Fréttir

Gestum fjölgar en tekjur standa í stað

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú gefið út yfirlit yfir helstu hagvísa í ferðaþjónustu á Íslandi. Þar eru tekin saman og greind fyrirliggjandi gögn, sem aflað hefur verið af metnaði í hliðarreikningum Hagstofu Íslands, Seðlabanka og hjá Ferðamálastofu. Hinsvegar er frekari greining á þessum gagnasöfnum orðin afar aðkallandi. Tilgangur slíkrar greiningar snýr t.d. að mati á framleiðni tekna af ferðafólki og leiðsögn um hvar beri að herða róðurinn í því tilliti, bæði á landsvísu og einstökum svæðum. Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur lagt fram ítarlega rannsóknaráætlun um það sem greina þarf er kemur að hagrænum áhrifum ferðaþjónustu, en ekki hefur fengist fjárhagslegur stuðningur við þá vinnu.     Helst er hægt að lesa úr hagvísunum að á síðustu árum hefur gestakomum til landsins fjölgað að meðaltali um 6,6% sem er sambærilegt því meðaltali sem fæst ef horft er til áranna 1960-2010. Frá árinu 1990 hefur vöxtur í tekjum verið 1,2% umfram fjölgun gesta, það er 0,7% meira en ef horft er til tímabilsins 1960-2004, þar sem vöxtur tekna var 0,5% yfir árlegri meðalfjölgun gesta. Hinsvegar virðist sem hver gestur skilji svipað eftir sig milli ára ef horft er til dvalarlengdar og er t.d. þetta misræmi frekara rannsóknarefni.Hagvísana í heild sinni er hægt að nálgast hér að neðan: Hagvísar í Ferðaþjónustu -ágúst 2011 (PDF) Mynd: Ragnar Th. Sigurðasson - arctic-images.com
Lesa meira

Átak til atvinnusköpunar ? Á markað með snjöll nýsköpunarverkefni?

Iðnaðarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr verkefninu Átaki til atvinnusköpunar.Átak til atvinnusköpunar veitir styrki til nýsköpunarverkefna og markaðsaðgerða starfandi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja.Markmið verkefnisins? Að styðja við þróun nýsköpunarhugmynda á fyrri stigum sem hlotið gætu frekari fjármögnun sjóða og fjárfesta.? Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða í frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum.Í umsókn þarf að koma fram? Skýr lýsing á verkefninu í heild og ætluðum árangri þess.? Greining á nýnæmi verkefnisins.? Greinargóðar kostnaðar- og verkáætlanir.? Ýtarleg lýsing á þeim verkþáttum sem sótt er um styrk til, s.s. þróunarvinnu eða markaðsstarfs.Styrkir geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins. Ekki eru veittir styrkir til fjárfestinga s.s. í tækjum og búnaði.Rafræn umsóknareyðublöð eru á http://nmi.is/Beiðni um upplýsingar og aðstoð má senda á netfangið johanna@nmi.isUmsóknarfrestur er til og með 22. september 2011. Umsækjendur eru hvattir til að bíða ekki til síðasta dags með að sækja um til að forðast tafir vegna álags á umsóknarkerfi.  
Lesa meira

Fyrirlestur um jarðminjaferðamennsku - geotourism

Jarðminjaferðamennska er skilgreind sem ferðaþjónusta sem byggir á sérstæðri jarðfræði og nýtur stöðugt meiri vinsælda á heimsvísu. Einn virtasti sérfræðingur heims á þessu sviði, dr. Ross Dowling, heldur opinberan fyrirlestur á vegum Háskólafélags Suðurlands og Kötlu Jarðvangs í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 15-17. Vikuna 21. – 28. ágúst verður dr. Ross Dowling aðalkennari á meistaranámskeiði í Háskóla Íslands um þetta efni með sérstakri áherslu á jarðvanga (Geoparks).  Skráning er hafin á fyrirlesturinn þann 29. ágúst á netfanginu hrafnkell@hfsu.is.  Verð er kr. 7.500 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn og dr. Ross Dowling er að finna á heimasíðu Kötlu jarðvangs www.katlageopark.is Hér er hægt að hlaða niður nánari upplýsingum um fyrirlesturinn og hér  má finna ferilskrá dr. Ross.
Lesa meira

Ferðamenn í júlí tæplega 100 þúsund

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 97.757 erlendir ferðamenn frá landinu í júlí síðastliðnum eða um 14 þúsund fleiri en í sama mánuði á síðasta ári. Aukningin nemur 17,1% milli ára. Ferðamenn hafa aldrei verið fleiri í júlímánuði eða frá því Ferðamálastofa hóf talningar í Leifsstöð árið 2002. Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega aukningu frá N-Ameríku eða um 59%. Bretum fjölgar um 13,5%, Norðurlandabúum um 11,5% og Mið- og S-Evrópubúum um 6,2%. Aukningin frá löndum sem eru flokkuð undir annað er ennfremur umtalsverð eða 18,4% milli ára. Bandaríkjamenn og Þjóðverjar langfjölmennastir Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í júlí frá Bandaríkjunum (13,9%) og Þýskalandi (12,8%). Ferðamenn frá Danmörku (8,2%), Frakklandi (8,1%), Bretlandi (7,2%), Noregi (5,7%) og Svíþjóð (5,0%) fylgdu þar á eftir en samanlagt voru framangreindar sjö þjóðir 61% ferðamanna í júlímánuði. Ferðamenn frá áramótum Það sem af er ári hafa 304.643 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 50 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,6% milli ára. Aukning hefur verið milli ára frá öllum mörkuðum en N-Ameríkanar hafa þó borið uppi aukningu ársins en þeim hefur fjölgað um 51,2% frá því í fyrra. Norðurlandabúum hefur fjölgað um 17,7%, Mið- og S-Evrópubúum um 15,2%, Bretum um 8,8% og  ferðamönnum frá öðrum löndum um 14%. Ferðir Íslendinga utan Brottförum Íslendinga í júlí hefur fjölgað um 14,7% frá því í fyrra, voru 32.629 í ár en 28.453 í fyrra. Frá áramótum hafa 195 þúsund Íslendingar farið utan, 21,3% fleiri en árinu áður þegar brottfarir mældust tæplega 161 þúsund. Hér má sjá nánari skiptingu úr talningum Ferðamálastofu eftir þjóðerni og markaðssvæðum.  
Lesa meira

Birgir Þorgilsson fyrrverandi ferðamálastjóri fallinn frá

Birgir Þorgilsson fyrrvernadi ferðamálastjóri er fallin frá 84 ára gamall. Starfsvettvangur Birgis voru ferðamálin, fyrst á vettvangi flugsins frá árinu 1948 og síðan fyrir hið opinbera. Birgir sat í Ferðamálaráði frá fyrsta fundi þess 7. júlí 1964 til 1981, þegar hann gerðist markaðsstjóri Ferðamálaráðs. Árið 1985 var hann skipaður ferðamálastjóri og gegndi því starfi til 1993. Frá 1993-1997 var Birgir formaður Ferðamálaráðs. Þá gegndi Birgir fjölda trúnaðarstarfa fyrir ferðaþjónustuna bæði hér heima og erlendis. Eftirlifandi eiginkona Birgis er Ragnheiður Gröndal. Ferðamálastofa vottar henni og öðrum aðstandendum samúð. Inn á vef Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) er að finna greiðagóða samantekt á störfum Birgis sem og viðtal við hann undir lið er kallast Saga ferðaþjónustunnar. Mynd: Birgir Þorgilsson í miðið með Össuri Skarphéðinssyni þáverandi ráðherra ferðamála og Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra á Vestnorrænu ferðakaupstefnunni árið 2008.  
Lesa meira

Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um ferðamálaáætlun 2011?2020

Alþingi samþykkti í liðnum mánuði tillögu til þingsályktunar um ferðamálaáætlun 2011–2020. Ný stefna í ferðamálum leysir af hólmi þingsályktun um ferðamál fyrir tímabilið 2006–2015 sem samþykkt var á vordögum 2005. Síðan sú ályktun var samþykkt hafa orðið miklar breytingar í ferðaþjónustunni. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra setti á laggirnar stýrihóp um nýja ferðamálastefnu í apríl 2010. Í honum áttu sæti Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, sem var formaður; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálarás. Starfsmaður stýrihópsins var Sigríður Ó. Kristjánsdóttir. Hópurinn skilaði svo af sér skýrslu til ráðherra sem þingsályktunin byggir á. Fjögur meginmarkmiðSamkvæmt þingsályktuninni er iðnaðarráðherra falið að stefna að eftirfarandi meginmarkmiðum í ferðamálum á tímabilinu 2011–2020 a. að auka arðsemi atvinnugreinarinnar b. að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið um land allt, minnka árstíðasveiflu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið c. að auka gæði, fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar d. að skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna, m.a. með öflugu greiningar- og rannsóknarstarfi Þessi fjögur meginmarkmið ferðaþjónustunnar hvíli á eftirfarandi: 1.    Innviðir og grunngerð a. Íslensk náttúra er auðlind ferðaþjónustunnar. Mikilvægt er að byggja upp, vernda og viðhalda ferðamannastöðum um allt land. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar sameinist um leiðir til að fjármagna slíkar umbætur. b. Uppbygging innviða ferðaþjónustunnar miði að því að vernda náttúru Íslands og ferðamálaáætlun stefni að því að innleiða hugarfar sjálfbærni og ábyrgðar á náttúru og menningu landsins. c. Lagaumhverfi ferðamála taki mið af þeirri áætlun sem hér liggur fyrir. d. Leyfis- og öryggismál í ferðaþjónustu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar í samræmi við þær áherslur sem birtast í þessari áætlun. e. Samgöngur eru mikilvægasta forsenda allrar ferðaþjónustu á Íslandi og mikilvægt að við áætlanagerð og framkvæmdir í tengslum við samgöngumál verði tekið tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar. f. Unnin verði viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara fyrir ferðaþjónustuna sem byggist á reynslu af þeim tveimur eldgosum sem valdið hafa töluverðum truflunum á flugi og öðrum samgöngum. 2.    Kannanir, rannsóknir, spár a. Mikilvægt er að stutt sé við þróun ferðaþjónustunnar og uppbyggingu með verulega aukinni áherslu á greiningar, rannsóknir og spár. b. Sjálfstæði rannsókna verði tryggt en Ferðamálastofa hafi yfirsýn yfir og beri ábyrgð á mótun stefnu varðandi framkvæmd og úrvinnslu kannana og að gerðar séu framtíðarspár um þróun greinarinnar í samvinnu við Hagstofu Íslands, háskóla og Rannsóknamiðstöð ferðamála. c. Hagstofa Íslands beri ábyrgð á opinberri hagskýrslugerð í ferðaþjónustu samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði hagskýrslugerðar í ferðaþjónustu. d. Í þjóðhagsreikningi liggi alltaf fyrir töluleg gögn um þróun ferðaþjónustunnar frá ári til árs. e. Farnar verði bestu fáanlegar leiðir til að tryggja að gerðar verði samræmdar ítarlegar úttektir á auðlindum og innviðum ferðaþjónustunnar um allt land. 3.    Vöruþróun og nýsköpun a. Vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu verði byggð á klasahugmyndafræði og grundvallist á sérstöðu og stefnumótun svæða. b. Leitað verði nýrra leiða við vöruþróun með klasasamstarfi og tækni- og þekkingaryfirfærslu. c. Stoðkerfi ferðaþjónustunnar verði einfaldað og tryggt að öflugar einingar séu til staðar úti um allt land sem hafa gott faglegt bakland og næga burði til að styðja við þróun áfangastaða, vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. d. Opinbert fjármagn til vöruþróunar á sviði ferðaþjónustu fari einkum til samstarfsverkefna sem hafi meðal markmiða að lengja ferðamannatímabilið. 4.    Markaðsmál a. Opinbert kynningarstarf tengt ferðaþjónustu taki mið af markmiðum ferðamálaáætlunar. b. Leitað verði nýrra leiða í opinberu kynningarstarfi og einnig til að auka faglegt samstarf opinberra aðila á sviði vöruþróunar og kynningarmála. c. Við mótun samstarfs ferðamálayfirvalda við Íslandsstofu er mikilvægt að sett séu mælanleg markmið og mælikvarðar á árangur. d. Mælikvarðar á árangur í kynningarstarfi eru meðal annars ferðaútgjöld samkvæmt ferðaþjónustureikningum, gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum, dreifing gistinátta yfir árstíðir og landsvæði og fjöldi ferðamanna auk kannana um væntingar og upplifun ferðamanna.  Nánari upplýsingar: Á vef Alþings má nálgast allar umræður um málið og þær umsagnir sem bárust, ásamt sjálfri greinagerðinni sem ályktunin byggir á. Tillaga til þingsályktunar um ferðamálaáætlun 2011–2020. (PDF) Ferill málsins á Alþingi Ferðamálaáætlun 2011-2010 (PDF)    
Lesa meira

Fyrirsögn

irf rfh frh rufh frh r
Lesa meira

Umsóknum skilað með rafrænum hætti

Umsóknareyðublöð fyrir leyfi sem Ferðamálastofa gefur út er nú hægt að nálgast á sameiginlegri þjónustugátt á island.is. Leyfunum ásamt fylgigögnum er hægt að skila inn rafrænt með netskilum, annað hvort með veflykli ríkisskattstjóra eða rafrænum skilríkjum. Umrædd þjónustugátt fyrir leyfisumsóknir er sett upp í kjölfar laga sem Alþingi samþykkti 10. júní síðastliðinn um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Með lögunum er verið að innleiða efnisreglur tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins um þjónustu á innri markaðinum. Samkvæmt 4. grein lagana eiga þeir sem veita þjónustu m.a. að geta sótt um leyfi til að stunda starfsemi sína með rafrænum hætti og fengið rafræn svör frá þeim er veita leyfin. Á umræddri þjónustugátt er að finna upplýsingar um öll þau leyfi sem falla undir gildissvið laganna ásamt umsóknareyðublöðum sem hægt er að senda inn rafrænt. Þau leyfi sem um ræðir hjá Ferðamálastofu eru leyfi til reksturs ferðaskipuleggjenda, leyfi til reksturs ferðaskrifstofu og skráning á starfsemi bókunarþjónustu og/eða upplýsingamiðstöð. Eftir sem áður geta þeir sem sækja um leyfi til Ferðamálastofu einnig sent inn umsóknir sínar og viðkomandi fylgiskjöl í pósti eða tölvupósti. Sjálfur umsóknarferillinn er sá sami og verið hefur og umsóknin er fyllt út með sama hætti. Nýungin nú felst í því að hægt er að senda umsóknirnar og fylgiskjöl inn í gegnum vefinn með því, sem fyrr segir, að nota annað hvort veflykil ríkisskattstjóra eða rafræn skilríki. Slóðin á nýju þjónustuveituna er http://psc.island.is og þar er einnig að finna nánari upplýsingar. Allar upplýsingar um leyfismál Ferðamálastofu er svo hér á vefnum undir „Leyfismál“.
Lesa meira

Mikið hrun í íshelli í Kverkfjöllum ? Ferðafólk sýni ítrustu varfærni

Aðstæður við íshellinn í Kverkfjöllun, innan við Sigurðarskála, eru afar varasamar og er vert að hvetja ferðafólk til að sýna ítrustu varfærni á ferð um svæðið. Mikið hrun hefur verið í og við íshellinn í sumar og er skemmst að minnast hörmulegs banaslyss sem þar varð ekki alls fyrir löngu. Að sögn landvarða eru aðstæður með þeim hætti að nú hrynur meira og minna úr ísstálinu við og fyrir ofan hellinn á hverjum einasta degi og má búast við stærri fyllum á hverri stundu. Ferðaþjónustuaðilar og leiðsögumenn eru hvattir til að brýna þessar hættur fyrir fólki á sínum vegum, leita sér nýjustu upplýsinga hjá landvörðum og taka fullt mark á þeim varúðarskiltum og leiðbeiningum sem eru á svæðinu. Myndin af Sigurðarskála er fengin af vef Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
Lesa meira

Reykjavík Real Food Festival

Full Borg Matar - Reykjavík Real Food Festival er matar- og uppskeruhátíð tileinkuð íslenskum mat og matargerð sem haldin verður í Reykjavík dagana 14.-18. september í haust. Markmið hátíðarinnar er að kynna íslenskan mat og matarhefðir á léttan og skemmtilegan hátt fyrir íslendingum og erlendum ferðamönnum. Dagskrá hátíðarinnar verður sneisafull af skemmtilegum viðburðum fyrir alla fjölskylduna þar sem hægt verður að prufa, smakka og kaupa ýmsar matvörur og veitingar úr fersku íslensku hráefni, beint frá framleiðendum. Almenningur og erlendir ferðamenn geta tekið virkan þátt í hátíðinni með því að mæta á viðburði, fara á veitingastaði, taka þátt í uppskriftasamkeppnum, sækja námskeið og ýmsa fræðslu um holler matarvenjur, matargerð, heimaræktun, endurvinnslu og samfélagslega ábyrgar neysluvenjur svo eitthvað sé nefnt, eins og segir í tilkynningu. Nánar um hátíðina (PDF) Mynd: Rgnar Th. Sigurðsson /arctic-images.com
Lesa meira