Fréttir

Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu og kynning á umhverfisviðmiðum Vakans

Þann 15. desember næstkomandi  kl 15 mun Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra afhenda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu á Hótel Natura (Loftleiðir). Við sama tækifæri verður umhverfisviðmiðum nýja gæða- og umhverfisverkefnisins Vakans einnig hleypt af stokkunum. Af þessu tilefni býður Ferðamálastofa samstarfsfélögum í ferðaþjónustunni til jólasamverustundar. Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Auglýst var eftir tilnefningum í september sl. og bárust margar góðar ábendingar. Í fyrra fengu farfuglaheimilin í Reykjavík verðlaunin. Gæða- og umhverfiskerfið VakinnFerðamálastofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands hafa um nokkurt skeið unnið að samræmdu gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Kerfið nefnist Vakinn og verður innleitt á komandi ári. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Fyrsti hluti verkefnisins verður formlega opnaður á fundinum en það eru umhverfisviðmið verkefnisins.  Dagskrá: Ávarp – Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri Kynning á umhverfisviðmiðum Vakans  - Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu – Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra *********Boðið verður upp á léttar veitingar með jólaívafi í lokin. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið skraning@ferdamalastofa.is   fyrir lok dags þann 14. desember næstkomandi. Vonumst til að sjá ykkur sem flest! Með kveðju,Starfsfólk Ferðamálastofu
Lesa meira

Tæplega 100 umsóknir í fyrstu úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Síðastliðinn föstudag rann út umsóknarfrestur vegna fyrstu úthlutunar úr hinum nýja Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Alls bárust 95 umsóknir og heildarupphæð sem farið var fram á í styrkveitingar um 331 milljón króna. Hlutverk sjóðsins:Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Tekjur sjóðsinsEins og fram kemur í lögum um sjóðinn eru tekjur hans 3/5 hlutar af gistináttaskatti, sem byrjað verður að innheima nú um áramótin. Gistináttaskatturinn er 100 kr. á hverja selda gistináttaeiningu, eins og hún er skilgreind í lögunum, en gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Nánari upplýsingar um gistináttaskattinn er að finna á vefslóðinni: www.rsk.is/gistinattaskattur .Ljóst er að til úthlutunar nú í byrjun eru verulega lægri fjárhæðir en fram hafði komið áður að sjóðurinn myndi hafa úr að spila. Fyrir þessa fyrstu úthlutun hefur sjóðurinn þannig um 48 milljónir kr. til ráðstöfunar. Úthlutað í febrúarNú tekur við mikil vinna við yfirferð og mat umsókna en áætlun gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra úthluti formlega úr sjóðnum um miðjan febrúar næstkomandi. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com  
Lesa meira

Dutch Tourism Expo 2012 - lokaútkall

Íslandsstofa tekur þátt í ferðasýningunni Dutch Tourism Expo (áður fagdagur Vakantiebeurs) sem fram fer í Utrecht í Hollandi dagana 10. og 11. janúar 2012. Sýningin er haldin á hverju ári og er stærsta ferðasýningin á hollenska markaðnum; á síðasta ári sóttu hana rúmlega 15 þúsund fagaðilar. Íslandsstofa tekur þátt með eigin sýningarstand, sem einnig verður virkur dagana á eftir þegar almenningur fyllir sýningarhallirnar á Vakantiebeurs sýningunni.  Dutch Tourism Expo býður fyrirtækjum í ferðaþjónustu upp á kjörið tækifæri til að kynna sig og koma á viðskiptasamböndum í Hollandi.  Vert er að minna á að beint flug er til Hollands allt árið um kring og hefur vetrarferðarmarkaðurinn þar vaxið jafnt og þétt. Hér má nálgast skráningareyðublað og upplýsingar um verð. Síðasti skráningardagur er 6. desember. Nánari upplýsingar veitir Davíð Jóhannsson hjá Íslandsstofu í Berlín, david@islandsstofa.is eða í síma 0049 30 5050 4140. Nánari upplýsingar um Dutch Tourism Expo
Lesa meira

Landið sem rís ? þáttur um rannsóknir í ferðamálum

Vert er að benda á upptöku frá þættinum Landið sem rís, sem var á dagskrá Rásar 1 sunnudagsmorguninn 27. nóvember. Þar var rætt um stöðu þekkingar í ferðamálum á Íslandi og hvar þyrfti að herða róðurinn í þekkingaruppbyggingu. Þátturinn er í umsjón þeirra Ævars Kjartanssonar og Jóns Orms Halldórssonarsem en viðmælandi þeirra var Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Þátturinn var um klukkustundar langur og er hægt að hlusta á hér í heild sinni: http://www.ruv.is/sarpurinn/nr/4610564/
Lesa meira

Ísland aftur í úrslitum alþjóðlegra verðlauna golfblaðamanna

Annað árið í röð komst Ísland í úrslit verðlauna á stærstu golfferðasýningu heims, Golf Travel Market, sem er nýafstaðin. Um er að ræða verðlaun þeirra áfangastaða sem kalla má „leyndustu perlurnar í golfheiminum.“ Valið af golfblaðamönnumSýningin sem um ræðir, IGTM, var haldin í Tyrklandi að þessu sinni. Þar veittu alþjóðlegu samtökin IAGTO (The Global Golf Tourism Organisation) verðlaun í nokkrum flokkum til golfáfangastaða um allan heim. Um 160 meðlimir samtaka golfblaðamanna (Golf Travel Writers Association) frá 33 löndum taka þátt í að velja vinningshafa. Sex staðir í úrslitumÍ flokknum "Undiscovered Golf Destination of the Year" voru sex áfangastaðir í lokaúrslitum: Búlgaría, Kólumbía, Ísland, Mississippi, Indland og Galicia á Spáni. Það var síðan Búlgaría sem varð fyrir valinu að þessu sinni. Áhersla lögð á fjölmiðlatengsl“Þetta sýnir okkur að Ísland er alla vega ofarlega í huga golfblaðamanna þegar kemur að þessu vali. Þess má geta að mikil áhersla hefur einmitt verið lögð á fjölmiðlatengsl og undafarin þrjú ár hafa komið hingað um 60 golfblaðamenn og birt greinar og alls konar umfjöllun um golf á Íslandi í fjölmörgum fjölmiðlum. Þá hlýtur það að gleðja okkur hvar við lendum þegar litið er til þeirra þátta em eru lagðir til grundvallar í valinu,“ segir Magnús Oddsson hjá Golf Iceland samtökunum. Hér að neðan má sjá hvaða þættir það eru sem fjölmiðlamennirnir fá sem viðmið þegar þeir eru beðnir um tilnefningar: •         To what extent the destination is “undiscovered”•         Qualities that make it an interesting golf destination•         Attractiveness of the region and courses•         Quality and accessibility of the courses•         Standard of accommodations•         Friendliness of the staff•         Value for money and Speed of Play•         Climate *Markmið Golf Iceland era ð kynna og markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir kylfinga. Að samtökunum standa flestir 18 holu golfvellir á Íslandi, Golfsamband, Íslands, Ferðamálastofa og öflug fyrirtæki í ferðaþjónustu. Mynd: Golf Iceland, völlur GS á Suðunesjum.  
Lesa meira

Ferie for Alle 2012 - þátttökukönnun

Íslandsstofa kannar nú áhuga fyrirtækja á þátttöku í ferðasýningunni Ferie for Alle sem haldin verður dagana 24. - 26. febrúar 2012 í Herning í Danmörku. Um er að ræða sýningu með áherslu á neytendur (B2C). Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum en hana sóttu um 66 þúsund gestir í ár. Á sýningunni gefst fyrirtækjum í ferðaþjónustu tækifæri til að kynna sig, koma á viðskiptasamböndum og hitta neytendur. Sýningin hentar jafnframt fyrirtækjum sem stunda eða hafa áhuga á að hefja útflutning á vörum til Danmerkur og Svíþjóðar. Áhugasamir eru hvattir til hafa samband við Sunnu Þórðardóttur hjá Íslandsstofu, sunna@islandsstofa.is eða í síma 511 4000 fyrir föstudaginn 2. desember. Nánari upplýsingar á vef Ferie for Alle Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - Arctic-Images.com
Lesa meira

Þróunarsjóður "Ísland - allt árið" vekur áhuga

Ágæt mæting hefur verið á kynningarfundi um þróunarsjóð Landsbankans og Iðnaðarráðuneytisins í tengslum við verkefnið „Ísland allt árið“. Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa hafa komið að fundunum fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins. Sjóðnum er ætlað að styðja við átakið með því að auka hæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu til að skapa nýjar upplifanir utan hefðbundins ferðamannatíma og auka arðsemi fyrirtækja með því að lengja ferðamannatímabil á viðkomandi svæði. Heildarframlag stofnenda sjóðsins á þessu ári og því næsta verður 70 milljónir króna. Auglýst um mánaðamótinAuglýst verður eftir umsóknum um mánaðarmótin nóvember/desember, umsóknarfrestur verður til 10. janúar og fara umsóknir í gegnum umsóknakerfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Úthlutað verður í lok febrúar og svo aftur að u.þ.b. ári liðnu. Á morgun verður kynningarfundur vegna verkefnisins haldinn í Reykjavík og fundaröðinni lýkur svo á Selfossi og Ísafirði á fimmtudag. Dagskrá kynningarfunda:Tími 12:30-13:30 á öllum stöðum 23. nóv – Reykjavík –Grand Hótel 24. nóv – Selfoss –Hótel Selfoss24. nóv – Ísafjörður- Þróunarsetur Vestfjarða Við hvetjum alla til þess að mæta og kynna sér sjóðinn nánar. Nánari kynning á verkefninu:Ísland allt árið - Þróunarsjóður (PDF) Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundi sem haldinn var á Akureyri í dag. Inga Ásta Karlsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, kynnti aðkomu bankans að verkefninu. Elías Bj. Gíslason Ferðamálastofu og Sigurður Steingrímsson Nýsköpunarsmiðstöð. Sigurður Steingrímsson kynnir verkefnið.  
Lesa meira

Tilboð í markaðsefni vegna "Ísland allt árið"

Ríkiskaup, fyrir hönd Íslandsstofu, hafa óskað eftir tilboðum í hönnun og framleiðslu markaðsefnis vegna átaksins "Ísland - allt árið". Viðfangsefni sem um ræðir eru meðal annars: hönnun á heildarútliti Íslands – allt árið, alls prentefnis, vefborða og umhverfisauglýsinga, sem og fyrir vefsíðu. Um er að ræða rammasamningsútboð og þær tölur sem gefnar eru upp eru viðmiðunartölur, endanleg kaup til hvers seljanda á samningstíma kunna verða eitthvað meiri eða minni. Gert er ráð fyrir að semja við allt að 5 bjóðendur um viðskiptin. Kynningafundir um rammasamningsútboðið var haldinn í liðinni viku. Þá var einnig haldinn kynningafundur fyrir útboð á PR og samfélagsmiðlahluta verkefnisins, ásamt birtingum. Frestur til að senda inn fyrirspurnir, óska frekari skýringa eða ef vart verður við ósamræmi í gögnum rennur út 28. nóvember 2011. Fyrirspurn skal merkt: Útboðsfulltrúi Ríkiskaupa v/15134 Ísland allt árið (myndsendir: 530 1414 eða netfang: utbod@rikiskaup.is). Skila skal tilboðum til Ríkiskaupa, Borgartúni 7c, 105 Reykjavík þar sem þau verða opnuð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. Tilboð verða opnuð þann 6. desember 2011 kl. 10:00. Nánar upplýsingar má nálgast á vef Ríkiskaupa. Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Lesa meira

Kynningarfundir um allt land á þróunarsjóði "Ísland - allt árið"

Ísland allt árið er þriggja ára verkefni sem ætlað er að styðja við lengingu ferðamannatímabilsins á Íslandi. Landsbankinn og iðnaðarráðuneytið hafa komið á fót þróunarsjóði til þess að styðja við átakið meðal annars með því að auka hæfni fyrirtækja tengdum ferðaþjónustu til að skapa upplifanir utan hefðbundins ferðamannatíma. Heildarframlag stofnenda sjóðsins á þessu ári og því næsta verður 70 milljónir króna. Landsbankinn og Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa f.h iðnaðarráðuneytis  í samstarfi við aðra hagsmunaaðila halda opna kynningarfundi um land allt 21. til 24. nóvember næstkomandi.  Dagskrá kynningarfunda:Tími 12:30-13:30 á öllum stöðum 21. nóv – Egilsstaðir - Hótel Hérað 22. nóv – Akureyri– Borgir við Norðurslóð – anddyri 22. nóv – Akranes –Gamla kaupfélagið 23. nóv – Reykjavík –Grand Hótel 24. nóv – Selfoss –Hótel Selfoss24. nóv – Ísafjörður- Þróunarsetur Vestfjarða Við hvetjum alla til þess að mæta og kynna sér sjóðinn nánar.
Lesa meira

Metumsvif á næsta ári hjá Icelandair

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2012 er sú stærsta í sögu þess og um 14% umfangsmeiri en á þessu ári. Þá verður vetraráætlun 2012-2013 meiri að umfangi en sumaráætlun félagsins var fyrir tveimur árum. Árlegur markaðsfundurÞetta var meðal þess sem fram kom á árlegum markaðsfundi Icelandair í dag. Þar kynna sérfræðingar og stjórnendur Icelandair á erlendum mörkuðum þær rannsóknir á stöðu og horfum í efnahagsmálum og ferðaheiminum sem félagið byggir áætlanir sínar á, segir í frétt frá Icelandair. Denver nýr heilsársáfangastaðurMeðal nýjunga á komandi ári má nefna að nýr heilsárs áfangastaður, Denver í Colorado, bætist við og ferðum er fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012. Aukning utan háannatímanns"Við kynntum áætlun okkar fyrir rúmum tveimur mánuðum og bókanir síðan þá hafa verið sterkar og lofa góðu fyrir næsta ár. Sérstaklega er ánægjulegt hversu vel bókanir til og frá Denver hafa farið af stað. Að undanförnu hafa aðrir verið að boða komu sína á flugmarkaðinn til og frá Íslandi, sem er viðurkenning fyrir ferðaþjónustuna. Sú viðbót er þó langmest yfir hásumarið. Hvað Icelandair varðar er ætlunin að auka ferðamannastraum utan háannatímans meðal annars með því að hefja flug til og frá Denver allt árið um kring og auka vetrarframboð hlutfallslega meira en yfir sumarið. Vetraráætlun 2012-2013 verður þannig meiri að umfangi en sumaráætlun var fyrir tveimur árum“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri í fréttinni. 31 áfangastaðurAuk fjögurra vikulegra ferða til nýja áfangastaðarins mun Icelandair fjölga ferðum til Washington og Seattle í Bandaríkjunum, til allra höfuðborga Norðurlandanna og Þrándheims, Stavanger og Bergen í Noregi, til Billund í Danmörku, til Munchen, Amsterdam, Brussel og Parísar á meginlandi Evrópu og til Manchester og Glasgow á Bretlandseyjum. Alls verða áfangastaðirnir 31 á næsta ári.  
Lesa meira