Fréttir

Ferðamálaþing haldið 14. janúar

Iðnaðarráðuneytið og Ferðamálastofa gangast fyrir Ferðamálaþingi fimmtudaginn 14. janúar 2010. Þingið verður haldið á Hilton Reykjavík Nordica kl. 13.-17. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána sem verður auglýst síðar. Mynd: Frá fjölsóttu ferðamálaþingi sem Iðnaðarráðuneytið og Ferðamálastofa héldu fyrir rúmu ári síðan.
Lesa meira

Styrkir til úrbóta á ferðamannastöðum 2010

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi. Íslensk náttúra er eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest í anda sjálfbærni. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar íslenskrar náttúru. Styrkir skiptast í tvo meginflokka: 1. STYRKIR TIL SMÆRRI VERKEFNA ER VARÐA ÚRBÆTUR Á FERÐAMANNASTÖÐUM:Veittir verða styrkir til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði. Ekki er veittur styrkur vegna vinnuframlags. Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum lýkur. Umsókn skal innihalda:a) Kostnaðar- og framkvæmdaáætlunb) Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisinsc) Teikningar af mannvirkjum, þar sem það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúad) Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðendaEkki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega. 2. STYRKIR TIL UPPBYGGINGAR Á FJÖLSÓTTUM FERÐAMANNASTÖÐUM OG NÝJUM SVÆÐUM:Veittir verða styrkir til úrbóta í umhverfismálum og uppbyggingar á nýjum svæðum fyrir ferðamenn. Styrkupphæð getur að hámarki orðið 50% af kostnaðaráætlun. Verkefni þar sem skipulag, fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir njóta áfram forgangs en nú verður einnig hægt að sækja um styrki fyrir skipulags- eða hönnunarvinnu ásamt undirbúningsrannsóknum. Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja verkefni sem hafa sjálfbærni og langtímamarkmið í umhverfismálum að leiðarljósi. Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir skipulag og hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki. Umsókn skal innihalda:a. Kostnaðar- og framkvæmdaáætlunb. Afrit af skipulagi svæðis og/eða skriflegt samþykki viðkomandi yfirvalda vegna verkefnisinsc. Teikningar af mannvirkjum, þegar það á við, og/eða skriflegt samþykki byggingarfulltrúad. Skriflegt samþykki allra landeigenda og húsráðenda Vakin er athygli á að styrkþegi stjórnar framkvæmdum sjálfur og er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkjum er tengjast viðkomandi verkefni eftir að framkvæmdum líkur. Ekki kemur til greiðslu styrks fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega. Hverjir geta sótt um:Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi á svæði, og mikilvægi aðgerðanna út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Umsóknarfrestur:Umsóknarfrestur er til og með 8. janúar 2010. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Meðfylgjandi gögn:Með öllum umsóknum skal skila inn gögnum er sýna fram á mikilvægi framkvæmdarinnar sem og skriflegt samþykki hlutaðeigandi aðila s.s. landeigenda, sveitarfélags, og umhverfisyfirvalda ef með þarf. Hvar ber að sækja um:Umsóknir berist með rafrænum hætti á meðfylgjandi umsóknareyðublaði (sjá hér að neðan). Umsóknareyðublöð má einnig fá á skrifstofu stofnunarinnar að Strandgötu 29, 600 Akureyri. Umsókn um styrk til úrbóta á ferðamannastöðum 2010. Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5510 eða á sveinn@icetourist.is
Lesa meira

Skráning og upplýsingar vegna ITB og ferðasýninga í Evrópu

Nú eru komnar hér inn á vefinn upplýsingar á skráningarblað vegna ITB ferðasýningarinnar í Berlín í mars næstkomandi. Einnig vegna tveggja annarra sýninga í Mið-Evrópu, FITUR og BIT. Allt eru þetta sýningar sem íslenskir ferðaþjónustuaðilar þekkja, ekki síst ITB sem er ein stærsta ferðasýning í heimi. Í meðfylgjandi skjali er skráningarblað og nánari upplýsingar vegna sýninganna. Athygli er vakin á því að skráningarfrestur er til 27. nóvember næstkomandi. FITUR verður haldin 20.-24. janúar 2010. BIT verður haldin 18.-21. febrúar 2010. ITB verður haldin 10.-14. mars 2010. Ferðasýningar í Evrópu - skráning og nánari upplýsingar (Word) Ferðasýningar í Evrópu - skráning og nánari upplýsingar (PDF)  
Lesa meira

Ferðaþjónusta bænda í samstarf við Útflutningsráð Íslands

Á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda sem haldinn var á Hótel Hafnarfirði föstudaginn 20. nóvember var undirritaður samstarfssamning við Útflutningsráð Íslands, sem felur í sér samvinnu  um handleiðslu- og þróunarverkefni á meðal félaga í Ferðaþjónustu bænda. Verkefnið miðar að því að finna, greina og þróa nýja möguleika í þjónustu við ferðamenn, huga að mögulegum viðbótum við þá þjónustu sem þegar er til staðar og stuðla að samvinnu milli aðila innan svæðis um nýja eða bætta þjónustu. Verkefnin verða unnið í hverjum landshluta fyrir sig. Reiknað er með að þau verði alls sex talsins og áætlað er að haldin verði tvö til þrjú á ári. Verkefnunum verður stýrt af Útflutningsráði í náinni samvinnu við Ferðaþjónustu bænda.  Á myndinni eru frá vinsti: Sævar Skaptason, Ferðaþjónustu bænda ? Bændaferðir, Hermann Ottósson, Útflutningsráði og Marteinn Njálsson, Félagi ferðaþjónustubænda.
Lesa meira

Vefurinn skapar verðmæti - Fyrirlestur og ráðstefna 1. desember

Á fullveldisdaginn, þann 1. desember næstkomandi stendur Útflutningsráð fyrir ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica um aukin tækifæri til verðmætasköpunar á vefnum. Sú hefð hefur skapast hjá ráðinu undanfarin ár að nýta þennan dag til að vekja sérstaka athygli á málum tengdum útflutningi ? og í þetta sinn verður áhersla lögð á útflutning á netinu, enda liggja þar mörg tækifæri til hagnaðar og gjaldeyrissköpunar. Erlendur gestafyrirlesari mun miðla af reynslu sinni og íslensk fyrirtæki sem náð hafa árangri á þessu sviði kynna starfsemi sína. Aðalfyrirlesari verður Rob Snell frá Bandaríkjunum, höfundur bókarinnar Yahoo Store! For Dummies. Rob er aðaleigandi Snell Brothers, ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæfir sig í sölu á netinu. Hann mun segja frá víðtækri reynslu sinni af hönnun, þróun og markaðssetningu netverslana sem velta milljónum dollara á ári. Þau íslensku fyrirtæki sem kynna munu starfsemi sína verða 66°Norður, Nammi.is, Icelandair, CCP og Arctic Images. Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Útflutningsráðs setur ráðstefnuna og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mun ávarpa fundargesti. Í lok fundar verður boðið upp á léttan hádegisverð og spjall við fyrirlesara og fulltrúa fyrirtækja. Aðgangur er ókeypis. Þeim sem vilja skrá sig til þátttöku er bent á að gera það með pósti á netfangið utflutningsrad@utflutningsrad.is, í síma 511 4000 eða á vef Útflutningsráðs. Nánari upplýsingar veita Elsa Einarsdóttir, elsa@utflutningsrad.is og Hermann Ottósson, hermann@utflutningsrad.is. Dagskrá ráðstefnunnar sem PDF  
Lesa meira

Skráning á "workshop" í London

Vert er að ítreka að þann 5. desember rennur út skráningarfrestur vegna kynningarfundar (workshop) í London sem Ferðamálastofa, í samstarfi við Ferðamálastofur Eistlands og Finnlands, heldur þann 10. febrúar 2010. Mikilvægt er að gengið sé frá skráningu sem fyrst þar sem kaupendum verður sendur listi yfir þá seljendur sem taka þátt. Kaupendur munu svo bóka fundi við þá seljendur sem þeir vilja hitta. Nánari upplýsingar og skráningarblað er hér fyrir neðan. Nánari upplýsingar veitir Sigríður Gróa í síma 535-5500 e-mail siggagroa@icetourist.is Skráningarblað (PDF)  
Lesa meira

Ferðavenjurannsókn Hagstofunnar 2007-2008

Hagstofa Íslands hefur gefið út ritið Ferðavenjurannsókn 2007-2008. Helstu niðurstöður eru að frá maí 2007 til apríl 2008 fóru landsmenn á aldrinum 16?74 ára í rúmlega 1,2 milljón ferðir innanlands og tæplega 400 þúsund ferðir erlendis. Gistinætur landsmanna á ferðalögum erlendis eru þó svipaðar og gistinætur á ferðalögum innanlands þar sem meðaldvalarlengd í hverri ferð innanlands var um 3 nætur en hver ferð erlendis var að jafnaði 9 nætur. Algengasti áfangastaður ferða innanlands var á Suðurlandi og Vesturlandi og oftast var gist í sumar- eða orlofshúsi eða heima hjá vinum og ættingjum. Spánn, Bretland og Danmörk voru algengustu áfangastaðir á ferðum erlendis og í flestum tilvikum var gist á hóteli eða gistiheimili. Tilgangur ferða innanlands var yfirleitt til skemmtunar eða í 86% tilvika. Á ferðalögum erlendis voru 72% ferða skemmtiferðir og 26% viðskiptaferðir. Einstaklingar af tekjuhærri heimilum ferðuðust meira og almennt séð ferðuðust konur oftar en karlar þó svo að þeir hafi ferðast meira vegna viðskipta. Skoða Ferðavenjurannsókn 2007-2008
Lesa meira

Danir velja Ísland annað besta ferðamannaland í Evrópu

Síðastliðinn fimmtudag voru hin árlegu Danish Travel Awards afhent í 21. sinn við hátíðlega athöfn á hinu glænýja Crown Plaza í Örestad. Þá kom í ljós að neytendur höfðu valið Ísland annað besta ferðamannaland Evrópu, á eftir Skotlandi. Alls voru veitt 21 verðlaun í ýmsum flokkum og í fyrsta skipti sérstök umhverfisverðlaun. Að valinu stendur dönsk ferðaþjónusta og neytendur. Sem dæmi þá hlutu eftirtaldir aðilar verðlaun: Besta ferðamannaland í Evrópu: Skotland, í öðru sæti Ísland (valið af neytendum)Besta ferðamannaland utan Evrópu: Thailand, í öðru sæti BandaríkinBesta ferðaskrifstofan: Billetkontoret, í öðru sæti Profil rejser (valin af ferðaþjónustunni)Besta hótelkeðja: First Hotels, í öðru sæti Radisson Blu (valið af ferðaþjónustunni) Besta "leisure" ferðaskrifstofan: Profil, í öðru sæti  Jysk rejsebureay. (valin af neytendum). Profil hafa unnið þessi verðlaun sjö sinnum áður Umhverfisverðlaun til flugfélagsLeiguflugfélagið Thomas Cook Airlines hlaut umhverfisverðlaunin fyrir að draga úr losun kolefnis og fyrir minni hávaðamengun. Frá árinu 2000 hefur félaginu tekist að minnka eldsneytisnotkun um 22%, hávaða frá vélunum um 30% og úrgang um borð um 75%. Félagið það eina á Norðurlöndunum sem flokkar rusl um borð. Lista yfir alla vinningshafa og nánari fréttir um þessa viðurkenningu má finna á www.takeoff.dk og www.standby.dk
Lesa meira

All Senses fundaði á Grundarfirði

All Senses ferðaþjónustuklasinn á Vesturlandi gekkst fyrir tveggja daga fundi á dögunum. Komið var saman á Grundarfirði og þar var meðal annars farið yfir viðamikla viðhorfskönnun sem All Senses gekkst fyrir meðal gesta sinna síðastliðið sumar. Markmiðið með könnuninni var að fá hjálp frá viðskiptavinum til að meta þjónustuna sem All Senses félagar veita og fá upplýsingar um hvaða afþreyingu og þjónustu ferðamenn nýta sér. Einnig var markmiðið að fá upplýsingar, sem hægt er að nýta í markaðslegu sjónarmiði svo sem hvaðan erlendir aðilar fá upplýsingar um svæðið, hvernig þeir ferðast um og margt fleira.Könnunin var framkvæmd þrisvar sinnum; 22. maí-4, júní, 10.-20. júlí og 20.-30. ágúst. Þetta var gert til að vita hvort mismunur væri á þjónustu á þessum tímabilum það er að segja í upphafi sumars, um háannatíma og eða í lok sumars. Það kom bersýnilega í ljós að viðmót starfsfólks, upplýsingagjöf og hreinlæti dalar á háannatíma. Brugðist við ábendingumEitt af því sem kom fram í könnuninni var að upplýsingagjöf starfsfólks um hvað hægt væri að gera á svæðinu væri ekki nógu góð. Fundurinn á Grundarfirði var viðbrögð við þeirri ábendingu. ?Fyrri daginn far farið yfir hvað væri að gerast í okkar nær- og fjærumhverfi. Þar var kynnt þau verkefni sem eru í gangi á svæðinu svo sem Krókaverkefni, Krakkar ráða för, Dalirnir heilla, Sögulandið Vesturland, touristonline.is og fréttir af Breiðarfjarðarfléttunni, sem leggur áherslu á fuglaskoðunarferðir. Daginn eftir var unnið í vinnuhópum og lögð fram framkvæmdaáætlun um það hvernig við getum brugðist við ábendingum um betra viðmót og upplýsingagjöf starfsfólks og huga betur að hreinlæti sérstaklega á háannatíma,? segir Þórdís G. Arthursdóttir hjá All Senses. Gaman samanAll Senses lítur á það sem sitt hlutverk að: Auka gæði, arðsemi og sýnileika ferðaþjónustu á Vesturlandi, með fagmennsku og öflugu tengslaneti.Og markmiðin eru skýr: 1) Að auka arðsemi fjárfestinga 2) Byggja upp fagmennsku og tengslanet og 3) hafa gaman saman.Samveran er gífurlega mikilvæg þar myndast traust og trúnaður og ómetanlegt tengslanet. Lagt er upp úr því að halda fundina til skiptis hjá félögunum svo þeir kynnist betur starfsemi hvors annars. Þannig verða þeir betri sölumenn fyrir svæðið og geta að auki rætt af reynslu og þekkingu um starfsemi félaganna. Þessar samkomur eru mjög skemmtilegar og gefandi enda í hópnum öflugt og kraftmikið fólk. Stjórn All Senses er í dag skipuð þeim Hansínu B. Einarsdóttur Hótel Glym, Steinar Berg Fossatúni. Kjartani Ragnarssyni Landnámssetrinu, Shelagh Smith Hótel Framnesi og Guðnýju Dóru Gestsdóttur Gljúfrasteini. Þórdís Guðrún Arthursdóttir hefur verið verkefnisstjóri frá upphafi. Myndin hér að neðan var tekin af hópi fundarmanna á Hótel Framnesi.
Lesa meira

Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2009

Nýsköpunarverðlaun SAF ? Samtaka ferðaþjónustunnar 2009 voru afhent á Grand Hótel Reykjavík á föstudag. Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir öfluga uppbyggingu safnsins en fuglar í náttúru landsins er auðlind sem er í mikilli sókn í ferðaþjónustu um þessar mundir og margar hugmyndir og vörur sem eru að þróast þar í kring.  Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar: Nýsköpun snýst um að breyta hugmynd í árangur. Þegar kemur að ferðaþjónustu felst árangurinn í að byggja upp fyrirtæki sem getur staðið undir lífsviðurværi fólks og byggir á auðlindum landsins, því sem gestir vilja sækja heim, skoða og upplifa. Okkur er sönn ánægja að veita Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit nýsköpunarverðlaun SAF 2009. Fuglasafnið byggir á hugmynd, draumi og hugðarefni Sigurgeirs Stefánssonar sem lést af slysförum á Mývatni 26. október 1999. Pétur Bjarni Gíslason ásamt fjölskyldu, aðstandenum Sigurgeirs og vinnufélögum eiga veg og vanda af því að láta hugmynd Sigurgeirs verða að þeim glæsta árangri er blasir við gestum á Ytri Neslöndum í dag. Er safnið og uppbygging þess öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni. Fuglar í náttúru Íslands eru þarna allir utan einn, auk fjölda fiðraðra gesta og ættingja úr öllum heimshornum. Umgjörð þeirra er okkar helsta náttúruperla, Mývatn sem iðar af fuglalífi, sér í lagi að vori og eflir safnið því ferðamennsku á svæðinu á jaðartíma, þegar annars öflug ferðaþjónusta sveitarinnar er að vakna úr vetrardvala. Við safnið eru skilgreindir skoðunarstaðir, gönguleiðir og fuglaskoðunarbyrgi, allt hannað, líkt og safnið, á látlausan og smekklegan hátt og í takt við umhverfið. Í safninu og skilgreindum fuglaskoðunarstöðum þess er því hægt að sjá marga af sýningagripum safnsins í fullu fjöri án þess að styggja þá. Fuglar í náttúru Íslands er auðlind sem er í mikilli sókn í ferðaþjónustu um þessar mundir og margar hugmyndir og vörur sem eru að þróast þar í kring. Er það mat okkar að Fuglasafn Sigurgeirs er þar fremst í flokki og öðrum til fyrirmyndar og þannig vel að Nýsköpunarverðlaunum SAF komið.   Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að hvetja til nýsköpunar og vöruþróunar. Stjórn sjóðsins skipa: Árni Gunnarsson, formaður SAF, sem er formaður dómnefndar en honum til ráðgjafar voru dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Hildur Jónsdóttir, Farvegi ehf. Í stefnumótun SAF kemur m.a. fram að stefnt skuli að því að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið enda byggi ferðaþjónustan á ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum.  Auk þess segir að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki.  Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar.  Stjórn sjóðsins tekur tillit til þessara þátta við val sitt. Mynd: Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra, afhenti Aðalbjörgu Stefánsdóttur, systur Sigurgeirs, nýsköpunarverðlaun SAF 2009. Sjá nánar : www.fuglasafn.is
Lesa meira