Fréttir

Nýtt landnám, sögutengd ferðaþjónusta

Málþing með yfirskriftinni "Nýtt landnám, sögutengd ferðaþjónusta" verður haldið í Reykjanesbæ, föstudaginn 8. apríl 2005. Málþinginu er ætlað að varpa ljósi á þá miklu grósku sem einkennir sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Sjálft málþingið er haldið í Duushúsum og hefst kl. 15 en áður en það hefst, eða kl. 14:00, verður kynning á eftirbáti sem Gunnar Marel Eggertsson hefur smíðað í húsnæði Íslendings (Seylubraut 1, við Reykjanesbraut). Málþinginu er sem fyrr segir ætlað að varpa ljósi á þá miklu grósku sem einkennir sögutengda ferðaþjónustu á Íslandi. Einkum verður fjallað um ferðaþjónustu er byggir á Íslendingasögunum og tímabilinu fram til 1300. Málþingið er haldið í samvinnu Reykjanesbæjar og Evrópuverkefnisins Destination Viking Sagalands. Sex íslenskir þátttakendur hafa unnið að því verkefni með samstarfsaðilum frá Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Shetlandseyjum, Orkneyjum, Grænlandi og Kanada. Verkefnið sem er styrkt af Norðurslóðaaáætlun Evrópusambandisins, Vestnorræna sjóðnum o.fl. miðar meðal annars að því að gera Íslendingasögurnar sýnilegri ferðamönnum. Byggðastofnun er í forsvari fyrir verkefnið en verkefnisstjóri er Rögnvaldur Guðmundsson. Mun hann kynna verkefnið í heild, auk þess sem þrír af íslensku aðilunum í verkefninu kynna staðbundin verkefni: Víkingaskipið Íslending, Eiríksstaði í Dölum og verkefni um Þjórsárdal. Þá verður miðaldaverkefnið um Gásir við Eyjafjörð kynnt, Landnámssetur í Borgarnesi, Sögumiðstöð og sagnamennska á Grundarfirði og Landnámsskálinn í Austurstræti. Andri Snær Magnason, rithöfundur slær botninnn í málþingið með hugleiðingum um Ísland og sögutengda ferðaþjónustu. Aðgangur að málþinginu er ókeypis og kaffiveitingar í boði Reykjanesbæjar. Allir fyrirlestrar verða á íslensku. Fundarstjóri: Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Nánari upplýsingar veita:Rögnvaldur Guðmundsson, s. 525 4081 gsm. 693 2915 rognv@hi.is Sigrún Ásta Jónsdóttir, s. 421-6700, gsm. 865-6160 sigrun.a.jonsdottir@reykjanesbaer.is Gunnar Marel Eggertsson, gsm. 894 2874 vikingship@simnet.is  
Lesa meira

Styttist í opnun "Evrópugáttarinnar"

Undanfarin ár hefur verð unnið að þróun sameiginlegrar Evrópugáttar á vefnum til kynningar og notkunar á neytendamarkaði. Reiknað er með að gáttin verði tilbúin til notkunar í haust og verður hún rekin af Ferðamálaráði Evrópu þar sem Ísland á aðild. Evrópusambandið hefur kostað vinnu við þróun umræddrar gáttar og varið um 200 milljónum króna í verkefnið. Kynningin verður hvað mest gagnvart neytendum í Asíu og er þannig ætlunin að ná til milljóna neytenda. Málið á sér töluverðan aðdragenda og í nýjum pistli hér á vefnum fer Magnús Oddsson ferðamálastjóri yfir aðdraganda þess ásamt því að velta upp hugmyndum um þróun á íslensku gáttinni.  
Lesa meira

Guðrún Bergmann útnefnd Ferðafrömuður ársins 2004

Guðrún Bergmann, ferðþjónustubóndi og umhverfissinni á Hellnum Snæfellsnesi, var útnefnd Ferðafrömuður ársins 2004 af Útgáfufélaginu Heimi. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti Guðrúnu viðurkenninguna við setningu Ferðatorgs 2005 í Smáralind síðastliðinn föstudag. Þetta var í annað sinni sem Heimur stendur fyrir útnefningu á Ferðafrömuði ársins og í máli Maríu Guðmundsdóttur, riststjóra hjá Heimi, kom fram að dómnefnd hefði verið einhuga í ákvörðun sinni. Í viðurkenningarskjali segir : "Í mati sínu lagði dómnefnd til grundvallar frumkvæði, metnað og framúrskarandi árangur á sviði umhverfismála í uppbyggingu ferðaþjónustu á Vesturlandi sem og mikilsvert framlag til betra starfsumhverfis í atvinnugreininni á landsvísu." Á myndinni afhendir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Guðrúnu viðurkenninguna og María Guðmundsdóttir frá Heimi fylgist með. Ljósmynd: HA  
Lesa meira

Ferðamálaáætlun 2006-2015 komin á vefinn

Í dag mælir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál. Tillagan er eins og fram hefur komið byggð á sérstakri ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006-2015 sem unnin var af stýrihópi skipuðum af samgönguráðherra. Áætlunin í heild sinni er komin inn á vef Samgönguráðuneytisins og má nálgast hana þar.  
Lesa meira