Fara í efni

Viðbrögð vegna rofs hringvegarins við Múlakvísl

Mæulakvísl - kort
Mæulakvísl - kort

Ljóst er að rof hringvegarins við Múlakvísl kemur á afar óheppilegum tíma fyrir ferðaþjónustuna þar sem í hönd fara annasömustu vikur ársins. Ferðaþjónustuaðilar og fleiri hafa þegar gripið til aðgerða meðþað markmiði að tjón af þessum völdum verði sem minnst og af hálfu Vegagerðarinnar er kapp lagt á að koma vegtengingu á sem fyrst.

Viðbragðsteymi ferðaþjónustunnar og stjórnvalda hittist í morgun til að meta stöðuna og samræma aðgerðir. Í viðbragðsteyminu eru fulltrúar frá iðnaðarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, Vegagerðinni, Samtökum ferðaþjónustunnar, Almannavörnum, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Markaðsstofu Suðurlands, Landsbjörg og fleiri. Meðal þess sem var ákveðið var eftirfarandi:

  • Ferðamálastofa mun senda öllum ferðaþjónustuaðilum jafnt og þétt nýjustu upplýsingar á ensku og íslensku, byggðar m.a. á stöðuskýrslum almannavarna og upplýsingum frá Vegagerðinni, til að auðvelda þeim að svara fyrirspurnum um stöðuna samkvæmt allra nýjustu upplýsingum. Fréttatilkynning á ensku
  • Íslandsstofa tryggir að www.iceland.is verði aðgengileg gátt erlendra ferðamanna inn á síður Vegagerðarinnar, almannavarna o.s.frv.
  • Vegagerðin setur upp ný skilti á ensku við vegamót víða um land svo ferðamenn séu upplýstir um stöðu mála. (sjá að neðan)
  • Vegagerðin mun uppfæra kort og upplýsingar á www.vegagerdin.is á tveggja tíma fresti.

Meðal aðgerða sem ferðaþjónustuaðilar jafa gripið til má nefna að sumar bílaleigur hafa gert ráðstafanir þannig að fólk er ferjað yfir og getur skipt um bíl sitt hvoru megin við fljótið.

Ferjað yfir á vaði
Vegagerðin vinnur nú að því að útbúa bæði vað og bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl. Bílar eru komnir á staðinn og hefjast flutningar innan skamms eða um leið og vað verður tilbúið. Stjórnvöld hafa heimilað Vegagerðinni að flytja fólk yfir vað á Múlakvísl á vörubifreið eða sérútbúinni rútu og einnig að flytja bíla yfir með vörubifreiðum. Björgunarsveitir munu skipuleggja ferðirnar yfir kvíslina en Vegagerðin sér um vaðið og heldur því við. Vegagerðin ber kostnaðinn af þessum flutningi sem verður almenningi að kostnaðarlausu. Að auki er verið að bæta í vegina bæði á Fjallabaksleið nyrðri og Dómadalsleið.

Uppfært kl. 16:40: Byrjað er að ferja fólk yfir og bílaflutningar eru að hefjast. Sjá hér.

Skilti fyrir erlenda ferðamenn
Vegagerðin hefur útbúið skilti til að upplýsa erlenda ferðamenn um lokun Hringvegarins, sjá myndina. Skiltin fara upp á sex stöðum, við Seyðisfjörð, 2 við Egilsstaði, við Klaustur, Landvegamót og Rauðavatn. Skiltin verða komin upp á öllum þessum stöðum á morgun.

Fjallabaksleið
Hægt er að komast á milli byggða á Suðurlandi með því að fara Fjallabaksleið nyrðri en hún er ekki fær fólksbílum. Umferð þar hefur aukist talsvert og Vegagerðin hefur gert ráðstafanir til að bæta veginn en hann þolir þó ekki alla umferð sem að jafnaði fer um hringveginn, og er heldur ekki fær fólksbílum, sem fyrr segir.

Um 2-3 vikur tekur að gera brú sem tekið getur við flutningum og staðist af sér jökulvatnið á meðan framtíðarbrú yfir Múlakvísl er gerð en sú smíði tekur nokkra mánuði. Framkvæmdir á vegum Vegarðarinnar hófust þegar í gær, verið er að safna tækjum og mannskap á staðinn og verður unnið á sólarhringsvöktum.

Vefsíður til að fylgjast með:

Sjá einnig frétt á vef innanríkisráðuneytisins