Fara í efni

Ferðaþjónusta bænda hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands 2004

Í hátíðarkvöldverði á ferðamálaráðstefnunni á Kirkjubæjarklaustri í fyrrakvöld var tilkynnt um úthlutun umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2004. Þau komu að þessu sinni í hlut Félags ferðaþjónustubænda og Ferðaþjónustu bænda hf.

Um 35 ár eru síðan ferðaþjónustubændur stigu sín fyrstu skref í átt að þeirri skipulögðu starfsemi sem Ferðaþjónusta bænda er í dag. Allir sem eiga lögheimili á lögbýlum og stunda ferðaþjónustu geta sótt um að gerast aðilar að Félagi ferðaþjónustubænda og í dag eru 120 aðilar skráðir í félagið. Frá 1990 hefur FFB rekið eigin ferðaskrifstofu undir nafninu Ferðaþjónusta bænda hf. sem vinnur að sölu og markaðssetningu á þjónustu ferðaþjónustubænda.

Allir ferðaþjónustubændur vinni eftir umhverfisstefnu
Frá árinu 2002 hefur félagið og ferðaskrifstofan haft það markmið að allir ferðaþjónustubændur vinni eftir umhverfisstefnu í nánustu framtíð, byggða á Staðardagskrá 21, og vinni eftir henni í daglegum rekstri. Stefnt skuli að því að ferðaþjónustubændur verði leiðandi afl í umhverfismálum á landsbyggðinni. Til að svo megi verða hafa verið útbúnar leiðbeiningar sem eru aðlagaðar að starfsemi ferðaþjónustubænda. Þær eru byggðar á vottunarkerfi Geen Globe 21 og eru nú 21 aðili innan félagsins aðili að GG21 og aðrir í startholunum. Skrifstofa Ferðaþjónustu bænda hf. hefur sett sér markvissa umhverfisstefnu og er hún einnig innan vébanda GG21.

Það voru fyrst og fremst markviss umhverfisstefna, góð eftirfylgni félagsins og starfsfólks hennar og víðtæk áhrif stefnunnar sem réðu úrslitum um val á verðlaunahafa þetta árið.

Nýr verðlaunagripur
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við - til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti pýramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem mest.

Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna, jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 10 tilnefningar.


Frá afhendingu umhverfisverðlaunanna. Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri
Ferðaþjónustu bænda hf.; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Berglind
Viktorsdóttir gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.; Jóhannes Kristjánsson,
formaður Ferðaþjónustu bænda hf.; Marteinn Njálsson, formaður Félags
ferðaþjónustubænda og Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs.