Fréttir

Stefna í öryggismálum á ferðamannastöðum til ársins 2015

Vinnuhópi sem falið var af ferðamálastjóra það vandasama verkefni að vinna stefnumótun í öryggismálum á ferðamannastöðum skilaði nýverið skýrslu til ráðherra ferðamála. Með henni skapast grundvöllur til skipulegrar vinnu að því að tryggja öryggi ferðamanna á ferðamannastöðum á Íslandi en mikilvægt er talið að gera átak í öryggismálum ferðamanna. Forsaga málsins er sú að ráðherrar ferðamála og umhverfismála óskuðu á vordögum 2010 eftir því að Ferðamálastofa og Umhverfisstofnun leggðu fram minnisblað um öryggismál á ferðamannastöðum.
Lesa meira

Laust starf hjá Ferðamálastofu ? Akureyri

Ferðamálastofa auglýsir eftir starfsmanni tímabundið til afleysinga. Um er að ræða tímabilið frá 22. ágúst næstkomandi til 1 apríl 2012. Helstu verkefni: Umsjón og uppfærsla á gagnabanka Ferðamálastofu Útgáfa handbókar Ferðamálastofu Aðstoð við lögfræðing stofnunarinnar vegna leyfismála Símvarsla og almenn skrifstofustörf Menntunar- og hæfniskröfur: Stúdentspróf eða sambærileg menntun Reynsla og þekking af íslenskri ferðaþjónustu er kostur Góð íslensku- og enskukunnátta er skilyrði Þekking á GoPro skjalastjórnunarkerfinu kostur Framtakssemi, sjálfstæði í vinnubrögðum og færni í mannlegum samskiptum Góð tölvukunnátta. Laun eru samkvæmt kjarasamningi SFR og ríkisins. Nánari upplýsingar um starfið veitir Elías Bj. Gíslason forstöðumaður á Akureyri, elias@ferdamalastofa.is .   Umsóknarfrestur er til og með 22. júlí nk. Umsóknir skulu berast með tölvupósti  eða á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri  og vera merktar starfinu.  Ekki er um sérstök umsóknareyðublöð að ræða. Öllum umsóknum verður svarað. Samkvæmt lögum um skipan ferðamála fer Ferðamálastofa með framkvæmd ferðamála. Ferðamálastofa er með tvær skrifstofur í Reykjavík og á Akureyri, alls eru starfsmenn 12, þar af fimm á Akureyri. Nánari upplýsingar um starfsemi Ferðamálastofu er að finna hér á vefnum.
Lesa meira

Ferðamálastofa og Landsbjörg gera með sér samstarfssamning til 3ja ára

Ferðamálastofa og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa skrifað undir samstarfssaming vegna verkefnisins safetravel.is. Með honum tekur Ferðamálastofa að sér að styðja við verkefnið á árunum 2011 til 2013. Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri skrifuðu undir samstarfssamninginn. Meginmarkmið hans er að tryggja viðgang og gæði ferðavefjarins safetravel.is og tryggja þar með aðgang íslenskra og erlendra ferðamanna að bestu mögulegu upplýsingum um ferðamennsku á Íslandi hverju sinni. Slysavarnafélagið Landsbjörg vinnur jafnframt að öryggi ferðamanna á hálendinu og aðstoðar þá eftir mætti, með því m.a. að halda úti hálendisvakt sjálfboðaliða björgunarsveita frá 24. júní til 14.ágúst. Í sumar verða björgunarsveitir þannig með fasta viðveru í Öskju, Landmannalaugum, Kili og á Sprengisandi. www.safetravel.is  
Lesa meira

Tölfræði um skemmtiferðaskip

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú tekið saman ítarlega tölfræði um komur skemmtiferðaskipa til Íslands árin 2000 til og með 2010. Verða þessar upplýsingar uppfærðar árlega í framhaldinu. Byggt er á frumheimildum frá hverri höfn sem talin er fram. Eins og sjá má á tölunum hefur farþegafjöldi með skemmtiferðaskipum til landsins nærri þrefaldast á þessu tíu ára tímabili. Er þar horft til farþegafjölda með skipum til Reykjavíkur einungis, þar sem öll skip sem til landsins koma hafa viðkomu þar. Þessi sömu skip koma svo við á öðrum höfnum. Helst eru það Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar sem koma með skipunum þótt aðeins sé um ferðafólk af öðru þjóðerni. Myndir og töflur með tölfræðinni má nálgast í Excel-skljalinu hér að neðan en til að fá frumgögn þarf að hafa samband við Rannsóknamiðstöð ferðamála. Tölfræði um skemmtiferðaskip 2000-2010  
Lesa meira

Vinalegasta viðmótið - gefðu bros í sumar

Ferðamálastofa hefur í samstarfi við við Ferðamálasamtök Íslands, Ferðaþjónustu bænda, Íslandsstofu, Samtök ferðaþjónustunnar og Markaðsstofur landshlutanna hrint af stað sumarherferð sem ber yfirskriftina Vinalegasta viðmótið. Hugmyndin að baki herferðinni er að verðlauna það sem vel er gert í þjónustu á ferðaþjónustustöðum út um allt land og vekja sérstaka athygli á þeim stöðum með jákvæðum hætti. Markmiðið er einnig að herferðin sé hvatning til fólks í þjónustustörfum til að sýna jákvætt og vinalegt viðmót og leggja sig fram um að veita góða þjónustu í hvívetna. Ferðamenn og aðrir viðskiptavinir geta látið vita af góðri þjónustu eða vinalegu viðmóti með því að hringja í þáttinn Virka morgna á Rás 2 eða skrifa ábendingar á Facebook-síðu átaksins – en einnig verður hægt að „verðlauna“ gott viðmót á stöðunum sjálfum með því að „gefa bros“.  Sérstakir broslímmiðar munu liggja frammi hjá fjölda þjónustuaðila og þá má líma á þar til gert veggspjald til að láta í ljósi ánægju sína með áþreifanlegum hætti. Þeir staðir sem safna flestum brosmiðum á veggspjaldið sitt ættu að vera í góðum málum með viðmót gagnvartviðskiptavinum. Bros samnefnari fyrir góða þjónustuOft er erfitt að meta hvað felst í góðri þjónustu og við gerum mismunandi kröfur eftir stöðum. Í allri þjónustu skiptir þó viðmót starfsfólks höfuðmáli og því má segja að brosið sé samnefnari  fyrir góða þjónustu og ánægjuleg viðskipti. Við viljum hvetja fólk til að beita því óspart. Post-it miðar – „Gefðu bros“Partur af herferðinni eru „post-it“ límmiðar með broskalli og textanum „Gefðu bros“. Þeim verður dreift á ferðaþjónustustaði út um allt land, ásamt meðfylgjandi veggspjaldi. Þeir eru hugsaðir  sem nokkurs konar áþreifanleg umbun eða „þjórfé“ fyrir vinalegt viðmót eða góða þjónustu. Með þessu köllum við fram þátttöku viðskiptavinarins og ferðamannanna sem eiga leið um landið og með táknrænum hætti geta viðskiptavinirnir látið ánægju sína í ljós með því að gefa bros á móti. Fólki er að sjálfsögðu velkomið að skrifa persónulega kveðju á post-it miðana, en það er ekki skilyrði. Ferðaþjónstuaðilar eru hvattir til að setja veggspjaldið upp á góðum og áberandi stað og hafa broslímmiðana nálæga til að viðskiptavinir átti sig á út á hvað leikurinn gengur og við  náum að skapa skemmtilega stemningu kringum verkefnið. MarkmiðMarkmiðið með átakinu í sumar er að gera starfsfólk fyrirtækja í ferðaþjónustu meðvitaðra um mikilvægi góðrar þjónustu, sýna fram á hvað mikið getur áunnist með litlum og einföldum atriðum (sbr. brosið) og ekki síst að fá ferðalanga og viðskiptavini til að sýna bæði þakklæti í verki (með því að brosa á móti) og umbuna fyrir góða þjónustu og gott viðmót. FacebookSett verður upp sérstök Facebook-síða fyrir átakið (Vinalegasta viðmótið) þar sem fólk getur  sent inn jákvæðar reynslusögur og jafnvel gefið bros með táknrænum hætti. Facebook-síðan verður vöktuð og engu hleypt þar í gegn án samþykkis ritstjóra til að forðast að hún verðigrundvöllur neikvæðra skrifa. Virkir morgnar á Rás 2Í þættinum Virkum morgnum munu stjórnendur heyra í hlustendum sem geta hringt inn með jákvæðar sögur og tilnefnt staði. Þeir hlustendur sem hringja og þeir sem skrifa á Facebookvegginn fara í pott og geta átt von á að vinna spennandi vinninga frá ýmsum ferðaþjónustuaðilum. Ef einhverjar spurningar vakna getið þið haft samband við Sigrúnu Hlín Sigurðardóttir þróunarstjóra  markaðsmála í síma 535 5502 eða með tölvupósti á sigrun@ferdamalastofa.is. Share Your StorySamhliða átakinu Vinalegasta viðmótið, mun Inspired by Iceland einnig standa að verkefninu Share Your Story, þar  sem erlendir ferðamenn verða hvattir til þess að skrifa sögu af ferðum sínum um landið og deila henni með öðrum á heimasíðu Inspried by Iceland. Valin verður besta innsenda sagan, og mun höfundur hennar hljóta flug til Íslands í verðlaun. Póstkortum verður dreift á hótelherbergi og vinsæla ferðamannastaði um landið til að kynna leikinn. Upplýsingar í PDF-skjali
Lesa meira

Eftirlit með leyfislausum ferðaskipuleggjendum og ferðaskrifstofum

Átak í eftirliti með leyfislausum ferðaskipuleggjendum og ferðaskrifstofum stendur nú yfir á vegum Ferðamálastofu. Með lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála þurfa fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundariðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, gönguferðir, fljótasiglingar, ævintýraferðir ýmis konar, veiði og fleira að afla sér starfsleyfi hjá Ferðamálastofu. Mikil fjölgun leyfaNú þegar hafa tæplega 500 fyrirtæki leyfi til að selja ferðir og afþreyingu hér á landi og hefur verið stöðug fjölgun síðustu misserin. Eins og fram hefur komið er talsvert um leyfislausa aðila í rekstri og er markmið átaksins nú að ráða bót á því. Sérstakur starfsmaður var ráðinn til verkefnisins sem vinnur með lögfræðingi Ferðamálastofu að þessum málum. Haft verður samband við fyrirtæki, óskað eftir upplýsingum frá þeim um eðli starfseminnar og þeim síðan eftir atvikum leiðbeint um hvers konar leyfi þarf að sækja um. Einfalt að sækja um leyfiUmsókn um ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfi er hvorki flókinn né kostnaðarsamur ferill. Ferðaskrifstofuleyfi kostar 15.000 kr og ferðaskipuleggjendaleyfi 10.000 kr. Að auki er kostnaður við þau vottorð sem þarf að afla og tryggingar. Allar nánari upplýsingar um leyfisumsóknir má finna hér á vefnum undir „Leyfismál“. Þar má einnig finna samantekt sem Ferðamálastofa gerði um leyfisskylda starfsemi innan ferðaþjónustu, hvaða leyfi þarf fyrir hverja tegund starfsemi og hvar þeirra er aflað.
Lesa meira

Nýtt hótel og nýtt nafn hjá Icelandair Hótelum

Síðustu daga hefur verið skammt stórra högga á milli hjá Icelandair Hótelum. Í vikunni opnaði nýtt heilsárshótel á Akureyri og í gær var tilkynnt um nýtt nafn á einu sögufrægasta hóteli landsins, Hótel Loftleiðum. Hótel Loftleiðir kallast nú Reykjavík Natura. Hótelið var opnað árið 1966 og kemur nafnbreytingin kemur í kjölfar gagngerra endurbóta á hótelinu sem unnið hefur verið að í vetur. Í frétt kemur fram að nafnið eigi sér skírskotun til nálægðar hótelsins við Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Reykjavík Natura er 220 herbergja, fjögurra stjörnu hótel og þátttakandi í gæðaflokkun gististaða með stjörnugjöf sem Ferðamálastofa heldur utan um. Icelandair Hótel Akureyri verður fullbúið með 101 herbergi. Hluti þeirra hefur þegar verið opnaður en þau verða öll komin í notkun um komandi mánaðamót. Þá hefur komið fram að næsta vor munu Icelandair Hótel ona nýtt rúmlega 100 herbergja hótel á slippsvæðinu við Mýrargötu í Reykjavík sem fengið hefur nafnið Reykjavík Marina.
Lesa meira

Leiðbeiningarrit fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Ferðamálastofa hefur gefið út ritið "Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarrit fyrir starfsfólk". Um er að ræða 11. útgáfu í endurbættri mynd. Ritinu er ætlað að gera þeim sem reka upplýsingamiðstöðvar og starfsfólki þeirra auðveldara að skipuleggja starfið og bæta á ýmsa lund. Þótt aðstæður á hverjum stað séu mismunandi þá er áríðandi að allar upplýsingamiðstöðvar starfi eftir sömu grundvallarreglum. Það gerir þær trúverðugri og eykur tiltrú ferðamannsins og hagsmunaaðilanna á þeim. Hlutverk upplýsingamiðstöðva er að auka gæði þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn og veita þeim þær upplýsingar sem þeir þarfnast til að auðvelda sér ferðalagið. Upplýsingamiðstöðvar eru mikilvægar fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu um allan heim. Með betri upplýsingum er líklegra að ferðamaðurinn veiti sér eitthvað sem hann hefði annars farið á mis við og er því oft um beinan fjárhagslegan ávinning að ræða. Hlutverk upplýsingamiðstöðva er einnig að auðvelda hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að koma vöru sinni og þjónustu á framfæri. Með auknum upplýsingum til ferðamanna aukast líkurnar á vel heppnuðu fríi en kannanir sýna að ánægður ferðamaður er okkur mikilvæg auglýsing. Upplýsingamiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki varðandi öryggi ferðamanna. Einnig er mikilvægt að stuðla að aukinni dreifingu þeirra um landið. Þannig njóta fleiri tekna af ferðamönnum og álagið á viðkvæma náttúru landsins dreifist. Með aukinni kynningu á upplýsingamiðstöðvum fjölgar þeim sem notfæra sér stöðvarnar á sínum heimaslóðum. Fólk getur þannig skipulagt ferðir sínar betur áður en lagt er af stað. Ritið í heild má nálgast hér að neðan. Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (Vefútgáfa) Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (PDF)  
Lesa meira

Störf vegna upplýsingagjafar í kjölfar eldgossins

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita fjármagni til þess að ráða níu sumarstarfsmenn til þess að sinna upplýsingamiðlun til innlendra og erlendra ferðamanna í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum. „Reynslan frá eftirleik eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári kennir okkur að rétt miðlun upplýsinga til ferðamanna skiptir gríðarlega miklu máli. Nú þegar askan úr eldgosinu í Grímsvötnum er sest þá standa ferðaþjónustuaðilar frammi fyrir sömu áskorun,“ segir í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu. Þá segir að mikilvægt sé að hefja þegar markvisst starf við upplýsingamiðlun til innlendra og erlendra ferðamanna. Starfsmennirnir níu munu ganga til liðs við Markaðsstofu Suðurlands, upplýsingarveitur ferðamála og Kötlusetur. Vinnumálastofnun og Iðnaðarráðuneytið skipta með sér kostnaði við átakið og nemur hlutur ráðuneytisins um 5,4 m.kr. Störfin eru eftirfarandi:1. Markaðssetning (Markaðsstofa Suðurlands, 1 starf). Mikilvægt er að vekja áhuga Íslendinga á að ferðast um áhrifasvæði gossins í sumar og koma í veg fyrir að gosið og fréttaflutningur af því leiði til þess að íslenskir ferðamenn forðist svæðið. Markaðsstofa Suðurlands ræður einn starfsmann sem hefur meðal annars það hlutverk að ráðast í sértæka kynningu á svæðinu gagnvart íslenskum ferðamönnum, skipuleggja viðburði sem laðað geti ferðamenn að svæðinu og þróa vörur sem byggja á sérstöðu svæðisins og aðdráttarafli sem nýst geti til eflingar ferðaþjónustu á svæðinu. 2. Upplýsingaveitur ferðamála (Rangárþing eystra (1 starf), Skaftárhreppur (2 störf) og Sveitarfélagið Hornafjörður (1 starf). Upplýsingamiðstöðvar sem leiða ferðamenn inn á svæðið gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja ánægjulega dvöl gesta á svæðinu. Mikilvægt er að efla og styrkja starfsemi þeirra, frá Höfn að Hveragerði. 3. Kötlusetur og Katla geopark (Mýrdalshreppur, fh. tveggja sjálfseignarstofnana, 4 störf) Kötlusetri er í framtíðinni ætlað að verða hvorttveggja í senn rannsókna- og fræðasetur og menningarmiðstöð í Vík í Mýrdal. Í upphafi er höfuðáherslan í starfsemi Kötluseturs lögð á ferðaþjónustu og menningartengda starfsemi. Þá mun Kötlusetur verða tengiliður Mýrdælinga við samstarfsverkefnið Kötlu-Jarðvang á sviði jarðfræðitengdrar ferðamennsku.
Lesa meira

Tímamót í skráningu og upplýsingagjöf um aðgengi fatlaðra

Nú er að ryðja sér til rúms hérlendis nýtt kerfi sem veitir upplýsingar um aðgengi að byggingum og útisvæðum ætluðum almenningi. Upplýsingarnar birtast á vefnum www.gottadgengi.is en sambærilegur aðgangur almennings að þessum upplýsingum er varða Ísland hefur ekki verið til staðar fyrr en nú. Byggir á sjö flokkumAð verkefninu stendur fyrirtækið Aðgengi sem rekið er af Hörpu Cilia Ingólfsdóttur. „Þegar talað er um aðgengi fatlaðra kemur yfirleitt upp í hugann hjá fólki mynd af manneskju í hjólastól. Skilgreining á fötlun getur engu að síður átt við handa- eða gönguskerta, ofnæmis- og astmaveika, fólk með lestrarörðugleika og sjónskerta sem og þroskahamlaða og heyrnarskerta.“ segir Harpa. Kerfið sem um ræðir byggir á danskri fyrirmynd og byggir á sjö flokkum sem einmitt taka til áðurnefndra flokka fötlunar. Á heimasíðunni eru upplýsingar um öll sjö merkin og leitarvél sem auðveldar almenningi aðgang að upplýsingum um vottaða staði og hvernig aðgengið er á þeim. Allar grunnupplýsingarnar sem skráðar eru í kerfið er einnig að finna á ensku, dönsku, sænsku og þýsku. Auðveldar skipulagningu ferðalagaHarpa bendir á að vefsíður sem þessar auðvelda skipulagningu bæði á hversdagslegum ferðum sem og ferðalögum fatlaðra. „Hér áður fyrr fór mikill tími í að skipuleggja þessar ferðir en með nútíma tækni og vottun verður þetta miklu einfaldara og fljótlegra fyrir almenning og skipuleggjendur að notast við.“ Segir Harpa. „Þetta er einnig stór markhópur fyrir ferðaþjónustuaðila að ná til, eins og hótel, veitingahús, ferðaskipuleggjendur og bílaleigur til að mynda, sem fyrirtæki hafa kannski ekki gert sér hugmyndir um fyrr en nú.“ Fyrstu aðilarnir fá vottanir sínarNú þegar hafa nokkur hótel og veitingastaðir látið taka út aðgengi sitt ásamt um 20 náttúruperlum á Suðurlandi. Sveitarfélagið Garður var fyrst til fá vottun fyrir skóla, söfn og fleiri staði sem tilheyra sveitarfélaginu. Á næstu vikum mun Harpa fara hringinn í kringum landið til að vekja athygli á mikilvægi aðgengis fatlaðra og Aðgengismerkjakerfinu. Til liðs við hana hafa gengið Diddú söngkona, Edda Heiðrún Bachman leikkona, Helgi Hjörvar alþingismaður, Árni Tryggvason leikari og sjómaður, Jónína Leósdóttir rithöfundur, Eyþór Ingi tónlistamaður og söngvari og Daníel Ólafsson framhaldsskólanemi. Öll munu þau prýða veggspjald og upplýsingabækling sem útskýrir mikilvægi aðgengis fyrir hóp sem þau tilheyra og er þessu átaki ætlað að beina sjónum að þessu aðkallandi málefni og þeim stóra hóp sem geta nýtt sér Aðgengismerkjakerfið á hverjum degi. Ferðamálastofa styður verkefniðVerkefnið hefur notið stuðnings ýmissa aðila, meðal annars Ferðamálastofu, sem veitt hefur styrk til úttektar á vinsælum ferðamannastöðum. Einnig mun úttekt samkvæmt kerfinu telja inn í nýja gæða- og umhverfiskerfið Vakann. Fyrstu aðilarnir sem hljóta vottun á Norðurlandi fengu staðfestingar þess efnis afhentar í dag. Á myndinni eru talið frá vinstri: Harpa Cilia Ingólfsdóttir; Oddur Helgi Halldórsson, formaður bæjarráðs Akureyrar; Sigurbjörn Sveinsson, Hótel KEA; Bryndís Óskarsdóttir, Ferðaþjónustan Skjaldarvík; Stefán Tryggvason, Hótel Natur og Hrefna Ingólfsdóttir, Ferðaþjónustan Öngulstöðum.
Lesa meira