Fréttir

Ferðasýningin ,,Hittumst"

Ferðasýningin "Hittumst" verður haldin þriðjudaginn 11. október kl. 14-17 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Hún hefst á áhugaverðum fyrirlestrum en ferðasýningin hefst svo í framhaldi af því og er eingöngu ætluð ferðaþjónustunni.  Ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu sem vilja kynna þjónustu sína og vöru, kaupa sér aðgang til að kynna sig og fá afnot af borði, stól og plássi fyrir bæklinga.  Aðrir ferðaþjónar sem ekki ætla að vera með bæklinga eða kynna sín fyrirtæki formlega, en vilja og koma og kynna sér hvað er í boði, skrá sig sem slíkir.  Markmiðið með sýningunni er að ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu kynni vörur sínar og þjónustu fyrir öðrum innan ferðageirans. Með því komum við á viðskiptum og eflum tengslin innan okkar raða.  Dagskrá: Kl. 14:00 Áhugaverðir fyrirlestrar frá reynslumiklum konum innan ferðageirans•    Þróun vöru og þjónustu innan ferðaþjónustunnar yfir vetartímann.  Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri •    Ísland allt árið.  Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður hjá Íslandsstofu•    Vetrarborgin Reykjavík.  Sif Gunnarsdóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Kl. 15:00  Ferðasýningin „Hittumst“ Kl. 17:00  Léttar veitingar Þátttaökukostnaði verður haldið í lágmarki eða aðeins kr. 10.000.  Þau fyrirtæki sem skráð eru í Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins greiða kr. 5.000.  Innifalið  í skráningunni eru afnot af borði og stól, og pláss fyrir „roll-up“ og bæklinga.  Enginn aðgangseyrir er fyrir gesti.  Endilega skráið ykkur fyrir 6. október. Skráning á Hittumst 2011  
Lesa meira

Inspired by Iceland vel heppnað samstarf

Alls fóru 700 milljónir í markaðsátakið Inspired by Iceland síðastliðið sumar. Það átti stóran þátt í að afstýra yfirvofandi 34 milljarða samdrætti í íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli, að því er segir í nýrri skýrslu starfshóps verkefnisins. Blásið var til markaðsátaksins Inspired by Iceland að frumkvæði samráðshóps stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila til að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Tilgangur átaksins var að nýta þá athygli sem eldgosið vakti og fylgja henni eftir til að koma þeim skilaboðum til ferðamanna að Ísland væri opið og aðgengilegt þrátt fyrir eldgosið og umfjöllun erlendra fjölmiðla og að nú væri einmitt rétti tíminn til þess að sækja það heim. Nánar upplýsingar og skýrsluna í heild má nálgast á vef Íslandsstofu
Lesa meira

Stykkishólmsbær útnefndur gæðaáfangastaður Evrópu

Stykkishólmsbær var í kvöld, við hátíðlega athöfn í Brussel, útnefndur EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu 2011 fyrir varðveislu og endurnýjun menningarminja og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Viðurkenninguna fær bæjarfélagið vegna markvissrar uppbyggingar gömlu húsanna í bænum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt hlutverk í ferðaþjónustu, þar sem sjálfbærni- og umhverfishugsun er í forgrunni. Verðlaunin voru afhent í tengslum við Ferðamáladag Evrópu, sem er í dag.
Lesa meira

Nýjar tröppur við Seljalandsfoss

Á dögunum voru nýjar tröppur við Seljalandsfoss formlega teknar í notkun. Verkefnið var meðal þeirra sem hlutu styrk frá Ferðamálastofu á þessu ári vegna úrbóta á ferðamannastöðum. Nýju tröppurnar bæta verulega aðgengismál við fossinn en sem kunnugt er ganga þúsundir ferðamanna á bakvið hann á hverju ári. Mikið var lagt upp úr hönnun á tröppunum þannig að þær myndu bæði falla vel á landinu, valda sem minnstri röskun og jafnframt auka öryggi gesta. Ferðamálastofa styrkti sveitarfélagið Rangárþing eystra um 2 milljónir króna vegna verksins, sem var um þriðjungur af heildarkostnaði. Umsjón með verkefninu hafði Oddur Hermannsson hjá Landform ehf. á Selfossi en uppsetning var í höndum Vélsmiðjunnar Magna á Hvolsvelli.
Lesa meira

Reiselivsmessen í Osló 2012

Íslandsstofa kannar nú áhuga fyrirtækja á þátttöku í ferðasýningunni Reiselivsmessen sem haldin verður dagana 13.-15. janúar 2012 í Osló. Um er að ræða nýja sýningu með áherslu á neytendur (B2C), en fyrri hluti föstudagsins 13. janúar er ætlaður fagfólki (B2B). Sýningin fer fram í Telenor Fornebu höllinni í Osló. Á sýningunni gefst fyrirtækjum í ferðaþjónustu tækifæri til að kynna sig, koma á viðskiptasamböndum og hitta neytendur. Sýningin hentar jafnframt fyrirtækjum sem stunda eða hafa áhuga á að hefja útflutning á vörum til Noregs. Nánari upplýsingar um Reiselivsmessen er að finna á vef sýningarinnar Áhugasamir eru hvattir til hafa samband í síma 511 4000 eða á netfangið sunna@islandsstofa.is fyrir föstudaginn 30. september. Nánari upplýsingar veitir Sunna Þórðardóttir hjá Íslandsstofu, sunna@islandsstofa.is
Lesa meira

Katla jarðvangur fær inngöngu í samtök jarðvanga í Evrópu

Katla jarðvangur (Katla Geopark) hefur fengið inngöngu í European Geopark Network (EGN) og Global Network of Geoparks (GGN). Aðilar frá Evrópusamtökunum komu til landsins í sumar til að taka verkið út og hefur umsókn Kötlu jarðvangs nú verið samþykkt. Hugmyndin um stofnun jarðvangs (geopark) á Suðurlandi kviknaði á vettvangi fyrsta átaksverkefnis Háskólafélags Suðurlands (www.hfsu.is) 2008. Átaksverkefnið tók til sveitarfélaganna þriggja sem eru austast á svæðinu; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Fljótlega mótaðist sú hugmynd að eitt af áhersluatriðum verkefnisins yrði eldvirkni svæðisins. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur var fengin til þess að gera samantekt um jarðfræði svæðisins. Lovísa kynnti fyrir stjórn verkefnisins hugtakið European Geopark og má segja að þá hafi teningnum verið kastað. Verkefnið fékk góðar viðtökur, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og ferðaþjónustuaðila á svæðinu, og 19. nóvember 2010 var jarðvangurinn stofnaður formlega sem sjálfseignarstofnun á fundi í Brydebúð í Vík í Mýrdal. Stórt skrefLjóst er að aðild að EGN er mikilvægur áfangi í uppbyggingu jarðvangsins. „Við bjuggumst varla við að okkur tækist að komast inn í fyrstu tilraun en umsóknin fékk fína einkunn. Þetta verður vonandi stórt skref fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf á Suðurlandi,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, sem er meðal þeirra sem unnið hafa að verkefninu. Nýr kynningarbæklingurÞess má einnig geta að Katla jarðvangur hefur gefið út nýjan bækling um kynningu á verkefninu. Bæklinginn má nálgast á vef Kötlu jarðvags. Myndin sem hér fylgir er einmitt úr bæklingnum. Um European Geoparks NetworkHugmyndin á bakvið European Geoparks Network (EGN) er að koma á tengslum milli svæða með áhugaverðum jarðminjum sem gætu þá unnið að því að miðla upplýsingum, þekkingu og reynslu sín á milli, með það fyrir augum að leysa sameiginleg vandamál og koma svæðunum á framfæri. Frá upphafi hefur megin áherslan verið á skýra stefnu um sjálfbæra þróun sem myndi stuðla að verndun jarðminja. Evrópusambandið styrkti hugmyndirnar og í framhaldi varð til samstarf fjögurra garða sem stofnuðu European Geoparks Network árið 2000. Markmið samtakanna er að koma jarðminjum á framfæri, vernda þær og stuðla að sjálfbærri efnahagslegri þróun innan garðanna með því meðal annars að þróa jarðferðamennsku (Geotourism). Með tengslanetinu er m.a. boðið upp á miðlun á þekkingu og reynslu meðal aðildarfélaga og gæðavottun fyrir svæði með merkilegar jarðminjar innan Evrópu. Náið samstarf við hvers konar starfsemi innan svæðisins með því að kanna og styðja við nýjar framleiðsluafurðir með að markmiði að kynna jarðminjar og efla ábyrga efnahagslega þróun.Árið 2001 lýsti jarðvísindadeild UNESCO yfir stuðningi við European Geoparks Network og í framhaldinu, árið 2004, var stofnað alþjóðlegt tengslanet jarðgarða UNESCO Global Geoparks Network (GGN). Þannig að í dag verða þeir garðar sem fá inngöngu í European Geopark Network sjálfkrafa meðlimir í UNESCO Global Geopark Network.  
Lesa meira

Vestnorden í Reykjavík að ári liðnu

Vestnorden ferðakaupstefnunni lauk í Þórshöfn í Færeyjum á miðvikudaginn og tókst hún með miklum ágætum. Vestnorden 2012 verður haldin í Reykjavík að ári liðnu, nánar tiltekið dagana 2.-3. október og þá í 27 sinn. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands, standa að Vestnorden. Er kaupstefnan haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Tæplega 120 fyrirtæki frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi kynntu að þessu sinni vöru sína og þjónustu fyrir kaupendum, ferðaheildsölum sem komu víða að. Í tengslum við kaupstefnuna var einnig haldinn stjórnarfundur í NATA en Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri fer nú með formennskuna. Meðal annars var gengið frá ráðningu á starfsmanni fyrir samtökin sem staðsettur verður í Færeyjum. NATA var einnig með kynningarbás á kaustefnunni þar sem hægt var að fræðast um starfsemi samtakanna og fá upplýsingar vegna umsókna um styrki frá NATA, sem nú hafa verið auglýstir. Sjá nánar um styrki frá NATA Meðfylgjandi mynd var tekin á Vestnorden nú í vikunni en fleiri myndir má nálagast á vefslóðunum hér að neðan. http://aktuelt.fo/myndafrasogn/vestnorden_travel_mart_2011_a_hlsi http://aktuelt.fo/myndafrasogn/vestnorden_travel_mart_2011
Lesa meira

Vestfirðir stefna á umhverfisvottun

Öll sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa samþykkt að hafist verði handa við forvinnu verkefnis sem felst í umhverfisvottun Vestfjarða. Forsaga málsins er sú að Ferðamálasamtök Vestfjarða ákváðu á síðasta ári að stefna að því að taka upp EarthCheck umhverfisvottun fyrir Vestfirði. Á fjórðungsþingi Vestfirðinga í haust var síðan samþykkt stefna að sameiginlegri umhverfisvottun Vestfjarða í heild. Vottunarsamtökin EC3 Global eru áströlsk samtök sem sjá um vottun samfélaga og ferðaþjónustuaðila og veita þeim umhverfismerki ef þau standast fyrirfram ákveðnar kröfur. EarthCheck (áður þekkt sem Green Globe) vottunarsamtökin byggja á sterkum faglegum grunni og eru þróuð af fyrirtæki í eigu ástralska ferðamannaiðnarins, ríkisins og háskólaa. Um er að ræða stærstu rannsóknamiðstöð ferðamála í heiminum og hefur það að markmiði að stuðla að sjálfbærni í ferðaþjónustunni. „EarthCheck er eini staðalinn fyrir umhverfisvottun sem snýr að fyrirtækjum og samfélögum. Ef Vestfirðir ákveða að sækjast eftir umhverfisvottun myndi EarthCheck veita aukinn styrk, því þótt margar vottanir séu í boði fyrir fyrirtæki þá er það skammgóður vermir ef sveitarfélögin á svæðinu eru ekki tilbúin að veita þá grunnþjónustu sem slík umhverfisvottun kallar á,“ segir í minnisblaði FV sem sent var sveitarfélögum Vestfjarða. Snæfellssnes hefur nú þegar fengið umhverfisvottun frá EarthCheck, fyrst allra svæða á Íslandi og því mikið hægt að byggja á þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin. Í minnisblaðinu segir að ávinningur af þátttöku yrði þríþættur, í fyrsta lagi yrði það fyrir umhverfið sjálft en maðurinn hefur með athöfnum sínum mjög víða skaðað umhverfi sitt til lengri eða skemmri tíma. Vistkerfi eru víða undirstaða menningar mannsins og grundvöllur til þeirra lífsgæða sem við nú njótum. Ef áfram verður haldið án þess að umgengni við umhverfi batni er útlit fyrir að ýmis vistkerfi gætu látið verulega á sjá eða hreinlega hrunið t.d. vegna gróðurhúsaáhrifa, mengunar og eyðingar náttúrulegra búsvæða. Í öðru lagi myndi það leiða til sparnaðar í rekstri. Það að vera umhverfisvænn í dag er í raun það sama og að fara sparlega með auðlindir. Þriðja ástæðan er markaðssetning en sífellt fleiri ferðamenn leggja mikið upp úr því að ferðaþjónustuaðilar gangi vel um umhverfið. „Vottun sveitarfélaga er því mikið tækifæri til markaðssetningar í ferðaþjónustu en einnig mögulega í öðrum greinum, svo sem í sjávarútvegi. Einnig getur vottunin gert Vestfirði að álitlegri búsetukosti, hvort sem er fyrir núverandi eða nýja íbúa,“ segir í minnisblaði FV. Mynd - westfjords.is:Galdramaður við Kotbýli kuklarans sem er hluti Galdrasýningar á Ströndum.
Lesa meira

Inspired by Iceland vinnur gull

Auglýsingaherferðin Inspired by Iceland vann í gær ein eftirsóttustu auglýsingaverðlaun í Evrópu, Euro Effie. Hlaut hún bæði fyrstu verðlaun fyrir bestu herferðina og gullverðlaun fyrir bestu notkunin á samfélagsmiðlum. Fór athöfnin fram í Brussel. Eru það samtökin EACA, sem eru evrópsk samtök auglýsinga- og fjölmiðlastofa, sem standa að verðlaununum. Vann Íslandsstofa fyrir hönd Inspired by Iceland til gullverðlauna fyrir notkun samfélagsmiðla auk Grand Prix-verðlauna fyrir bestu herferðina. Er það Íslenska auglýsingastofan sem stóð að herferðinni með Íslandsstofu. „Þetta eru mjög stór verðlaun, trúlega stærstu evrópsku auglýsingaverðlaunin. Það er gríðarlegur heiður fyrir okkur að fá að taka þátt í þessu og að vera hér í kvöld,“ segir Atli Freyr Sveinsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, í samtali við mbl.is
Lesa meira

Avis hlýtur viðurkenningu World Travel Awards

Á nýafstaðinni hátíð World Travel Awards sem haldin var á Cornelia Diamond Golf Resort & Spa í Tyrklandi, hlaut Avis bílaleigan, þriðja árið í röð, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á fyrirtækjamarkaði í Evrópu. World Travel Awards sem gjarnan eru nefnd „Óskar ferðaþjónustunnar“ eru virtustu og eftirsóttustu verðlaun ferðageirans, valin í kosningu sem yfir 100 þúsund ferðaskrifstofur og sérfræðingar í ferðaþjónustu um allan heim taka þátt í. Að þessu sinni kepptu yfir 500 fyrirtæki víðs vegar að úr evrópu um viðurkenningar í ríflega 120 flokkum, en aðeins þau fyrirtæki sem þykja hafa sýnt gott fordæmi og skarað fram úr í þjónustu á tímum efnahgslegrar óvissu eiga möguleika á verðlaunum, segir í frétt frá AVIS.
Lesa meira