Fréttir

Erlendir ferðamenn í fyrsta sinn yfir 100 þúsund í einum mánuði

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fór 101.841 erlendur ferðamaður frá landinu í ágúst síðastliðnum eða um 12 þúsund fleiri en í sama mánuði á síðasta ári. Aukningin nemur 13,7% milli ára. Erlendir ferðamenn hafa aldrei áður farið yfir 100 þúsund í einum mánuði og eru þeir nú helmingi fleiri en þeir voru í ágústmánuði 2002.   
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í júlí

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í júlí síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum fjölgar um 16%    Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 229.100 samanborið við 196.700 í júlí 2010. Gistinætur erlendra gesta voru um 88% af heildarfjölda gistinátta á hótelum í júlí og fjölgaði gistinóttum þeirra um 13% frá fyrra ári. Mikil aukning var á gistinóttum Íslendinga í júlí þar sem gistinætur voru ríflega 27 þúsund samanborið við 18.000 í júlí 2010 og fjölgar því um rúm 52% á milli ára. Á höfðuborgarsvæðinu voru 135.800 gistinætur í júlí sem er 21% aukning frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru 35.350 gistinætur júlí sem er 16% fjölgun samanborið við júlí 2010. Á Norðurlandi voru gistinætur 25.760 í júlí, jukust um 12% og á Suðurnesjum voru 9.650 gistinætur sem er 11% aukning frá júlí 2010. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur 10.700 sem er 2% aukning milli ára. Á Austurlandi voru gistinætur í júlí svipaðar milli ára eða um 11.800. Gistinætur fyrstu sjö mánuði ársinsGistinætur fyrstu sjö mánuði ársins voru 874.000 en voru 775.400 á sama tímabili árið 2010. Þeim fjölgaði því um um rúm 13% milli ára. Gistinóttum fjölgaði milli ára á Suðurnesjum um 18%, á höfuðborgarsvæðinu um 15%, á Suðurlandi um 10% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða um 6% og á Austurlandi um 2%. Gistinætur á Norðurlandi eru svipaðar milli ára. Fyrstu sjö mánuði ársins hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 11% og gistinóttum Íslendinga um 19%.
Lesa meira

Flug hefst til Húsavíkur 2012

Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Húsavíkur frá og með 12. apríl 2012. Flogið verður á Aðaldalsflugvöll þriðjudaga, fimmtudaga og föstudaga tvisvar á dag og eitt flug verður á sunnudögum. Einnig hafa verið búnir til dagsferðapakkar út frá Reykjavík í tengslum við flugið þar sem ferðamenn geta til að mynda farið í hvalaskoðun á Húsavík eða útsýnisferð um Mývatnssveit og svæði Norðausturlands. Í tilkynningu kemur fram að forsvarsmenn Ernis telja að mikil tækifæri felist í flugi til Húsavíkur bæði hvað varðar heimafólk og innlenda- sem erlenda ferðamenn. Sala á fluginu hefur verið setta í gang og hægt er að skoða áæltlun félagsins og aðrar upplýsingar varðandi flugið og ferðir sem boðnar eru á www.eagleair.is eða www.ernir.is . Mynd: Jetstream 32 skrúfuþota Ernis sem tekur allt að 19 farþega. Á neðri myndinni sér yfir Aðaldalsflugvöll.
Lesa meira

Skilti við Gunnuhver á Reykjanesi

Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa haft frumkvæði af því að sett hafa verið upp upplýsingaskilti við háhitasvæðið vestast á Reykjanesi við Reykjanesvita. Aðal skiltið lýsir draugasögunni um Gunnu. Gunna var uppi um 1700 og var leiguliði í koti við Kirkjuból í Sandgerði. Eftir að hún gat ekki staðið skil á leigunni tók Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður pott sem hún átti upp í leiguna. Við þetta reiddist Gunna mjög og neitaði að drekka vígt vatn og dó skömmu síðar. Þegar hún var sett niður í gröfina heyrðist sagt: „Ekki skal djúpt grafa, ekki á lengi að liggja“. Nóttina eftir fannst Vilhjálmur dauður og heyrðist af Gunnu afturgenginni um Miðnesheiðina. Margir reyndu að kveða Gunnu niður en ekkert gekk fyrr en Séra Eiríkur á Vogsósum fékkst í verkið eftir drjúgt brennivíns þamb. Sagði hann mönnum að koma hnykli í hendurnar á Gunnu og þá rúllaði hann með hana þangað sem hún gerði engum skaða. Þetta gekk allt eftir og Gunna elti hnykilinn í hverinn við Reykjanesvita og steyptist þar ofan í og hefur verið þar síðan. Sumir sjá hana hlaupa hring eftir hring á hverabarminum á eftir hnyklinum við það að detta ofaní og hljóðar hún hátt. Einnig er þarna skilti sem segir frá síðasta ábúandanum við háhitasvæðið sem voru dönsk hjón að nafni Höyer. Þau reistu sér hús við Kísilhól sem enn sjást rústirnar af, en þau lifðu á að framleiða blóm og potta. Þeir sem styrktu uppsetningu skiltanna voru auk Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Ferðamálastofa, Reykanesbær, Bláa Lónið og Grindavíkurbær. Hér eru þeir Þorsteinn Gunnarsson frá Grindavíkurbæ, Grímur Sæmundsen frá Bláa Lóninu, Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja.
Lesa meira

Kynningarfundir um markaðsátakið Ísland ? Allt árið

Í fyrri hluta september verða haldnir kynningarfundir á sex stöðum á landinu um markaðsátakið Ísland – Allt árið, sem hefur að markmiði að efla ferðaþjónustu yfir vetrartímann um allt land. Verkefnið er stórt í sniðum en ríkið hefur lofað að verja til þess 300 milljónum á ári í þrjú ár, gegn því að fyrirtæki í greininni og sveitarfélög komi með sömu upphæð. Verkefnið fór af stað fyrir forgöngu Samtaka ferðaþjónustunnar og þau hafa nú boðað til fyrrgreindra kynningarfunda. Þeir verða haldnir sem hér segir. 2. september kl. 15:00 á Grand Hótel Reykjavík (Hvammi) 5. september kl. 16:00 á Islandia Hótel Núpum 6. september kl. 12:00 á Hótel Héraði, Egilsstöðum 7. september kl. 12:00 á Hótel Ísafirði 8. september kl. 11:30 í Hofi á Akureyri 8. september kl. 17:00 á Hótel Hamri, Borgarnesi Þar munu fjalla um verkefnið Árni Gunnarsson, formaður SAF, Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF, Einar Karl Haraldssonar frá iðnaðarráðuneyti og Inga Hlín Pálsdóttir frá Íslandsstofu. Þátttaka  á fundunum tilkynnist á netfangið info@saf.is og eru ferðaþjónustuaðilar hvattir til að fjölmenna á fundina til að kynan sér þetta mikilvæga verkefni. Nánari upplýsingar um verkefnið má m.a. finna í kynningarbréfi sem SAF sendi nýverið til félagsmanna sinna. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com
Lesa meira

Minni hálendisumferð að mati Landsbjargar

Núna í ágúst komu síðustu björgunarmenn Slysavarnarfélagsins landsbjargar til byggða eftir að hafa staðið vaktina á hálendinu. Alls tóku 29 sveitir þátt í verkefninu í sumar og skiluðu sem samsvarar 923 vinnudögum. Fjöldi aðstoðarbeiðna barst og er unnið af því að taka þær saman en að venju voru þær af öllum toga. Flestar sem betur fer í minni kantinum eins og sprungin dekk eða festur en einnig komu til kasta hópanna stærri og torleystari verkefni. Það er samdóma álit hópanna að umferð um hálendið hafi verið minni í sumar en jafnan áður síðan þetta verkefni hófst og því má allt eins reikna með fækkun aðstoðarbeiðna en einnig var haldið á Sprengisand síðar en vanalega þar sem sú leið opnaði seinna en í meðalári. Að venju voru hóparnir staðsettir á Kjalvegi, á Sprengisandsleið, á svæðinu norðan Vatnajökuls og að Fjallabaki. Mynd: Af vef Landsbjargar. Ferðalangi á hálendinu ofan Eyjafjarðar komið til hjálpar.
Lesa meira

Ferðamálasamtök Vestfjarða bjóða hluti í Vesturferðum til sölu

Fyrr á árinu keyptu Ferðamálasamtök Vestfjarða rúmlega 70% hlut í ferðaskrifstofunni Vesturferðum. Markmiðið var að tryggja öfluga upplýsinga- og sölugátt með bókunarþjónustu sem allir ferðaþjónustuaðilar í fjórðungnum hefðu aðgang að. Frá upphafi var stefnt að sölu á meirihluta þessarar eignar til ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum og hefur þeim nú verið boðnir hlutir til sölu, auk þess sem farið verður í hlutafjáraukningu. Reiknað er með sterkri tengingu við Markaðsstofu Vestfjarða, sem stýrir heimasíðunni www.westfjords.is , og ætlunin er að síðan verði gagnvirk sölusíða á allri ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Nánar má fræðast um þetta framtak á vef Ferðamálasamtaka Vestfjarða www.vestfirskferdamal.is/ Mynd: Dynjandi í Arnarfirði / westfjords.is
Lesa meira

Þættir frá Íslandi sýndir á Golfing World

Á vegum Golf Iceland samtakanna komu fyrr í sumar í heimsókn fréttamenn frá Golfing World. Í ferðinni gerðu þeir nokkra þætti um golf á Íslandi og eru þeir fyrstu komnir í loftið.  "Tveir þessara þátta hafa nú farið í dreifingu og verið sýndir oft í þáttum Golfing World en þættir þeirra eru sýndir daglega á golfrásum víða um heim, eins og sjá má daglega hér á landi á Skjá Golf. Þeir sem horfa á þessa þætti eru einmitt sá markhópur sem við höfum áhuga á að ná til; þ.e. erlendir kylfingar. Að okkar mati er hér um að ræða mikilvæga kynning fyrir golfið á Íslandi," segir Magnús Oddsson hjá Golf Iceland. Sem fyrr segir eru tveir þættir þegar komnir í loftið og byrjað verður að sýna þann þriðja fljótlega. Tenglar á þá eru hér að neðan en síðan eru fleiri þættir í vinnslu sem allir eru afrakstur þessar heimsóknar. http://www.youtube.com/watch?v=-xOzihBfrpY http://www.youtube.com/watch?v=lfXjjRUx5F8 http://www.youtube.com/watch?v=de9jaMCBDVM    Heimasíða Golf Iceland: www.golficeland.org Golf Iceland á Facebook: www.facebook.com/golficeland   
Lesa meira

Jón Jónsson fékk Landstólpann

Þjóðfræðingurinn Jón Jónsson hlaut samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, Landstólpann, á ársfundi stofnunarinnar í gær. Jón hefur undanfarin ár verið  frumkvöðull í uppbyggingu ferðaþjónustu, menningarstofnana og fræðastarfa á Vestfjörðum. Hann hefur starfað sem menningarfulltrúi Vestfjarða síðan 2007 og hefur með störfum sínum verið ötull talsmaður ferðaþjónustu og menningar á svæðinu. Landstólpinn er viðurkenning sem veitt er einhverjum þeim sem vakið hefur jákvæða athygli á landsbyggðinni með verkefni, starfsemi, umfjöllun á opinberum vettvangi eða með öðru móti. Mynd: Jón Jónsson í miðið ásamt þeim Aðalsteini Þorsteinssyni forstjóra og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, fráfarandi stjórnarformanni Byggðastofnunar.
Lesa meira

Icelandair flýgur frá Akureyri næsta sumar

Næsta sumar mun Icelandair bjóða upp á flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum. Viðskiptavinir bóka flugið og innrita sig alla leið. Flogið verður allt að fjórum sinnum í viku frá 7. júní til 30. september 2012. Brottför frá Akureyrarflugvelli verður klukkan 14.30 og lending á Keflavíkurflugvelli klukkan 15.20. Segir í tilkynningu að þaðan sé hægt að fljúga með tengiflugi til New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Norður-Ameríku og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Ósló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10.  Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50-flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess. 
Lesa meira