Fréttir

Íslandskynning í samvinnu við SHREK

Ísland er komið í leik með aðstandendum SHREK kvikmyndarinnar. Innan skamms senda þeir frá sér nýja mynd sem kallast ?SHREK THE THIRD? og er búist við því að hún gefi hinum ekkert eftir í vinsældum. Kynning Íslands í þessu tilfelli verður á Los Angeles, Hollywood og Suður-Kaliforníusvæðinu þar sem 8 heilsíðuauglýsingar munu birtast í stórblaðinu Los Angeles Times og verða myndir frá Íslandi skreyttar auglýsingunum og einnig vefsíðum þeim sem þessu tengjast. Í boði er sex daga ævintýraferð til Íslands fyrir fjögurra manna fjölskyldu og er verðgildi ferðarinnar metið á rúma 10.000 dollara. Dregið verður um ferðina í sjónvarpsútsendingu þann 16. maí. Ferðamálastofa í bandaríkjunum og Icelandair standa sameiginlega að þessari kynningu og er reiknað með að tugir þúsunda freisti gæfunnar og reyni að krækja sér í ókeypis ferð til landsins.
Lesa meira

Metfjöldi erlendra ferðamanna á fyrsta ársfjórðungi

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um fjórðung á fyrsta ársfjórðungi, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Þetta er mun meiri fjölgun en á sama tíma í fyrra. Ferðamenn frá áramótum til marsloka voru rúmlega 60 þúsund í ár, samanborið við 48 þúsund í fyrra. Flestir ferðamenn eru frá Norðurlöndum og Bretlandi. Mesta fjölgunin er einnig úr hópi Breta og Norðurlandabúa, vel á 5. þúsund frá hvoru svæði um sig. Nokkur fækkun er hins vegar frá N.-Ameríku miðað við sama tímabil í fyrra. Í mars bættust við 3 lönd sem talin eru sérstaklega, þ.e. Kína, Rússland og Pólland. Er þá hægt að sundurgreina tölur eftir 17 þjóðlöndum. Í mars fjölgaði erlendum ferðamönnum um 32,5%. ?Aukið framboð flugsæta og markaðssetning ræður mestu um þessa aukningu? segir Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. ?Af sömu ástæðu fækkar ferðamönnum frá Bandaríkjunum í vetur vegna fækkunar ferða þangað. Það skiptir ákaflega miklu máli fyrir íslenska ferðaþjónustu að áframhaldandi vöxtur verði yfir veturinn. Aðeins þannig getum við tekið við þeirri aukningu sem búast má við í framtíðinni ef fram heldur sem horfir. Fjárfesting er að aukast í ferðaþjónustunni, einkum í gistiþættinum um land allt og því mikilvægt að nýting aukist allt árið,? segir Ársæll að lokum. Í töflunni hér að neðan má sjá nánari skiptingu ferðamanna eftir þjóðerni það sem af er ári og samanburð við 2006. Heildarniðurstöður eru aðgengilegar undir liðnum Talnaefni/Fjöldi ferðamanna hér á vefnum. Frá áramótum   2006 2007 Mism. % Bandaríkin                     8.681 6.270 -2.411 -27,8% Bretland                       10.588 15.117 4.529 42,8% Danmörk                        4.815 6.573 1.758 36,5% Finnland                       780 923 143 18,3% Frakkland                      2.319 2.151 -168 -7,2% Holland                        1.572 1.615 43 2,7% Ítalía                         476 896 420 88,2% Japan                          1.666 1.717 51 3,1% Kanada                         457 517 60 13,1% Kína   116     Noregur                        4.329 5.547 1.218 28,1% Pólland   624     Rússland   95     Spánn                          374 473 99 26,5% Sviss                          303 487 184 60,7% Svíþjóð                        2.853 4.492 1.639 57,4% Þýskaland                      3.140 3.258 118 3,8% Önnur þjóðerni                 5.805 9.313 3.508 60,4% Samtals: 48.158 60.184 12.026 25,0%
Lesa meira

Markaðsstarf vegna móttöku skemmtiferðaskipta skilar árangri

Reykjavík er meðal 11 borga sem tilnefndar eru í ár til verðlaunanna World Travel Awards sem besti áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip í Evrópu, "Europe''s Leading Cruise Destination". Árið 2006 varð Kaupmannahöfn fyrir valinu. Ánægjulegt að sjá árangurÁrsæll Harðarson, forstöðumaður marðaðssviðs Ferðamálastofu, segir ánægjulegt að sjá árangur þess markaðsstarfs sem unnið hefur verið mörg undanfarin ár í markaðssetningu landsins sem áfangastaðar fyrir skemmtiferðaskip. "Faxaflóahafnir og skrifstofa Ferðamálastofu í Bandaríkjunum hafa þarna sinnt ákveðnu frumkvöðlastarfi, ásamt fyrirtækjum sem hag hafa af komum skemmtiferðaskipta hingað til lands. Fyrir nokkrum árum sameinuðu þessir aðilar krafta sína undir merkjum Cruise Iceland verkefnisins, sem vistað er hjá Ferðamálastofu, og að mínu mati erum við hér að uppskera árangur þess starfs," segir Ársæll. Stefnir í metárUm það bil 80 skemmtiferðaskip eru væntanleg til Reykjavíkur í sumar og áætlaður farþegafjöldi er á bilinu 60-70 þúsund.  Flest þeirra hafa viðkomu á fleiri höfnum umhverfis landið og það stefnir því í enn eitt metárið á þessum vetvangi. Verðlaunin veitt 9. októberBorgirnar sem tilnefndar eru ásamt Reykjavík eru Amsterdam, Aþena, Cannes, Kaupmannahöfn, Dubrovnik, Lissabon, Osló, Sankti Pétursborg, Stokkhólmur og Feneyjar. Ferðaskrifstofur um allan heim velja besta áfangastaðinn ásamt aðilum úr skemmtiferðaskipageiranum. Verðlaunin verða afhent í Newcastle, Englandi, þann 9. október næstkomandi, á veðlaunahátíðinni World Travel Awards. Mynd. Sumarnótt í Reykjavíkurhöfn Heimasíða World Travel Awards Heimasíða Cruise Iceland
Lesa meira

Ferðamálastofa fyrirmyndarstofnun 2007

Eins og undanfarin ár þá stóð SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu fyrir könnun nú í vetur í leit að "Stofnun ársins". Alls fengu nær 6000 ríkisstarfsmenn senda spurningarlista í nær 200 stofnunum. Listi hefur verið birtur yfir 99 stofnanir og einkunnagjöf í hverjum flokki en spurt er um fjölmarga flokka, svo sem starfsumhverfi, sjálfstæði í störfum, sveigjanleika í vinnu, álag og kröfur, starfsanda, trúverðugleika stjórnenda o.fl. Sú stofnun sem hlýtur hæsta meðaleinkunn er útnefnd "Stofnun ársins 2007". Þær stofnanir sem eru í 2.-10. sæti fá sérstaka viðurkenningu: "Fyrirmyndarstofnun 2007". Byggir á fyrirmyndarstarfsfólkiFerðamálastofa varð nú í 8 sæti og fær því að nota í allri sinni kynningu og auglýsingum í eitt ár sérstak merki þessarar viðurkenningar: " Fyrirmyndarstofnun 2007". Magnús Oddsson ferðamálastjóri tók við viðurkenningu í hófi á Hótel Nordica sl. föstudag og sagði m.a.:  "Fyrirmyndarstofnun verður ekki slík nema vegna þess að þar starfi fyrirmyndarstarfsfólk. Þjónustustofnun byggir fyrst og fremst á þekkingu og hæfni starfsfólksins og það á þessa viðurkenningu. Þetta er mjög ánægjulegt og er okkur sem stýrum stofnuninni hvati til að gera enn betur í keppni þessara 200 aðila. Ég lít þar ekki síst til þeirra þátta sem við skorum lægra en aðrir og við munum reyna að veita öðrum harða keppni með að bæta þá án þess að slaka á þeim þar sem við fáum hæstu einkunn," sagði Magnús. Á myndinni hér að neðan er hann í hópi fleiri forstöðumanna ríkisstofnana að taka við viðurkenningunni.
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði um 20% milli ára

Gistinætur á hótelum í janúar, febrúar og mars samanlögðum voru 203.300 en voru 169.900 fyrir sama tímabil árið 2006.  Þetta kemur fram í gistináttatalningu Hagstofunnar. Fjölgun varð á öllum landsvæðum.  Mest var hún þó á Austurlandi þar sem gistinæturnar nærri tvöfölduðust milli ára, úr 3.300 í 6.400.  Aukningin nam 22% á Suðurlandi, 21% á höfuðborgarsvæðinu, 11% á Norðurlandi og 0,5% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, en þessar tölur eru birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir eru fáir. Fjölgun gistinátta fyrstu þrjá mánuði ársins skiptist þannig að gistinóttum útlendinga fjölgaði um 27% og Íslendinga um 4%. Hagstofan vekur athygli á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.  Tölur fyrir 2007 eru bráðabirgðatölur
Lesa meira

Fjölgun farþega á fyrsta ársfjórðungi

Farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um tæp 9% á fyrsta ársfjórungi 2007 miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Í aprílmánuði nam fjölgunin tæpum 5%. Alls fóru 504.617 farþegar um Keflavíkurflugvöll frá ársbyrjun til loka apríl. Sé eingöngu horft á farþega á leið til landsins eða frá því þá fjölgaði þeim um 10% á fyrsta ársfjórungi. Áfram og skiptifarþegar voru á hinn álíka margir. Nánari skiptingu má sjá í töflunni hér að neðan.   Apríl.07. YTD Apríl.06. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 69.007 221.753 66.823 201.691 3,27% 9,95% Hingað: 72.512 221.968 67.376 200.248 7,62% 10,85% Áfram: 1.685 9.524 628 3.860 168,31% 146,74% Skipti. 18.318 51.372 19.129 58.292 -4,24% -11,87%   161.522 504.617 153.956 464.091 4,91% 8,73%
Lesa meira

Samstarf um bætt aðgengi allra að ferðamannastöðum

Í dag var skrifað undir samstarfssamning sem miðar að bættu aðgengi allra að áningar- og útivistarstöðum um allt land. Aðilar samningsins eru Ferðamálastofa, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðaþjónusta bænda og Ferðamálasamtök Íslands. Skrifað undir samninginn. Frá vinstri: Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF; Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands og Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu Bænda.Forsaga málsins er sú að veturinn 2006, í kjölfar ráðstefnunnar ?Ferðaþjónusta fyrir alla? sem samgönguráðuneytið hafið forgöngu um, var hleypt af stokkunum samstarfsverkefni framangreindra aðila um bætt aðgengi ferðfólks að áningar- og útivistarstöðum. Sérstaklega var hugsað til þess að bæta aðgengi hreyfihamlaðra en aðgengi að áningar- og útivistarstöðum er oft á tíðum erfitt og jafnvel ómöguleg stórum hópi fólks. Megintilgangurinn með verkefninu er að gera fólki kleift að skipuleggja ferðalög með tilliti til þess hversu aðgengilegt er að ferðast um landið og í öðru lagi að auðvelda þeim sem ábyrgir eru fyrir viðkomandi svæði að gera úrbætur þar sem því verður við komið og þeirra er þörf.  Viðmið um aðgengi að ferðamannastöðumFyrsta skrefið var að flokka gróflega hreyfihömlun eftir eðli hennar og síðan að útbúa ásættanleg viðmið varðandi aðgengi að áningarstöðum utandyra. Við gerð þessara viðmiða var að einhverju leiti stuðst við erlendar fyrirmyndir, við lög og reglugerðir og ekki síst var bókin ?Aðgengi fyrir alla ?handbók um umhverfi og byggingar?1) notadrjúg. Ástæðan fyrir því að tekið er sérstaklega fyrir aðgengi að náttúrulegum svæðum er að byggingareglugerðir segja til um hvernig aðgengi að mannvirkjum skulu vera en minni hefð er fyrir því að tekið sé tillit til hreyfihamlaðra við skipulag og framkvæmd á áningar- og útivistarsvæðum. Viðmiðin eru flokkuð eftir því hver hreyfihömlunin er og síðan miðað við það hvað er ásættanlegt aðgengi í hverjum flokki. Í fyrstu verða flokkarnir þrír og koma þeir til með að nýtist flestum. Flokkarnir eru: 1. í hjólastól án aðstoðar, 2. í hjólastól með aðstoð og 3. gönguhömlun. Ferðamálastofa annast úttektViðmiðin miðast við aðgengi að og um viðkomandi stað. Þau atriði sem tekin eru til skoðunar eru bílastæði, upplýsingar (skilti), stígar, pallar og hreinlætisaðstaða. Samhliða samantekt á viðmiðum um hvað sé ásættanlegt aðgengi var útbúinn ?Gátlisti? sem nýtist til úttektar á áningarstöðum. Áningarstaðir verða flokkaðir og niðurstöðunum komið á framfæri opinberlega þannig að við skipulag ferðalaga geti einstaklingar ákveðið hvaða staði skal heimsækja út frá aðgengi að þeim. Gátlistarnir ættu ennfremur að nýtast hönnuðum við skipulag og framkvæmdir. Ferðamálastofa mun sjá um úttekt á svæðum og koma upplýsingum um þau á framfæri. Í framhaldi af þessum viðmiðum eru ofantaldir samstarfsaðilar að vinna að viðmiðum fyrir veitinga- og skemmtistaði, hótel og gististaði.  
Lesa meira

Dagur umhverfisins - bændur og ferðamenn taka höndum saman

Upphafspunktur á samstarfsverkefni Ferðaþjónustu bænda, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarfélags Íslands var settur á Degi umhverfisins, 25. apríl 2007 síðastlðinn. Verkefnið er ætlað til að vekja athygli á þeim staðbundnu vandamálum sem tekist er á við með landrækt og skógrækt á Íslandi. Ásamt því að benda ferðamönnum á leiðir til að bæta þann skaða sem ferðalög valda umhverfinu, t.d. við útlosun gróðurhúsalofttegunda við flugumferð og bílumferð. Einnig er verkefninu ætlað að vekja athygli almennt á landgræðslu og skógrækt ? og er þeirri athygli beint jafnt til ferðaþjónustubænda, ferðamanna og einnig þeirra aðila er koma að ráðstöfun fjármagns til þessara mikilvægu mála.  Þannig má segja að allir aðilar verkefnisins komi jákvætt út úr þessu verkefni, jafnt bændur, ferðamenn, skógræktarmenn og landgræðslumenn ? og náttúra Íslands ásamt umhverfið í stærra samhengi nýtur góðs af. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar verkefnið hófst formlega en boðið var til morgunverðarfundar á Kríunesi við Elliðavatn kl. 8.00 og verkefnið kynnt. Að því loknu gengið út til gróðursetningar á nokkrum plöntum og hugað að gróðurþekju.  Nánar á vef Ferðaþjónustu bænda 
Lesa meira

Nýr starfsmaður Ferðamálaseturs Íslands við Háskóla Íslands

Ferðamálasetur Íslands hefur í samvinnu við raunvísindadeild Háskóla Íslands ráðið til starfa dr. Rannveigu Ólafsdóttur í stöðu dósents við HÍ. Rannveig mun sinna kennslu við Háskóla Íslands en sinna rannsóknum í samvinnu við Ferðamálasetur. Umhverfisstjórnun ? tæki til sjálfbærrar ferðaþjónustuÞá hefur Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkt Rannveigu um fjárhæð sem nemur tveimur mannmánuðum til að ýta úr vör rannsóknum á tækjum og leiðum til umhverfisstjórnunar. ?Von okkar stendur til þess að sú þróunarvinna sem hér mun eiga sér stað muni halda áfram og nýtast til uppbyggingar ferðamannastaða á landinu,? segir Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands Rannveig lauk B.Sc. gráðu í landafræði frá Háskóla Íslands 1992 og B.Sc. gráðu í jarðfræði frá sama skóla 1994. Einnig lauk hún prófi frá Leiðsöguskóla Íslands 1990 og B.Ed. gráðu í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands 1994. Frá 1996-2001 var hún rannsóknarnemi við náttúrulandfræðideild Háskólans í Lundi í Svíþjóð og lauk þaðan PhD gráðu í náttúrulandfræði í janúar 2002. Frá 2002-2006 starfaði Rannveig sem forstöðumaður Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, og frá 2006-2007 við ráðgjöf í umhverfisstjórnun og mati á umhverfisáhrifum hjá verkfræðistofunni Línuhönnun hf. Frá 2002-2007 hefur Rannveig samhliða öðrum störfum starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands  
Lesa meira

Fréttir af aðalfundi ETC

Aðalfundur Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) stendur nú yfir á Nordica Hótel. Fundinn sækja um 60 manns og er þetta í annað sinn sem Ísland er gestgjafi. Á fundinn eru mættir forsvarsmenn ýmissa Evrópusamtaka í ferðaþjónustu auk ferðamálstjóra aðildarríkjanna. Fundurinn hófst með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, sem bauð fundargesti velkomna til landsins. Þá var Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra veitt heiðursviðurkenning ETC fyrir áratuga störf að evrópskri ferðaþjónustu. Magnús er meðal þeirra sem starfað hafa hvað lengst innan samtakanna, eða frá árinu 1991. Þá má einnig geta þess að fyrr í dag var Magnús kjörinn í framkvæmdastjórn ETC. Fyrsta formlega verk aðalfundar var að samþykkja með inngöngu Georgíu, sem þar með verður 38. aðildarríki ETC. Meðfylgjandi myndir voru teknar í morgun en fleiri fréttir og myndir koma síðar. Sturla Böðvarsson ávarpaði fundinn. Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra veitt heiðursviðurkenning ETC. Georgía tekin inn í ETC. Formaður og framkvæmdastjóri ETC, Arthur Oberacher og Rob Franklin, ásamt fulltrúa Georgíu, Otar Bubashvili, en Magnús Oddsson og Sturla Böðvarsson voru einnig viðstaddir. Um 60 manns sita aðalfund ETC.
Lesa meira