Fréttir

Unnið að skipulagi hjólastígs umhverfis Mývatn

Meðal verkefa sem Ferðamálastofa styrkti á yfirstandandi ári var undirbúningsvinna vegna fyrsta áfanga í skipulagi hjólastígs umhverfis Mývatn. Skýrsla um verkefnið er nú komin út og er þar margt áhugavert að finna Fjöldi ferðamanna sem ferðast um Mývatnssveit á hjóli fer vaxandi en aðstaða til hjólreiða er þó bágborin og hjólreiðamenn þurfa víða að hjóla á vegöxlum þjóðveganna eða finna sér sínar eigin krókaleiðir. Hlutverk þessa verkefnis er að kortleggja hugsanlega hjólaleið og móta heildarmynd af stígakerfi umhverfis Mývatn, sem uppfyllir kröfur og kosti stígakerfis samkvæmt vegalögum, hjólastíga sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af fé ríkis eða sveitarfélaga. Markmið verkefnis er að móta tillögu um samfelldan hjólastíg umhverfis Mývatn sem tengir helstu ferðamannastaði og gefur möguleika á vistvænum samgöngumáta. Verkefnið er hugsað sem innlegg í ákvarðanatöku og mótun framtíðarsýnar fyrir stofnleiðir hjólastíga utan þéttbýlis. Verkefnið felur í sér að greina vegi og slóða sem nýta má til hjólreiða og móta heildstæða tillögu um legu hjólastígs umhverfis Mývatn og útfærslu. Verkefnið er samstarfsverkefni VSÓ Ráðgjafar, Skútustaðahrepps og Vegagerðarinnar en verkefnastjórn var í höndum Fríðu Bjargar Eðvarðsdóttur landslagsarkitekts. Skýrslan í heild:Hjólastígur umhverfis Mývatn - Tillaga og hagsmunir (PDF)  
Lesa meira

Jólavættir Reykjavíkur komnar á kreik

Jólavættir Reykjavíkur er yfirskrift jólaborgarinnar Reykjavík 2011 sem Höfuðborgarstofa sér um að skipuleggja. Hugmyndin er að upphefja íslenska sagnahefð og tengja íbúa borgarinnar við gesti hennar í gegnum samtöl og sögur. Meginmarkmið verkefnisins er að skapa áhrifaríka og skemmtilega jólaupplifun í borginni á einfaldan hátt – þar sem allir taka þátt, heimamenn og gestir. Fjölmargar jólavættir eru í íslenskri sagnahefð. Jólasveinarnir þrettán, synir tröllahjónanna Grýlu og Leppalúða eru hluti þeirra. Þau búa uppi í fjöllum en koma til byggða síðustu þrettán daga fyrir jól og gera fólki allskonar óskunda. Sjö jólavættir, sem Gunnar Karlsson myndlistarmaður hefur teiknað, munu koma sér fyrir víðsvegar í miðborginni. Um er að ræða fimm af jólasveinunum þrettán, auk Grýlu og jólkattarins. Hver jólavætt á sitt svæðiHver jólavætt á sitt tiltekna svæði í borginni þar sem henni er hampað og mun hún birtast í stóru skjálistaverki sem varpað verður á hús eða húsgafl. Til dæmis mun Grýla taka sér bólfestu uppi á húsþaki við Bankastræti 11 og virða fyrir sér vegfarendur. Skilti verða sett upp á svæðinu sem vekja athygli á einkennum hennar og skapa forvitni meðal gesta og gangandi. Stafrænni snjókomu verður svo varpað á nokkra veggi í borginni t.d. á bakhlið Dómkirkjunnar og boðið verður upp á ratleik. Jólakort með ratleikPrentað hefur verið jólakort sem sýnir jólavættirnar sjö og hvar þær eru og er það fáanlegt í sérmerktum verslunum í miðbænum og í Laugardalnum. Jólakortið er jafnframt fjölskylduratleikur með veglegum vinningum sem hvetur fólk til að koma í bæinn og og skoða myndirnar. Stefnt er á að birta fleiri jólavættir í aðdraganda jóla á komandi árum. Allir geta tekið þáttLeitað verður samstarfs við rekstraraðila í miðborginni um útfærslu verkefnisins og lögð áhersla á allir geti tekið þátt í því að skapa stemninguna, hver með sínum hætti. Rekstraraðilar og miðborgarbúar eru því hvattir til þess að kynna sína jólavætt fyrir gestum borgarinnar með uppákomum, jólaskrauti eða hverju öðru sem fólki dettur í hug. Nánar um verkefnið: Jólavættir Reykjavíkur
Lesa meira

Lokun neðri gönguleiðar að Gullfossi

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að loka tímabundið neðri gönguleið að Gullfossi vegna mikillar hættu sem getur skapast þar yfir vetrartímann vegna hálku og snjóalaga. Stígnum verður lokað frá og með 9. desember og þar til aðstæður verða betri. Sett verður upp skilti sem útskýrir lokunina og varar við þeirri hættu sem þarna getur skapast. Texti verður á íslensku, ensku, frönsku og þýsku. Meðfylgjandi loftmynd sýnir hvar skiltunum verður komið fyrir við upphaf neðri göngustígs. Það er eindregin ósk að þessari lokun verði mætt með skilningi. Nánari upplýsingar fást hjá Aðalbjörgu Birnu Guttormsdóttur hjá deild náttúruverndar á Umhverfisstofnun.
Lesa meira

VAKINN - laust starf gæðafulltrúa

Ferðamálastofa auglýsir lausa stöðu gæðafulltrúa VAKANS, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar. Um er að ræða 100% starf.  Starfsstöð gæðafulltrúa er á skrifstofu Ferðamálastofu Reykjavík en starfið heyrir undir forstöðumann skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri. Starfið krefst töluverðra ferðalaga innanlands. Helstu verkefni gæðafulltrúa: Úttekt á ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru í VAKANUM Gerð úttektarskýrslna Aðstoð við uppfærslur á viðmiðum og fylgigögnum VAKANS Menntunar- og hæfniskröfur: Háskólapróf í ferðamálafræðum  eða gæðamálum(BS próf)  Þekking og reynsla af ferðaþjónustu Góð tölvukunnátta Góð íslensku- og enskukunnátta Sjálfstæði, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð Hæfni í mannlegum samskiptum Umsóknarfrestur er til og með 27. desember n.k. og er óskað eftir því að viðkomandi einstaklingur geti hafið störf sem fyrst, en í síðasta lagi 1. febrúar 2012. Skil umsóknaUmsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil skulu berast með tölvupósti til Elíasar Bj. Gíslasonar, elias@ferdamalastofa.is, eða á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri og vera merktar starfinu. Ekki er um sérstök umsóknareyðublöð að ræða, en öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um starfið hefur verið tekin. Laun eru greidd samkvæmt launakerfi starfsmanna ríkisins. VAKINNÍ byrjun árs 2012 mun Ferðamálastofa taka í notkun nýtt gæða- og umhverfisflokkunarkerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Meginmarkmið VAKANS er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. VAKINN er unnin í samvinnu Ferðamálastofu, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtaka íslands. Nánari upplýsingar um VAKAN Nánari upplýsingar um starfið veitir Elías Bj. Gíslason forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu Akureyri. elias@ferdamalastofa.is Sími: 535-5510 Auglýsing sem PDF
Lesa meira

Afhending hvatningarverðlauna í heilsuferðaþjónustu

Þriðjudaginn 13. desember mun Katrín Júlíusdóttir veita hvatningarverðlaun iðnaðarráðherra fyrir áhugaverða heilsuferðavöru ætlaða erlendum ferðamönnum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. 16:00. Með það að markmiði að stuðla að áframhaldandi vöruþróun í heilsuferðaþjónustu  ákvað iðnaðarráðherra að veita ein  verðlaun til fyrirtækis  eða hóps fyrirtækja sem starfa  innan heilsugeirans. Verðlaunaféð er  ein milljón króna. Auglýst var eftir umsóknum í dagblöðum og á netinu og bárust alls  17 umsóknir. Boðið verður upp á léttar veitingar að athöfn lokinni. Þátttaka tilkynnist fyrir lok dags 12.desember  á netfangið  heilsa@ferdamalastofa.is                   
Lesa meira

Ferðamenn í nóvember

Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru 22.969 erlendir ferðamenn frá landinu um Leifsstöð í nýliðnum nóvembermánuði eða um 1700 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Nóvembermánuður í ár er sá þriðji fjölmennasti frá því talningar hófust.  Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega aukningu frá því í fyrra frá N-Ameríku (41,7%) og Bretlandi (20,4%). Ferðamenn frá Mið- og Suður Evrópu standa hins vegar í stað, Norðurlandabúum fækkar (-9,1%) og ferðamönnum frá löndum sem talin eru sameiginlega og flokkast undir "Annað" fjölgar lítilháttar (3,4%). Tveir af hverjum fimm frá Bretlandi og BandaríkjunumAf einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í nóvember frá Bretlandi (22,2%) og Bandaríkjunum (17,9%). Ferðamenn frá Noregi (9,1%), Svíþjóð (7,7%), Danmörku (6,9%) Þýskalandi (4,9%) og Frakklandi (4,3%) fylgdu þar á eftir. Ferðamenn frá áramótumAlls hafa 519.865 erlendir ferðamenn farið frá landinu það sem af er árinu, en á sama tímabili í fyrra höfðu 440.445 ferðamenn farið frá landinu. Um er að ræða 18% fjölgun milli ára. Fjölgun hefur verið frá öllum mörkuðum, þó allra mest frá N-Ameríku (49,1%). Ferðir Íslendinga utan Alls fóru 26.084 Íslendingar utan í nóvembermánuði í ár en í fyrra fór 24.581. Frá áramótum hafa 318.438 Íslendingar farið utan eða 44.959 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 16,4% milli ára.Nánari niðurstöður úr talningum Ferðamálastofu má sjá í töflum hér að neðan.   BROTTFARIR UM LEIFSSTÖÐ Nóvember eftir þjóðernum Janúar - nóvember eftir þjóðernum       Breyting milli ára       Breyting milli ára   2010 2011 Fjöldi (%)   2010 2011 Fjöldi (%) Bandaríkin 2.806 4.108 1.302 46,4   Bandaríkin 48.912 74.829 25.917 53,0 Bretland 4.229 5.090 861 20,4   Bretland 56.574 62.774 6.200 11,0 Danmörk 1.720 1.574 -146 -8,5   Danmörk 36.584 39.389 2.805 7,7 Finnland 618 383 -235 -38,0   Finnland 10.506 11.563 1.057 10,1 Frakkland 844 993 149 17,7   Frakkland 28.449 35.135 6.686 23,5 Holland 891 751 -140 -15,7   Holland 16.668 19.460 2.792 16,8 Ítalía 260 323 63 24,2   Ítalía 9.452 12.141 2.689 28,4 Japan 393 526 133 33,8   Japan 5.060 6.204 1.144 22,6 Kanada 339 349 10 2,9   Kanada 13.086 17.619 4.533 34,6 Kína 297 373 76 25,6   Kína 4.888 8.091 3.203 65,5 Noregur 2.189 2.099 -90 -4,1   Noregur 34.527 40.507 5.980 17,3 Pólland 522 492 -30 -5,7   Pólland 11.726 12.836 1.110 9,5 Rússland 199 95 -104 -52,3   Rússland 1.711 2.525 814 47,6 Spánn 199 187 -12 -6,0   Spánn 11.978 13.732 1.754 14,6 Sviss 125 139 14 11,2   Sviss 9.067 10.026 959 10,6 Svíþjóð 1.878 1.766 -112 -6,0   Svíþjóð 26.747 31.643 4.896 18,3 Þýskaland 1.191 1.122 -69 -5,8   Þýskaland 53.365 55.867 2.502 4,7 Annað 2.540 2.599 59 2,3   Annað 61.145 65.524 4.379 7,2 Samtals 21.240 22.969 1.729 8,1   Samtals 440.445 519.865 79.420 18,0                       Nóvember eftir markaðssvæðum Janúar - nóvember eftir markaðssvæðum       Breyting milli ára       Breyting milli ára   2010 2011 Fjöldi (%)    2010  2011 Fjöldi (%) Norðurlönd 6.405 5.822 -583 -9,1   Norðurlönd 108.364 123.102 14.738 13,6 Bretland 4.229 5.090 861 20,4   Bretland 56.574 62.774 6.200 11,0 Mið-/S-Evrópa 3.510 3.515 5 0,1   Mið-/S-Evrópa 128.979 146.361 17.382 13,5 N-Ameríka 3.145 4.457 1.312 41,7   N-Ameríka 61.998 92.448 30.450 4,0 Annað 3.951 4.085 134 3,4   Annað 84.530 95.180 10.650 12,6 Samtals 21.240 22.969 1.729 8,1   Samtals 440.445 519.865 79.420 18,0                       Ísland 24.581 26.084 1.503 6,1   Ísland 273.479 318.438 44.959 16,4
Lesa meira

Auglýst eftir umsóknum um styrki í Ísland allt árið ? þróunarsjóð

Landsbankinn og iðnaðarráðuneytið auglýsa eftir umsóknum um styrki í Ísland allt árið – þróunarsjóð. Markmið þróunarsjóðsins er að styrkja þróun afurða og upplifana utan háannatíma Ferðaþjónustu og auka arðsemi fyrirtækja. Annars vegar verður stutt við verkefni fyrirtækja sem lengt geta ferðamannatímann á tilteknum svæðum og hins vegar við samstarfsverkefni fyrirtækja sem vilja sameiginlega þróa þjónustu sem haft getur sömu áhrif víðar um landið. Í umsókn þurfa að koma fram skýrar hugmyndir um þá þjónustu og upplifun sem skila eiga í senn aukinni atvinnu og varanlegum verðmætum. Verkefnin verða að koma til framkvæmda innan þriggja ára frá því að styrkur er veittur. Umsóknarfrestur er til 10. janúar 2012 og er gert ráð fyrir að styrkir verði veittir í febrúar. Nánari kynning á verkefninu (PDF) Auglýsing um styrkina (PDF) Allar nánari upplýsingar er að finna á landsbankinn.is
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í október

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í október síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum fjölgar um 11%    Gistinætur á hótelum í október síðastliðnum voru 117.000. Til samanburðar voru þær 105.000 í október í fyrra og fjölgaði því um 11% milli ára. Erlendir gestir gistu langflestar nætur, 74% af öllum gistinóttum, og fjölgaði um 13% frá október í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 6%. Mest fjölgaði gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu (18%), næstmest á Norðurlandi (17%). Á Austurlandi var fjöldinn svipaður og í fyrra, en gistinóttum fækkaði hins vegar á Suðurnesjum um rúm 2% í október. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru 2.100 gistinætur, en það er 15% samdráttur miðað við október  í fyrra. Einnig fækkaði gistinóttum á Suðurlandi, voru 14.000 í fyrra en 11.500 nú. Gistinóttum fjölgar um rúm 13% fyrstu tíu mánuði ársinsGistinætur á hótelum voru samtals 1.339.700 fyrstu tíu mánuði ársins en voru 1.185.000 á sama tímabili í fyrra. Þeim fjölgaði um 17% milli ára á höfuðborgarsvæðinu, 16% á Suðurnesjum og 7% á Austurlandi. Á Norðurlandi nam fjölgunin 6% fyrstu tíu mánuði ársins, 5% á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða og 4% á Suðurlandi. Gistinóttum erlendra hótelgesta fjölgaði um 12% fyrstu tíu mánuði ársins og Íslendinga um 17% miðað við fyrstu tíu mánuði ársins í fyrra.  
Lesa meira

Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu og kynning á umhverfisviðmiðum VAKANS

Þann 15. desember næstkomandi  kl 15 mun Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra afhenda umhverfisverðlaun Ferðamálastofu á Hótel Natura (Loftleiðir). Við sama tækifæri verður umhverfisviðmiðum nýja gæða- og umhverfisverkefnisins VAKANS einnig hleypt af stokkunum. Af þessu tilefni býður Ferðamálastofa samstarfsfélögum í ferðaþjónustunni til jólasamverustundar. Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Auglýst var eftir tilnefningum í september sl. og bárust margar góðar ábendingar. Í fyrra fengu farfuglaheimilin í Reykjavík verðlaunin. Gæða- og umhverfiskerfið VAKINN Ferðamálastofa, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands hafa um nokkurt skeið unnið að samræmdu gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu. Kerfið nefnist VAKINN og verður innleitt á komandi ári. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Umhverfiskerfið - gull, silfur , brons Umhverfishluti kerfisins byggir á sjö höfuðflokkum: Stefnumótun og starfshættir Innkaup og auðlindir Orka Úrgangur Náttúruvernd Samfélag Birgjar og markaður. Í framhaldi af úttekt er þjónustuaðilunum raðað í 3 flokka, gull, silfur og brons. Fyrirtæki geta byrjað að vinna að umhverfisviðmiðum Á fundinum verða umhvergisviðmið Vakanns kynnt en til að öðlast gull eða silfur þá þurfa að hafa farið fram reglulegar mælingar sem gerðar hafa verið í 6-12 mánuði og sýna árangur á a.m.k. einum þætti sem getið er um í aðgerðaáætlun fyrirtækisins  á sviði umhverfismála. T.d: a) Minnkun úrgangs. b) Sparnað á rafmagni. c) Sparnað á heitu vatni. d) Sparnaði á eldsneyti.  Eftir að viðmiðin hafa verið kynnt, þ.e. eftir fundinn, geta fyrirtæki þannig byrjað að kynna sér umhverfisviðmiðin og sett af stað mælingar á fyrrtöldum þáttum. Kerfið verður formlega opnað í febrúar næstkomandi og eftir það er hægt að sækja um aðild. Dagskrá: Ávarp – Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri Kynning á umhverfisviðmiðum Vakans  - Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálastofu – Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra *********Boðið verður upp á léttar veitingar með jólaívafi í lokin. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið skraning@ferdamalastofa.is   fyrir lok dags þann 14. desember næstkomandi. Vonumst til að sjá ykkur sem flest! Með kveðju,Starfsfólk Ferðamálastofu
Lesa meira

Ísland valið ?Best European Adventure Destination"

Ísland var í fyrradag valið „Best European Adventure Destination” af lesendum Sunday Times Travel Magazine. Verðlaunin voru tilkynnt á „Readers Awards” móttöku á St. Pancras Renaissance Hotel á Kings Cross í London. Sunday Times Travel Magazine er stærsta ferðatímaritið í Bretlandi og voru það lesendur blaðsins sem völdu Ísland fram yfir Noreg og Sviss sem lentu í 2. og 3. sæti. Þá var Ástralía kosin besti áfangastaðurinn utan Evrópu. Viðurkenningin þykir vera mikill heiður og var þetta eini flokkurinn þar sem lönd voru verðlaunuð, segir í frétt frá Íslandsstofu. Mynd: Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, verkefnisstjóri markaðssóknar fyrir Bretland & Írland hjá Íslandsstofu, og Lisa Vernall, frá Sunday Times Travel Magazine.
Lesa meira