Fara í efni

Íslensk ferðaþjónusta kynnt í Kína

CITM lógó
CITM lógó

Í dag heldur hópur Íslendinga til Kína. Tilefnið er þátttaka í China International Travel Mart ferðasýningunni sem hefst síðar í vikunni og jafnframt halda Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans, ásamt fylgdarliði, í opinbera heimsókn í boði kínverskra ferðamálayfirvalda.

Í ferðinni mun ráðherra hitta Hr. Shao Qiwei, stjórnarformann kínverska ferðamálaráðsins og munu þeir meðal annars ræða sérfræðingaskipti á milli landanna á sviði ferðamála. Þá mun ráðherra heimsækja China International Travel Mart og halda móttöku fyrir íslenska sýnendur og viðskiptavini.

China International Travel Mart er eins og fram hefur komið stærsta ferðakaupstefna í Asíu og er haldin á hverju ári til skiptis í Shanghai og Kunming (Yunnan) í Kína. Ferðamálaráð ásamt nokkrum íslenskum fyrirtækjum taka nú þátt i sýningunni í fyrsta sinn. Fyrirtækin sem taka þátt eru Ferðaþjónusta bænda, Allrahanda, Jarðböðin við Mývatn, Icelandair og Icelandair Travel. Samvinna er við sendiráð Íslands í Peking. Um það bil 20 þúsund kaupendur og 28 þúsund almennir gestir sóttu sýninguna í fyrra.