Fara í efni

Ferðaþjónusta höfuðborgarsvæðisins býður til hátíðar á sumardaginn fyrsta

Ferðalangur 2007
Ferðalangur 2007

Ferðalangur á heimaslóð er haldinn í fjórða sinn á sumardaginn fyrsta í ár. Hlutverk Ferðalangsins er að vekja athygli á fjölbreyttri ferðaþjónustu höfuðborgarsvæðisins meðal annars með því að fjölmargir aðilar innan atvinnugreinarinnar opna dyr sínar upp á gátt og býður heimafólk velkomið.

Skemmtiferðir á heimaslóð
Hópbílafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið höndum saman og bjóða upp á stuttar og spennandi ferðir í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Frábært tækifæri fyrir heimafólk til að kynnast nágrenni Reykjavíkur á einfaldan og þægilegan hátt.  Ekið verður í útivistarparadísina Heiðmörk þar sem Jóna Hildur Bjarnadóttir, stafgöngudrottning tekur á móti hópnum og leiðir stafgöngu að Maríuhellum. Við kynnumst orku Hellisheiðarvirkunnjar á fræðandi og skemmtilegan hátt og lítum við í undirheimum Bláfjalla þar sem hinn rómaði Langihellir verður skoðaður.  Ferðalöngum gefst einnig færi á að heilsa uppá tröllið í fossinum því  boðið er uppá rútu- og gönguferð að Tröllafossi og Tröllagljúfri. Leiðsögumenn frá Leiðsöguskóla Íslands leiðsegja á Íslensku. Brottför er frá bílastæði Háskóla Íslands kl. 11:00 og frá Mjódd kl. 11:15.

Menningarlegur Ferðalangur
Dagskrárliðurinn Menningarlegur Ferðalangur hefur aldrei verið jafn fjölbreyttur og viðamikill og í ár. Hin góðkunna Menningarfylgd Birnu leiðir gesti á faldar og forvitnilegar slóðir miðborgarinnar. Söfnin taka þátt á margvíslegan hátt,  m.a. býður Þjóðminjasafnið uppá öfluga dagskrá fyrir gesti sína og í Landnámsskálanum í Aðalstræti geta börn jafnt sem fullorðinir skyggnst inn í leik barna á 19. öldinni. Bókaverðlaun barna verða veitt í Borgarbókasafni Grófarhúsi við hátíðlega athöfn og þegar kvölda tekur verður boðið uppá draugagöngu um miðborg Reykjavíkur. Í Elliðaárdal hefur verið komið upp Ljóðaskógi og er tilvalið fyrir fjölskylduna að fá sér göngu í dalnum og njóta ljóðanna.

Ferðlangur á sjó
Mikil stemmning verður á Hafnarbakkanum á Ferðlangi. En þar verður boðið uppá fjölbreytta dagskrá frá morgni til kvölds. Hvalaskoðun Reykjavík býður uppá hvalaskoðun, skemmtisiglingar um sundin blá, sjóstangaveiði, dorgveiðikeppni og margt fleira. Boðið verður uppá kaffi og frábær tilboð á veitingum í Hvalasetrinu, Hamborgarabúllunni, Sægreifanum, Iceland fish and Chips og Sushi smiðjunni. Víkin ? Sjóminjasafn Reykjavíkur býður auk þess ferðalanga velkomna á safnið við sjóinn.

Á ferð og flugi
Útsýnisflug Flugfélags Íslands hefur fest sig vel í sessi á Ferðalangi en boðið verður uppá hálftíma löng útsýinisflug kl. 13:00, 14:15 og 15:15. Iðulega komast færri að en vilja og því vissara að bóka fyrirfram. Íshestar verða með fjölbreytta dagskrá á Ferðlangi, klukkustundarlangar hestaferðir, teymt verður undir börnum, hestur verður járnaður, gæludýrakeppni og margt fleira. Opið hús í Klifurhúsinu og boðið uppá kennslu í klifri. Í Reykjavíkurhöfn geta ferðalangar þeyst um á fjórhjóli við Ægisgarð eða svifið um á seglhjóli (Blokart) við Miðbakkann.

Hraustur Ferðalangur
Ferðalöngum stendur til boða að reima á sig göngu- og/eða hlaupaskóna og kynnast heimaslóð á hraustlegan hátt. Landskunnir fjallagarpar frá Ferðafélagi Íslands leiða áhugasama upp á bæjarfjall Hafnarfjarðar Helgufell. Einnig verður gengið um gömlu þvottaleiðina í Reykjavík og merkar byggingar skoðaðar í leiðinni. Útivist leiðir alla fjölskylduna á Arnarfell við Þingvelli. Ný ferðaþjónusta opnar á Seltjarnarnesi og verður boðið uppá tveggja klukkutíma göngu um nesið í kjölfarið.

Hversu merkileg er Reykjavík?
Efnt verður til hugmyndasamkeppni um merkingar í borginni á Ferðalangi, en Reykjavíkurborg vinnur nú að því að merkja borgina betur. Á baksíðu dagskrárrits Ferðalangs verður þátttökuseðill og borgarbúar eru hvattir til að senda inn góðar hugmyndir að betur merktri Reykjavíkurborg. Allar hugmyndir verða skoðaðar gaumgæfilega og dregið verður úr innsendum hugmyndum. Nokkrir heppnir þátttakendur fá skemmtilegan og ferðavænan vinning.

Fjölbreytta og fjölskylduvæna dagskrá Ferðalangsins má finna á vefslóðinni www.ferdalangur.is

Allir dagskrárliðir eru með verulegum afslætti eða ókeypis. Ferðalangur er skipulagður af Höfuðborgarstofu  í góðri samvinnu við Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins og Samtök ferðaþjónustunnar, auk þeirra fjölmörgu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem leggja sitt að mörkum til skipulagningarinnar.