Fara í efni

TUR sækir í sig veðrið

TUR 2007
TUR 2007

Dagana 22.-25. mars síðastliðinn fór fram hin árlega TUR ferðasýning í Gautaborg. Sýningin er stærsta fagsýning á Norðurlöndunum og Ferðamálastofa skipuleggur þátttöku íslensku fyrirtækjanna.

Metfjöldi sýnenda var að þessu sinni og voru sýnendur frá yfir 100 löndum.  Heimsóknir fagaðila voru álíka margar og í fyrra en fjöldinn dróst lítillega saman á opnu dögunum yfir helgina. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu hafa gæði þessarar sýningar verið eilítið sveiflukennd frá ári til árs. Í ár var hún með besta móti og virðist vera að sækja í sig veðrið ef eitthvað er. Mikill áhugi var á íslenska básnum og komu fjölmargir nýir söluaðilar og fjölmiðlar í heimsókn til skrafs og ráðagerða.


Þær Ulrika Peterson, Elín Svava Ingvarsdóttir og Lisbet Jensen
frá Ferðamálastofu tóku vel á móti gestum á íslenska sýningarsvæðinu
á TUR.