett af stað könnun meðal brottfararfarþega í millilandaflugi frá Akureyrarflugvelli í sumar. Markmið könnunarinnar er að er að kanna ferðavenjur þeirra erlendu gesta sem fara frá landinu í gegnum Akureyraflugvöll og kortleggja ferðamynstur þeirra um Norðurland. Könnunin hófst upp úr miðjum júní og stendur yfir fram í ágúst. Könnunin er unnin í samvinnu við Flugstoðir og viðskiptafræðideild HA í samvinnu við sveitarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu. Undirbúningur könnunarinnar fór af stað í kjölfarið á vinnufundi um millilandaflug frá Akureyri, sem fram fór samhliða árlegri ráðstefnu Háskólans á Akureyri um þjóðfélagsfræði 8. og 9. maí sl. Slík könnun hefur ekki verið gerð áður á Akureyrarflugvelli en er stöðugt haldið úti á Keflavíkurvelli frá 2004. Niðurstöður könnunarinnar munu veita veigamikið innlegg í umræðuna um millilandaflug frá Akureyri á heilsársgrundvelli, segir í frétt frá Rannsóknamiðstöð ferðamála.
Lesa meira

Fleiri sækja í ferðamálanám

Sífellt fleiri vilja auka við þekkingu sína um ferðamál ef marka má nýskráningar í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Fjölgun nema í grunnámi í haust er 80% frá fyrra ári sem samsvarar því að 81 setjist á skólabekk á haustönn. Aðsóknarmet var einnig á vorönn 2009 en þá voru alls 151 nemandi skráður í námið. Vinsældir ferðamálafræðinnar endurspegla mikilvægi ferðamála fyrir íslenskt samfélag enda greinin í vexti og sífellt fjölbreytilegri, segir í frétt frá HÍ. Nýverið útskrifaðist 21 ferðamálafræðingur úr Háskóla Íslands með baccaleum laureate gráðu en alls hafa 255 nemendur lokið prófi frá 2002 þegar fyrstu nemarnir útskrifuðust. Rannsóknarverkefni nemenda til lokaprófs spönnuðu víð svið, bæði í tengslum við þátt ferðamála í atvinnuþróun heima fyrir en eins málefni alþjóða ferðamála af mismunandi tagi. Meðfylgjandi listi ber fjölbreyttri flóru viðfangsefna innan ferðamálafræða vitni og sýnir hversu miklir möguleikar felast í ferðaþjónustu/málum. Nánari upplýsingar veitir Anna Karlsdóttir (annakar@hi.is), lektor í ferðamálafræði í síma 5254741. Lsiti yfr lokaverkefni í ferðamálafræðum 2009 (PDF)
Lesa meira

Björgunarsveitir á hálendinu sumarið 2009

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða með gæslu á hálendinu í sumar. Markmið verkefnisins eru að; fækka slysum á hálendinu, veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar, stytta viðbragstíma björgunarsveita og vera til staðar ferðamönnum til öryggis. Hálendinu verður  skipt í fjögur svæði sem eru Kjölur, Sprengisandur, Fjallabak og norðan Vatnajökuls og raðast björgunarsveitirnar niður á svæðin. Hver sveit sem tekur þátt í verkefninu mannar eina viku með a.m.k. þremur sjálfboðaliðum.  Björgunarsveitarbílar verða á ferðinni á þessum svæðum og er hlutverk þeirra að vera ferðamönnum til aðstoðar, fræða þá, leiðbeina þeim við vöð og öðru því sem uppá gæti komið.  Verkefnið stendur yfir frá 25. júní til 10. ágúst. Björgunarsveitirnar verða í sambandi við 112 þannig að viðbragð við slysum eða þeim hjálparbeiðnum sem koma inn til Neyðarlínunnar verður mun styttra.  Á hverju sumri eru björgunarsveitir SL kallaðar út til leitar að erlendum ferðamönnum.  Með því að staðsetja björgunarsveitir á hálendinu verður hægt að bregðast fljótt við ef einhverra verður saknað.  Er þá hægt að hefja rannsóknarvinnuna fljótt, hefja fyrstu leit og koma á tengslum við síðasta þekkta stað.  Björgunarsveitirnar verða því í góðu sambandi við skála- og landverði á sínu svæði.  Þess vegna munu björgunarsveitir heimsækja alla skála- og landverði a.m.k. einu sinni í viku. Komi til útkalls munu björgunarsveitirnar vinna eftir lands og svæðisstjórnarskipulagi SL. Hóparnir munu verða í daglegu sambandi við bakvakt Landsstjórnar björgunarsveita sem getur einnig fylgst með hópunum í ferilvöktun.
Lesa meira

Svipaður gistináttafjöldi í maí

Gistinætur á hótelum í maí síðastliðnum voru 117.000 en voru 117.900 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi og á Norðurlandi en í öðrum landshlutum fækkaði þeim milli ára. Þetta kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurlandi úr 12.400 í 13.900 eða um rúm 12%  miðað við maí 2008. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 9.000 í 9.800 eða um tæp 9% miðað við sama mánuð í fyrra. Hlutfallslega fækkaði gistinóttum mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, úr 10.400 í 7.900 eða um 24%. Gistinóttum fækkaði einnig á Austurlandi úr 4.700 í 4.300 eða um rúm 9%. Á Höfuðborgarsvæðinu var fjöldi gistinátta svipaður milli ára eða rúm 81.000. Í þessum tölum munar mest um Íslendinga því að fjöldi gistinátta erlendra ríkisborgara er svipaður. Fjölgun gistinátta erlendra gesta fyrstu fimm mánuði ársinsFjöldi gistinátta á hótelum fyrstu fimm mánuði ársins voru 420.500 en voru 428.700 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Suðurlandi um 8% og á Norðurlandi um 4%. Á öllum öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum, mest á Austurlandi um 21%. Fyrstu fimm mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 14% á meðan gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um 3% miðað við sama tímabil árið 2008. Nánar á vef Hagstofunnar  
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í júní

Tæplega 194 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í júnímánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta eru um 19,4% færri farþegar en í júní 2008. Frá áramótum hafa tæplega 705 þúsund farþegar farið um völlinn en til samanburðar þá voru þeir tæplega 930 þúsund á sama tímabili í fyrra. Búast má við að samdráttur í ferðum Íslendinga vegi hlutfallslega hærra í þessum tölum en nemur fækkun í heimsóknum erlendra gesta. Nú er verið að vinna úr tölum Ferðamálastofu fyrir júní en í þeim má sjá skiptingu eftir þjóðerni og þá kemur þetta betur í ljós.   Júní.09. YTD Júní.08. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 78.667 302.115 103.570 411.407 -24,04% -26,57% Hingað: 88.123 309.923 109.916 417.468 -19,83% -25,76% Áfram: 3.947 27.454 2.116 15.986 86,53% 71,74% Skipti. 23.191 65.213 24.933 84.908 -6,99% -23,20%   193.928 704.705 240.535 929.769 -19,38% -24,21%
Lesa meira

Starfsþjálfun í fjarnámi hjá Ferðaþjónustu bænda

Í upphafi sumars bauð Ferðaþjónusta bænda upp á starfsþjálfun í fjarnámi fyrir félaga sína og starfsfólk þeirra í samstarfi við Margréti Reynisdóttur hjá Gerum betur. Þátttakendur horfðu á sex nýjar kennslumyndir með Erni Árnasyni, leikara en í þeim er sýnt á myndrænan hátt hvernig hægt er gera góða þjónustu betri, jafnvel framúrskarandi og hvað ber að varast. Í framhaldi af hverju myndbandi unnu þátttakendur verkefni þar sem áherslan var lögð á að yfirfæri námsefnið á eigin starfsemi. Það sem gerði starfsþjálfunina hentuga var að þátttakendur gátu tekið þátt hvar svo sem þeir voru staddir, því eingöngu er þörf á tölvu og nettenginu. Þessi nálgun hentar því mjög vel fyrir félaga í Ferðaþjónustu bænda og í haust verður starfsþjálfunin kynnt betur fyrir félögunum og þátttakendur deila reynslu sinni. Þess má geta að Félag ferðaþjónustubænda, Landsmennt og Starfsafl komu að því að niðurgreiða námskeiðsgjöld fyrir aðildarfélaga sína.
Lesa meira

Skráning á World Travel Market 2009

Líkt og undanfarin ár tekur Ferðamálastofa þátt í World Travel Market ferðasýningunni í London. Íslenskum ferðaþjónustuaðilum býðst að fá aðstöðu í bás Íslands gegn föstu gjaldi og nú er komið hér inn á vefinn skráningarblað fyrir sýninguna. World Travel Market er ein stærsta ferðasýning í heimi og haldin árlega. Að þessu sinni fer hún fram dagana 9.-12. nóvember og er í ExCel sýningarhöllinni í London líkt og undanfarin ár. Sýningin er opin 4 daga fyrir ferðaþjónustuaðila (trade) en af þeim eru 2 síðustu dagarnir einnig fyrir almenning, þá sérstaklega síðasti dagurinn. Ferðamálastofa sér um að útbúa básinn og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Skráningu lýkur 30. júníHér fyrir neðan er tengill á eyðublað til skráningar í íslenska sýningarbásinn á World Travel Market 2009 en vakin er athygli á því að skráningu lýkur 30. júní næstkomandi. Einnig er tengill á heimasíðu sýningarinnar. Skráning á WTM 2009 (PDF-skjal) Heimasíða sýningarinnar Nánari upplýsingar um sýningar í Bretlandi veitir Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi,  siggagroa@icetourist.is Sími: 535 5500  
Lesa meira

Tillaga til þingsályktunar um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu

Ellefu þingmenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu. Verði henni lokið fyrir árið 2015. Orðrétt segir ?Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að hafa forgöngu um að gerð verði landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.? Í greinagerð með tillögunni kemur fram að þingsályktunartillagan feli í sér að unnin verði landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendi Íslands undir forustu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Við vinnslu áætlunarinnar skal hafa samráð við Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Ferðamálastofu, Ferðamálaráð, Ferðamálasamtök Íslands, aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni eftir því sem við á, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins og Skipulagsstofnun. Einnig er nauðsynlegt að leita til sérfræðinga, svo sem í ferðamálafræðum, við undirbúning og vinnslu áætlunarinnar. Flutningsmenn eru Siv Friðleifsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Guðmundur Steingrímsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Illugi Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Tillagan í heild á vef Alþings  
Lesa meira

Ísland í morgunsjónvarpi Breta alla vikuna

Stuttir þættir um Ísland eru nú sýndir í vinsælasta morgunsjónvarpi Breta alla vikuna. Um er að ræða GMTV en um 5 milljónir manns horfa á stöðina á hverjum morgni. Efnistök stöðvarinnar eru létt og skemmtileg og í hverri viku er ákveðið málefni tekið fyrir. Að þessu sinni er þema vikunnar ?Heilsa og hjartasjúkdómar?. Ákveðið var að koma til Íslands vegna þess, eins og fram kemur í myndunum, góða árangurs sem hér hefur náðst í baráttunni gegn hjartasjúkdómum, með fyrirbyggjandi aðgerðum og heilbrigðu líferni. Sjónvarpsstöðin leitaði til Ferðamálastofu sem greiddi götu hennar með ýmsum hætti, enda þurfti verkefnið að vinnast hratt og vel. ?Ég er mjög ánægð með útkomuna. Umfjöllunin er öll mjög jákvæð í garð lands og þjóðar og lögð áhersla á heilbrigðan lífsstíl og lifnaðarhætti sem sagðir eru einkenna íslenskt samfélag,? segir Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi fyrir Bretlandsmarkað. Koma GMTV hingað til lands er eitt dæmi af fjölmörgum þar sem Ferðamálastofa kemur að heimsóknum fjölmiðlafólks hingað til lands. Þannig komu um 800 blaðamenn hingað til lands í fyrra fyrir forgöngu eða með aðstoð Ferðamálastofu. Hér að neðan er slóð á umfjöllun GMTV um Íslandwww.gm.tv/videos/minute-tv/35580-healthy-iceland.html
Lesa meira

Nýr ferðavefur mbl.is

Morgunblaðið hefur opnað nýjan vef á mbl.is sem helgaður er ferðalögum og ferðamennsku. Í byrjun er einkum horft til upplýsinga um ferðalög innanlands en vefurinn er annars hugsaður sem alhliða upplýsingavefur fyrir ferðamenn. Meðal efnis eru fréttir tengdar ferðaþjónustu, viðburðadagatal, upplýsingar um áhugaverða staði, gagnlegir tenglar fyrir hvern landshluta og myndasyrpur. Þá stefndur nú yfir samkepnni um bestu ferðasöguna og eru veglegir ferðavinningar í boði. Keppnin stendur til 31. ágúst og verður kynnt í byrjun september. Ferðavefur mbl.is er á slóðinni mbl.is/ferdalog
Lesa meira