Fara í efni

KEX Hostel hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2011

Nýsköpunarverðlaun SAF 2011
Nýsköpunarverðlaun SAF 2011

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar 2011 voru afhent á Hótel Reykjavík Natura í dag. KEX Hostel hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir vandaða hönnun og útfærslu á grunnstoð allrar ferðaþjónustu sem er gistingin.

Margar áhugaverðar tilnefningar
Í frétt frá SAF kemur fram að 18 tilnefningar hafi borist, margar mjög áhugaverðar og því hafi dómnefnd verið vandi á höndum. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Kex Hostel bjóði gistingu á breiðum grunni og höfði til dæmigerðra farfugla með 16 manna herbergjum en jafnframt til þeirra sem vilja meira næði og jafnvel munað í tveggja manna hótelherbergjum.

Samræmd hönnun sem tekin er alla leið
"Þrátt fyrir þetta breiða framboð vekur sérstaka athygli hvernig eigendur hafa tekið samræmda hönnun rýmisins alla leið. Í hverjum krók og kima er sami andi og blær sem er undirstaða þeirrar upplifunar sem Kex Hostel á að skila. Gæði í ferðaþjónustu byggja á upplifun og samræmi sé milli væntinga þar um og þegar á staðinn er komið. Í öllu kynningarefni og markaðsskilaboðum Kex Hostel kemur skýrt fram hvað þar er á ferðinni og þegar á staðinn er komið undirstrikar heildstæð hönnun og vel útfærð þjónustusamsetning það sem auglýst hefur verið. Þetta samræmi er til fyrirmyndar og undirstrikar gildi góðrar hönnunar til að tryggja gæði í íslenskri ferðaþjónustu. Kex Hostel hefur tekist þar einstaklega vel upp og þannig skapað sér hillu á markaði greinarinnar, sem enginn annar sat og laðar að jafnt erlenda gesti sem heimafólk," segir meðal annars. 

Stjórn Nýsköpunar- og vöruþróunarsjóðs SAF árið 2011 skipuðu:
Árni Gunnarsson, formaður SAF
Edward Huijbens, fulltrúi Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála
Bjarnheiður Hallsdóttir, Katla Travel, skipuð af stjórn SAF

Mynd: Frá vinstri Árni Gunnarsson, formaður SAF, Pétur Hafliði Marteinsson, Ásberg Jónsson, Kristinn Vilbergsson og Katrín Júlíusdóttir, ráðherra ferðamála.