Fréttir

90% Íslendinga ætla að ferðast innanlands í sumar

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga innanlands má búast við líflegu ferðasumri í ár.  Í könnuninni, sem framkvæmd var í apríl síðastliðnum af MMR, kemur fram að níu Íslendingar af hverjum tíu ætla að ferðast innanlands í sumar sem er nokkuð hærra hlutfall en fyrri kannanir Ferðamálastofu hafa sýnt. Rúmlega 60% ætla eingöngu að ferðast innanlands, tæplega helmingur ætlar að eyða fleiri gistinóttum á ferðalögum innanlands í sumar en á síðasta ári og tveir þriðju ætla að fara að minnsta kosti þrjár ferðir. Samdráttur í utanferðumSamkvæmt könnuninni ætlar fjórðungur landsmanna að ferðast bæði innanlands og utan og 5% eingöngu utanlands. Átta prósent ætla hins vegar ekki að ferðast. Þannig ætla 3 af hverjum 10 að ferðast utanlands sem eru vísbendingar um verulegan samdrátt miðað við fyrri kannanir. Flest ferðalög munu eiga sér stað seinni hlutann í júlí en þá ætla þrír af hverjum fimm landsmanna að ferðast. Helmingur ætlar hins vegar að ferðast fyrri partinn í júlí eða ágúst, en fjölmargir þó á öðrum tímabilum. Tjaldsvæði vinsælasti gistimátinnÞrír af hverjum fimm ætla að gista í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl, tveir af hverjum fimm hjá vinum og ættingjum og þriðjungur í sumarhúsi í einkaeigu eða orlofshúsi félagasamtaka. Suðurland og Norðurland verða fjölsóttustu landshlutarnir, samkvæmt könnuninni og sú afþreying sem landsmenn eru líklegastir að greiða fyrir er sund, jarðböð, veiði, söfn og sýningar. Fjölskyldan hefur mest áhrifFjölmargir þættir hafa áhrif á ákvarðanatöku þegar ferðalög landsmanna eru annars vegar, s.s. fjölskylda og vinir, efnahagur, veðrið, viðburðir og áhugi eða tengsl við stað. Náttúran, veðurfarið og persónuleg tengsl eru hins vegar þeir þættir sem einkum hafa áhrif við val á ákvörðunarstað.  Vestfirðir spennandiÞegar spurt var hvaða þrír staðir eða svæði fólki fyndist mest spennandi nefndu flestir Vestfirði, eða tæplega helmingur svarenda. Suðurland og Norðurland eystra komu þar nokkuð á eftir. Það sem stendur einkum í vegi fyrir að landsmenn ferðist meira innanlands er að þeim finnst það of dýrt (41%) eða þeir geta það ekki vegna vinnunnar (35%). Um 20% nefna veðrið og svipað hlutafall að þeir hafi ekki tíma.  Um könnuninaKönnunin var unnin sem net- og símakönnun 20.-29. apríl og var aðferðafræðinni skipt eftir aldurshópum. Spurningar fyrir aldurshópinn 18-67 ára voru lagðar fyrir í spurningavagni MMR og var svarað á Internetinu. Könnunin náði til 1400 manna úrtaks úr þjóðskrá og var svarhlutfall 60,9%. Aldurshópurinn 68-80 ára var spurður símleiðis, byggt var á 135 manna úrtaki og var svarhlutfall 65,2%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum MMR. Könnunin í heild: Ferðaáform Íslendinga 2009 (PDF) Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, verkefnastjóri hjá FerðamálastofuÍ síma 535-5500
Lesa meira

Að tala fyrir Íslands hönd

Málþing sem ber yfirskriftina Að tala fyrir Íslands hönd verður haldið í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 20. maí kl. 8.15-12.00. Þar verða meðal annars  kynntar niðurstöður úr viðhorfsrannsókn sem Ferðamálastofa og Útflutningsráð hafa látið gera í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi um viðhorf almennings til Íslands. Boðað er til málþingsins í samstarfi hinna ýmsu samtaka atvinnurekenda, Útflutningsráðs, Almannatengslafélags Íslands og Ferðamálastofu og munu innlendir og erlendir fyrirlesarar fjalla um orðspor Íslands, fortíð og framtíð. Meðal þeirra sem flytja erindi eru David Hoskin frá Eye-for-Image í Danmörku, Geoff Saltmarsh frá The Saltmarsh Partnership í Bretlandi, dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra í Ósló, Andrés Jónsson, formaður Almannatengslafélags Íslands og Urður Gunnarsdóttir, blaðafulltrúi utanríkisráðuneytis. Hafa atburðir síðustu mánaða skaðað orðspor okkar erlendis? Hafa skilaboð okkar til erlenda fjölmiðla og umheimsins verið skýr? Hefur verið höggvið skarð í ímynd okkar og hefur viðhorf almennings til Íslands og Íslendinga hjá helstu viðskiptaþjóðum okkar breyst? Skráning á málþingið er á vef Útflutningsráðs Auglýsing - PDF  
Lesa meira

Ferðamál og félagsvísindi - Hagnýting í dreifðum byggðum

Dagana 8. og 9. maí 2009 voru haldnir fjórir vinnufundir um ferðaþjónustu í samvinnu við árlega ráðstefnu Háskólans á Akureyri um þjóðfélagsfræði, mannfræðistofnun Háskóla Íslands og Akureyrabæ. Frumkvæði fundanna kom frá Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarstjóra á Akureyri, en á ferðamálaþingi í nóvember 2008 kallaði hún eftir fundi sem þessum og er þetta fyrsta skref í þá átt. Fundirnir voru haldnir við Háskólann á Akureyri, Sólborg. Þeir fóru þannig fram að fyrst voru ein eða fleiri stuttar framsögur, en síðan leiddi stjórnandi umræðu fundarmanna um þau ólíku þemu sem skilgreind voru (sjá að neðan), samhliða voru málefni sem fundarmenn bentu á  kortlögð og búin til tengslamynd.  Er tengslamyndin þannig afrakstur hugarflugs og nýtist sem fyrsta skref í átt að ítarlegri kortlagningu þeirra málefna sem til umræðu voru. Á myndunum ætti þannig að vera nokkuð tæmandi listi þeirra atriða er málefnið varða og hvernig þau tengjast.   Þemu fundanna eru talin hér að neðan en í sviga aftan við þau má smella á textann til að fá .pdf af afrakstri fundanna: Frá hugmynd að árangri /Auðlindir ferðaþjónustu ? menning og náttúra Skemmtiskipakomur Millilandaflug til Akureyrar ? hvað þarf? / Sjálfbærni og ferðaþjónusta Jaðaríþróttir og ferðaþjónusta /Árangurssögur af Norðurslóðum
Lesa meira

Nýr ráðherra í heimsókn

Eins og fram hefur komið er fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar haldinn á Akureyri í dag. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra notaði tækifærið og heimsótti skrifstofu Ferðamálastofu. Katrín heilsaði upp á starfsfólk og kynnti sér þau verkefni sem unnin eru á skrifstofunni. Þá var rætt um nýjan stjórnarsáttmála en þar koma ferðamálin verulega við sögu. Á myndinni hér að neðan er nýr ráðherra með starfsfólki. Talið frá vinstri:  Ólafur Aðalgeirsson rekstrarstjóri, Rannveig Guðmundsdóttir verkefnastjóri, Sveinn Rúnar Traustason umhverfisfulltrúi, Helena Þ. Karlsdóttir lögfræðingur, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Halldór Arinbjarnarson verkefnastjóri og Elías Bj. Gíslason forstöðumaður.
Lesa meira

Katrín Júlíusdóttir nýr ráðherra ferðamála

Katrín Júlíusdóttir tók í gær við sem iðnaðarráðherra af Össuri Skarphéðinssyni. Hún er þar með nýr ráðherra ferðamála. Starfsfólk Ferðamálastofu býður Katrínu velkomna til starfa í ráðuneytinu og hlakkar til samstarfsins. Katrín hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá árinu 1993 og er nú 4. þingmaður suðvesturkjördæmis. Hún hefur setið í ýmsum nefndum þingsins og verið formaður iðnaðarnefndar frá árinu 2007. Æviágrip á vef Alþingis
Lesa meira

Stofnfundur samtaka um fuglaskoðun

Miðvikudaginn 20. maí næstkomandi verður haldinn stofnfundur samtaka um fuglaskoðun. Einnig er komin út samantekt sem Ráðgjöf Ferðaþjónustunnar (RRF) hafa nýlokið vinnu við fyrir Útflutningsráð og Ferðamálastofu varðandi fuglaskoðun erlendra og innlendra ferðamanna á Íslandi. Útflutningsráð hefur ásamt samstarfsaðilum unnið að undirbúningi við að skoða tækifæri til aukinnar markaðssóknar á fuglaskoðun í ferðaþjónustu á Íslandi. Í upphafi árs var haldinn sameiginlegur opinn fundur þar sem samþykkt var að stofnuð yrðu samtök aðila sem myndu bjóða upp á þjónustu við þennan ákveðna markhóp. Einnig var ákveðið að vinna þyrfti frekari greiningarvinnu og er nú hringferð í kringum landið lokið þar sem fimm staðir voru heimsóttir. Ljóst er að mikill áhugi er á uppbyggingu þjónustu við fuglaskoðun, segir í frétt frá Útflutningsráði. Skráning á stofnfundStofnfundur samtakanna verður haldinn miðvikudaginn 20. maí, kl. 13.00-15.00 á Hilton Hótel Nordica. Skráning fer fram með tölvupósti á netfangið utflutningsrad@utflutningsrad.is eða í síma 511 4000, einnig hægt að skrá sig á vef Útflutningsráðs. Samantekt um fuglaskoðun ferðamannaÞá er einnig komin út samantekt sem Rannsóknir og Ráðgjöf Ferðaþjónustunnar (RRF) hafa nýlokið vinnu við fyrir Útflutningsráð og Ferðamálastofu varðandi fuglaskoðun erlendra og innlendra ferðamanna á Íslandi. Stuðst var við ýmsar kannanir sem RRF hefur gert á síðustu 13 árum, þ.e. frá 1996 til 2008. Skoða Samantekt um fuglaskoðun ferðamanna
Lesa meira

Rekstur flugfélaga ? áskoranir og tækifæri

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, stendur fyrir ráðstefnu um rekstur flugfélaga, áskoranir og tækifæri föstudaginn 8. maí kl. 13:00-17:00 í hátíðarsal Tækniskólans v/Háteigsveg. Rekstrarumhverfi flugfélaga í dag er þannig háttað að áskoranirnar eru margar, fjölbreytilegar og verða til með afar skjótum hætti. Eldsneytisverð hefur lengi verið hátt og samdráttur allsráðandi í efnahagslægð þeirri sem gengur yfir heimsbyggðina. Hugsanlegur inflúensufaraldur er nú enn eitt áfallið sem mun hafa áhrif á flugrekstur um heim allan. Áskoranirnar eru sannarlega til staðar en tækifærin líka, segir í tilkynningu. Tveir undirskólar Tækniskólans, Endurmenntunarskólinn og Flugskóli Íslands hafa safnað saman forsvarsmönnum í flugrekstri á Íslandi, flugmálastjóra og John Wensveen Ph.D. sérfræðingi í rekstri flugfélaga og deildarforseta Flugmálaskólans við Dowling College í New York til þess að fjalla um rekstur flugfélaga frá þessu sjónarhorni og leggja til umræðunnar hugmyndir um framtíðina í þessum geira. Ofangreindum skólum er málið skylt því bæði Endurmenntunarskólinn og Flugskóli Íslands bjóða upp á nám í flugtengdum greinum. Í Endurmenntunarskólanum er kennd flugrekstrarfræði á háskólastigi og Flugskóli Íslands býður upp á alla flugkennslu, þar með talið einkaflug og atvinnuflug, þyrluflug og flugumferðarstjórn. Ennfremur sér Flugskóli Íslands um sí- og endurmenntun áhafna flugvéla, þ.e. flumanna og flugliða. Nánari upplýsingar á www.tskoli.is    Ráðstefnugjald er 4000 kr. Skráning fer fram í s. 514 9000 eða á netfangið ave@tskoli.is Dagskrá ráðstefnunnar (PDF) Auglýsing um ráðstefnauna (PDF)
Lesa meira

Víkingaheimar opnaðir í Reykjanesbæ

Víkingaheimar sem hýsa Víkingaskipið Íslending og Smithsonian sögusýninguna ?Víkings? verða opnaðir núna á föstudag á Fitjum í Reykjanesbæ. Framkvæmdir hafa staðið yfir síðan snemma árið 2007. Formleg opnun 17. júníOpnunin um helgina og út maímánuð er nokkurskonar óformlega opnun. Formleg opnun verður 17. júní en þann sama dag árið 2000 lagði Íslendingur úr höfn í hina sögulegu siglingu til Ameríku. Markmið Víkingaheima er að gera svæðið að einum mest sótta ferðamannastað á Íslandi og hefur verið staðið þannig að verki frá upphafi, segir í tilkynningu um opnunina. "Okkur fannst það með öllu óhugsandi að þessi merkilega smíð myndi ekki koma aftur heim til Íslands og verða sýnd hér, landi og þjóð til sóma. Skipið er í senn merkilegur minnisvarði þúsunda ára hefðar um leið og það minnir okkur á sigur mannsandans á efninu og náttúrunni, bæði í nútíð og fortíð. Reykjanesbær og þeir einkaaðilar sem eiga þetta verk með bænum hafa haft það að leiðarljósi frá upphafi að um skipið og sýningu Smithsonian yrði reist naust sem sómi væri að," er haft eftir Árna Sigfússona bæjarstjóra í tilkynningunni. Mikill áfangi fyrir ferðaþjónustuna"Þetta er mikill áfangi ferðaþjónustuna hér á Suðurnesjum. Bláa Lónið hefur verið stærsti ferðamannasegull þessa svæðis. Nú bætast Víkingaheimar við og við bindum miklar vonir við það. Það er ljóst að þetta mun auka straum ferðamanna á Suðurnesin um leið og það mun líklega auka viðveru þeirra á svæðinu sem er eitthvað sem allir munu njóta góðs af í ferðaþjónustunni" sagði Kristján Pálsson hjá Markaðsstofu Suðurnesja. Um VíkingaheimaVíkingaheimar voru sérstaklega reistir utan um víkingaskipið Íslending sem Gunnar Marel Eggertsson smíðaði árið 1996 og sigldi frá Íslandi til Ameríku árið 2000. Skipið er nákvæm eftirmynd af Gaukstaðaskipinu fræga sem fornleifafræðingar fundur í Noregi, næstum heilt, árið 1882. Gunnar Marel frétti árið 1990 af norskri áætlun um siglingu víkingaskipsins Gaia frá Noregi til Washington DC. Hann hafði samband við Gaia hópinn og var samþykktur sem næstráðandi. Hann sigldi svo með Gaia frá 17. maí til 9. Október 1991. Árið 1994 ákvað Gunnar Marel að byggja sitt eigið víkingaskip. Hann byrjaði í september á því ári og lauk við það í maí 1996. Gunnar byggði skipið meira og minna á eigin spýtur en naut þó hjálpar frá skipasmíðavini sínum Þórði Haraldssyni. Íslendingur er nákvæm eftirlíking af Gaukstaðaskipinu. Viðurinn fura og eik var vandlega valinn í Noregi og Svíþjóð og seglið var framleitt í Danmörku. Undir lok smíðinnar naut Gunnar Marel sérkunnáttu Jon Godal í Noregi, sem er heimsþekktur fyrir þekkingu sína á víkingaskipum. Upphaflega var Íslendingur notaður til að fræða íslensk skólabörn um víkingatímann. Árið 1998 hafði Gunnar Marel hugmyndir um að sigla skipinu til Bandaríkjanna árið 2000 til minningar um sjóferð Leifs Eiríkssonar einni teinöld áður. Hann stofnaði svo fyrirtæki til að hrinda sjóferðinni af stokkunum og hún hófst 17. júní í Reykjavík á Íslandi. Ferð hans var styrkt af Landafundanefnd og vakti heimsathygli á landafundi Leifs Eiríkssonar og Bjarnar Herjólfssonar, sem samkvæmt Íslendingasögunum fundu Ameríku ári 1000. Á Þjóðhátíðardag Íslendinga, þann 17. Júní árið 2000, lagði Gunnar Marel ásamt 8 manna áhöfn af stað með kveðjuræðu frá forsætisráðherra Íslands. Eftir um fjóra mánuði á sjó og 22 viðkomur allt frá suður hluta Grænlands til Boston sigldi Íslendingur í höfn í New York og fékk höfðinglegar móttökur. Sögusýningin VíkingarVíkingaheimar eru líka heimili Smithsonian sögusýningarinnar Víkingar. Hún var upphaflega sett upp á Smithsonian safninu í Washington sumarið 2000. Hákon Noregskonungur opnaði sýninguna við hátíðlega athöfn. Sýningin var í kjölfarið sett upp í 6 borgum víða um Bandaríkin. Smithsonian sýningin og sigling Íslendings mörkuðu aldarafmæli landafundar í Norður Ameríku og vörpuðu ljósi á nýjustu uppgötvanir fræðimanna um siglingar norrænna manna og leiðangra þeirra til vestur. Opnunartími Víkingaheima er 11:00-18:00 alla daga. Sími 422-2000Netfang: info@vikingaheimar.comHeimasíða: www.vikingaheimar.com
Lesa meira

Menning á sjálfbærum áfangastað

Markaðsráð Hríseyjar stendur fyrir málþinginu ,,Menning á sjálfbærum áfangastað? í Hrísey laugardaginn 23. maí kl. 10:30 ? 15:00. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að skapa sjálfbært samfélag í Hrísey. Frá upphafi verkefnisins hefur verið hugað að því hvernig hægt sé að nýta verkefnið til atvinnusköpunar auk þess að koma á framfæri sérstöðu svæðisins. Hefur í því sambandi helst verið litið til ferðaþjónustunnar. Á málþinginu verður skoðuð uppbygging menningarstarfs á landsbyggðinni í tengslum við ferðaþjónustu og sjálfbært samfélag. Ferjan fer frá Ársskógssandi kl 09:30. Frá Akureyri eru 35 km á Árskógssand sem er um 25. mín akstur. Staðfesting á þátttöku gildir sem greiðsla í ferjuna. Fulltrúi Markaðsráðs Hríseyjar tekur á móti gestum á bryggjunni og fylgir þeim  í Íþróttamiðstöðina þar sem málþingið er haldið.  Farið verður með ferju til baka kl. 15:00. Dagskrá: kl. 09:30 Ferja fer til Hríseyjar kl. 09:45 Komið til Hríseyjar kl. 10.30 Setning málþings kl. 10:40  ,,Þróun og uppbygging menningarstarfs á landsbyggðinni?  Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða kl.11:00  ,,Sjálfbær áfangastaður ? Hvað er nú það ??   Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi kl.11:20 ,,Uppbygging ferðamannastaða með sjálfbærni að leiðarljósi?  Guðrún Bergmann kl.11:40  Sýn listamanns í uppbyggingu skapandi samfélags á landsbyggðinni  kl.12:00  Hádegishlé ? súpa, brauð og göngutúr kl.13:00 Umræður og fyrirspurnir kl.13:30 Umræðuhópar ? skipt í fjóra hópa sem fyrirlesarar leiða. kl.14:00 Kynning á umræðum í hópum kl.14:30 Málþingi slitið kl.15:00 Ferja fer frá Hrísey Skráning fer fram á netfanginu lindamar@internet.is  Þátttökugjald er kr. 2.000, innifalið í því er ferja fram og til baka og léttur hádegisverður.
Lesa meira

Guðrún Helgadóttir deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum

Þann 1. maí tók Guðrún Helgadóttir prófessor við starfi deildarstjóra ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og mun gegna því til 30. apríl að ári. Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, sem verið hefur deildarstjóri frá stofnun  deildarinnar árið 1996 er nú í barneignarleyfi. Guðrún Helgadóttir hefur starfað við ferðamáladeild frá fyrstu tíð og verið staðgengill deildarstjóra um árabil. Því segir hún ef til vill ofmælt að hún sé nýr deildarstjóri.
Lesa meira