Fara í efni

Björgunarsveitir á hálendinu sumarið 2009

Björgunarsveitir á hálendinu
Björgunarsveitir á hálendinu

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verða með gæslu á hálendinu í sumar. Markmið verkefnisins eru að; fækka slysum á hálendinu, veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar, stytta viðbragstíma björgunarsveita og vera til staðar ferðamönnum til öryggis.

Hálendinu verður  skipt í fjögur svæði sem eru Kjölur, Sprengisandur, Fjallabak og norðan Vatnajökuls og raðast björgunarsveitirnar niður á svæðin. Hver sveit sem tekur þátt í verkefninu mannar eina viku með a.m.k. þremur sjálfboðaliðum.  Björgunarsveitarbílar verða á ferðinni á þessum svæðum og er hlutverk þeirra að vera ferðamönnum til aðstoðar, fræða þá, leiðbeina þeim við vöð og öðru því sem uppá gæti komið.  Verkefnið stendur yfir frá 25. júní til 10. ágúst.

Björgunarsveitirnar verða í sambandi við 112 þannig að viðbragð við slysum eða þeim hjálparbeiðnum sem koma inn til Neyðarlínunnar verður mun styttra.  Á hverju sumri eru björgunarsveitir SL kallaðar út til leitar að erlendum ferðamönnum.  Með því að staðsetja björgunarsveitir á hálendinu verður hægt að bregðast fljótt við ef einhverra verður saknað.  Er þá hægt að hefja rannsóknarvinnuna fljótt, hefja fyrstu leit og koma á tengslum við síðasta þekkta stað.  Björgunarsveitirnar verða því í góðu sambandi við skála- og landverði á sínu svæði.  Þess vegna munu björgunarsveitir heimsækja alla skála- og landverði a.m.k. einu sinni í viku.

Komi til útkalls munu björgunarsveitirnar vinna eftir lands og svæðisstjórnarskipulagi SL. Hóparnir munu verða í daglegu sambandi við bakvakt Landsstjórnar björgunarsveita sem getur einnig fylgst með hópunum í ferilvöktun.