Fréttir

Kristján L. Möller nýr ráðherra ferðamála

Við stjórnarskiptin sl. fimmtudag tók Kristján L. Möller við embætti samgönguráðherra. Samkvæmt fréttum var sagt að verkefni tengd ferðamálum yrðu færð úr ráðuneytinu en ekki vitað hvenær eða hvernig. Nú er komið fram að það verður ekki fyrr en um næstu áramót. Nýr ráðherra ferðamála er því Kristján L. Möller og býður Ferðamálastofa hann velkominn til starfa og hlakkar til samstarfsins næstu mánuði.
Lesa meira

Nám á háskólastigi í hótelstjórnun

Í haust hefst nám í hótelstjórnun í Menntaskólanum í Kópavogi. Um er að ræða nám á háskólastigi og er það kennt í samstarfi við César Ritz Collages í Sviss. Verður fyrsta árið af þremur kennt hér á landi og munu nemendur síðan eiga þess kost að ljúka BA-námi sínu í Sviss. Á heimasíðu MK kemur fram að hér er á ferðinni spennandi námsmöguleiki fyrir nemendur sem lokið hafa iðnnámi í matvælagreinum og/eða stúdentsprófi. Nemendur sem ljúka fyrsta árinu útskrifast með Diplóma í hótel- og veitingarekstri. Innritun stendur yfir. Nánari upplýsingar hjá Baldri Sæmundssyni áfangastjóra í síma 594-4000 eða á bs@mk.is . Nánar á heimasíðu MK.
Lesa meira

Sturla Böðvarsson kveður ráðuneyti ferðamála

Við ríkisstjórnarskiptin í dag hverfur Sturla Böðvarsson úr stóli ráðherra ferðamála en því embætti hefur hann gegnt í átta ár. Ferðamálastofa þakkar Sturlu fyrir árangursríkt og farsælt samstarf þennan tíma varðandi uppbyggingu og eflingu íslenskrar ferðaþjónustu og óskar honum alls hins besta á nýjum vettvangi. Nú verður ekki eingöngu breyting hvað varðar ráðherra málaflokksins því samkvæmt fréttum um verkaskiptingu í nýrri ríkisstjórn er ferðaþjónustan ekki aðeins að fá nýjan ráðherra heldur færast málefni ferðaþjónustu og þá Ferðamálastofa í annað ráðuneyti. Ferðamál hafa verið vistuð í ráðuneyti samgöngumála í 43 ár frá því fyrst voru sett lög um stjórnsýslu hennar árið 1964. Það mun skýrast á næstunni með hvaða hætti og hvenær þessi breyting verður á högum okkar. Á myndinni er Sturla með Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra.
Lesa meira

Morgunflug til Bandaríkjanna hefst í dag

Fyrsta morgunflug Icelandair til Bandaríkjanna verður í dag klukkan 10:30. Áfangastaðurinn í þessari fyrstu ferð er  New York og er uppselt í fyrsta flugið að sögn félagsins. Hér er um viss tímamót í samgöngum og ferðaþjónustu að ræða en til þessa hefur jafnan verið flogið til Bandaríkjanna síðdegis. Þessu tengist einnig að í sumar verður boðið upp á morgunflug frá Evrópu til Keflavíkur að morgni og þaðan er haldið strax áfram til Bandaríkjanna að morgni. Þá eru vélar félagsins að koma til Íslands frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu. Í sumar verður boðið upp á þessi morgunflug frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi til Íslands og frá Íslandi til New York og Boston. Samkvæmt áætlun félagins verður boðið upp á um 160 ferðir á viku hverri frá Íslandi, sem er það langmesta í sögu félagins.  
Lesa meira

72 umsóknir um starf markaðsstjóra Ferðamálastofu í Bandaríkjunum

Fyrir stuttu auglýsti Ferðamálastofa laust starf markaðsstjóra í Bandaríkjunum. Umsóknarfrestur er liðinn og eru umsækjendur 72. Fyrirtækið Hagvangur sá um að auglýsa starfið og tók við umsóknum. Þegar nafnalisti barst Ferðamálastofu kom í ljós að meðal umsækjenda var aðili sem að mati ferðamálastjóra gerði hann samkvæmt stjórnsýslulögum mögulega vanhæfan til að fjalla um ráðninguna og ráða í starfið. Ef ferðamálastjóri er vanhæfur með vísan til stjórnsýslulaga verða jafnframt allir aðrir starfsmenn vanhæfir. Því hefur ferðamálastjóri skrifað samgönguráðuneytinu bréf og gert grein fyrir mögulegu vanhæfi og óskað leiðbeiningar eða aðkomu ráðuneytisins ef stjórnsýsluákvæði vanhæfis á við í þessu máli. Af þessum ástæðum hefur tafist að ganga til viðræðna við umsækjendur og að ráða í starfið, en vonandi styttist í að niðurstaða liggi fyrir.
Lesa meira

Á ferð um Ísland komin út

Ferðahandbókin Á ferð um Ísland er nú komin út hjá Útgáfufélaginu Heimi. Bókin er á þremur tungumálum. Enska útgáfan Around Iceland hefur komið út samfellt í 32 ár, íslenska útgáfan í 17 ár en þýska útgáfan Rund um Island kemur nú út í 10 sinn. Fram kemur í frétt frá Heimi að bókin hafi aldrei verið stærri eða 240 bls. Ritunum er dreift í 90.000 eintökum á alla helstu ferðamannastaði landsins. Í bókinni er umfjöllun um hvern landshluta, þjónustulistar sem eru uppfærðir árlega í samstarfi við heimamenn, ásamt kortum þar sem gististaðir, tjaldsvæði og sundlaugar eru númeraðar á svæðum utan þéttbýlis. Sambærileg kort eru einnig frá helstu þéttbýlisstöðum landsins. Þá er einnig að finna hálendiskafla með hálendiskorti og þjónustulistum í bókinni. Fremst í bókinni er síðan að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð, það helsta sem er á döfinni í sumar, afþreyingu og margt fleira. Auk þess má geta að bækurnar eru einnig birtar í vefútgáfu á www.heimur.is/world  Ritstjóri bókanna er Ottó Schopka.
Lesa meira

Fimm nýir hjá Iceland Express

Sumaráætlun Iceland Express tekur gildi í dag og þá bætast fimm nýir áfangastaðir við hina átta sem fyrir eru. Þetta eru: Basel, Billund, Eindhoven, Ósló og París. Til Basel er logið vikulega en tvisvar eða þrisvar í viku til hinna. Aðrir áfangastaðir Iceland Express eru Alicante, Berlín, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Gautaborg, Kaupmannahöfn, London og Stokkhólmur. Þá er einnig flogið beint frá Kaupmannahöfn til Egilsstaða og Akureyrar í sumar og hefst sú áætlun um næstu mánaðamót.  
Lesa meira

Icelandair að kaupa tékkneskt flugfélag

Icelandair er að kaupa stærsta einkarekna flugfélag Tékklands. Stjórnendur Icelandair Group tilkynntu þetta í morgun. Félagið heitir Travel Service, er með höfuðstöðvar í Prag og hefur 550 starfsmenn. Félagið flutti 1,8 miljónir farþega í fyrra en það er svipaður fjöldi og hjá Icelandair. Félagið stendur í hefðbundnu leiguflugi en á að auki lágjaldaflugfélagið Smart Wings. Stjórnendur segja að velta Icelandair group aukist um 30% eftir kaupin. Gert er ráð fyrir að skrifað verði undir kaupsamninginn í næsta mánuði.
Lesa meira

Námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva haldið á menntabrúnni

Ferðamálastofa heldur námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva þriðjudaginn 5. júní næstkomandi kl. 12:45-15:15. Í fyrra var námskeiðið haldið í Reykjavík en í ár verður námskeiðið á menntabrúnni. Móttökustaðir verða í símenntunarmiðstöðvunum á Egilsstöðum, Höfn, Selfossi, Reykjanesbæ, Ísafirði, Borgarnesi, Sauðárkróki og Akureyri. Fyrirlesarar á námskeiðinu verða Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu; Claudia Lobindzus,  f.v. starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri; Elín Svava Ingvarsdóttir, verkefnastjóri Ferðamálastofu og Erla Björg Guðmundsdóttir, rekstrar- og viðskiptafræðingur. Mikilvægt er að a.m.k. nýtt starfsfólk komi á námskeiðið. Þýðingarmikið er að skapa tengsl á milli stöðva auk þess sem yfirbragð stöðvanna verður líkara innbyrðis ef sem flestir starfsmenn hafa setið námskeið. Þátttökugjald er 3.900 og skráning fer fram í gegnum netfangið: upplysingar@icetourist.is eða í síma: 464-9990. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig fyrir 2. júní næstkomandi. Lágmarksfjöldi þátttakenda á hverjum stað er þrír.  Dagskrá: 12:45 ? 13:00 Skráning þátttakenda og afhending gagna. 13:00 ? 13:20 Þeir koma og hvað með það, fyrir hverja eru upplýsingamiðstöðvar?  Elías Bj. Gíslason,  forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu 13:20 ? 13:50  Daglegt starf á upplýsingamiðstöð.   Claudia Lobindzus, f.v. starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri.  13:50 ? 14:00  Handbók Ferðamálastofu    Elín Svava Ingvarsdóttir, verkefnastjóri Ferðamálastofu 14:00 ? 14:10  Kaffi 14:10 ? 15:00 Þjónusta, þjónusta og þjónusta!   Erla Björg Guðmundsdóttir, rekstrar- og viðskiptafræðingur 15:15 Námskeiðslok  Þátttaka tilkynnist í síma 464 9990 eða á netfangið: upplysingar@icetourist.is fyrir 2. júní n.k. Mynd: Frá Neðstakaupstað á Ísafirði/Ingi Gunnar Jóhannsson. 
Lesa meira

Starfsleyfi veitinga- og gististaða taka breytingum

Með nýjum lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sem taka gildi 1. júlí nk. verður mikil breyting á starfsleyfum. Frá þessu er sagt í nýju fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar. Með breytingunni verður eitt rekstrarleyfi gefið út í stað veitinga- og gististaðaleyfis, vínveitingaleyfis og skemmtanaleyfis. Slíkt sameiginlegt leyfi sparar fyrirtækjunum mikið fé þar sem núverandi rekstrarleyfishafar fara beint inn í endurnýjunarferli sem er miklu ódýrara, sérstaklega ef fyrirtækin þurfa á skemmtanaleyfi að halda, segir I fréttinni. Leyfi sem eru að renna út verða framlengdUpp hafs komið spurningar hjá þeim fyrirtækjum sem eru með leyfi sem renna út næstu tvo mánuðina eða til 1. júlí. Hefur SAF óskað eftir hagstæðri lausn hjá leyfisveitendum og fengið mjög jákvæð svör. Dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið fyrir hönd allra lögreglustjóra og sýslumanna að þeir veitinga- og gististaðir sem eru með veitinga- og gististaðaleyfi og/eða skemmtanaleyfi sem renna út næstu tvo mánuðina fái framlengingu til 1. júlí án endurgjalds. Þá sæki þeir um hið nýja rekstrarleyfi. ?Við höfum enn ekki fengið svör um hvenær hægt er að sækja um það en látum ykkur vita. Hafið samband við viðkomandi leyfisveitanda ef þið eruð í þessum hópi.,? segir í fréttinni. ?Við höfum ennfremur haft samband við Reykjavíkurborg og höfum fengið þau svör að ef vínveitingaleyfið rennur út næstu tvo mánuði þá muni Reykjavíkurborg gefa út bráðabirgðavínveitingaleyfi til 1. júlí án endurgjalds. Gildi veitingaleyfið lengur en til 1. júlí þá er borgin reiðubúin að gefa út styttra vínveitingaleyfi, styst þó í 6 mánuði. Við höfum sent þessar upplýsingar til allra annarra sveitarfélaga í þeirri von að þau fari sömu leið ef slík tilvik koma upp. Hafið samband við okkur ef spurningar vakna,? segir í fréttabréfi SAF.
Lesa meira