Fara í efni

World Travel Market gekk vel

WTM 2005
WTM 2005

World Travel Market ferðasýningunni lauk í London sl. fimmtudag. Sýnigin var sú stærsta frá upphafi og þótti takast vel. Að þessu sinni tóku 15 íslensk fyrirtæki þátt.

“Hvað varðar þátttöku Íslands þá get ég sagt að þetta var að mínu mati besta World Travel Market sýning sem ég hef tekið þátt í. Það var mikið líf í íslenska básnum og fólk að gera góð viðskipti,” segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands.  “Ég held að þáttur í því hversu vel okkar þátttaka gekk sé að bróðurpartur íslensku sýnendanna eru beinir söluaðilar í ferðaþjónustu, þ.e. flugfélög, hótel, bílaleigur o.s.frv. Það eru þessir aðilar fyrst og fremst sem kaupendurnir koma til að hitta og eiga viðskipti við,” segir Ársæll.

Hann sagði alla íslensku sýnendurna hafa merkt aukin áhuga á ferðalögum til landsins. “Það voru fjölmargir nýir aðilar að koma til okkar og vildu komast í hóp þeirra sem selja ferðir til Íslands. Ég varð líka var við að fyrirhugað flug British Airways hingað til lands, sem hefst í vor, hefur vakið athygli og skapað aukinn áhuga, segir Ársæll.

Um 5.200 sýnendur tóku þátt í World Travel Market að þessu sinni og um 45 þúsund manns komu í heimsókn, bæði sérhæfðir kaupendur í ferðaþjónustu og almenningur. Er áætlað að gerð hafi verið viðskipti sem samsvara um 33 milljörðum punda þá fjóra daga sem sýningin stóð yfir. Þess má geta að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var meðal þeirra sem heimsóttu íslenska sýningarsvæðið.