Fara í efni

Umsóknum skilað með rafrænum hætti

Rafrænt
Rafrænt

Umsóknareyðublöð fyrir leyfi sem Ferðamálastofa gefur út er nú hægt að nálgast á sameiginlegri þjónustugátt á island.is. Leyfunum ásamt fylgigögnum er hægt að skila inn rafrænt með netskilum, annað hvort með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum.

Umrædd þjónustugátt fyrir leyfisumsóknir er sett upp í kjölfar laga sem Alþingi samþykkti 10. júní síðastliðinn um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Með lögunum er verið að innleiða efnisreglur tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um þjónustu á innri markaðinum. Samkvæmt 4. grein lagana eiga þeir sem veita þjónustu m.a. að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína með rafrænum hætti og fengið rafræn svör frá þeim er veita leyfin.

Á umræddri þjónustugátt er að finna upplýsingar um öll þau leyfi sem falla undir gildissvið laganna ásamt umsóknareyðublöðum sem hægt er að senda inn rafrænt. Þau leyfi sem um ræðir hjá Ferðamálastofu eru leyfi til reksturs ferðaskipuleggjenda, leyfi til reksturs ferðaskrifstofu og skráning á starfsemi bókunarþjónustu og/eða upplýsingamiðstöð.

Eftir sem áður geta þeir sem sækja um leyfi til Ferðamálastofu einnig sent inn umsóknir sínar og viðkomandi fylgiskjöl í pósti eða tölvupósti. Sjálfur umsóknarferillinn er sá sami og verið hefur og umsóknin er fyllt út með sama hætti. Nýungin nú felst í því að hægt er að senda umsóknirnar og fylgiskjöl inn í gegnum vefinn með því, sem fyrr segir, að nota annað hvort veflykil ríkisskattstjóra eða rafræn skilríki.

Slóðin á nýju þjónustuveituna er http://psc.island.is og þar er einnig að finna nánari upplýsingar. Allar upplýsingar um leyfismál Ferðamálastofu er svo hér á vefnum undir „Leyfismál“.