Fara í efni

Gistinóttum á hótelum í febrúar fjölgaði um 2,5% á milli ára

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum og samkvæmt þeim voru gistinæturnar 55.010 samanborið við 53.650 í febrúar í fyrra. Þetta samsvarar 2,5% fjölgun.

Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum hlutfallslega mest en þær fóru úr 2.520 í febrúar 2004 í 3.230 í febrúar 2005, sem er um 28% aukning. Á Suðurlandi var aukning um tæp 15% í febrúar, fjölgaði úr 4.880 í 5.610. Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgun gistinátta rúmum 3%, þær fóru úr 40.580 í 41.930. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum í febrúar úr 2.170 í 960 (-56%). Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum var samdráttur um rúm 6%, gistinætur voru 3.290 í febrúar síðastliðnum en voru 3.510 árið 2004. Fjölgun gistinátta á hótelum í febrúar 2005 er vegna Íslendinga (15,5%), en gistinóttum útlendinga fækkaði um 2,4%.

Nákvæmari flokkun
Í tilkynningu frá Hagstofunni kemur fram að frá og með janúar 2005 hafa gististaðir skilað Hagstofunni inn nánari sundurliðun á þjóðerni gesta. Við bættust flokkarnir Mið- og Suður-Ameríka, Kína, Önnur Asíulönd, Afríka og Eyjaálfa. Flokkurinn "Öll önnur lönd" dettur út en þegar ríkisfang gesta er ekki vitað falla þeir í flokkinn "Þjóðerni óþekkt." Með þessu er hægt að flokka gesti eftir löndum/heimsálfum og verður flokkunin nákvæmari og niðurstöður að sama skapi ítarlegri.

Eingöngu heilsárshótel
Athygli skal vakin á því að tölur Hagstofunnar miðast við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í febrúar voru 65 talsins árið 2005, en voru 70 árið á undan. Tölur fyrir 2004 og 2005 eru bráðabirgðatölur.