Ferðamál, tungumál og menning ? málstofa á alþjóðlegri ráðstefnu

Ferðamál, tungumál og menning ? málstofa á alþjóðlegri ráðstefnu
Vigdís

Í tilefni 75 ára afmælis frú Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl stendur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir veglegri alþjóðlegri ráðstefnu með heitinu ?Samræður menningarheima?.Tugir fyrirlestra og málstofa verða haldnir á ráðstefnunni og þeirra á meðal málstofa sem Ferðamálaráð kemur að og ber yfirskriftina ?Ferðamál, tungumál og menning?.

Málstofan er á dagskrá föstudaginn 15. apríl kl. 14-16 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands og er haldin í samvinnu við Ferðamálaráð og Höfuðborgarstofu. Málefni og spurningar sem velt verður upp  er meðal annars:

  • Þróun ferðaþjónustu á Íslandi.
  • Menningartengd ferðaþjónusta.
  • Hvað ræður för erlendra ferðamanna?
  • Þáttur bókmennta, myndlistar og tónlistar.
  • Samskipti Íslendinga við erlenda ferðamenn.
  • Hvaða áhrif hafa ferðamennirnir á íslenskt menningarlíf?

Erindi á málþinginu
Á málþinginu verða flutt þrjú erindi:

  • How do you like Iceland? Ferðamennska og menningarspeglun - Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar
  • Út í óvissuna - Valgeir S. Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Vesturfarasetursins á Hofsósi
  • Ævintýralandið Ísland - óþrjótandi auðlind? - Anna Dóra Sæþórsdóttir, lektor í ferðamálafræðum við Jarð- og landfræðiskor


Málstofustjóri er Magnús Oddsson, ferðamálastjóri.

Nánar um ráðstefnuna
Á ráðstefnunni, sem eins og fyrr segir ber heitið ?Samræður menningarheima? munu framámenn og virtir sérfræðingar víðsvegar úr heiminum fjalla um hnattvæðingu og fjölbreytileika, en þessir þættir hafa óneitanlega áhrif á þá öld sem nú er hafin. Sjónum verður beint að fjölbreytileika menningar og tungumála, efnahagslífi, stjórnmálum og tækniþróun. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við rektor Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Reykjavíkurborg og Norrænu ráðherranefndina.

Heiðursnefnd skipa: Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Valéry Giscard d'Estaing, fyrrum forseti Frakklands, Richard von Weizsäcker, fyrrum forseti Vestur-Þýskalands, Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Davíð Oddson, utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, Sigríður Th. Erlendsdóttir, sagnfræðingur, Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands.

Heimasíða ráðstefnunnar


 


Athugasemdir