Fara í efni

Tæplega 100 umsóknir í fyrstu úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður - úthlutun
Framkvæmdasjóður - úthlutun

Síðastliðinn föstudag rann út umsóknarfrestur vegna fyrstu úthlutunar úr hinum nýja Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Alls bárust 95 umsóknir og heildarupphæð sem farið var fram á í styrkveitingar um 331 milljón króna.

Hlutverk sjóðsins:
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Tekjur sjóðsins
Eins og fram kemur í lögum um sjóðinn eru tekjur hans 3/5 hlutar af gistináttaskatti, sem byrjað verður að innheima nú um áramótin. Gistináttaskatturinn er 100 kr. á hverja selda gistináttaeiningu, eins og hún er skilgreind í lögunum, en gistináttaeining er leiga á gistiaðstöðu í allt að einn sólarhring. Nánari upplýsingar um gistináttaskattinn er að finna á vefslóðinni: www.rsk.is/gistinattaskattur .
Ljóst er að til úthlutunar nú í byrjun eru verulega lægri fjárhæðir en fram hafði komið áður að sjóðurinn myndi hafa úr að spila. Fyrir þessa fyrstu úthlutun hefur sjóðurinn þannig um 48 milljónir kr. til ráðstöfunar.

Úthlutað í febrúar
Nú tekur við mikil vinna við yfirferð og mat umsókna en áætlun gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra úthluti formlega úr sjóðnum um miðjan febrúar næstkomandi.

Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com