Fréttir

Leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða

Ferðamálastofa, Framkvæmdasýsla ríkisins og Hönnunarmiðstöð Íslands hafa tekið höndum saman um gerð leiðbeiningarrits um uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi. Leitast verður eftir að horfa til heildarmyndar og sérsto?ðu staða, svo unnt verði að draga fram þá upplifun sem þar er að finna. Í leiðbeiningarritinu verða skilgreindar raunhæfar leiðir og aðferðir við uppbyggingu ferðamannastaða. „Meginmarkmið verkefnisins er að bæta upplifun og umhverfisleg gæði ferðamannastaða á Íslandi með sjálfbæra þróun og menningarleg gildi að leiðarljósi. Áhersla er lögð á vistvæna hugmyndafræði, vandaðar greiningar og eflingu gæðavitundar ferðaþjónustuaðila, almennings og aðila sem að ákvörðunartöku koma,“ eins og segir orðrétt í samstarfssamningi milli þessara aðila. Verkefnið byggir að hluta á styrkumsókninni „Vandaðir ferðamannastaðir, sjálfbær ferðaþjónusta“ sem unnin var árið 2009 af Sigríði Magnúsdóttur arkitekt FAÍ, Sigríði Sigþórsdóttur arkitekt FAÍ og Borghildi Sölvey Sturludóttur arkitekt FAÍ og nema í umhverfisstjórnun við HÍ, í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands og Ferðaþjónustu bænda. Gert er ráð fyrir að ritið komi út nú í haust.
Lesa meira

Ferðamálaþing 2011

Ferðamálaþing 2011 verður haldið dagana 5.-6. október 2011 á Ísafirði.  Að þessu sinni er undirbúningur ferðamálaþings samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Nýsköpunarmiðstöðvar, Byggðasafns Vestfjarða, Arkitektafélags og Hönnunarmiðstöðvar.   Áherslur þingsins lúta að samspili skapandi greina og ferðaþjónustu og þeirri vöruþróun og nýsköpun sem af slíku samspili geta sprottið.  Upplifun er meginþema dagskrárinnar og mega gestir vænta þess að eiga skemmtilega og innihaldsríka daga á Ísafirði í byrjun október.   Þeir sem starfa við ferðaþjónustu og aðrar skapandi greinar eru hvattir til að taka frá dagana 5. og 6. október 2011. Mynd: westfjords.is
Lesa meira

Uppsveitabrosið afhent í sjöunda sinn

"Uppsveitabrosið" er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki í uppsveitum Árnessýslu til þeirra sem hafa lagt ferðaþjónustunni á svæðinu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu. Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert.  Uppsveitabrosið 2010 hlaut Magnús Hlynur Hreiðarsson  blaða- og fréttamaður á Selfossi. Á myndinni er hann með Ásborgu Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa í uppsveitum Árnessýslu. Í rökstuðningi segir að skógarnir Magnús Hlynur fá viðurkenninguna fyrir frábært samstarf, jákvæðni og skemmtilegan fréttaflutning. "Magnús Hlynur er blaðamaður á Dagskránni og féttamaður á RÚV og er einkum þekktur fyrir skrítnar og skemmtilegar fréttir af Suðurlandi," segir orðrétt. Brosið er óáþreifanlegt, en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni. Listakonan í ár er Ellisif Malmo Bjarnadóttir á Helgastöðum sem teiknaði og málaði af Magnúsi Hlyn.
Lesa meira

Framtíðarsýn Samtaka um heilsuferðaþjónustu kynnt á aðalfundi

Aðalfundur Samtaka um heilsuferðaþjónustu var haldinn 22. mars síðastliðinn á Grand hotel í Reykjavik. Þar var meðal annars kynnt stefnumótun fyrir samtökin til ársins 2021. Áður en venjuleg aðalfundarstörf hófust flutti Csilla Mezösi fróðlegt erindi en hún er sérfræðingur í heilsuferðaþjónustu hjá ferðamálaráði Ungverjalands og stjórnarmaður í European Spa Association erindi. Csilla er margfróð um þessa tegund ferðaþjónustu og var erindi hennar afar vel tekið. Stefnumótun kynntÁ eftir erindinu tók Dagný H. Pétursdóttir til máls og kynnti stefnumótun fyrir Samtök um heilsuferðaþjónustu til ársins 2021. Framtíðarsýn samtakanna er að öflug heilsuferðaþjónusta verði ein af meginstoðum ferðaþjónustu á Íslandi og að erlendir jafnt sem innlendir gestir njóti sérstöðu landsins á sviði heilsuferðaþjónustu.  Framtíðarsýnin byggir á fagmennsku þeirra sem í greininni starfi  og góðri aðstöðu fyrir gesti, en ekki hvað síst byggir hún á umhverfisvænni orku og einstakri náttúru landsins. Fjögur meginatriði eru á stefnuskrá samtakanna næstu 10 árin Rannsóknir og þekking: Að efla tengsl við háskóla og aðrar stofnanir, hvetja til rannsóknaverkefna Nýsköpun og vöruþróun: Námskeiðahald t.d. í samstarfi við  Nýsköpunarmiðstöð, vera vettvangur vöruþróunar, veita hvatningaverðlaun Gæðamál: Gerð gæðasáttmála sem allir aðilar að samtökunum undirrita,  vera virk í mótun á gæðakerfi Ferðamálastofu Sölu- og markaðsmál: Heimasíða samtakanna verði efld til muna, innra starf samtakanna verði styrkt ásamt því að styrkja grasrótina, hefja markvisst samstarf við Íslandsstofu og að styrkja innviði sölu- og markaðsstarfs. Formaður samtaka um heilsuferðaþjónustu Magnús Orri Schram (sjá mynd) tók til máls og fór í gegnum dagskrá fundarins. Hann tilkynnti  jafnframt að hann myndi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku, en sagðist jafnframt ætla að fylgjast með og að halda áfram að vera samtökunum innanhandar ef það gæti orðið verkefninu til framdráttar.  
Lesa meira

Gistiskýrslur 2010 komnar út

Hagstofa Íslands hefur gefið út ritið Gistiskýrslur 2010. Í þessu riti eru birtar niðurstöður um  gistináttatalningu fyrir allar tegundir gististaða árið 2010. Heildarfjöldi seldra gistinátta var tæpar 3 milljónir árið 2010, en það er svipaður fjöldi og árið 2009. Gistinætur erlendra ríkisborgara voru 71,2% af heildarfjölda gistinátta árið 2010 og sem fyrr keyptu Þjóðverjar flestar gistinætur, þá Bretar og svo Frakkar. Í samanburði við árið 2009 fjölgaði gistinóttum Belga hlutfallslega mest eða um rúm 25%, gistinóttum Kanadamanna fjölgaði um 14% og Bandaríkjamanna um 10%. Gistinóttum Ítala fækkaði hlutfallslega mest frá fyrra ári eða um 24%, gistinóttum Spánverja fækkaði um 20% og Japana um 17%. Flestar gistinætur árið 2010 voru á hótelum og gistiheimilum eða 68%, á tjaldsvæðum voru 19% gistinátta og 6% á farfuglaheimilum. Gistinóttum fjölgaði milli ára á hótelum og gistiheimilum, farfuglaheimilum og heimagististöðum en fækkaði á öðrum tegundum gististaða. Eftir landsvæðum fjölgaði gistinóttum hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Þeim fjölgaði einnig á Austurlandi, Norðurlandi eystra og á Suðurnesjum. Gistinóttum fækkaði lítillega á Vesturlandi og Vestfjörðum miðað við árið 2009. Á Suðurlandi fækkaði gistinóttum mest á milli ára, um rúm 12%. Samdráttur seldra gistinátta á Suðurlandi er vegna eldgossins í Eyjafjallajökli en þrátt fyrir það voru þær tæplega 7% fleiri á síðasta ári en árið 2008.   Rannsókn Hagstofunnar tekur til allrar seldrar gistiþjónustu að undanskildum orlofshúsum félagasamtaka, stéttar- og starfsmannafélaga. Gistináttatalning Hagstofunnar er þýðisrannsókn og árið 2010 var beðið um upplýsingar frá 768 gististöðum. Heimtur voru góðar hjá stærri gististöðum en lakari hjá smærri aðilum. Upplýsingar um gistirými sem liggja fyrir nýtast til að áætla gistinætur hjá stöðum sem ekki skila gögnum. Rannsóknin nær til allra gististaða óháð því hvort viðkomandi staður hafi gistileyfi. Hagstofan telur að gististaðir sem gætu verið vantaldir séu yfirleitt smáir heimagististaðir sem leigja út fá herbergi óreglulega yfir árið og hafa óveruleg áhrif á heildarniðurstöður. Árið 2010 var gögnum safnað frá 127 heimagististöðum og eru þær gistinætur 1,8% af heildarfjölda gistinátta árið 2010. Gistiskýrslur 2010 - Hagtíðindi.  
Lesa meira

Hótel Rauðaskriða í Aðaldal fær Svansvottun

Hótel Rauðaskriða í Aðaldal hefur nú fengið vottun Norræna Umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að hótelið er í fremstu röð varðandi lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa frá starfseminni.  Rauðaskriða er eina hótelið á Íslandi með Svansvottun, en alls bera 15 fyrirtæki nú merki Svansins.  "Þetta er frábær árangur og erum við virkilega stolt af þeim félögum okkar Kolbrúnu og Jóhannesi," segir Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda. Elva Rakel Jónsdóttir starfsmaður Svansins hjá Umhverfisstofnun, sem heldur utan um Svansvottunina hérlendis, afhenti leyfið á aðalfundi Félags ferðaþjónustubænda 23. mars síðastliðinn. Á myndinni er Elva Rakel með Kolbrúnu og Jóhannesi. Hótel RauðaskriðaHótel Rauðaskriða er þriggja stjörnu sveitahótel staðsett í Aðaldal, Þingeyjasýslu við þjóðveg 85. Á hótelinu er gistiaðstaða fyrir rúmlega 60 manns. Hótel Rauðaskriða hefur lengi lagt áherslu á að minnka umhverfisáhrif af starfseminni en með Svansvottun er gengið enn lengra  og staðfest að Hótel Rauðaskriða er í fremsta flokki hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa. Gæðamál hafa löngum verið eigendum hugleikin og hefur Rauðaskriða tekið þátt í flokkun gististaða með stjörnugjöf í mörg ár. Svansmerking fyrir hótelAllir gististaðir geta fengið Svansmerkið að því tilskildu að þeir uppfylli strangar kröfur Svansins. Nauðsynlegt er að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar en Svansvottun tryggir meðal annars að. Hótelið nær lágmarksviðmiðum er varðar orkunotkun, vatnsnotkun, efnanotkun og úrgangsmeðhöndlun. Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktum vörum og þjónustu í innkaupum hótelsins. Flokkun úrgangs sé góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun. Starfsmenn fái reglulega þjálfun og fræðslu. Umhverfisstarfi hótelsins er stýrt á skilvirkan hátt. Norræna umhverfismerkið SvanurinnSvanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.
Lesa meira

Farfuglaheimilin taka þátt í Stund jarðar

Stund jarðar er viðburður sem fólk, fyrirtæki og sveitarfélög taka þátt í um allan heim. Verkefnið hófst í Ástralíu árið 2007. WWF (World Wildlife Fund) stendur á bakvið verkefnið sem er einnig stutt af Sameinuðu Þjóðunum. Í fyrra tóku milljónir manna í 128 löndum þátt og stefnir í enn betri þátttöku í ár. Á meðan á Stund jarðar stendur slökkva þátttakendur öll nauðsynleg ljós og vekja með því athygli á hnattrænni hlýnun og tengslum orkunotkunar og hlýnunar jarðar. Farfuglaheimilin á Íslandi taka þátt í ár með að slökkva ljósin og vekja þannig athygli gesta á málefninu. Meðan ljósin eru slökkt verður m.a. boðið upp á spil við kertaljós og draugasögur lesnar. Gestgjafar Farfuglaheimilanna efast ekki um að gestirnir hafi gaman af að taka þátt í verkefninu og hugsi um umhverfið, ekki bara á Stund jarðar heldur einnig í daglegu lífi bæði heima og að heiman. Prýðilega er staðið að umhverfisstarfi á heimilunum og sem dæmi um umhverfisfræðslu Farfugla fá allir gestir sem leigja bíl í gegnum Farfugla leiðbeiningar um vistakstur og græn ráð til ferðalanga er að finna á vefsíðu Farfugla www.hostel.is. Í ár  er stund jarðar 26. mars kl. 20:30-21:30 Farfuglar vona að sem flestir taki verkefnið upp á sína arma og hvetja alla til að taka þátt.
Lesa meira

Aðalfundur SAF haldinn í gær

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldinn  í Hofi á Akureyri í gær. Um 160 manns sóttu fundinn. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa funduðu faghópar samtakanna um sín hagsmunamál og haldin voru fróðleg erindi. Aðalumræðuefni fundarins var vetrarferðamennska og gæða og umhverfiskerfið VAKINN. Þá flutti Katrín Júlúsdóttir, ráðherra ferðamála, ávarp á fundinum. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, (sjá mynd) var endurkjörinn formaður SAF og með honum í stjórn voru kjörin: Friðrik Pálsson, Hótel Rangá Lára Pétursdóttir, Congress Reykjavík Ingibjörg G. Guðjónsdóttir, Íslenskir fjallaleiðsögumenn Ingólfur Haraldsson, Hilton Reykjavík Nordica Sævar Skaptason, Ferðaþjónusta bænda Þórir Garðarsson, Iceland Excursions Ályktanir fundarins og annað efni frá honum er aðgengilegt á vef SAF.
Lesa meira

Verðlaun fyrir lokaverkefni

Rannsóknamiðstöð ferðamála, með fulltingi og stuðningi Samtaka ferðaþjónustunnar, veitti í gær í sjötta sinn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar. Dómnefnd er skipuð stjórn og forstöðumanni RMF og niðurstaða hennar var að verðlaunin skyldi hljóta Áslaug Briem fyrir MS ritgerð sína frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, “Þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu og áhrif mismunandi menningar á þjónustu". Á meðfylgjandi mynd er Áslaug með þeim Árna Gunnarssyni, formanni SAF, og Edward H. Huijbens, forstöðumanni RMF. Nánar má fræðast um efni ritgerðarinnar á vef Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Alls mat dómnefndin sex verkefni skólaársins 2010 sem afar góð og/eða mjög athygliverð. Hin fimm voru: Ferðaþjónusta á netinu. Markaðssetningar og stefna íslenskra afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu á netinu, BS ritgerð Þórs Bærings Ólafsonar frá viðskiptadeild Háskólans á Akureyri. Vetrarferðamennska á Tröllaskaga. Möguleikar og mikilvægi, BS ritgerð Bryndísar Hrundar Brynjólfsdóttur við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði. „How do you like Iceland…now?” Ímynd erlendra ferðamanna á landi og þjóð  í kjölfar bankahrunsins haustið 2008, MS ritgerð Margrétar Sigurjónsdóttur frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Orðræða um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ferðamennska, sjálfbærni og samfélag, MS ritgerð Arnórs Gunnarssonar frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði. Ímynd Íslands. Raunveruleiki eða ranghugmyndir, MS ritgerð Elísabetar Eydísar Leósdóttur frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Lesa meira

Handbókin 2011 komin út!

Handbókin 2011 er komin út og er fáanleg á pdf-formi á geisladiski.  Bókin byggir á gagnagrunni Ferðamálastofu sem hefur að geyma upplýsingar um ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Aðilar raðast í stafrófsröð í hverjum kafla.  Útprentun handbókarinnar:Á geisladisknum eru báðar útgáfur handbókarinnar þ.e.bæði á íslensku og ensku, hvor í sinni möppu.  Í möppunum eru síðan tvær undirmöppur; „Landshlutar“ og „Bókin í heild“.      Í möppunni „Landshlutar“ eru pdf-skrár með hverjum landshluta fyrir sig þar sem öllum köflum handbókarinnar er steypt í eina skrá og því hægt að prenta hvern landshluta í heild sinni sem eitt skjal.     Í möppunni „Bókin í heild“ er bókinni skipt upp í möppur eftir aðal kaflaheitum bókarinnar; Almennar upplýsingar Samgöngur Gisting Afþreying Menning & Listir Veitingastaðir Þar undir er hverjum flokki áfram skipt niður eftir landshlutum en hver hluti er í sér pdf-skjali þannig að hægt er að prenta út hvern kafla fyrir sig.  Diskurinn er til sölu hjá Ferðamálastofu og kostar 7.500.- krónur.  Panta handbók.
Lesa meira