Fréttir

Svipaður fjöldi gistinátta á hótelum í júlí

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í júlí síðastliðnum. Voru þær 203.400 en voru 202.200 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða og á Suðurlandi. 12% fjölgun fyrir norðanHlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi, úr 22.300 í 25.000, eða um tæp 12%. Gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr 114.500 í 117.200 eða rúm 2%. Gistinætur á Austurlandi voru svipaðar milli ára, fóru úr 12.600 í 12.700. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum úr 20.700 í 17.700 eða um 15%. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum úr 32.100 í 31.000 eða um 4%. Gistinóttum Íslendinga á hótelum í júlí fækkaði um tæp 16% milli ára en gistinætur erlendra ríkisborgara jukust um 3%. Nánar á vef Hagstofunnar
Lesa meira

Stærsta ferðasumar sögunnar í Húnaþingi

Í frétt frá Selasetri Íslands á Hvammstanga kemur fram að nú sé orðið ljóst að sumarið 2009 sé eitt stærsta ferðasumar í Húnaþingi vestra frá upphafi. Flestir ferðaþjónustuaðilar í héraðinu telja að um umtalsverða aukningu hafi verið að ræða frá fyrra ári, þá einkum í júní og ágúst, og hleypur aukningin hjá flestum á bilinu 50-150%. Umferð um Vatnsnes hefur verið þung í sumar þar sem þúsundir manna hafa skoðað seli og notið fagurrar náttúru. Hlutfallslega hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mest en aukning innlendra ferðamanna var einnig þó nokkur. Aðstandendur kynningarátaksins Á selaslóðum, sem styrkt var af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra, vakti heilmikla athygli á svæðinu sem ákjósanlegum áfangastað fjölskyldunnar, segir í fréttinni. Mikil aukning hjá SelastrinuKomum ferðamanna í Selasetur Íslands fjölgaði um tæp 47% í ágústmánuði miðað við sama tíma í fyrra, þar af fjölgaði Íslendingum um 18% en erlendum ferðamönum um 57%. Heildarfjölgun íslenskra gesta setursins fyrstu átta mánuði ársins er tæp 32% en erlendra gesta um 62%. Þann 1. september voru gestir setursins orðnir 5804, en það er 51% aukning frá fyrra ári. Sala aðgangseyris jókst að sama skapi um tæp 90%.
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í ágúst

Tæplega 246 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í ágústmánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Þetta eru 6,2% færri farþegar en í ágúst 2008. Frá áramótum hafa rúmlega 1,2 milljónir farþegar farið um völlinn en til samanburðar þá voru þeir tæplega 1,5 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er 19,4% fækkun, líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Þannig er fækkunin í ágúst mun  minni en verið hefur aðra mánuði ársins. Þá má líkt og verið hefur búast má við að samdráttur í ferðum Íslendinga vegi hlutfallslega hærra í þessum tölum en nemur fækkun í heimsóknum erlendra gesta. Nú er verið að vinna úr tölum Ferðamálastofu fyrir ágúst en í þeim má sjá skiptingu eftir þjóðerni og þá kemur þetta betur í ljós.   Ágúst 09. YTD Ágúst.08. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 112.582 516.890 120.021 653.988 -6,20% -20,96% Hingað: 100.434 525.604 115.906 664.460 -13,35% -20,90% Áfram: 2.254 33.526 1.970 21.989 14,42% 52,47% Skipti. 30.521 128.298 33.604 153.825 -9,17% -16,59%   245.791 1.204.318 271.501 1.494.262 -9,47% -19,40%
Lesa meira

Skráningarfrestur á World Travel Market 2009

Skráningarferstur vegna World Travel Market ferðasýningarinnar í London hefur verið framlengdur til 30. ágúst 2009. Ferðaþjónustuaðilum býðst að fá aðstöðu í bás Íslands gegn föstu gjaldi. Enn er eru nokkur borð laus en "cauters" eru uppseldir. World Travel Market er ein stærsta ferðasýning í heimi og haldin árlega. Að þessu sinni fer hún fram dagana 9.-12. nóvember og er í ExCel sýningarhöllinni í London líkt og undanfarin ár. Sýningin er opin 4 daga fyrir ferðaþjónustuaðila (trade) en af þeim eru 2 síðustu dagarnir einnig fyrir almenning, þá sérstaklega síðasti dagurinn. Ferðamálastofa sér um að útbúa básinn og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Skráningu lýkur 30. ágústHér fyrir neðan er tengill á eyðublað til skráningar í íslenska sýningarbásinn á World Travel Market 2009 en vakin er athygli á því að skráningu lýkur 30. ágúst næstkomandi. Einnig er tengill á heimasíðu sýningarinnar. Skráning á WTM 2009 (PDF-skjal) Heimasíða sýningarinnar Nánari upplýsingar um sýningar í Bretlandi veitir Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi,  siggagroa@icetourist.is Sími: 535 5500  
Lesa meira

Ferðamálastofa flytur að Geirsgötu 9

Nú í lok vikunnar verður aðalskrifstofa Ferðamálastofu í Reykjavík flutt um set, frá Gimli í Lækjargötu 3, að Geirsgötu 9. Af þeim sökum verður skrifstofan lokuð föstudaginn 28 ágúst.
Lesa meira

Nám fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu

Hjá Háskólanum í Reykjavík, Opna háskólanum, stendur nú yfir skráning í nám fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu. Nefnist það ?Stjórnun og forysta í ferðaþjónustu" og er haldið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar. Námið hefst 23. september, lýkur 9. desember 2009 og er í heild 56 klukkustundir. Námið samanstendur af 6 námskeiðum og markmið þess eru að: Efla almenna stjórnunar- og leiðtogahæfni þátttakenda Veita stjórnendum betri skilning á eigin stjórnunarstíl  Kynna hagnýtar og sannreyndar aðferðir og vinnubrögð sem ýta undir stjórnunarlegan árangur Skapa sameiginlegan vettvang til tenglsamyndunar milli stjórnenda í ferðaþjónustu Nánari upplýsingar og skráning  
Lesa meira

Metaðsókn að ferðamáladeild Hólaskóla

Nú í haust mun 51 nemandi hefja nám við ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Um er að ræða þrjár námsbrautirnar sem allar eru boðnar í fjarnámi með staðbundum lotum en nemendur geta líka stundað staðbundið nám og búið í háskólaþorpinu Hólum í Hjaltadal. Námsbrautirnar eru diplóma í ferðamálafræði (90 ECTS), diplóma í viðburðastjórnun (60 ECTS) og BA nám í ferðamálafræði (180 ECTS). Um síðustu áramót brugðust íslenskir háskólar við áskorun um að taka nemendur inn í nám um áramót vegna óvissunnar á vinnumarkaði. Í fret frá Hólaskóla segir að fyrirspurnir á þessu ári sýni að þörfin fyrir að hefja nám um áramót sé enn mikil. Daglega berast fyrirspurnir frá fólki sem vill hefja nám. Næsti umsóknafrestur í ferðamáladeild Háskólans á Hólum er 30. október fyrir þá sem vilja hefja nám í janúar 2010.
Lesa meira

Skilti um utanvegaakstur og akstur á hálendinu

Í liðinni viku var skrifað undir milli samstarfssamning um kostun gerð og uppsetningu skilta er sem ætlað er upplýsa ökumenn um reglur þær og ástæður fyrir því að utanvegakstur á Íslandi er bannaður. Samningurinn er gerður á milli Vegagerðarinnar, fyrir hönd hins opinbera, og skipaðrar nefndar um utanvegaakstur, tryggingarfélaganna og bílaleiganna. Vegagerðin hefur umsjón með framkvæmd verksins og verða skiltin sett upp við innkomur á helstu leiðir inn á hálendi landsins. Í frétt á vef vegagerðarinnar kemur fram að í fyrsta áfanga á þessu ári verða sett upp 10 skilti, við Kjalveg við Gullfoss og í Blöndudal, við innkomuleiðir á Sprengisand við Hrauneyjar, á Eyjafjarðarleið við Hólsgerði og í Bárðardal ofan við Mýri, fyrir Nyrðra Fjallabak við upphaf Landmannaleiðar við Landveg, fyrir Syðra Fjallabak ofan við Keldur, og í Fljótshlíð neðan Gilsár og við Búland og fyrir leið í Laka við Hringveg. Áætlað er að halda verkinu áfram á næstu tveimur árum en alls er gert ráð fyrir að setja upp um 30 skilti af þessari gerð. Auk Vegagerðarinnar, tryggingarfélaganna og bílaleiganna komu að þessu verkefni: Samgönguráðuneytið, Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Landvernd, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands, Slóðavinir, Ferðaklúbburinn 4x4, Landgræðslan, Ríkislögreglustjóri, Samtök ferðaþjónustunnar, Landvarðafélag Íslands, Ökukennarafélag Íslands og Umferðarstofa.  
Lesa meira

Ráðstefna SAF um mikilvægi fundamarkaðarins

Samtök ferðaþjónustunnar halda ráðstefnu 10. september næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica um mikilvægi fundamarkaðarins og munu þrír þekktir erlendir fyrirlesarar koma til landsins af þessu tilefni.  Þeir eru Paul Flackett, framkvæmdastjóri IMEX, Patrick Delaney, framkvæmdastjóri Ovation Global DMC og Lutz Vogt, framkvæmdastjóri þýsku ráðstefnuskrifstofunnar.  Einnig halda erindi Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portus Group, og Anna R. Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Ráðstefnuskrifstofu Íslands.  Með tilkomu nýja ráðstefnuhússins við höfnina í Reykjavík mun aðstaða til ráðstefnuhalds jafnast á við það besta í samkeppnislöndum og því brýnt að örva funda- og ráðstefnuhald sem eru ein verðmætustu viðskipti í ferðaþjónustunni.  Þessi ráðstefna er liður í því starfi.  Gististaðanefnd SAF lagði tillögu að þessari dagskrá fyrir stjórn á vordögum og hefur verið lögð mikil vinna í að gera hana sem best úr garði. Þátttökugjald er kr. 4.900 pr. mann og kr. 3.500 fyrir þátttakendur umfram einn frá sama fyrirtæki.  Tekist hefur að halda þátttökugjaldi svo lágu með aðstoð fyrirlesaranna sjálfra og hafa Icelandair, Radisson Blu Hótel Saga, Hilton Reykjavík Nordica og Hótel Holt lagt hönd á plóg og er þeim öllum þakkað. Félagsmenn og aðrir áhugasamir um funda- og ráðstefnumarkaðinn eru hvattir til þess að nota þetta einstaka tækifæri og taka þátt.  Tilkynna þarf þátttöku til SAF info@saf.is eða í síma 511-8000. Dagskrá
Lesa meira

Námssmiðja um jarðferðamennsku (Geo-tourism)

Dagana 2. til 4. september 2009 verður haldin námssmiðja á Hótel Gíg í Mývatnssveit þar sem viðfangsefnið er vöruþróun í náttúrutengdri ferðamennsku á grunni samþykktar National Geographic um jarðferðamennsku (ens:geotourism). Sjálfbærni hefur verið markmið í ferðaþjónustu á Íslandi í meira en áratug og að því marki beinast ýmis vottunarferli og stefnuyfirlýsingar sem tekin hafa verið upp af ríki og einstökum byggðarlögum. Þessi ferli hafa beinst að tilteknum atvinnurekstri, s.s.  fólksflutningum, hótelstjórnun og umhverfisstefnu sveitarfélaga svo eitthvað sé nefnt. Til þessa hefur ekki verið kynnt neitt ferli sem tekur til stjórnunar á ferðamannastöðum sem byggja aðdráttarafl sitt á náttúru og leggur höfuðáherslu á varðveislu ásýndar landsins, menningarinnar og velferðar íbúanna. Mývatn og nágrenni þess er þekkt og fjölsótt vegna fjölbreyttra náttúrufyrirbæra. Lykillinn að velgengni svæðisins sem ferðamannastaðar er náttúruvernd í uppbyggilegu gagnkvæmu sambandi við ferðaþjónustu. Til að stuðla að þessu á Norðausturlandi og landinu öllu er boðað til tveggja daga námssmiðju / workshop á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Útflutningsráðs Íslands, Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Svartárkots fræðaseturs. Fundurinn verður sem fyrr segir á Hótel Gíg dagana 2. til 4. september 2009 og verða þar bæði framsöguerindi og staðarheimsóknir til að efla almenna umræðu og raunhæfar aðgerðir. Aðalfyrirlesari og stjórnandi vinnuhópa verður Dr. David Newsome, aðstoðarprófessor við Murdoch háskólann í Ástralíu og höfundur bókanna Geoourism. Sustainability, Impact, Management (Butterworth-Heinemann, 2005) og Nature Area Tourism (Channel View Publications, 2002) Áhugasamir eru beðnir að skrá sig á vefsíðunni www.svartarkot.is fyrir 24. ágúst 2009.
Lesa meira