Fara í efni

Styttist í opnun "Evrópugáttarinnar"

Undanfarin ár hefur verð unnið að þróun sameiginlegrar Evrópugáttar á vefnum til kynningar og notkunar á neytendamarkaði. Reiknað er með að gáttin verði tilbúin til notkunar í haust og verður hún rekin af Ferðamálaráði Evrópu þar sem Ísland á aðild.

Evrópusambandið hefur kostað vinnu við þróun umræddrar gáttar og varið um 200 milljónum króna í verkefnið. Kynningin verður hvað mest gagnvart neytendum í Asíu og er þannig ætlunin að ná til milljóna neytenda. Málið á sér töluverðan aðdragenda og í nýjum pistli hér á vefnum fer Magnús Oddsson ferðamálastjóri yfir aðdraganda þess ásamt því að velta upp hugmyndum um þróun á íslensku gáttinni.