Fara í efni

Gljúfrastofa opnuð í Ásbyrgi

Gljfrastofa 001
Gljfrastofa 001

Á sumardaginn fyrsta var Gljúfrastofa opnuð við hátíðlega athöfn að viðstöddu fjölmenni. Gljúfrastofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og er til húsa í uppgerðum fjárhúsum og hlöðu býlisins Ásbyrgis.
 
Gljúfrastofa verður aðal gestamóttaka þjóðgarðsins þar sem upplýsingagjöf og sýning um sögu og náttúru þjóðgarðsins fer fram. Að auki verðs í húsinu skrifstofur starfsmanna og gert er ráð fyrir aðstöðu til að taka á móti skólahópum í þjóðgarðinn.

Jónína Bjartmars umhverfisráðherra opnaði Gljúfrastofu formlega og naut við það aðstoðar nemenda yngri deildar Öxafjarðarskóla. Nemendur skólans léku stórt hlutverk við opnunina. Yngri nemendur sögðu tröllasögur og sungu frumsamið lag Guðrúnar S.K. um tröllaskoðun í þjóðgarðinum og eldri nemendur sögðu frá þjóðgarðsskólaverkefninu og sinni sýn á hlutverk þjóðgarðsins. Við opnunina flutti Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir þjóðgarðsvörður erindi og einnig ávarpaði Jón Helgi Björnsson, formaður byggðaráðs, samkomuna.

Gafst gestum síðan tækifæri til að skoða sýninguna sem er staðsett er í hlöðunni. Er hún hin glæsilegasta í alla staði. Bility ehf, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir og Jón Ásgeir Hreinsson höfðu hönnun og uppsetningu hennar með höndum.

Sigþrúður Stella þjóðgarðsvörður sagði það von allra að Gljúfrastofa muni gjörbreyta starfsaðstöðu þjóðgarðsins, bæta þjónustu við gesti og efla fræðslu um svæðið.

Húsnæði Gljúfrastofu er bjart og skemmtilegt. Sýning um sögu og náttúru þjóðgarðsins er glæsilega upp sett.
Á sýningunni er margt að sjá. Jónína Bjartmars umhverfisráðherra, Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir þjóðgarðsvörður og Jón Helgi Björnsson, formaður byggðaráðs, í hópi nemenda úr Öxafjarðarskóla.