Fara í efni

Undirbúningur á lokastigi

Fífan
Fífan

Undirbúningur er nú á lokastigi fyrir sýningarnar Ferðasýningin 2007, Golf 2007  og Sumar 2007 sem hefjast í Fífunni í Kópavogi að viku liðinni. Til samans er þetta ein stærsta sýning sem haldin hefur verið tengd ferða- og golfgeiranum.

3 undir sama þaki
Alls hafa nú yfir 170 sýnendur staðfest þátttöku, segir í frétt frá sýningarhöldurum. Sýningarnar eru unnar í samstarfi við sýninguna Sumar 2007 sem haldin er nú í 6 sinn. Á um 9000 m2 svæði verður að finna úrval fyrirtækja sem tengjast sumrinu, ferðalögum og golf-íþróttinni en í heildina eru þetta um 300 aðilar sem taka þátt í sýningunni.

Keppnir, fyrirlestrar og áhugaverðar uppákomur
Má þar nefna Hönnunarkeppni og er þemað umhverfislistaverk og keppnin um Blómaskreytir 2007. Valinn verður Ferðafrömuður ársins 2007 og á svæði Ferðamálasamtakanna verður landsleikur þar sem yfir 100 vinningar verða dregnir út.

Fjöldi annarra viðburða verður einnig á svæðinu, m.a. kennsla í country-dansi, fjöldi tónlistarmanna frá öllum landshlutum mun koma og skemmta gestum sýningarinnar ogf á útisvæði verða hestateymingar í boði fyrir börn.

Í Smáraskóla, sem er við Fífuna, verður haldin fyrirlestrarsyrpa á vegum GSÍ um golf- og ferðalög innanlands, skemmtilegir golfleikir verða í  boði fyrir alla fjölskylduna en einnig mun heimsmeistarinn í Masters Trick Shot Show 2006, Peter Jöhncke skemmta gestum með ótrúlegri leikni og tilþrifum. Þá mun landsliðið í golfi koma í heimsókn á golfsvæðið.

Nánari upplýsingar: www.islandsmot.is og www.rit.is