Fréttir

Upptökur af örráðstefnu

„Hvaða tækifæri eru í norðurljósunum? - Hlutverk gagnrýnna rannsókna í ferðaþjónustu“ var yfirskrift örráðstefnu sem haldin var í hátíðarsal Háskóla Íslands 27 október 2011. Upptökur af ráðstefnunn eru nú aðgengilegar hér á vefnum. Í kjölfar hrunsins hefur ferðaþjónusta á Íslandi fengið mikla athygli. Með það fyrir augum að frumforsendur nýsköpunar og markaðsstarfs í ferðaþjónustu liggja í öflugu og gagnrýnu rannsóknarstarfi lögðu sex aðilar í íslensku háskólasamfélagi til umræðunnar á hvaða grunni betur mætti byggja til framtíðar. Edward H. Huijbens setur fundinn, en eftir honum koma Viðar Hreinsson, bréf frá Þorvarði Árnasyni, Edward aftur, Rannveig Ólafsdóttir, bréf frá Guðrúnu Helgadóttur og Friðrik Eysteinsson. Upptökur af erindum má nálgast hér: http://streymi.hi.is/videos/335/...-hvaða-tækifæri-eru-í-norðurljósunum?-hlutverk-gagnrýnna Eftir framsögur sköpuðust umræður og er upptöku þeirra hægt að sjá hér: http://streymi.hi.is/videos/336/...-hvaða-tækifæri-eru-í-norðurljósunum?-hlutverk-gagnrýnna
Lesa meira

Hvatningarverðlaun í heilsuferðaþjónustu

Til að tryggja áframhaldandi þróun á sviði heilsuferðaþjónustu á Íslandi hefur iðnaðarráðherra ákveðið að veita ein hvatningarverðlaun að fjáhæð ein milljón króna til áhugaverðra verkefna á sviði heilsuferðaþjónustu. Verðlaunin verða veitt í desember næstkomandi. Hverjir geta tekið þátt:Hópar fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem vinna sameiginlega að áhugaverðum vörum á sviði heilsuferðaþjónustu sem eru í þróun. Við mat umsókna verður tekið tillit til eftirfarandi þátta: Verkefnishugmyndar Markhóps – er um nýjan erlendan markhóp að ræða? Er varan í boði á lágönn? Hvað er einstakt við vöruna / Upplifunin? Hver er heilsuávinningur ferðar? Samsetningar hóps og vel skilgreindra hlutverka innan samstarfshópsins Vandaðra umsókna Umsóknum skal skilað til Ferðamálastofu eigi síðar en 20. nóvember næstkomandi á sérstöku umsóknareyðublaði. Hvatningarverðlaun í heilsutengdri ferðaþjónustu - umsóknarblað (PDF) Nánari upplýsingar veitir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, sigrun@ferdamalastofa.is, s. 535 5500. *Heilsuferðaþjónusta er ferðaþjónusta sem felur í sér að ferðamaðurinn geti notið sem aðalþáttar og hvata ferðar eftirfarandi heilsuþátta: Vatns og vellíðunar, líkamsræktar, íþrótta og hreyfingar, endurhæfingar og heilsubætandi meðferða, hátæknilækninga. Auk mismunandi afþreyingar. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - www.arctic-images.com.           
Lesa meira

Ísland og Reykjavík á toppnum hjá Lonely Planet

Ísland er á toppnum hjá lesendum hinnar heimsþekktu ferðaútgáfu Lonely Planet sem áfangastaður ársins 2012. Jafnframt er Reykjavík sú borg sem er í efsta sæti hjá fólki sem borg ársins 2012. Lonely Planet gefur árlega út ritið „Best in Travel“ þar sem taldir eru upp vænlegustu kostirnir í ýmsum flokkum ferðaþjónustu. Útgáfunnar er jafnan beðið með miklum spenningi enda þykir mikill heiður að ná inn á topp 10 listann í einhverjum flokki. Skemmst er að minnast að Vestfirðir náðu inn á topp 10 listann fyrir árið 2011 sem vænlegasti áfangastaðurinn. Val lesenda er einn flokkanna sem eru í boði og sá sem er hvað eftirsóttastur. Að bæði Ísland og Reykjavík skuli verma toppsætin hjá lesendum fyrir komandi ár er frábær árangur og hefur gríðarlegt auglýsingagildi þar sem milljónir fólks lesa þau rit sem Lonely Planet gefur út eða heimsækja vef fyrirtækisns. Sigur Íslands er líka ótrúlega öruggur þar sem nær einn af hverjum þremur velja landið. Sjá umfjöllun Lonely Planet um valið
Lesa meira

Vinna við kortlagningu auðlinda ferðaþjónustu á svæðum umhverfis Mýrdalsjökul að hefjast

Ferðamálastofa hefur sett af stað vinnu við fyrsta hluta verkefnis um kortlagningu auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu á landsvísu. Rannsóknamiðstöð ferðamála er framkvæmdaraðili verkefnisins, en þessi fyrsti verkþáttur er unninn í og með fulltingi sveitarfélagana Ásahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþinga Ytra og Eystra og Skaftárhrepps. Er markmiðið að safna upplýsingum um m.a. aðdráttarafl og sérstöðu svæðisins, áhugaverða viðkomustaði ásamt þjónustuframboði á svæðinu í einn kortagrunn. Þessi vinna og þá sérstaklega framhald hennar, þar sem kortin verða notuð í rýnihópavinnu, er ekki möguleg nema með stuðning og fulltingi íbúa sveitarfélagana. Er því ósk okkar ábyrgðaraðila verkefnisins hjá Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöð ferðamála að þið takið þátt í að skilgreina á breiðum grunni tækifæri og uppbyggingarmöguleika ferðaþjónustunnar í ykkar heimabyggð. Þessi vinna mun einnig nýtast til að bera kennsl á frekari vöruþróun innan ferðaþjónustunnar sem hægt er að bjóða á svæðinu. Þá getur kortagrunnurinn einnig samræmt og eflt til muna alla upplýsingagjöf til ferðafólks á svæðinu. Tveir kynningarfundir - allir velkomnirÖllum áhugasömum er boðið á kynningarfundi um fyrirhugað kortlagningarverkefni mánudaginn 7. nóvember á hótel Hvolsvelli kl. 11:00 eða í Félagsheimilinu Leikskálum í Vík kl. 14:00 Starfsfólk Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála
Lesa meira

Græna Reykjavíkurkortið í prentútgáfu

Grænt Reykjavíkurkort er samvinnuverkefni vefsins Náttúran.is, fjölþjóðlega verkefnisins Green Map System, Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands. Tilgangur grænna korta víða um heim er að gera vistvæna kosti á sviði viðskipta, menningar og ferðaþjónustu sýnilegri og aðgengilegri. Græn kort hafa nú verið þróuð í yfir 700 sveitarfélögum, borgum og hverfum í 55 löndum. Ísland er fyrsta landið sem flokkar allt landið eftir Green Map kerfinu. Í sumar gaf Náttúran.is út aðra prentútgáfa af kortinu en sú fyrri kom út haustið 2010. Kortinu er dreift um alla borgina og á Leifssöð og hefur notið mikilla vinsælda, jafnt meðal íslendinga sjálfra sem og erlendra ferðamanna, segir í tilkynningu. Kortið er bæði á íslensku og ensku. Nýja kortið spannar 31 Green Map flokka og 10 aukaflokka (strætóstoppistöðvar, endurvinnslustöðvar, grenndargámar, hjólastígar o.fl.) og byggir á vefútgáfu Græna Íslandskortsins á Náttúran.is en það er miklu umfangsmeira og tekur fyrir allt Ísland með yfir 3000 skráningum í 100 flokkum. Sjá vefkortið hér: http://www.natturan.is/greenmap/island/. Green Map er lifandi kerfi og lagar sig að þeirri þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu. Það er von útgefanda að græn kort verði með öllu ónauðsynleg innan fárra ára enda verði græn hugsun þá orðin sjálfsögð, ekki undantekning, eins og nú er. En þangað til er öllum frjálst að fá skráningu á Grænt Reykjavíkurkort og Grænt Íslandskort svo framarlega sem að starfsemi viðkomandi uppfylli þau skilyrði og viðmið sem sett eru af Green Map kerfinu. Grænu Reykjavíkurkorti er dreift ókeypis í Reykjavík en hægt er að fá kortið sent, gegn lágmarks pökkunar- og sendingakostnaði, hvert á land sem er eða út í heim. Pantið hér: http://www.natturan.is/verslun/508/
Lesa meira

Erindi frá Ferðamálaþingi

Nú eru aðgengileg erindin sem flutt voru á ferðamálaþinginu á Ísafirði fyrr í mánuðinum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók upp stóran hluta af því efni sem flutt var þannig nú geta allir þeir sem ekki gátu mætt kynnt sér það efni sem tekið var fyrir og þeir sem mættu rifjað upp einstaka efnisþætti.
Lesa meira

Grunnur að sterkari ferðaþjónustu í Evrópu

Á dögunum skrifuðu framkvæmdastjórn ESB (European Commision) og Evrópska ferðamálaráðið (ETC) undir sameiginlega yfirlýsingu um ferðamál. Henni er ætlað er vera grunnur að samstarfi þessara stofnana í að styrkja ímynd Evrópu sem leiðandi áfangastaðar ferðamanna í heiminum og styrkja innviði greinarinnar. Í yfirlýsingunni er kveðið á um sex meginþætti sem sem samstarfið byggir á, m.a. kynningu á Evrópu á fjærmörkuðum þar sem visiteurope.com-vefurinn er í lykilhlutverki, en ekki eru síðir mikilvægir þættir er lúta að uppbyggingar- og þróunarstarfi innan álfunnar og ætlað er að styrkja atvinnugreinina. Ferðamálastofa hefur verið aðili að Evrópska ferðamálaráðinu fyrir hönd Íslands um ára bil en í þessum rúmlega hálfrar alda gömlu samtökum eru nú 35 Evrópuríki. Höfuðstöðvar ETC eru í Brussel en markmið samtakanna er að markaðssetja Evrópu á fjærmörkuðum sem áfangastað ferðafólks, standa fyrir könnunum og rannsóknum og deila þekkingu og góðum starfsháttum. Þótt Evrópska ferðamálaráðið sé þannig ekki hluti af Evrópusambandi hefur ESB stutt við starf samtakanna með ýmsum hætti í gegnum árin og undirstrikar yfirlýsingin nú mikilvægi ferðaþjónustunnar í augum ESB, bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti. Yfirlýsingin í heild Heimasíða Evrópska ferðamálaráðsins
Lesa meira

Ferðamannavegur á Snæfellsnesi

Ferðamálastofa hefur á síðustu misserum tekið þátt í verkefni tengdu hugmyndum um skilgreiningu og útfærslu ferðamannavega. Ákveðið var að vinna tilraunaverkefni á Snæfellsnesi og er skýrsla um það nú komin út. Forsaga málsins er Vegagerðin hefur á síðustu árum tekið þátt í þróunarvinnu tengt hugmyndum um skilgreiningu og útfærslu ferðamannavegar. Meðal annars hefur verið horft til fyrirmynda erlendis og unnið var yfirlit um mögulega ferðamannavegi á hálendinu. Þátttakendur í verkefninu nú voru Ferðamálastofa, Snæfellsbær, Vegagerðin og VSÓ Ráðgjöf sem hélt utan um verkefnið. Auk þess sem leitað var til Guðbjargar Gunnarsdóttur þjóðgarðsvarðar. Markmið verkefnisins var að prófa vinnuferil fyrir skipulagningu ferðamannavega og áhersla lögð á að móta aðferð sem mætti beita víðar á landinu við leiðarval og skipulag slíkra vega. Verkefnið tók á þáttum s.s leiðarvali, forsendugreiningar og tillögum að verkefnum sem þarf að fara í til þess að um sé að ræða ferðarmannaveg sem stendur undir skilgreiningu. Þrjár mögulegar leiðir á Snæfellsnesi voru skoðaðar og komist að þeirri niðurstöðu að vegurinn um Jökulháls og Eysteinsdal, út á Öndverðarnes félli best að hugmyndum og skilgreiningu ferðamannavegar. Skýrslan í heild:Ferðamannavegur á Snæfellsnesi (PDF)
Lesa meira

Hvatningarverðlaun til Sigurður Atlasonar

Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og framkvæmdastjóri Galdrasýningarinnar á Ströndum, fékk hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum í ár. Verðlaunin voru veitt í tenglsum við uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum, sem haldin var í fyrsta sinn að Núpi í Dýrafirði um helgina. Ákveðið var að veita sérstök hvatningarverðlaun til einstaklings eða fyrirtækis sem starfar í greininni í fjórðungnum og álitið er að skarað hafi fram úr á árinu 2011 varðandi nýsköpun, þjónustu eða umhverfisstefnu. Alls bárust 19 tilnefningar en samróma niðustaða dómnefndar, sem skipuð var fulltrúum af öllum Vestfjörðum, var að Sigurður Atlason væri þar fremstur meðal jafningja. Ánafnaði markaðsstofunni vinningsfénuSigurður hefur víða látið til sín taka og fékk viðurkenninguna ekki eingöngu vegna starfa sinna við Galdrasýninguna heldur einnig vegna framlags við uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu sem hann hefur unnið ötullega að með formennsku sinni í Ferðamálasamtökum Vestfjarða. "Meðal annars með vinnu sinni vegna kaupa Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Vesturferðum og sameiningu ferðaþjóna undir merkjum Vesturferða. Þá hefur hann einnig unnið að umhverfisvottun Vestfjarða sem nú er í bígerð. „Sigurður hefur með einstökum dugnaði rutt brautina hvað varðar samvinnu ferðaþjóna á svæðinu m.a. með kaupum FMSV á Vesturferðum. Hann hefur einnig af þrautsegju og harðfylgi unnið ötulega að málefnum umhverfisvottunar Vestfjarða, ásamt því að reka einn vinsælasta viðkomustað ferðamanna á svæðinu. Það er enginn vafi í okkar huga að Sigurður hefur af einskærri ósérhlífni og framsýni átt stóran þátt í þeirri þróun sem undanfarið hefur einkennt og vakið mikla athygli á ferðaþjónustu á Vestfjörðum,“ segir í umsögn dómnefndar. Verðlaunin eru 50.000 krónur en  Sigurður vildi ekki taka við vinningsfénu og ánafnaði því til Markaðsstofu Vestfjarða.
Lesa meira

... hvaða tækifæri eru í norðurljósunum? - Hlutverk gagnrýnna rannsókna í ferðaþjónustu

„Hvaða tækifæri eru í norðurljósunum? - Hlutverk gagnrýnna rannsókna í ferðaþjónustu“ er yfirskrifst örráðstefnu sem haldin verður í hátíðarsal Háskóla Íslands 27 október, kl 17-18. Í tilkynningu um fundinn segir að í kjölfar hrunsins hafi ferðaþjónusta á Íslandi fengið mikla athygli. "Margir eru stórhuga og hyggja á mikla fjárfestingu, en oft vill brenna við að opinberu fé jafnt sem fé einkaaðila sé varið svo að segja að óathuguðu máli í verkefni innan ferðaþjónustu. Með í huga gamla máltækið að „kapp er best með forsjá“ vilja aðilar í íslensku háskólasamfélagi leggja til umræðunnar á hvaða grunni betur mætti byggja til framtíðar. Frumforsendur nýsköpunar og markaðsstarfs í ferðaþjónustu liggja í öflugu og gagnrýnu rannsóknarstarfi," segir orðrétt. Fundurinn hefst á örfáum aðfararorðum um tilefni og tilurð fundarins. Þar á eftir mun fræðafólk stíga á stokk og í stuttum 5 mínútna glærulausum erindum og fjalla um eftirfarandi dæmi. Að því loknu verður opnað fyrir umræður og spurningar og eru aðilar úr greininni sem og fjölmiðlafólk sérstaklega hvatt til að mæta í þágu hreinskiptinna og opinna skoðanaskipta. Viðar Hreinsson - ReykjavíkurAkademían      Ímynd eða inntak? Um menningartengda ferðamennsku Dr. Þorvarður Árnason - Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands – Höfn í Hornafirði    Skot í niðamyrkri – markaðssetning vetrarferðaþjónustu án rannsókna og    þróunarstarfs  Dr. Edward H. Huijbens  - Rannsóknamiðstöð ferðamála    Þegar allir ætla að byggja hótel ... möguleg offjárfesting í ferðaþjónustu Dr. Rannveig Ólafsdóttir - Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands    Eru áhrif ferðamennsku bara jákvæð? Dr. Guðrún Helgadóttir - Ferðamáladeild Háskólans á Hólum    Frumþörf fisksins er vatnið Friðrik Eysteinsson - Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands    Innblásin af engu ... Inspired by Iceland átakið Allir velkomnir. Ef einhverjar spurningar vakna hafið samband við Edward H. Huijbens, Rannsóknamiðstöð ferðamála, edward@unak.is. Uppfært 31. október 2011:Upptökur af ráðstefnunni Edward H. Huijbens setur fundinn, en eftir honum koma Viðar Hreinsson, bréf frá Þorvarði Árnasyni, Edward aftur, Rannveig Ólafsdóttir, bréf frá Guðrúnu Helgadóttur og Friðrik Eysteinsson. Upptökur af erindum má nálgast hér:http://streymi.hi.is/videos/335/...-hvaða-tækifæri-eru-í-norðurljósunum?-hlutverk-gagnrýnna Eftir framsögur sköpuðust umræður og er upptöku þeirra hægt að sjá hér:http://streymi.hi.is/videos/336/...-hvaða-tækifæri-eru-í-norðurljósunum?-hlutverk-gagnrýnna
Lesa meira