Fréttir

Boð um þátttöku á JATA ferðasýningunni í Japan

Ferðamálastofa stendur fyrir þátttöku íslenskra ferðaþjónustuaðila í JATA sýningunni í Japan í haust, í samstarfi við Útflutningsráð Íslands. Sýningin er ein af þeim áhrifameiri í Asíu og hana heimsóttu á síðasta ári um 110 þúsund gestir, en þar af voru tæplega 40 þúsund fulltrúar ferðaþjónustuaðila og fjölmiðla. Sýnendur voru 763 frá 136 löndum og /eða svæðum. Sýningin sjálf er í Tokyo 18. ? 20. september og er fyrsti dagurinn einungis fyrir viðskiptaaðila en almenningur hefur aðgang á seinni tveimur dögunum. Daginn áður (þann 17.9.) er haldin ráðstefna um ferðamál (JATA World Tourism Congress) og fjallar um tiltekið þema á hverju ári. Nánari upplýsingar má nálgast á vefsvæði sýningarinnar www.jata-wtf.com/ Verið er að vinna að kostnaðaráætlun vegna þátttöku Íslands. Því biðjum við þá íslensku ferðaþjónustuaðila sem áhuga hafa á að taka þátt í sýningunni 2009 eða vilja fá frekari upplýsingar um að senda okkur póst þess efnis á info@icetourist.is fyrir 5. maí næstkomandi . Einnig má hafa samband við Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumann markaðssviðs í síma 535 5500.
Lesa meira

Ævintýralandið Ísland aldrei stærra

Ævintýralandið Ísland, fjölbreytt blað um ferðaþjónustu á Íslandi, kom út í gær og var dreift með Morgunblaðinu. Blaðið er mikið að vöxtum, 72 síður að stærð. Þetta er í fjórða sinn sem Athygli gefur út Ævintýralandið Ísland í samvinnu við Ferðamálasamtök Íslands. Blaðið er spegill þeirrar þróttmiklu starfsemi sem þrífst í ferðaþjónustunni á Íslandi og þar eru kynntar í máli og myndum fjölmargar hugmyndir að ferðalögum um landið bláa í sumar, segir í tilkynningu. . Fram kemur að um era ð ræða stærsta auglýsinga- og kynningarblað sem Athygli hefur gefið út. ?Í raun er ferðaþjónustan aldrei mikilvægari en einmitt nú. Hún skapar mörg störf og eykur gjaldeyristekjur þjóðarinnar sem við þurfum svo sannarlega á að halda um þessar mundir en velta hennar var um 115 milljarðar árið 2008. Fyrir svo utan það, hve gaman er að ferðast um landsins breiðu byggðir - ævintýralandið Ísland," segir Pétur Rafnsson formaður Ferðamálasamtaka Íslands í viðtali í Ævintýralandinu. Blðaið er einnig aðgengilegt í PDF-útgáfu. Ævintýralandið Ísland (PDF)  
Lesa meira

Kort um ástand fjallvega gefið út á netinu

Vegagerðin hefur gefið út fyrsta kort sumarsins sem sýnir að hvaða marki hálendisleiðir eru opnar fyrir umferð. Í ár verða kortin bara gefin út á netinu en ekki í prentformi eins og verið hefur. Undanfarin ár hefur nýtt kort verið gefið út á hverjum fimmtudegi og því dreift til þeirra sem stunda ferðaþjónustu, svo sem þjónustuaðila við þjóðveginn, bensínstöðva o.fl. Í frétt frá Vegagerðinni kemur fram að vegna tíðra breytinga á ástandi fjallvega verða kortin fljótt úrelt og nokkur brögð að því að kortin hangi uppi á ferðamannastöðum löngu eftir að þau eru fallin úr gildi. Nú verður kortið uppfært á netinu um leið og færð breytist þannig að það ætti alltaf að vera í takt við ástand fjallvega frá degi til dags. Nær allar leiðir lokaðarÁ fyrsta korti sumarisns kemur fram að allur akstur er bannaður á öllum hálendisvegum nema í Þórsmörk, Snæfell og upp að Langjökli úr Húsafelli. Kortið má nálgast á þessari vef slóð: www.vegagerdin.is/vegakerfid/Fjallvegir Upplýsingar fyrir erlenda ferðamennFyrir erlenda ferðamenn er vert að benda á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar á ensku: www.vegagerdin.is/english/road-conditions-and-weather Aldrei er t.d. of vel brýnt fyrir ferðafólki að virða merkingar um lokun vega. Á meðfylgjandi mynd sem Smári Sigurðsson tók má sjá illa fastan bílaleigubíl á Eyjafjarðarleið fyrir nokkrum árum og þurfti fólkið að ganga um 60 km til byggða, enda var leiðin lokuð og því engin umferð.
Lesa meira

BA-nám í ferðamálafræði frá Hólum í fjarnámi

Frá og með komandi hausti verður hægt að ljúka BA námi í ferðamálafræði við ferðamáladeild Háskólans á Hólum alfarið í fjarnámi. Þeir nemendur sem hafa lokið diplómaprófi geta nú innritast á annað ár í BA námi, hvort sem er í fjarnámi eða staðnámi. Í frétt frá Háskólanum á Hólum segir að miklar vonir séu bundnar við ferðaþjónustuna í þeirri efnahagsuppbyggingu sem nú þurfi að eiga sér stað á Íslandi. "Þekking og færni í greininni er forsenda þess að sú uppbygging verði farsæl. Nú sem aldrei fyrr, er þörf fyrir vel menntað fólk sem getur tekið þátt í nýsköpun og uppbyggingu greinarinnar af fagmennsku og virðingu fyrir auðlindum lands og þjóðar," segir orðrétt. Markmið ferðamáladeildar Háskólans á Hólum með BA-námi í ferðamálafræði er að bjóða upp á fjölbreytt, hagnýtt og raunhæft nám. Reynslan sýnir að BA nemendum útskrifuðum frá Ferðamáladeild Háskólans á Hólum hafa boðist fjölbreytt atvinnutækifæri að námi loknu. Þessi breyting gerir fleirum kleyft að afla sér aukinnar menntunar til að efla sig og sína atvinnugrein, segir í fréttinni. Tilhögun námsins er annars vegar hefðbundið staðnám á Hólum í Hjaltadal, en hinsvegar lotubundið fjarnám. Það er að námið fer bæði fram í vefumhverfi og með staðbundnum lotum þar sem nemendur og kennarar vinna saman. Sjá nánar á www.holar.is. Nánari upplýsingar veitir einnig Guðrún Helgadóttir starfandi deildarstjóri gudr@holar.is og Vigdís Gunnarsdóttir námsráðgjafi vigdis@mail.holar.is
Lesa meira

Ferðaáform Íslendinga innanlands könnuð

Ferðamálastofa hefur fengið fyrirtækið MMR (Markaðs og miðlarannsóknir ehf.) til að framkvæma könnun um ferðaáform Íslendinga innanlands á komandi sumri (maí-september). Kannað verður hvort Íslendingar ætli að ferðast í meira mæli innanlands í ár en í fyrra, hvert þeir ætli að ferðast, hvaða þjónustu þeir ætli að nýta, hvenær og hve margar ferðir þeir áætli að fara, hve lengi þeir áætli að dvelja og með hverjum þeir komi til með að ferðast. Auk þess verður hugað að því hvað hafi áhrif á ákvarðanatöku þegar ferðalög innanlands eru annars vegar og hver viðhorf Íslendinga eru almennt til aðstöðu á ferðamannastöðum. Könnunin er unnin sem net- og símakönnun og er aðferðafræðinni skipt eftir aldurshópum. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára eru lagður fyrir í spurningavagni MMR og svarað á Internetinu og spurningar fyrir aldurshópinn 68-80 ára með símaviðtali eingöngu. Niðurstöður munu liggja fyrir um miðjan maí og koma vonandi til með að nýtast ferðaþjónustuaðilum við skipulagningu og mat á hvers vænta má af ferðasumrinu 2009.
Lesa meira

Nýr vefur um tjaldsvæði

Í loftið er kominn nýr vefur www.tjalda.is sem hefur það að meginmarkmiði að auðvelda ferðamönnum að finna sér tjaldsvæði við hæfi. Á síðunni geta notendur leitað að tjaldsvæðum eftir landshluta og eftir nafni. Þá hafa notendur einnig möguleika á að setja inn athugasemdir við hvert tjaldsvæði og miðla þannig af sinni reynslu. Fyrir erlenda ferðamenn er www.gocamping.is slóðin. Þar verður að finna sömu upplýsingar á ensku, dönsku, þýsku og ítölsku. Á vefnum er einnig ýmiss fróðleikur um tjaldsvæði almennt og útilegur, ásamt upplýsingum um akstur á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn. Rekstraraðilar tjaldsvæða geta einnig haft samband við tjalda.is og sett inn meiri upplýsingar um sitt tjaldsvæði. Þess má geta að á vefnum kemur meðal annars fram hvort viðkomandi tjaldsvæði er þátttakandi í flokkunarkerfi Ferðamálastofu og þá hversu margar stjörnur það er með. Nánari upplýsingar veitir Geir Gígja í gegnum netfangið geir@tjalda.is www.tjalda.is      
Lesa meira

Ferðahandbókin Á ferð um Ísland komin út

Á ferð um Ísland er nú komin út nítjánda árið í röð. Útgáfufélagið Heimur gefur ferðahandbókina út og er hún á þremur tungumálum, þ.e. íslensku, ensku og þýsku. Enska útgáfan Around Iceland hefur komið út samfellt í 34 ár en þýska útgáfan Rund um Island kemur nú út í 12. sinn. Ritunum er dreift í 100.000 eintökum á alla helstu ferðamannastaði landsins, eða um fimm hundruð staði. Í bókinni er umfjöllun um hvern landshluta, þjónustulistar sem eru uppfærðir árlega í samstarfi við heimamenn, ásamt kortum þar sem gististaðir, tjaldsvæði og sundlaugar eru númeraðar á svæðum utan þéttbýlis. Sambærileg kort eru einnig frá helstu þéttbýlisstöðum landsins. Þá er einnig að finna hálendiskafla með hálendiskorti og þjónustulistum í bókinni. Fremst í bókinni er síðan að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð, það helsta sem er á döfinni í sumar, afþreyingu og margt fleira. Í frétt frá Heimi kemur fram að miklar vinsældir bókanna hafi fyrir löngu sannað gildi þeirra. Í fyrrasumar var gerð könnun meðal erlendra ferðamanna á notkun bókanna og kom í ljós, að meira en þriðjungur þeirra notaði bækurnar og 48% þýskumælandi ferðamanna notaði Rund um Island. Fjöldi fallegra ljósmynda, m.a. eftir Pál Stefánsson, ljósmyndara Heims, skreyta bækurnar og er hægt að kaupa myndirnar á www.heimur.is. Auglýsingasala gerir kleift að dreifa bókunum ókeypis en í ár prýðir fjöldi nýrra auglýsingasíðna bækurnar. Margar af nýju auglýsingasíðunum hafa verið hannaðar hjá Heimi. Auk þess má geta þessa að bækurnar eru einnig birtar í vefútgáfu á www.heimur.is/world. Ritstjóri bókanna er Ottó Schopka.
Lesa meira

Íslendingar friðsamastir þjóða

Ísland trónir á toppi ?friðarvísitölunnar 2008?, eða Global Peace Index. Friðarvísitalan er gefin út af stofnun sem nefnist Vision of Humaity og þar er 121 þjóð flokkuð með hliðsjón af friðarhugtakinu. Vísitalan samanstendur af 24 þáttum og tekur bæði á innri og ytri þáttum í skipulagi og starfsemi þjóðfélagsins, allt frá útgjöldum til hermála til samskipta við nágrannaþjóðir og stöðu mannréttindamála. Á heimasíðu Vision of Humaity er fullyrt að sérfræðingar á ýmsum sviðum hafi komið að ákvörðun á samsetningu vísitölunnar og hún geti verið mikilvægt hjálpartæki og leiðarljós í þeirri viðleitni að auka frið í heiminum. Norðurlöndin virðast vera friðsamur staður að búa á, ef dæma má af vísitölunni, þar sem frændur okkar Danir og Norðmenn verma annað og þriðja sætið. Heimasíða Vision of Humaity
Lesa meira

Rannsóknadeild opnuð í Selasetri Íslands

Síðasta vetrardag var rannsóknadeild Selaseturs Íslands á Hvammstanga opnuð með pompi og prakt. Við þetta tækifæri voru undirritaðir samstarfssamningar setursins við Veiðimálastofnun og Hólaskóla en starfsmenn frá báðum stofnunum hafa nú aðsetur í setrinu. Starfsmaður Veiðimálastofnunar er Sandra Magdalena Granquist og mun hún stunda selarannsóknir en starfsmaður Hólaskóla er Per Åke Nilsson sem auk kennslu við skólann mun sinna rannsóknum á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri var sérstakur gestur opnunarinnar og sagði hún að sem líffræðingur væri hún mjög glöð að sjá loks samþættingu ferðamálafræði og náttúruvísinda í verki, sem hún teldi nauðsynlegt hér á landi þar sem náttúran er helsta aðdráttaraflið. Að formlegri undirskrift lokinni var gestum boðið upp á kynningu á alþjóðlega samstarfsverkefninu The Wild North, sem verkstýrt er frá Selasetrinu. Aðstandendur setursins voru mjög ánægðir með daginn og þess fullvissir að rannsóknardeildin muni verða grundvöllur enn frekari atvinnuuppbyggingar við setrið, en til gamans má geta að í sumar verða starfsmenn setursins sjö talsins.  Mynd: Sigurður Guðjónsson forstjóri Veiðimálastofnunar, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands og Skúli Skúlason rektor Hólaskóla við undirritun samninga.
Lesa meira

Ársskýrsla Ferðamálastofu og kynning á verkefnum ársins 2009

Ársskýrsla Ferðamálastofu fyrir árið 2008 er nú komin út og er aðgengileg hér á vefnum. Skýrslan var kynnt á fundi fyrr í vikunni, þar sem einnig farið yfir helstu verkefni Ferðamálastofu á yfirstandandi ári og kynnt áhugaverð rannsókn um viðhorf ferðamanna á Kili. Í skýrslunni er farið yfir þau fjölbreyttu verkefni sem Ferðamálastofa sinnti á síðasta ári. Talsverðar breytingar urðu á árinu, bæði á starfi stofnunarinnar og ytra umhverfi. Fjárhagsleg umsvif námu rúmum 700 milljónum króna og var reksturinn innan fjárheimilda. Verðmætar blaðamannaheimsóknirSem dæmi um það öfluga starf sem Ferðamálastofa sinnir má nefna að um 700 blaða og fjölmiðlamenn komu til landsins fyrir forgöngu eða með aðstoð Ferðamálastofu á árinu. Verðmæti þeirrar umfjöllunar sem kemur í kjölfar slíkra ferða er jafnan margfalt á við þann kostnað sem af þeim hlýst. Þannig hefur verið reiknað út að þær ferðatengdu blaðagreinar sem birtust um Ísland bara í Þýskalandi hafi verið um 7 milljónir evra að birtingarverðmæti. Rannsóknir og kannanirRannsóknir og kannanir eru sem kunnugt er mikilvæg forsenda allrar áætlanagerðar. Ferðamálastofa sér um talningu á ferðamönnum sem koma til landsins, skipt eftir þjóðerni, og á árinu fóru erlendir gestir í fyrsta sinn yfir hálfa milljón. Á árinu voru einnig kynntar niðurstöður gæðakönnunar meðal erlendra ferðamanna og hafinn undirbúningur rannsóknar á viðhorfum til Íslands. Umhverfis-, þróunar og gæðamálStarf að umhverfismálum var fjölbreytt sem fyrr. Meðal annars var úthlutað styrkjum til úrbóta á ferðamannastöðum líkt og verið hefur en víða er mikil þörf á að taka betur á í þeim efnum. Þróunar og gæðamál skipa æ stærri sess  og má þar nefna flokkun gististaða og tjaldsvæða, umsýslu með styrkveitingum, þróunarverkefni í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð, námskeiðahald, kynningafundir o.fl. Ársskýrsla Ferðamálastofu 2008 - PDF Helstu verkefni framundanÁ fundum fóru Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs, og Jón Gunnar Borgþórsson, forstöðumaður markaðssviðs, einnig yfir helstu áherslur í starfinu framundan. Verið er að leggja lokahönd á stefnumótunarvinnu Ferðamálastofu sem ætlað er að leggja línurnar fyrir starfið og skipulag þess næstu misseri. Í þeim efnum hefur mest áhersla verið á endurskipulagningu á markaðssviði, með það fyrir augum að nýta betur þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru fyrir markaðssetningu landsins. Í stað þess að reka sérstakar skrifstofur erlendis hefur verið tekið upp aukið samstarf við aðra aðila sem vinna að kynningarmálum Íslands. Þannig næst fram hagræðing og aukinn slagkraftur í markaðssetningu vegna samlegðaráhrifa. Í lok mars var skrifað undir samning milli utanríkisráðuneytisins, Ferðamálastofu og Útflutningsráðs um stóraukið samstarf í landkynningar- og markaðssamstarfi erlendis. Sendiráð Íslands taka að verulegu leyti yfir hlutverk landkynningarskrifstofa Ferðamálastofu erlendis og er þessa dagana unnið að lokun skrifstofanna í Kaupmannahöfn og Frankfurt með færslu verkefna til sendiráðanna. Þá má nefna að hugur Ferðamálastofu stendur til aukinnar áherslu á uppbyggingu, þróunar- og gæðamál innanlands með það fyrir augum að styrkja innviði íslenskrar ferðaþjónustu. Í þeim efnum má nefna stuðning við uppbyggingu sjö markaðsstofa /landshlutamiðstöðva og mótun samstarfs við þær, fjölgun meginferðamannastaða (segla), endurskipulagningu á rekstri upplýsingamiðstöðva, endurgerð markaðs og kynningarvefja, rannsóknir og kannanir, gerða leiðbeiningarrita um merkingar á ferðamannastöðum o.fl. Kynning á verkefnum ársins 2009 - (PDF) Viðhorf ferðamanna á KiliLoks kynnti Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Háskóla íslands, á fundinum niðurstöður afar áhugaverðrar könnunar sem gerð var á viðhorfi ferðamanna á Kili en Ferðamálastofa styrkti verkefnið. Lagir voru fyrir spurningalistar á tveimur stöðum, Hveravöllum og Kerlingafjöllum, og tekin viðtöl við bæði ferðamenn og starfsfólk á svæðunum. Rannsóknin er innlegg í stærra verkefni sem hefur að meginmarkmiði að afla þekkingar sem nýtist við gerð landnýtingaráætlunar fyrir ferðamennsku á suðurhluta hálendisins. Kynningu Önnu Dóru má nálgast hér að neðan. Viðhorf ferðamanna á Kili - PDF
Lesa meira