Fréttir

Communications Business Solutions

Communications Business Solutions (PDF)
Lesa meira

Aukin umsvif í ferðaþjónustu um jól og áramót

Þeim stöðum og ferðaþjónustuaðilum sem bjóða afþreyingu og aðra þjónustu yfir jól og áramót fer sífellt fjölgandi. Sama á líka við um erlenda ferðamenn sem dvelja á Íslandi á þessum árstíma en þeir þurfa að sjálfsögðu sína þjónustu. Margt í boði í borginniUpplýsingamiðstöðin í Aðalstræti hefur líkt og undanfarin ár safnað saman upplýsingum um opnunartíma þjónustuaðila í ferðaþjónustu um jól og áramót. Vart þarf að taka fram að þeir sem þjóna ferðamönnum þjóna einnig almenningi og því nýtast upplýsingar öllum þó þær séu settar fram á ensku. Listinn er aðgengilegur á www.visitreykjavik.is. Vert er að benda öllum sem eru í beinum samskiptum við ferðamenn á að hafa listann aðgengilegan svo hægt sé að veita sem gleggstar upplýsingar um þá aðila, s.s. veitingahús, veitingastaði hótela, ferðaskipuleggjendur, sundlaugar, söfn, verslanir og aðra sem bjóða upp á ýmiskonar afþreyingu, sem eru með opið yfir hátíðarnar. Meira opið fyrir norðanÁ Norðurlandi hefur sama þróun átt sér stað og að sögn Ásbörns Björgvinssonar hjá Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi verður mun meira opið en áður á svæðinu, þá sérstaklega á Akureyri og við Mývatn. „Stærri hótel eru opin og Vegagerðin ætlar að tryggja gott aðgengi á flesta af okkar helstu ferðamannaperlum. Það er ýmis afþreying í boði og ég hvet fólk til að skoða upplýsingar á visitakureyri.is í þeim efnum. Auðvitað er enn ýmislegt sem en þarf að skoða og finna betri farveg, svo sem opnunartíma í Hlíðarfjalli og sundlaugum á svæðinu. En allt er þetta í rétta átt og ferðafólk á Norðurlandi getur haft nóg fyrir stafni,“ segir Ásbjörn. Eins og Ásbjörn kom inn á hefur verið tekinn saman listi yfir opnunartíma og þjónustu á Akureyri og nágrenni yfir jól og áramót og er hann aðgengilegur á www.visitakureyri.is    
Lesa meira

SAF mótmælir undanþágum frá gistináttaskatti

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér fréttatilkynningu og mótmælt er breytingum á lögum um gistináttaskatt þar sem hluti gistingar verður undanskilinn við innheimtu á gistináttaskatti, eins og segir í tilkynningu SAF. Sem kunnugt er munu lögin um gistináttaskatt taka gildi um komandi áramót. Gistináttaskattinum skal ráðstafa til uppbyggingar, viðhalds og verndunar fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða en 3/5 hlutar hans eiga að renna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og 2/5 hlutar til þjóðgarða og friðlýstra svæða. Sjá nánar hér:SAF mótmælir undanþágum frá gistináttaskatti
Lesa meira

Úttekt á aðgengi 20 vinsælla ferðamannastaða

Ferðamálastofa veitti á árinu styrk fyrir úttekt á aðgengismálum fyrir 20 vinsæla ferðamannastaði. Verkefnið var unnið af fyrirtækinu Aðgengi og er skýrsla um það komin út. Verkefnið nær yfir úttektir, skráningu, vottanir og birtingu á aðgengisupplýsingum. Fyrirtækið Aðgengi ehf. notar Access Iceland Aðgengismerkjakerfi til að meta aðstæður hverju sinni. Vottun er veitt fyrir mannvirki, bæði innan- og utandyra, náttúruperlur, þjónustu o.þ.h.  Aðgengismerkjakerfið greinir aðgengi eftir 7 flokkum og hver flokkur hefur sitt merki. Til að starfssemi geti öðlast merki þarf staðurinn að uppfylla lágmarkskröfurnar sem aðildarfélög fatlaðra á Íslandi hafa samþykkt. Ekki er verið að meta aðgengi eftir gildandi byggingarreglugerð heldur er aðeins metið  hvort hægt sé að komast um og nýta aðstöðuna. Viðkomandi staður getur því fengið allt frá einu upp í sjö merki í samræmi við uppfylltar lágmarkskröfur. Margt sem þarf að bætaHelstu niðurstöður úttektanna gefa til kynna að í nær öllum tilfellum vantar eitthvað upp á til að lágmarkskröfum fyrir fyrstu þrjá flokkana sé náð. Ástæður þess að lágmarkskröfum er ekki náð geta verið margar,  en oftast eru það vöntun á merkingum og afmörkun bílastæða fyrir fatlað fólk, vöntun á handlistum við halla yfir 6,25% og tröppur. Of mjúkt yfirborði stíga sem og grjót og klappir geta einnig verið orsakavaldar. Jafnframt er vöntun á leiðarlínum, afmörkun stíga og innganga sem og tröppunefja og þrepa fyrir blinda og sjónskerta. Skilti eru einnig oft misaðgengileg hjólastólanotendum og það vantar punktaletur þó ekki væri nema á fyrirsögnum og helstu upplýsingum. Í mörgum tilfellum er hins vegar hægt að bæta úr þessum þáttum, á einfaldan og kostnaðarlítinn hátt. Horfir til betri vegar„Þrátt fyrir að úrdrættir úr skýrslunum og merkjaúthlutunin gefi svolítið sorglega mynd af ástandi staðanna þá er það ekki alveg svo slæmt, því margt er gott og mikið hefur áunnist á síðustu árum. Mikil vitundarvakning á sér stað um þessar mundir í þjóðfélaginu og ég er nokkuð viss um að framtíðin er björt hvað varðar aðgengi allra að náttúruperlum og ferðamannastöðum. Kannski eru ekki allir á eitt sáttir hvað varðar ný lög og reglugerðir (algild hönnun) því þar er tekið ítarlegra á aðgengi fyrir alla en áður hefur verið gert og vonandi verður það sama í væntanlegri skipulagsreglugerð. Ferðamannastaðir sem geta boðið öllum erlendum sem innlendum ferðamönnum velkomna óháð líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra er dýrgripur og fjöður í hattinn fyrir land og þjóð. Rétt í lokin vil ég taka fram að oft væri mikið til unnið að kalla eftir ráðgjöf og/eða  teikningarýni á skipulagstillögur og hönnun áfangastaða áður en hafist er handa við framkvæmdir,“ segir Harpa Ingólfsdóttir hjá Aðgengi. Aðgengilegt á vefnumAðgengismerkjakerfinu fylgir leitarvél á vefnum og hana má finna á slóðinni www.AccessIceland.is, þar er hægt að sjá ítarlegar aðgengisupplýsingar um hvern skráðan stað. Hægt er að leita að stöðum á dönsku síðunni á íslensku og Danir geta sömuleiðis leitað að íslenskum stöðum á þeirri dönsku. Einnig er boðið upp á ensku, þýsku og sænsku. Eftirtaldir staðir voru teknir út: Ásbyrgi Dettifoss að austanverðu Dettifoss að vestanverðu Dimmuborgir Djúpalónssandur Garðskagaviti Geysir í Haukadal Goðafoss Gullfoss Hallormsstaðaskógur Haukadalsskógur Hraunfossar Hverasvæðið í Hveragerði Hvítserkur Jökulsárlón Kjarnaskógur Landmannalaugar Lystigarður á Akureyri Námafjall - Hverarönd Þingvellir Skýrslan í heild: Úttekt og skráning á 20 vinsælum ferðamannastöðum (PDF) Upplýsingar um staðina á vef Access Iceland
Lesa meira

VAKINN ? umhverfisviðmiðum hleypt af stokkunum

Í gær var formlega hleypt af stokkunum fyrsta hluta hins nýja gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar sem verið hefur í undirbúningi síðustu misseri. Kerfið nefnist VAKINN og eru það umhverfisviðmið kerfisins sem kynnt voru í gær. Formlega kynntur í febrúarVAKINN mun formlega verða kynntur og fara í notkun í febrúar næstkomandi. Ástæða þess að umhverfisviðmiðin eru kynnt á undan öðrum hlutum kerfisins er sú að þættir í umhverfishluta þess gera ráð fyrir að fyrirtæki hafi stundað reglubundnar mælingar á tilteknum þáttum í 6-12 mánuði áður en úttekt á sér stað. Frá og með deginum í dag geta fyrirtæki þannig farið að vinna samkvæmt umhverfisþáttum VAKANS, þótt formlega verði ekki hægt að sækja um inngöngu fyrr en í febrúar. Hvað er VAKINN?Gæða- og umhverfiskerfið VAKINN er afsprengi þróunarverkefnis sem iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands og þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark. Umhverfisviðmið VAKANS eru staðfærð og unnin af Stefáni Gíslasyni, umhverfisstjórnunarfræðingi hjá UMÍS. Verkfæri ferðaþjónustuaðilaMeginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Þannig er kerfið fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi. Þetta er gert með hjálpargögnum og leiðsögn. VAKINN tekur bæði til gistingar og annarrar ferðaþjónustu, svo sem afþreyingar, samgangna og veitingaþjónustu. Siðareglur VAKANSÍ dag voru einnig kynntar siðareglur VAKANS en öll fyrirtæki sem þátt taka í verkefninu skulu samþykkja og fylgja þeim. Siðareglurnar eru í 15 liðum og skulu þær hanga uppi á áberandi stað hjá viðkomandi fyrirtæki. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, kynnti kerfið á fundi á Hótel  Reykjavík Natura og afhenti við það tækifæri nokkrum lykilaðilum sem standa að kerfinu, nýju siðareglurnar. Á meðfylgjandi mynd eru þær Unnur Halldórsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Íslands; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri. Nánar um umherfiskerfi VAKANS Nánar um VAKANN  
Lesa meira

Ferðaþjónustureikningar 2009-2011

Hagstofa Íslands gefur nú út Hagtíðindi um ferðaþjónustureikninga fyrir árið 2009–2011 en þeir hafa það hlutverk að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn. Í ritinu er birt heildstætt yfirlit yfir ferðaþjónustu árið 2009 en jafnframt áætlun um þróun ferðaþjónustunnar innanlands á árunum 2010 og 2011. Helstu niðurstöður eru þessar: Landsframleiðsla frá framleiðsluhlið dróst saman um 7,9% árið 2009 en ferðaþjónusta nokkru minna, um 6,8%, sem skýrir 1,3% hærra hlutfall greinarinnar í vergri landsframleiðsla árið 2009. Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu árið 2009 námu ríflega 230 milljörðum króna eða sem svarar rúmlega 15% af vergri landsframleiðslu og er þá búið að áætla umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2009 var rúmlega 184 milljarðar króna eða sem svarar rúmlega 12,3% af vergri landsframleiðslu. Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru rúmir 111 milljarðar, ferðaneysla heimila var um 64 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila námu um átta milljörðum króna. Um 61% af umsvifum innlendrar ferðaþjónustu á árinu 2009 má rekja til erlendra ferðamanna sem er tæplega 6% hærra hlutfall en á árinu 2008. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 53% þannig að vægi þeirra í innanlandsferðaþjónustu hefur aukist nokkuð. Árið 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 158 milljarðar króna. Þar eru meðtalin umsvif íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands nam rúmum 111 milljörðum króna en rúmir 46 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands. Árið 2009 er áætlað að tæplega 8.500 manns hafi starfað við ferðaþjónustu, um 5,2% af störfum alls. Vöru- og þjónustuskattar af ferðaþjónustu námu rúmum 13 milljörðum króna árið 2009. Gera má ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hafi verið liðlega 117 milljarðar króna á árinu 2010 eða rúmlega 5% hærri en á árinu 2009. Á tímabilinu janúar til júní 2011 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem fara frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar um tæplega 21%. Á sama tíma má gera ráð fyrir að útgjöld erlendra ferðamanna hér innanlands hafi aukist um tæp 16%. Ferðaþjónustureikningar 2009-2011 - Hagtíðindi  
Lesa meira

Hótel Eldhestar hljóta umhverfisverðlaun Ferðamálstofu 2011

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru veitt í 17. sinn í dag og komu þau að þessu sinni í hlut Hótel Eldhesta í Ölfusi fyrir markvissa umhverfisstefnu og sjálfbæran rekstur. Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá árinu 1995 til ferðaþjónustufyrirtækja eða einstaklinga í ferðaþjónustu sem þótt hafa skara framúr á sviði umhverfismála. Verðlaunin eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem stunda ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri starfsemi sinni. Um EldhestaHestaleigan Eldhestar var stofnuð árið 1986 og er í dag með öflugri fyrirtækjum landsins á sínu sviði. Í júní árið 2002 tóku Eldhestar í notkun lítið sveitahótel, Hótel Eldhesta. Það er búið 26 tveggja manna herbergjum og matsal sem tekur um 70-80 manns. Lengi í fremstu röðFram kemur m.a. í rökum dómnefndar að Eldhestar hafa lengi verið í fremstu röð í umhverfismálum í íslenskri ferðaþjónustu. Hótel fyrirtækisins var fyrsti íslenski gististaðurinn sem fékk alþjóðlega umhverfisvottun en það var vottað með Norræna umhverfismerkinu Svaninum frá júlí 2002-2006 og svo aftur árið 2011.  Með Svansvottuninni hefur hótelið uppfyllt öll nauðsynleg skilyrði til að verðskulda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu; markmiðin í umhverfismálum eru skýr og mælanleg umhverfisstefnan er sýnileg og verslað er við fyrirtæki í heimabyggð þar sem því verður komið við.  Þema fyrirtækisins, hestamennskan, er kynnt gestum hótelsins með ýmsum hætti og fyrirtækið tekur virkan þátt í samfélagsmálum. Þá sýni starf Eldhesta að umhverfisvottun sé ekki bara á  færi stórra fyrirtækja, eins og stundum sé haldið fram. Þannig sé starf fyrirtækisins öðrum til eftirbreytni og mikilvæg fyrirmynd. Umhverfisstefna í 10 liðumÁ vef fyrirtækisins kemur fram að Eldhestar fylgja meginreglum vistvænnar ferðamennsku. Litið er svo á að náttúra Íslands og óbyggðir séu ómetanleg verðmæti sem hlúa þurfi að. Umhverfisáhrif eru tekin með í reikninginn í öllum ákvörðunum:  Varðandi hótelið, nýjar reiðleiðir, hestaferðir og búnað. Umhverfisstefna Eldhesta samanstendur af tíu meginreglum sem eru leiðarsljós í starfi fyrirtækisins.Að öllu þessu samanlögðu var mat dómnefndar að Eldhestar væru vel að viðurkenningunni komnir. Um umhverfisverðlaun FerðamálastofuVerðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst. Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjórisveinn@ferdamalastofa.is  - Sími: 535-5500  - GSM: 690-1580 Frá afhendingu verðlaunanna, talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Jennifer Hemp, Fríða Stefánsdóttir og Hróðmar Bjarnason, öll frá Eldhestum og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í iðnaðarráðuneytinu.
Lesa meira

Drög að frumvarpi um ferðamál

Vert er að benda á að Iðnaðarráðuneytið hefur óskað eftir skriflegum athugasemdum við drög að frumvarpi um breytingu á lögum um skipan ferðamála. Helstu atriðin í drögunum: Verkefnum Ferðamálastofu breytt í samræmi við breytingar á starfsemi stofnunarinnar með stofnun Íslandsstofu og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Ferðamálaráð lagt niður í núverandi mynd og í stað þess komið á fót Samráðsvettvangi um ferðamál. Skilgreiningar á leyfisskyldri starfsemi nákvæmari en áður og skerpt á því hvernig trygging er ákvörðuð. Ferðaskrifstofuleyfi veitt til fimm ára en þau eru nú ótímabundin. Kveðið á um skyldu allra þeirra aðila sem bjóða upp á ferðir hér á landi til að afhenda Ferðamálastofu öryggisáætlun með mati á áhættu viðkomandi ferðar og lýsingu á því hvernig viðkomandi hyggist bregðast við beri vá að höndum í ferðinni. Ferðafélög sæki um ferðaskrifstofuleyfi en t.d. Ferðafélag Íslands og Útivist hafa verið undanþegin slíkum leyfum. Athugasemdirnar óskast sendar á postur@idn.stjr.is fyrir 31. des. n.k. Drögin í heild:Drög að frumvarði um ferðamál (PDF) Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com
Lesa meira

Viðurkenningar til ferðaþjónustubænda

Á Uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda fyrir skemmstu veitti skrifstofa Ferðaþjónustu bænda sex bæjum innan samtakanna viðurkenningar og er það í fyrsta sinn sem skrifstofan veitir verðlaun sem þessi. Viðurkenningar voru veittar í tveimur flokkum.  Framúrskarandi ferðaþjónustubær Í flokknum framúrskarandi ferðaþjónustubær 2011 fengu eftirfarandi viðurkenningu: Dísa og Óli í Skjaldarvík í Eyjafirði, Hulda og Gunnlaugur frá Gistihúsinu Egilsstöðum og Margrét og Jóhann Helgi í Vatnsholti við Villingaholtsvatn. Þessi viðurkenning er veitt fyrir einstaka frammistöðu á árinu og byggist matið á umsögnum gesta auk þess sem leitað var umsagna erlendra ferðaskrifstofa. Þá var einnnig horft til þeirra gæða sem staðurinn stendur fyrir að mati starfsfólks skrifstofunnar. HvatningarverðlaunÍ flokknum hvatningaverðlaun Ferðaþjónustu bænda fengu eftirfarandi viðurkenningu: Helena og Knútur í Friðheimum við Reykholt, Stella og Gísli í Heydal í Mjóafirði og Bergþóra í Fögruhlíð í Fljótshlíð. Hvatningaverðlaunin eru veitt félagsmönnum fyrir einstaka og vel útfærða hugmynd og frumkvæði að uppbyggingu í ferðaþjónustu sem miðar að skemmtilegri og innihaldsríkri upplifun fyrir gestina. Í frétt frá Ferðaþjónustu bænda kemur fram að margir mjög frambærilegir staðir starfi innan samtakanna og er það von starfsfólks skrifstofunnar að þessar viðurkenningar sem ætlunin er að veita árlega verði öðrum hvatning til þess að vanda til verka og skara fram úr á sínu sviði – hver á sinn einstaka hátt. Mynd:Fagrahlíð í Fljótshlíð var meðal bæja sem fékk hvatningarverðlaun að þessu sinni.
Lesa meira

Verkefnið "Heilsa og trú" hlýtur hvatningarverðlaun í heilsuferðaþjónustu

Katrín Júlíusdóttir, ferðamálaráðherra afhenti í dag forsvarsmönnum „Heilsu og trúar“ hvatningarverðlaunin en verkefnið felst í að bjóða heilsuferðir fyrir trúaða Bandaríkjamenn þar sem hver hluti verkefnisins er nátengdur heilbrigði og trú með sterkri tilvísun í íslenska náttúru og menningu. Til hvatningarverðlauna í heilsuferðaþjónustu var stofnað að frumkvæði iðnaðarráðherra til að fylgja eftir stofnun samtaka um heilsu- og lífsstílstengda ferðaþjónustu. Margar þjóðir hafa náð miklum árangri á þessu sviðið og fólk fer langan veg til að sækja sér slíka þjónustu og upplifanir. Áhuginn á heilbrigðum lífsstíl fer vaxandi og sífellt fleiri sameina áhuga sinn á heilsueflingu og ferðalögum. Erlendar rannsóknir benda þess til að ferðamönnum sem sameina þetta tvennt fjölgi um 18% á heimsvísu árlega og stór hluti þeirra er frá helstu markaðssvæðum Íslands. Hér er því um að ræða mikilvægt sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu, ekki síst utan háannar. Verkefnið „Heilsa og trú“ felst í að bjóða heilsuferðir fyrir trúaða Bandaríkjamenn þar sem hver hluti verkefnisins er nátengdur heilbrigði og trú með sterkri tilvísun í íslenska náttúru og menningu. Um er að ræða 14 daga hreinsandi meðferð, kennslu á andlega sviðinu og leiðtogaþjálfun samhliða föstu. Að verkefninu standa Heilsuhótel Íslands, dr. Haukur Ingi Jónasson, Icelandair, ÞróunarfélagKeflavíkurflugvallar, Nordic eMarketing og Team Works/David Jack. Í umsögn dómnefndar segir: „Verkefnið er mjög vel útfært, hlutverk samstarfsaðila eru vel skilgreind, markhópur er skýrt afmarkaður og tilgreint með hvaða hætti fyrirhugað er að ná til markhópsins. Hér er um að ræða nýjan markhóp til Íslands, umsóknin var vönduð og vörurnar vel afmarkaðar sem og heilsuávinningur ferðarinnar“. í þessum leiðangri okkar sem viljum sjá heilsu- og lífsstílsferðamennsku sem hornstein ferðaþjónustunnar hér á landi.  
Lesa meira