Fara í efni

Skilti um utanvegaakstur og akstur á hálendinu

Utanvegaakstur
Utanvegaakstur

Í liðinni viku var skrifað undir milli samstarfssamning um kostun gerð og uppsetningu skilta er sem ætlað er upplýsa ökumenn um reglur þær og ástæður fyrir því að utanvegakstur á Íslandi er bannaður. Samningurinn er gerður á milli Vegagerðarinnar, fyrir hönd hins opinbera, og skipaðrar nefndar um utanvegaakstur, tryggingarfélaganna og bílaleiganna.

Vegagerðin hefur umsjón með framkvæmd verksins og verða skiltin sett upp við innkomur á helstu leiðir inn á hálendi landsins. Í frétt á vef vegagerðarinnar kemur fram að í fyrsta áfanga á þessu ári verða sett upp 10 skilti, við Kjalveg við Gullfoss og í Blöndudal, við innkomuleiðir á Sprengisand við Hrauneyjar, á Eyjafjarðarleið við Hólsgerði og í Bárðardal ofan við Mýri, fyrir Nyrðra Fjallabak við upphaf Landmannaleiðar við Landveg, fyrir Syðra Fjallabak ofan við Keldur, og í Fljótshlíð neðan Gilsár og við Búland og fyrir leið í Laka við Hringveg. Áætlað er að halda verkinu áfram á næstu tveimur árum en alls er gert ráð fyrir að setja upp um 30 skilti af þessari gerð.

Auk Vegagerðarinnar, tryggingarfélaganna og bílaleiganna komu að þessu verkefni: Samgönguráðuneytið, Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Landvernd, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasamband Íslands, Slóðavinir, Ferðaklúbburinn 4x4, Landgræðslan, Ríkislögreglustjóri, Samtök ferðaþjónustunnar, Landvarðafélag Íslands, Ökukennarafélag Íslands og Umferðarstofa.