Meistaranám í ferðamálafræðum undirbúið

Meistaranám í ferðamálafræðum undirbúið
Menn við foss 2

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli ? háskólinn á Hólum undirbúa nú sameiginlega framhaldsnám í ferðamálafræði, titlað MTA (e. Master of Tourism Administration) sem er samræmt af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Nemendur munu geta skráð sig í gegnum alla skólana til námsins og hljóta sína prófgráðu að námi loknu frá þeim skóla sem þeir skráðu sig upprunalega.

Á vef Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála (sem áður hét Ferðamálsetur Íslands) kemur fram að námið er kennt í kennslulotum fimmtudaga til laugardaga, fjórum sinnum á misseri og því hugsað fyrir fólk sem vill taka það með vinnu. Inntökuskilyrði er grunngráða BA eða B.Sc. frá viðurkenndum háskóla (e. university) á Íslandi eða erlendis. Þeir sem hafa BA/B.Sc. í greinum óskyldum ferðamálafræðum er gert að þreyta 10 ECTS lesnámskeið sem er inngangur að ferðamálafræði. Þær einingar teljast til valnámskeiða.

Námið er fyrir fólk sem vill öðlast sérstaka færni, getu og skerpu til fjölbreyttra starfa í ferðaþjónustu. Meistaranáminu er þannig ætlað að veita dýpri innsýn, sem nýtist til að skilja fjölbreyttan rekstur og margbrotið rekstrarumhverfi mismunandi fyrirtækja í ferðaþjónustu, en einnig til að koma að opinberri stefnumótun greinarinnar.

Stefnt er að því að bjóða námið haustið 2009.


Athugasemdir