Fara í efni

Stærsta ferðasumar sögunnar í Húnaþingi

Selur
Selur

Í frétt frá Selasetri Íslands á Hvammstanga kemur fram að nú sé orðið ljóst að sumarið 2009 sé eitt stærsta ferðasumar í Húnaþingi vestra frá upphafi. Flestir ferðaþjónustuaðilar í héraðinu telja að um umtalsverða aukningu hafi verið að ræða frá fyrra ári, þá einkum í júní og ágúst, og hleypur aukningin hjá flestum á bilinu 50-150%.

Umferð um Vatnsnes hefur verið þung í sumar þar sem þúsundir manna hafa skoðað seli og notið fagurrar náttúru. Hlutfallslega hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mest en aukning innlendra ferðamanna var einnig þó nokkur. Aðstandendur kynningarátaksins Á selaslóðum, sem styrkt var af Vaxtarsamningi Norðurlands vestra, vakti heilmikla athygli á svæðinu sem ákjósanlegum áfangastað fjölskyldunnar, segir í fréttinni.

Mikil aukning hjá Selastrinu
Komum ferðamanna í Selasetur Íslands fjölgaði um tæp 47% í ágústmánuði miðað við sama tíma í fyrra, þar af fjölgaði Íslendingum um 18% en erlendum ferðamönum um 57%. Heildarfjölgun íslenskra gesta setursins fyrstu átta mánuði ársins er tæp 32% en erlendra gesta um 62%. Þann 1. september voru gestir setursins orðnir 5804, en það er 51% aukning frá fyrra ári. Sala aðgangseyris jókst að sama skapi um tæp 90%.